Nettenging nánast ókeypis, tengiverkfæri nánast ókeypis

Það eru fínar fréttir fyrir skólanemendur og kennara að nú keppast menn víða um lönd við að framleiða sem ódýrastar fartölvur og markhópurinn er allir nemendur. Nú þegar er staðan þannig að sums staðar er nettenging orðin ókeypis eða kostar mjög lítið. Nú hillir undir að tengitækið þ.e. fartölvan verði það líka.

Svona ódýrar tölvur nota líka eingöngu ókeypis opinn hugbúnað. Það er ekkert vit í öðru og það er mikið til af slíkum hugbúnaði og hann verður alltaf betri og betri. 

Það sem sagt hillir undir þær aðstæður að tengibúnaður verði nánast ókeypis, hugbúnaður ókeypis og tengikostnaður við Netið hverfandi lágur? 

Hvað vantar í þessa framtíðarmynd? Er ekki blómatími í vændum í skólakerfi og námi sem hagnýtir sér þessar aðstæður?

Það er einkum þrennt sem er að.

I fyrsta lagi þá vantar að sjálft námsefnið eða inntak námsins sé líka opið, ókeypis og aðgengilegt. Það hefur verið mikil þróun í Open Source og hún hófst miklu fyrr en í sambandi  inntakið og ennþá síðar í sambandi við OET (Open Educational Resources). Þar er frekað lítið efni í boði og mest af því sem er í boði er fyrir nemendur á eldri skólastigum. Það má hér þó nefna að stór alþjóðleg verkefni eins og Wikipedia hafa lagt inn mikið efni en það er í eðli sínu alfræðirit en ekki námsefni. Margt efni er reyndar til á opnum vefsvæðum en það er efni sem er höfundaréttarvarið og við höfum ekki tryggingu fyrir að verði á vefnum áfram né er hægt að aðlaga það efni á einhvern hátt t.d. íslenska. Á þessu sviði er bjartasta vonin að CC höfundarleyfi náu útbreiðslu og stjórnvöld styðji við slíkt. Það er ekki nóg að efni sé aðgengilegt á opnum vefsvæðum, það er ekki nóg að það sé heimilt að afrita það, það þarf líka að vera heimilt að umbreyta því og endurvinna og endurblanda í önnur verk.

Í öðru lagi þá eru þau lög og þær vinnureglur sem þjóðir heims  fara eftir varðandi útbreiðslu þekkingar og þekkingarmusteri mjög andsnúnar þeim nýju vinnubrögðum sem nýtt umhverfi hins samtengda og sítengda heims kallar á. Háskólar og fjölmiðlar og bókasöfn eru þekkingarmiðstöðvar sem gegna stóru hlutverki í útbreiðslu þekkingar. Þar hafa myndast venjur og vinnureglur sem hjálpuðu til við það m.a. vinnureglur sem hjálpuðu til að rekja uppruna og sannreyna þekkingu. Hins vegar geta þekkingarkerfi sem virkuðu vel við einar aðstæður orðið eins og hliðverðir og girðingar við aðrar aðstæður. Reglur og um afritun og höfundarrétt eru ekki í takt við þá tíma sem við stefnum inn í núna.

í þriðja lagi þá kann fólk ekki nógu vel á nýja tækni og setur sig ekki nógu vel inn í hvernig hún getur og mun umbreyta vinnuaðferðum og nálgun. Fólk lærir á nýjar græjur, lærir á þær til að spara sér tíma og gera betur það sama og það gerir í dag en það verður að horfa lengra og átta sig á því að tæknin umbyltir. Það kunna líka tiltölulega fáir að hagnýta sér nýja tækni og sérstaklega kunna fáir að útbúa efni sem passar inn og ennþá færri hafa skilning á því að slíkt efni vanti. Það er til marks um skilningarleysið á öllum sviðum að stjórnvöld styðja og vilja nota séreignarhugbúnað og keypt námsefni/þekkingarefni jafnvel þó að eins góður eða betri opinn og ókeypis hugbúnaður sé aðgengilegur og miklir þekkingarbankar sem hafa að öllu eða mestu leyti verið kostaðir af opinbeur fé liggi víða ónotaðir og óaðgengilegir vegna þess að stjórnvöld trúa í blindni á gildi séreignar á stafrænum gæðum og halda að einhver ósýnileg markaðshönd muni láta þekkingu flæða. Því miður eru þær ósýnilegu hendur frekar stíflur sem hindra allt þekkingarflæði. Átakanlegt dæmi um slíkt er þegar þekkingarbankar sem eðli málsins samkvæmt ættu að vera öllum aðgengilegir t.d. dómasöfn eða orðabankar yfir íslenska tungu eru  aðgangsstýrðir með peningum.

 


mbl.is Fartölva á 1.150 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband