30.1.2009 | 20:32
Kúlulán og laxveiðiboð
Dagblaðið er í dag með umfjöllun um kúlulán sem það segir að hafi verið veitt Birni Inga Hrafnssyni til hlutabréfakaupa. Björn Ingi var þá aðstoðarmaður forsætisráðherra. Hann var síðar efsti maður á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir síðustu kosningar. Hér er fréttin á vef DV í dag: Aðstoðarmaðurinn fékk tugmilljóna lán en fréttin byrjar svona:
"Björn Ingi Hrafnsson fékk kúlulán frá KB-banka fyrir rúmar 60 milljónir króna árið 2005 til að kaupa hlutabréf í bankanum. Hann var þá aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Björn Ingi seldi hlutabréfin í bankanum og græddi meira en 20 milljónir."
Árið 2005 var í tísku að kaupa og selja hlutabréf og margir einstaklingar gerðu það. En lánaviðskipti frá KB af þessari stærðargráðu til aðstoðarmanns forsætisráðherra eru langt frá því að vera eðlileg. Það er ekki viðeigandi að aðstoðarmaður forsætisráðherra tengist braski með hlutafé eða þiggi lán á kjörum sem bjóðast ekki almennum notendum.
Það hefur komið í ljós að viðskiptahættir KB banka voru undarlegir og sumt beinlínis gert til að slá ryki í augun á almenningi og hluthöfum og villa um fyrir eðlilegri sýn á hvað væri að gerast á markaði. Stórfyrirtæki í einkaeigu víla ekki fyrir sér að hafa áhrif á stjórnvöld á þann hátt sem þau geta. Þetta er kallað "lobbying". Traust stjórnvöld og heiðarlegir embættismenn taka ekki við neins konar greiðasemi frá aðilum sem er í mun að hafa áhrif á stjórnvöld. Það er mjög, mjög mikilvægt. Stjórnmálaöfl sem vilja vinna traust almennings mega ekki láta slíka hegðun viðgangast og verða að taka á henni. Það er mikilvægt fyrir endurreisnarstarf í Framsóknarflokknum og sem liður í því að vinna traust kjósenda og tengja ekki flokkinn við spillingu heldur ábyrga og heiðarlega stjórnarhætti að velta við hverjum steini í svona málum.
Það hefur einnig komið fram í fjölmiðlum að Guðlaugur Þór sem þá var stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, Vilhjálmur þáverandi borgarstjóri og Björn Ingi fóru í laxveiði í boði Baugs skömmu áður en viðræður um samruna REI og Geysis Green Energy hófust. Sjá þessa grein á visir.is
Það er ekki spilling þó einhver jakkaföt hafi verið keypt á frambjóðendur í prófkjörsbaráttu en það er miklu alvarlegra ef aðstoðarmenn ráðherra og kjörnir fulltrúar fólksins þiggja sérstaka fyrirgreiðslu og gjafir frá aðilum sem augsýnilega hafa hag af því að vingast við stjórnvöld. Það er einnig óeðlilegt að aðstoðamaður forsætisráðherra stundi áhættusamt brask sem eingöngu er stundað með lánsfé á sama tíma og hann gegnir starfinu.
Það er veruleg þörf á siðbót í íslenskum stjórnmálum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já það veitir ekki mikilli siðbót. Og mikið af spillingunni er ættuð úr framsókn. Enda maddaman látið svo vel að mörgum og alltaf fengið eitthvað fyrir sinn snúð. Framsókn hefur og mun verða stærsta illkynja æxlið í íslenskum stjórnmálum.
Hörður Már Karlsson (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 20:52
Og nú reynir framsókn allt hvað af tekur að koma í veg fyrir að siðbót verði.
Trúðar sem teknir hafa verið alvarlega alt of lengi. Þeir verða að gera sér grein fyrir því að Sirkus Geira er farinn á hausinn og taka þarf til.
Kristján Logason, 30.1.2009 kl. 21:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.