Íslenska þjóðin að leysast upp

Í upphafi kreppunnar var litið til Kína og því spáð að það ríki myndi ekki finna mikið fyrir kreppunni. Kína er  kommúnistaríki  með miðstýrt hagkerfi  og digra gjaldeyrissjóði. Mest af viðskiptum í Kína eru innan Kína. Þannir virðiðst   Kína  ekki á sama hátt næmt fyrir dominoáhrifum efnahagshrunsins eins og sumar Vesturlandaþjóðir, sérstaklega þjóðir þar sem markvisst hefur verið unnið að því að færa alla stjórnun á viðskiptum til "markaðarins" í þeirri nýfrjálshyggjubylgju sem gengið hefur yfir Vesturlönd frá Thatcher-Reagan tímanum. Sá tími er liðinn og núna sjá flestir að þessi "markaður" getur breyst í  skrímsli eða tímasprengju sem hleðst upp ef stjórnvöld og almenningur sofna á verðinum og skipta sér ekkert af því hvað er að gerast.

Það er of snemmt að skoða hver er undirrót þess fjármálahruns og endurmats sem heimurinn gengur nú í gegnum. Það er hins vegar alveg hægt að fullyrða að birtingarmyndir fjármálakreppunnar þurfa ekki að vera sama og orsakir hennar, ekki fremur en læknir getur fullyrt að birtingarmynd sjúkdómsins sé það sem valdi sjúkdóminum.  Þannig eru afleiðuviðskiptin og undirmálshúsnæðislán ekki  það sem veldur þessu kerfishruni þó að þar hafi hinn ægilegi sjúkdómur þessa kerfis birst fyrst og hroðalegast á þeim sviðum.

Sennilegt er að þetta hrun hafi einhverjar dýpri orsakir en bara peningalegar - einhverjar strúktúrbreytingar í samfélögum manna, hugsanlega eru peningaviðskipti eins og við búum við núna og það að nota peninga sem mælikvarða á verðmæti og einingu sem mælir völd (þ.e. í gegnum eignarétt) og flytur til völd - hugsanlega er það kerfi ekkert að virka. Þetta segi ég vegna þess að ég hef undanfarin ár séð hvernig flæði sem byggir á markaðshagkerfi og eignaréttarvörðum hugverkum eru beinlínis að kyrkja framþróun og sköpunarkraft í stafrænum hugverkasmíð, ekki síst hugverkum sem unnin eru í samstarfi og samvinnu margra. Markaðshagkerfi okkar tíma, markaðshagkerfi iðnaðarsamfélagsins passar ekkert við þann veruleika sem við búum við. 

Eina sem ég hef getað gert við þannig er að snúa eins mikið baki við þessu markaðskerfi  og hægt er, nota alltaf það sem er með öðruvísi og opnara höfundaleyfi (CC og GNU), nota eins og hægt er ókeypis og opinn hugbúnað og opin og ókeypis söfn stafrænna eininga hvort sem það eru vísindagreinar, gagnabankar, kennslugagnasöfn eða forrita- og námsefnissöfn.

Það getur verið að sama þróun og ég sé að gerist í heimi stafrænnar smíði sé líka að eiga sér stað á öðrum sviðum, fólk hefur öðruvísi verkfæri núna og vinnur öðruvísi. Framleiðsla fer ekki bara fram í verksmiðjum, sambandið milli neytanda og framleiðanda er ef til vill að leysast upp og við tekur einhver konar diy tímabil,  tími þar sem fólk semur saman sína hluti sjálft, tímabil hinna lausu eininga, tímabil gáma og hjólhýsahverfa, tímabil sjálfsþurftarbúskapar. Ég segi þetta ekki til að draga upp dökka mynd, ég sé gáminn sem eina af táknmyndum nútímans, hann var umbúðir utan um vörur en hann er kannski líka varan sjálf. Ég er líka sérstaklega hugfangin af arkitektúr sem notar gáma og svona "prefab", svona hjólhýsahugsun nútímans, hugsun þar sem allt er í stöðluðum einingum en einmitt staðlarnir gera fjölbreytnina mögulega.

Kínverjar finna mikið fyrir kreppunni, kannski einmitt vegna þess að þetta er ekki bara kreppa sem snýst bara um afleiðuviðskipti og fjármagnskreppu, þetta eru hræringar sem birtast sem kreppa og misvægishreyfingar vegna þessa að nú eru straumamót í sögu manna, miklar strúktúrbreytingar á atvinnuháttum.

Það munu allir finna fyrir kreppunni, líka þeir á Íslandi sem halda því fram að þetta sé bara Reykjavíkurkreppa, þeir búi á svæðum þar sem aldrei kom góðæri og því geti ekkert farið þaðan. Þannig er það nefnilega ekki, það er hættulegt ástand fyrir íslenska þjóð núna, svo hættulegt að það getur farið svo að íslenska þjóðin leysist upp. Ekki í einhverri sprengingu eða vígvélastríði heldur með þeirri uppflosnun sem virðist verða óhjákvæmilegur hluti af kreppunni. 

Núna flytur unga fólkið úr landi, sumir eru búnir að ákveða brottfarardaginn, sumir eru fluttir og sumir eru að hugsa sig um. En það er ekkert sem bendir á bjartari tíma hérlendis á næstunni, það eina sem mun verða til þess að ungt fólk flytur ekki frá Íslandi er að það eru fá atvinnutæki annars staðar. 

En hingað kemur líka fólk núna. Ég hef frétt af því að hingað komi nú fjölskyldur frá Eistlandi og fleiri baltneskum löndum, flytjist hingað í hinni djúpu og dökku kreppu sem hér ríkir, flytjist hingað vegna þess að þó hér sé erfitt þá eru tímarnir núna miklu, miklu verri á þeirra heimaslóð.

Þannig birtist kreppan okkur núna líka í uppflosnun og fólksflutningum víða um heim. Ef þróunin heldur áfram þá mun  þetta hafa veruleg áhrif á Ísland einfaldlega vegna fæðar Íslendinga. Hver árgangur Íslendinga er ekki nema rúmlega 4000. Hvað gerist á Íslandi ef stór hluti af hverjum árgangi ungs fólks á barneignaaldri flytur frá Íslandi? 

 


mbl.is Erfitt ár fyrir Kínverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög athyglisverð lesning. Gamla Ísland sem við lifðum fyrir 2002 er sennilega horfið og kemur ekki aftur. Hvað tekur við - það er gátan mikla ?

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 10:08

2 identicon

Mjög góð og athyglisverð grein hjá þér Salvör. 

Það tekur smá tíma að melta boðskapinn en takk fyrir. 

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband