Ný forusta í Framsóknarflokknum, nýjar áherslur

Það er óhjákvæmilegt að stjórnmálaflokkar á Íslandi breytist núna eftir hrunið og endurmeti afstöðu sína til allra mála, ekki síst sérstaklega efnahagsmála og öryggismála. Ég held að Íslendingar átti sig ekki ennþá  á því hve mikilvægt er að vera ekki einn á köldum klaka. Ísland þarf að vera í bandalagi við aðrar og öflugri þjóðir sem hafa sömu hagsmuni og Ísland.  Ísland naut í marga áratugi  góðs af því í samningum við Bandaríkin að hafa þótt mikilvægur bandamaður vegna staðsetningar og hér var herstöð. Nú er bandamaðurinn og verndarinn í vestri horfinn á braut og ekki sýnilegt að það ríki hafi áhuga eða bolmagn til að styrkja stöðu sína á Norðurslóðum. Helstu bandalagsríki Íslendinga og viðskiptaþjóðir eru Norðurlönd og aðrar Evrópuþjóðir. Bankahrunið hefur sýnt að það er erfitt fyrir smáþjóð með örsmáan gjaldmiðil að standa af sér þær sviptingar sem verið hafa í fjármálalífi heimsins.

Það er erfitt að sjá aðra valkosti í stöðunni en að sækja eftir inngöngu í Evrópusambandið. Alþingi er þegar orðin eins konar afgreiðslustofnun og stimplunarstaður fyrir lög sem þaðan koma.  Fólkið flæðir á milli og fjármagnið flæðir á milli. Það er augljóst hagræði af því að hafa sama gjaldmiðil og önnur Evrópulönd.

Ef horft er langt fram í tímann, lengra en sem nemur þeirri kreppu sem núna gengur yfir þá verður að skoða stöðu Íslands á landakorti heimsins. Stöðu þar sem fámenn og herlaus og einsleit  þjóð býr í landi með viðkvæma heimskautanáttúru og með  miklar orkuauðlindir bæði innan lands og hugsanlega líka í sjó.  Í heimi þar sem nágrannaþjóðir okkar deila hart um aðgang að orku og akkúrat núna Evrópa er háð Rússlandi með orkuaðdrætti þá mun verða hart barist um yfirráð yfir orkuauðlindum.  Þetta er ekki eingöngu spurning um peninga og gróða, þetta er líka spurning um hernaðarlegt mikilvægi þess að hafa yfirráð yfir orku. Stórveldi munu ekki hika við að heyja stríð til að tryggja sér aðgang að orku. 

Það þarf að breyta kúrsinum í öllu á Íslandi, það þarf að stýra stofnunum öðruvísi, það þarf að endurskoða viðhorf til einkavæðingar versus ríkiseignar. Eina skynsamlega leiðin er að hverfa aftur til  nýrrar samvinnuhreyfingar sem er í takt við nýja tíma. En það þarf líka nýja sýn í utanríkismálum og fólk þarf að átta sig á að bæði íslensk stjórnmál og alþjóðamál koma öllum við. Íslendingar verða að endurskoða og endurmeta afstöðu sína til bandalaga við aðrar þjóðir,  það liggur mikið á að vera í öflugu hagsmunabandalagi með öðrum þjóðum. Það eru ekki eingöngu Evrópuþjóðirnar.

Það verður endurnýjun í forustuliði Framsóknarflokksins um helgina og það verður spennandi að fylgjast með því. Það þarf að veljast til forustu fólk sem skynjar kall samtímans á nýja samvinnuhugsjón og fólk sem skynjar þann nýja veruleika sem við búum við bæði innanlands og í alþjóðamálum.


mbl.is Lagt til að sótt verði um aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Einarsson

"Breytingar breytinganna vegna" Þetta lýsir fáfræði og heimsku.

Hörður Einarsson, 14.1.2009 kl. 13:53

2 identicon

Kæra Salvör, 

Ég er búin að vera hátt í 20 ár í flokknum og veit að það þarf öflugan aðila sem þekkir málefni flokksins til að takast á við reynsluboltana sem eru formenn hinna flokkanna. Við þær aðstæður vitum við bæði að mikilvægt er að þekkja bæði málefni og sögu flokksins auk reynslunnar úr stjórnkerfinu til að hægt sé að snúa frmsóknarflokknum úr vörn í sókn.

 

Að hafa gengið í gegnum "stjórnmálaskóla" flokksins og oft á tíðum sinnt vanþakklátum störfum er reynsla sem ekki má gleymast. Að hengja Pál fyrir það að sinna sínum skyldum gagnvart fyrrum leiðtogum flokksins eins og sumir í andstæðinga hans gera, fyrir það eitt að hafa hag flokksins að leiðarljósi er spark í punginn og ekki heiðarlegt gagnvart Páli eins og vinur minn orðaði það. Þetta eru sjónhverfingar til að draga athyglina frá aðalatriðunum.

 

Helstu mótframbjóðendur Páls eru efnileg þingmannsefni og ágætir drengir, en hafa því miður enga reynslu, eftir að hafa heyrt í þeim öllum þá get ég fullyrt það.

Ég bendi framsóknarmönnum á að skoða fyrri störf þessara þriggja einstaklinga á vefsíðum þeirra og meta hver hefur mestu reynsluna, formaður flokksins þarf að búa yfir víðtækri reynslu. Hugsið um hag flokksins í þessum efnum.

 

Það hoppar engin fullkomin inn í embætti formanns líkt og engin stekkur beint í stól skipstjóra á stóru skipi, menn vinna sig upp og læra á leið sinni, bæði af mistökum og velgengni hvernig stýra eigi skipinu í höfn.

 

Það skal engan undra þótt Páll hafi stuðning frá hinum meintu "eldri" félögum líkt og mér. Hann hefur einfaldlega sannað fyrir okkur að hann stendur við orð sín í þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur, þungum sem léttum og sveiflast ekki eftir því sem vindurinn blæs heldur sýnir staðfestu. Og ég vil benda yngra fólki í flokknum á að það er mikil dyggð að sýna staðfestu á erfiðum tímum. Í framboði Páls felst engin tækifærismennska heldur þrautseigja ungs manns sem hefur staðið vaktina fyrir framsóknarflokkinn, bæði á góðum sem og erfiðum tímum.

 

Ég kýs Pál á sunnudaginn, því í honum felst raunhæfur styrkur.

 

Ég vona að skynsamt fólk líkt og þú og aðrir framsóknarmenn sem hugsa um hag flokksins geri slíkt hið sama.

Framsóknarmaður (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 14:23

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Hörður: Þú mátt alveg kalla það breytingar breytinganna vegna ef fólk bregst við því að efnahagslíf hrynur, heimskreppa skellur á, blóðbað stendur yfir á gasa, uppþot víða um heim, ríkistjórnir svo örvæntingarfullar að þær tappa gasi af leiðslum sem liggja um lönd. Ég kalla þetta neyðarástand.

En ef þú vilt ekki taka eftir því þá er það þitt mál.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.1.2009 kl. 21:44

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Páll Magnússon er ekki hentugur foringi Framsóknarflokksins á þessum viðsjárverðu tímum. Til þess nýtur hann ekki trausts. Hann hefur verið handbendi þeirra sem komu okkur í þá stöðu sem við erum í núna.  Framsýni hans hefur ekki verið mikil á stjórnmálasviðinu. Hann var í hópi þeirra sem stýrðu okkur í hrunið. 

En vonandi vinnur hann sig upp í stjórnmálum aftur þegar tíma líða fram. Það tekur hins vegar langan tíma að vinna upp traust sem hefur glatast.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.1.2009 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband