6.1.2009 | 23:50
Rafmagnaður fundur hjá Framsókn í Reykjavík
Það er óhætt að segja að félagsfundur okkar Framsóknarmanna í Reykjavík hafi verið rafmagnaður. Straumurinn liggur til Framsóknarflokksins þessa daganna, margir ganga í flokkinn og það var greinilega smölun í gangi á fundinn. Það voru miklar eldglæringar í lofti og það stefndi í að fundurinn yrði hreinlega yfirtekinn, tillaga stjórnar felld og fundarstjóri settur af og keyrð í gegn tillaga annarra um fulltrúa á kjörþing.
Ég er í stjórninni og studdi að sjálfsögðu tillögu stjórnarinnar enda fannst mér hún ljós og það höfðu margir unnið saman að því að tilnefna fulltrúa en sú tillaga sem kom fram á fundinum kom á óvart. Það er ljóst að það verður kosin ný forusta í Framsóknarflokknum á flokksþinginu í janúar og þessi átök eru partur af því. Það skiptir miklu máli að tryggja sér sem flesta kjörmenn í Reykjavík. Margir töluðu, þar á meðal ég og hvöttu til að það yrði reynt að ná samkomulagi og það tókst sem betur fer eftir að nokkrum sinnum hafði verið gefið fundahlé svo hægt væri að búa til einhvers konar samningstillögu. Hún var svo samþykkt með einu mótatkvæði.
Fundurinn var svo fjölmennur að fundarsalur Framsóknarflokksins sprakk og varð að flytja fundinn í Þjóðleikhúskjallarann. Hér er mynd sem ég laumaðist til að taka af þeim sem voru að reyna að sætta stríðandi aðila í einu af fundarhléinu, samninganefndin óformlega lokaði sig inni í eldhúsinu að ég held. Hugsanlega hefur það ráðist í þessum þreifingum hver verður næsti formaður Framsóknarflokksins og hugsanlega hefur það ráðist af þeim sáttum sem voru á fundinum hver framtíð Framsóknarflokksins verður. Það vilja allir breytingar á stjórnmálaflokkum og hrunið á Íslandi mun kalla á meiri stjórnmálaþátttöku og því virkara og betra lýðræði sem við höfum þeim mun minni líkur eru á að hér verði algjör skálmöld. En það er ekki rétt leið að taka yfir fundi, það er rétt leið að reyna að semja og vinna saman og hlusta á sjónarmið allra.
ssssHiti á fundi framsóknarmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.1.2009 kl. 08:37 | Facebook
Athugasemdir
Verð að segja að mér þykir það afar undarlegt af manneskju sem eyðir jafn miklum tíma í netheimum og þú og hefur þekkingu á, að þetta skildi koma þér á óvart.
Jónína Ben er búin að fara mikinn á meðal annars blogginu hans Egils Helga með mjög reglulegum hætti þar sem hún hefur verið að nefna yfirtöku, eða því sem næst, á Framsóknarflokknum og smölun í flokkinn.
Áttuð þið í alvöru ekki von á þessu?
Baldvin Jónsson, 7.1.2009 kl. 00:06
Spyr sá sem ekki veit en varla eru það lýðræðisleg vinnubrögð ef komandi formaður er ákveðinn í bakfundar-samningar-fundi á fundi Framsóknarmanna í Reykjavík. Verður ekki örugglega kosið um þetta hjá ykkur?
Annars sammál þér um að ömurlegt er þegar reynt er að taka yfir flokka eða fólk í öðrum flokkum er eitthvað að skipta sér af eða koma með yfirlýsingar í kringum prófkjör eða annað hjá öðrum en sínum flokki.
Torfi (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 00:09
Sæll Árni.
Ég mun sakna Framsóknarflokksins ef hann hverfur. Hef grun um að þessi athugasemd þín sé frekar óskhyggja en staðreynd. Reyndar mjög undarleg óskhyggja.
Það verður gaman að kjósa nýja Framsókn í vor.
Kveðja
Bjorgmundur (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 00:50
Sem fyrrverandi flokksmaður um alllangt skeið er mér allt forvitnilegt sem varðar stjórn Framsóknarflokksins. Þegar styrkleiki flokksins var mestur byggði hann fylgi sitt mestan partinn á landsbyggðarfólkinu, bændunum, kaupfélögunum og þéttbýlinu kringum þau. Þá var flokkurinn þjóðrækinn og hóflega íhaldssamur. Þá átti hann góða þingmenn og menn á borð við Skúla Guðmundsson og Vilhjálm Hjálmarsson, svo einhverjir séu nefndir gleymast seint. Nú spyr ég mig eftir að hafa séð afdrif flokksins með sína nýju græðgisvæðingu í þágu fárra útvalinna prinsa á borð við Árna Magg, Finn Ingólfs og Binga ásamt skjólstæðingum: Hvernig ætlar flokkurinn að gera sig trúverðugan á ný? Haldið þið að einhver kaupi lengur "endurnýjaðan" Framsóknarflokk með sama slóttuga græðgisvipinn?
Sá Framsóknarflokkur sem hefði getað unnið sig upp hvarf með fulltrúum gömlu sveitamenningarinnar og þar fóru síðastir þeir Guðni og Bjarni. Trúðu mér!
Árni Gunnarsson, 7.1.2009 kl. 01:27
Ekki byrjar nýji Framsóknarflokkurinn vel. Búnir að færa sig úr reykfylltum bakherbergjum og komnir inn í gufumettað eldhús. Þetta sýnir bara eitt Framsóknarmenn hafa engu gleymt ef þeim hefur þá tekist að blekkja einhvern.
Sama liðið bara önnur nöfn. Ég er sammála Árna eini séns frammarana voru Bjarni og Guðni. Það var einföld stefna bara back to basic og þeir hefðu haldið fylgi í dreifbýlinu næstu 10-15 ár og fengið svo skjótan dauða.
Þessir stórveldisdraumar í þéttbýlinu verða aldrei neitt. En það er bara mín skoðun.
Höður Már Karlsson (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 07:30
Heil og sæl vinkona!
Aðeins leiðrétting
Fundarstjóri var ekki settur af.
Kveðja
Hallur
Hallur Magnússon, 7.1.2009 kl. 08:34
Ekki veit ég hvort fundarstjóri var settur af, en ég hef þó þá skoðun að heillavænlegast væri fyrir íslensku þjóðina að spillingarflokkurinn Framsóknarflokkurinn verði settur af. Og það sem allra fyrst. Guð gefi bara svo að Páll Magnússon setjist í formannsstólinn, því að þá mun flokkurinn þurrkast út í næstu kosningum, allri þjóðinni til heilla.
Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 14:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.