21.1.2009 | 01:09
Mótmælahljómkviðan
Ég var á Austurvelli í kvöld. Kom eitthvað um átta leytið í kvöld og var yfir miðnætti, fór þegar eldtungurnar frá Oslóartrénu læstu sig til himins. Þetta var svona stemming eins og að vera á hljómleikum þar sem eru engir áheyrendur, þar sem allir troða upp . allir eru með einhvern gjörning. Mest að framkalla hljóð en svo brann þarna eldur og hópur fólks hélt eldinum lifandi og bætti á hann vörubrettum og dekkjum og skrifborðsstólum. Ég hugsa að þeir hafi verið uppiskroppa með eldivið því einn hópur réðist á Oslótréð og felldi það og varpaði því á eldinn.
Þó að meðfram Alþingi væri veggur af óeirðalögreglu með skildi og alls konar útbúnað þá voru mótmælin meira eins og mannfögnuður, það var barið og flautað og slegið og hrópað og klappað og það kvein í hrossabrestum. Það var gleði í lofti, ég veit ekki út af hverju, kannski af því að fólk var að gera eitthvað, að búa til sig sóknar. Annars var þetta líka eins og galdramessa eða nornagleði eða álfareið, svona sefjunarsamkoma þar sem fólk stillir sig saman til búast til orustu og magnar seið.
Það var gaman að heyra af hópnum sem safnaðist saman á Akureyri, það bárust boð um það niður á Austurvöll að fólk væri á sama tíma að mótmæla annars staðar á landinu og það var líka einn liður í samstilla fólk, að vita af öðrum hópum að mótmæla annars staðar.Ég held að það sé aukaatriði hvaða áhrif mótmælin hafa á ríkisstjórnina, aðalatriðið er hvaða áhrif mótmælin hafa á mótmælendur sjálfa. Við erum fólkið.
Samstöðumótmæli á Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:18 | Facebook
Athugasemdir
Lifi byltingin!!!
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.1.2009 kl. 02:12
Mín gleði fjaraði út þegar ég fékk piparúða í augun.
Óli Gneisti (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 03:50
Höldum áfram - hömrum járnið.
Ég hvet til frekari aðgerða. ÞETTA MÁ EKKI LOGNAST ÚT AF.
Hvað segiði um fjöldagöngu eftir Miklubrautinni strax næsta mánudag?
Þór Ludwig Stiefel TORA, 21.1.2009 kl. 11:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.