Lottópotturinn er að springa

Var það á eftir áramótaávarpi forsætisráðherra eða var það var á eftir nýársávarpi forsetans sem auglýsingin hljómaði, auglýsingin um að lottópotturinn væri að springa?  Þessi auglýsing sem núna glymur við í sjónvarpi og útvarpi er lýsandi fyrir ástandið í íslensku samfélagi  í dag. Samfélagi sem breytt var í matador eða lottópott fyrir fámennan hóp spilara sem lögðu undir það sem þeir hrifsuðu til sín í skjóli þeirrar fjármálaumgerðar sem íslensk stjórnvöld blessuðu og lofsungu.

En kerfi sem límt er saman af pappírsfyrirtækjum og  spilapeningum  sem þyrlast upp eins og spilakúlur í lottópotti er ekki límt saman heldur sundurtætt og þegar lítill neisti læsir sig í skuldabréfavöndlana þá kviknar fljótt í öllu sem er í pottinum og hann springur.

Spilafíkn er smíðagalli á mannkyninu því þótt nauðsynlegt sé að taka áhættu við  ákveðnar aðstæður og viss áhættuhegðun sé nauðsynleg hjá þjóðum heims til að ekki verði algjör kyrrstaða þá er sú hegðun sem við fáum nú að vita að hafi viðgengist í íslensku viðskiptalífi bæði afkáraleg og raunaleg. Það virðist hafa verið fjárfest í erlendum fyrirtækjum nánast af handahófi og með aðstoð pappírsfyrirtækja sem velktu á milli sín skuldavöndlum og létu það líta út eins og peninga. Þetta gerðist með aðstoð bankanna og velvilja ríkisstjórnarinnar og undir lófataki forsetans og við fagnaðarlæti fjölmiðla. Gleymum því ekki.

Ég hef  hingað til skrifað  mest um spilafíkn hinna smæstu, framsóknarþingmanna og spilavíti á verndarsvæðum indjána og spilavíti sem skatt á fátækt fólk vegna þess að fátækt fólk er gabbað til að kaupa heilu skókassanna af lottómiðum og skafrenningum.  En það efnahagskerfi sem hrundi er kerfi kasínókapítalisma og það kerfi virkar ekki. Það er ekkert vit í að reyna að endurreisa það. Það er kerfi ömurlegar misskiptingar og það er kerfi óréttlætis og græðgi og sjúklegrar spilafíknar þar sem nokkrir spilafíklar fá að spila með fólk og lífsafkomu þess.  Það er reyndar áberandi líka að spilafíklarnir voru sérstaklega tengdir mörgum fyrirtækjum sem gerðu út á spilafíkn eins og Net Entertainment (fyrirtækið Cherryforetagen sem var skipt upp í Betsson, Cherry Casino og Net Entertainment) Af hverju var íslenskur fjárfestingabanki Straumur að fjárfesta í fyrirtækjum sem gera út á fjárhættuspil? Voru íslenskt fyrirtæki og bankar ef til vill skálkaskjól og leppar fyrir sænska aðila sem gera út á spilafíkn og geta ekki athafnað sig að vild vegna sænskra laga um veðmál? Eru netspilavíti ef til vill að nota sér veilur í íslenskum lögum til að athafna sig? Er þetta Cherry Casino ef til vill ennþá að nafninu til  í eigu íslenskra banka? Hvað er þetta Betsson eða Betsson AB tengt Íslandi núna?

Samfélag sem gefur börnum um jólaleytið  kartöflu í skóinn til að refsa þeim en lottómiða til að gleðja þau og hrósa fyrir góða hegðun er sjúkt samfélag. Samfélag sem styrkir meðferðarstofnanir eins og SÁA fyrir spilafíkla og hjálparstofnanir og björgunarsveitir og háskóla með því að láta þá aðila fá hagnað af  stórhættulegum og siðspillandi spilakössum er helsjúkt. 

Það þarf ekki bara að ráðast að útrásarvíkingum, ríkisstjórn, bankakerfi, fjölmiðlum og eftirlitsstofnunum á Íslandi. Það þarf að ráðast að og breyta þeim áróðri sem linnulaust dynur yfir okkur og hefur átt sinn þátt í að við höfum sofið á verðinum og orðið samdauna því kerfi sem nú hefur hrunið yfir okkur.

Hér eru nokkur blogg frá mér um spilafíkn:

Hrægammar tína upp mulninginn úr peningavélinni

Póker, spilafíkn, fjárhættuspil og framsóknarmennska

Fjárhættuspil er fátækraskattur - salvor.blog.is

Annars er áhugavert að bera saman áramótaávarp Geirs Haarde núna við það ávarp sem hann flutti okkur fyrir ári síðan. Þá var hann líka forsætisráðherra, hann hafði áður verið fjármálaráðherra, hann er hagfræðimenntaður og komst á þing undir slagorðum um að efnahagsstjórnin væri í góðum höndum undir forustu hans. Geir sagði í áramótaávarpi sínu árið 2007 þetta:

"Efnahagur okkar Íslendinga stendur traustum fótum. Við höfum fulla ástæðu til að trúa því að svo verði áfram. Við höfum búið í haginn með margvíslegu móti, t.d. í hinum geysiöflugu lífeyrissjóðum landsmanna, sem eru öðrum þjóðum fyrirmynd. Ég bendi einnig á margra tuga milljarða afgang á ríkissjóði ár eftir ár og fleira mætti nefna. Undirstaða þjóðabúsins hefur verið treyst þannig á undanförnum árum að hagur á ekki að skekjast á þeim grunni að neinu verulegu marki ef fram er haldið með fyrirhyggju og ráðdeild. "

Svo mörg voru þau orð.

Mér finnst sök mín einhver, hún er t.d. sú að hafa ekki látið mig efnahagsmál á Íslandi meira varða og fylgst betur með hvað var þar að gerast. Ég er hagfræðimenntuð eins og Geir Haarde og ég held ég hefði séð hrunið betur fyrir en hann og ég hefði ekki leynt ástandinu og blöffað eins og ég held hann hafi gert lengi .  Ef til vill hefði ég ekki getað fylgst með, plottin voru í bakherbergjum sem ég hafði ekki aðgang að en ég alla vega tók við mér á seinasta ári og mætti á aðalfund hbgranda hf sem ég kalla í huga mér bæjarútgerð okkar Reykvíkinga og bauð mig fram í stjórn þar.

Fyrstu árin sem ég bloggaði þá tjáði ég mig afar lítið um efnahagsmál. En ég fann áðan eina grein sem ég skrifaði fyrir meira en sjö árum um Baugsveldið. Það er áhugavert hvernig ég enda þá grein, tala um vald þess sem skrifar söguna og segir hvað gerðist.  Ég birti þessa gömlu pælingu mína hérna til gamans, það er einn kostur við að hafa bloggað lengi að maður getur farið í sín eldri skrif og borið saman við nútímann - t.d. til að sjá hversu sannspár maður var eða hvort viðhorf manns hafa breyst.

Þetta var nokkurs konar grínblogg hjá mér, ég var að gera tilraun um samkeppni við greiningardeildir bankanna og setti í blogginu upp Greiningardeild Salvarar sem starfaði nú bara í þessari einu bloggfærslu. Enda hafði ég engan sérstakan áhuga á hlutabréfamarkaði. Ég hef hins vegar alltaf haft áhuga á fasteignamarkaði og fylgst vel með breytingum þar. Verð á fasteignum og hversu vel fasteignir seljast er barómeter á efnahagsástand og reyndar magnar upp breytingar í átt að  kreppu eða góðæri - vegna þess að það tekur nokkur ár að koma til móts við aukið framboð og það tekur líka langan tíma að hægja á kerfinu og slökkva á því sb. alla byggingakranana sem ennþá eru í Reykjavík og allar íbúðirnar sem nú er hamast við að klára þó ekki séu neinir kaupendur fyrirsjáanlegir.

Hér er sem sagt greinin sem ég skrifaði 24. maí 2001

 Baugur - Bónussparigrísinn

 24.5.01

grísbaugurNúna í mars byrjaði ég að versla hlutabréf á Netinu og fylgjast svo með hlutabréfaeign minni í gegnum Netið. Ég er mjög heilluð að þessari tækni að geta svona keypt og selt og aflað sér bakgrunnsupplýsinga til að vera upplýstur kaupandi og sé fram á að þetta geti orðið skemmtilegt tómstundagaman. Eiginlega hef ég ekki í mörg ár fylgst eins vel með íslensku atvinnulífi og núna, ég skoða stutt yfirlit yfir fyrirtækin á Verðbréfaþingi Íslands og stundum fletti ég upp heimasíðum þeirra og les ársskýrslur og ársreikninga. Svo skráði ég mig líka á Wall Street og verslaði smá þar. Gasalega flott.

Alltaf að tapa
Það væri alveg frábært og ég myndi bara aldrei þreytast á að skoða á að skoða yfirlit yfir hlutabréfaeign mína sem er alltaf uppfærð á nýjasta gengi bréfa ef það væri ekki eitt smáatriði. Ég er alltaf að tapa. Það eru takmörk fyrir því hvað er gaman að hafa svona ofboðslega netvædda og nákvæma yfirsýn yfir hvað maður tapar miklu. En svona er þetta nú bara með flest hlutabréf í dag, þau eru búin að vera í frjálsu falli undanfarna mánuði. En einhvern tíma hlýtur botninum að vera náð... vona ég. Ég held alla vega að það hljóti að vera skynsamlegt núna að kaupa hlutabréf ef fjárfest er til lengri tíma og varfærni gætt í fjárfestingum. Alla vega er verð hlutabréfa ekki smurt núna með því gullgrafara og lottóvinningsálagi sem einkenndi hlutabréfakaupæðistímabilið.

Baugur í Morgunblaðsopnu
Opnan í Morgunblaðinu í dag er um Baug. Fyrirsögnin er "Umsvif Baugs hafa ríflega tvöfaldast" og svo er risastór mynd af bleika Bónussparigrísnum og það er ekki smápeningar sem skoppa í þann sparibauk núna. Nei, - núna er það sjálf Kringla heimsins þ.e. sjálfur jarðarhnötturinn sem þrengir sér niður í sparibaukinn. Svo eru ýmislegs tölfræðiskraut á síðunni í fallegum litum, um síhækkandi gengi Arcadia og súlurit yfir væntanlegan hagnað þar alveg til ársloka 2003.

Verslun um fæði og klæði breytir um svip
Eitt það sem mér finnst skemmtilegt að gera þegar ég kem í ókunn lönd og framandi menningu er að fara í verslanir eða markaði þar sem fólkið á svæðinu verslar fæði og klæði. Skoða hvernig viðskipti fara fram, hvernig er vörum raðað upp, hvernig vörur er verið að selja og hvernig eru vörur falboðnar - hvað ræður verðinu og hvernig eru vörur kynntar. Það er líka gaman að skoða feril íslensks fyrirtækis sem einmitt verslar með fæði og klæði til að skoða hvaða breytingar hafa orðið á íslensku samfélagi. Skoða hvernig leiðin liggur frá lítilli lágvöruverslun í Lækjargötu í útrás í fatakeðju í Bretlandi og matarbúðakeðjur í Bandaríkjunum. Hvernig leiðin um heimskringluna krækir fyrir tvær verslunarkringlur á Íslandi.

Kaupþing segir hlutabréf í Baug góða fjárfestingu
Fjármálafyrirtækið Kaupþing birti í fyrradag grein Bestu kauptækifærin um þessar mundir þar sem mælt er með kaupum í hlutabréfum fimm fyrirtækja og eitt þeirra er Baugur. Þar segir m.a.: "...Gengið hefur raunar þegar hækkað úr tæplega 40 pence í 270 pence. (þ.e. gengi Arcadia sem Baugur keypti 20% hlut í) Baugur situr þannig á um það bil fjögurra milljarða óinnleystum gengishagnaði sem ætti nú þegar að auka markaðsvirði félagsins stórum. Gríðarleg sóknartækifæri leynast í lágvörukeðjunni Bill’s dollar stores sem félagið eignaðist á dögunum....".

Ég segi hlutabréf í Baugi fjárhættuspil
Ég held ekki endilega að Kaupþing hafi á réttu að standa þó að það sé stórt fyrirtæki og þar vinni 300 manns og ákvað að gera mína eigin greiningu á Baugi. Bara skoða gegnum Google upplýsingar um Arcadia o.fl. og meta sjálf. Fyrirtækið hefur yfirburðastöðu á íslenskum markaði í smásöluverslun og nýtur þar örugglega stærðar sinnar. Þó að það þrengist í atvinnulífi þ.e. komi kreppa þá ættu grónar verslanir sem sérhæfa sig í vörum á lágu vöruverði að standa vel. Það er hins vegar þrennt sem Baugur stendur í sem mér finnst hljóti að vera áhættusamt.

1) Kaup á stórum hlut á Arcadia fataverslunarkeðjunni í Bretlandi. Þessi keðja er næststærst þ.e. á eftir Marks og Spencer. Mér finnst svolítið undarlegt hvað hlutabréfaverð í Arcadia hefur hækkað og held að hluti af þessari hækkun stafi af þeirri auknu eftirspurn í bréfum sem m.a. kom til vegna uppkaupa Baugs o.fl. Það voru fjórir aðilar íslenskir (m.a. Kaupþing) sem keyptu upp hluti í Arcadia en seldu svo Baug og með hverju borgaði Baugur? Með eigin hlutabréfum og með yfirtöku skulda. Þessi Stuart Rose sem núna stýrir Arcadia er örugglega kraftaverkamaður en hann hefur komið víða við, stýrði bresku Iceland frystivörukeðjunni (hvernig tengist hún Íslandi? get ekki séð að það séu íslenskir aðilar skráðir meðal stærstu eigenda en stjórnandinn núna heitir Grimsey) en gengi hlutabréfa í þeirri keðju hefur fallið mjög frá því hann hætti þar í nóvember á síðasta ári. Ég las líka um að endurskipulagningu á Arcadia þ.e. að fækka framleiðslulínum þ.e. voru frá 13 aðilum og að það yrði gert með einhverju sem heiti "management buyout" sem ég held að merki að gerðir séu samningar við stjórnendur í þeim verslunum sem á að losna við um að þeir reki verslunina á eigin reikning (hef kannski misskilið þetta) en það þýðir að ef illa gengur hjá þeim þá sitji Arcadia uppi með þær aftur. Þetta er alla vega áhættusamara en selja burtu þær vörulínur sem ekki skila nógri veltu/hagnaði. Mér virðist því Arcadia ekki endilega vera orðið gullmoli þ.e. alla vega á þetta fyrirtæki eftir að sanna sig.

2) Þessi lágvöruverslunarkeðja í USA Bills Dollar Store sem Baugur keypti er mér ráðgáta. Hvað vakir fyrir Baug með þessum kaupum? Hafa stjórnendur þar einhver markmið sem ég sé ekki þ.e. vilja þeir komast inn á USA markað með einhverjar vörur eða færni sem fyrirtækið hefur? Mér finnst alla vega ólíklegt að Baugur hafi keypt þessar verslanir til að læra eitthvað um USA matvörumarkaðinn og fá fótfestu þar þannig í gegnum vel rekið fyrirtæki. Þá hefðu þeir ekki keypt fyrirtæki á heljarþröm en Bills Dollar Store var víst í gjaldþrotaskiptum þegar þegar Baugur keypti það. Á meðal ég sé ekki neina framtíðarstrategíu í þessum kaupum eða einhverja færni sem kaupandinn (þ.e. Baugur) býr yfir sem getur breytt fyrirtæki á heljarþröm í tekjulind þá finnst mér þetta hljóti að vera afar áhættusamt.

3) Smáralindin. Teikn eru á lofti um að við séum að fara inn í efnahagslægð. Gengi hlutabréfa er einn mælikvarði á það því verð þeirra endurspeglar von um ágóða í framtíðinni. Svo er núbúið að fella krónuna. Hlýtur ekki að vera óljóst hvað verður við opnun á risavaxinni nýrri verslunarmiðstöð sem enga viðskiptavini á fyrir að opna á þannig tímum? Hlýtur ekki að vera erfitt að greiða niður háan byggingarkostnað og frá þenslutíma með rekstri á nýjum verslunum á samdráttartíma? Hlýtur ekki að vera erfitt fyrir fyrirtæki sem fjármagnar framkvæmdir með erlendum lánum en aflar allra tekna sinna í íslenskum krónum þegar gengi krónunnar hrapar svona?. Smáralindin verður opnuð á þessu ári.

Mín greining er sem sagt að það sé áhættusamt að kaupa hlutabréf í Baug núna út af þessu þrennu.

Hver verður framtíðin? Hvaða sögur verða þá sagðar um fortíðina?
En það verður bara framtíðin sem sker úr um það hvort Bónussparigrísinn verði áfram bústinn. Sennilega borgar sig þó að vera fyrirhyggjusamur og búa sig undir það versta eins og sumir af grísunum þremur í ævintýrinu. Þar þó raunar sama á hvaða lund sagan fer, það verða alltaf til margar útgáfur af henni , allt eftir því hver sögumaðurinn er.

Þegar ég ber saman framtíðarspá Geirs Haarde fyrir Ísland sem þó er bara eins árs gömul og framtíðarspá mína fyrir Baugsveldið sem er sjö ára gömul þá velkist ég ekki í neinum vafa um hvor er betri sjáandi og völva ég eða Geir Haarde.


mbl.is Potturinn sexfaldur næst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband