Þátttökumótmæli eða miðstýrð mótmæli

Það er reginmunur á kryddsíldarmótmælunum og laugardagsmótmælafundum Radda fólksins á Austurvelli varðandi virkni mótmælenda. Á Austurvelli er miðstýrð umræða og hefðbundin uppsetning, hátalarakerfi og ræðumenn tala einn af öðrum. Þátttakendur tjá sig eingöngu með því að halda skiltum á lofti og með því klappa eftir hvern ræðumann og með því að hrópa í kór með Herði að við viljum ríkisstjórnina burt. Suma mótmælafundina hefur tjáning þátttakenda fyrst og fremst falist í að mæta og þegja. 

 

Kryddsíldarmótmælin voru öðruvísi, það var nýr tónn sleginn þar. Það er reyndar góð samlíking með tóna því þau mótmæli einkenndust af alls konar hljóðum,  hljóðum frá neyðarblysum og neyðarópum við stjórnarráðið, tónlist götusöngarans sem syngur Imagine meðan gangan rann frá stjórnarráðinu að Austurvelli, hljóðum mótmælenda á Austurvelli sem byrja með glens og gleði, það eru hrópuð grínslagorð eins og "Álver í Árbæinn" og svo kemur nýr kafli í þessa miklu hljómkviðu þegar trumburnar eru slegnar. Þá birtast svartálfarnir fyrst á sviðinu og hljóðfærið eru flatir hnefar sem slá utan rúðurnar í Hótel Borg. Þegar maður hlustar og horfir á mótmælin þá skynjar maður að það var taktur í þessu, mótmælendur hlustuðu hver á annan og samstilltu köll sín og þann hávaða sem þeir framleiddu.

Það er ekki rétt hjá Herði Torfasyni að þetta hafi verið óskipuleg mótmæli. Þetta voru mjög skipulögð mótmæli, stór hópur þeirra sem mættu var greinilega með mjög fókusað markmið, það var ekki að vera bakgrunnsmúsík og skemmtiatriði í kryddsíldinni, það var að trufla útsendinguna og rjúfa hana. Það er líka áberandi að   hluti mótmælenda er vel skólaður í borgaralegri óhlýðni og fylgir þeim trixum sem hafa gefist vel erlendis og stillir saman krafta sína.

Það er reyndar líka áberandi hvað íslenska lögreglan er ráðþrota og óundirbúin. Hvernig gátu þessi mótmæli komið lögreglu á óvart? þau voru auglýst grimmt á facebook og hundruðir búnir að skrá sig í þau. Hvernig datt lögreglunni annað í hug en að þeir hópar sem hafa ruðst inn í banka o.fl. myndu nota tækifærin til að ryðjast inn á alla íslensku þjóðina og alla formenn stjórnmálaflokkanna á sama bretti í lok ársins?

Fyrsti hluti mótmælanna þ.e. sá hluti sem var auglýstur og sem ég tók fullan þátt í var mjög friðsamlegur, kveikt á blysum, hrópað á hjálp og safnast saman á Austurvelli og hrópað. En það er ekki eins og þetta hafi verið í fyrsta skipti sem aðgerðir annarra öfgasinnaðri hópa byrja einmitt þegar friðsömum mótmælaaðgerðum lýkur og reyndar renna saman í þau. Það er sennilega meðvitað hjá þeim hópum sem hafa í huga að vinna einhver spellvirki, það er partur af dulargervi að fela sig meðal mótmælenda og það er reyndar nokkur vörn að því t.d. ef reynt er að handtaka einhvern, það er styrkur í fjöldanum.

Það var reyndar mjög undarlegt úr því að Ari Edward kallar innganginn í portið sem aðalmótmælin urðu í "lokað öryggishlið" að hann og aðrir bæði lögregla og þeir sem stóðu að sjónvarpsþættinum hefðu innganginn svona berskjaldaðan, stilltu þeir kannski upp svona auglýsingaskilti  til að auðveldara væri að klifra yfir hliðið? Hver opnaði hliðið? Það var galopið og það var ekki eins og múgurinn streymdi þar inn, fólk fór varfærnislega í byrjun og vissi ekki alveg hvað væri að gerast, forvitnin rak flesta til að kanna það. Hvar var lögreglan þá? Af hverju voru þeir ekki með bíl (hefði getað verið ómerktur) fyrir framan þetta hlið og gættu þess betur?

En með þessu bloggi eru vídeó af fyrsta hluta mótmælanna, neyðarblysunum við stjórnarráðið, ógöngunni á Austurvöll og  stöðu á Austurvelli þegar beðið er eftir að Kryddsíldin hefjist.  Það sést vel og heyrist ennþá betur á vídeóunum sem eru í tímaröð hvernig mótmælin stigmagnast og hvernig vettvangurinn færist til - byrjar við stjórnarráðið - síðan Austurstræti - síðan styttan Jón Sigurðsson á Austurvelli - síðan gluggarnir á Hótel borg - síðan portið við hlið hótel Borgar - síðan ryðst hluti mótmælenda inn í húsið og situr á gólfinu (situr til að það sé erfiðara að bola þeim burt) og syngur við raust.  Svo birtist löggan.


mbl.is Mótmælaróður hertur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ferningur

Í stað þess að tala um raunveruleg vandamál þjóðfélagsins þá eyðir þú tíma þínum í að greina mismunandi mótmæli.

Gleymum því ekki að á þessu hefði ekki verið þörf ef að þeir sem bera ábyrgð á mestu eignaspjöllum Íslandsögunar hefðu axlað hana í upphafi. Gleymum því heldur ekki að á meðan fólk eins og þú eru að skrifa um tegundir mótmæla þá er þessi sami hópur að reyna að koma öllu í sama gamla farið og þú ert að hjálpa honum með því að drepa umræðunni svona á dreif.

Ferningur, 3.1.2009 kl. 14:02

2 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Kommúnískum áróðri troðið í 8 ára barn

Leikur að kommúnisma "Raddir fólksins" eru gersamlega að ganga fram af mér, þótt ég af öllu hjarta styðji friðsamleg mótmæli gegn ríkisvaldi sem er að troða lýðræðinu í ræsið með þaulsetu ráðherra langt yfir þeirra vitjunartíma.

Í því ástandi sem er að skapast hér í kjölfar þess að bankar og hagkerfi er hrunið, er nauðsynlegt að ráðamenn axli ábyrgð, leiti til forseta að skipa utanþingsstjórn í "björgunarleiðangurinn" og boðað sé til nýrra kosninga. Þetta er fullkomlega eðlileg krafa og þeim sem þykir vænt um landið sitt eiga með friðsömum mótmælum að krefjast þess að þetta sé gert.

Barn hermaður Hisvegar set ég spurningarmerki við ábyrgðarleysi þeirra foreldra sem stilla óþroskuðu barni sínu á kommúnískan ræðupall framan við þúsundir manns.  Í raun finnst mér það verkefni fyrir Barnavernd að kanna fjölskylduaðstæður barnsins og hvort ástæða sé til inngripa í uppeldið.

Við hlið barnsins er kynntur einn harðasti kommúnisti Íslands, Einar Már Guðmundsson sem er m.a. einn aðstandenda Dagblaðsins Nei sem aðstandendur kynna á netinu sem "kommúnískt dagblað".  Einar hefur unnið sem moldvarpa kommúnista í mótmælum hér, bæði hvað varðar fundina á Austurvelli og Opinn Borgarafund. Kemur þar bæði að skipulagi og ítrekað sem ræðumaður.

Barnhermaður Öðrum sem gætu haft önnur sjónarmið fram að færa er gjarnan úthýst. Þannig var mér t.d. varpað á dyr með ofbeldi af þremur fílefldum karlmönnum af einum skipulagsfundinum eftir að Einar Már og félagar héldu atkvæðagreiðslu að sovéskri fyrirmynd um að mér skyldi vísað út fyrir þær sakir að hafa deilt á vinnubrögðin.  Ádeilan sem ég hafði sett fram var að yfir 70% af ræðumönnum á Austurvelli tengdust flokknum Vinstri Grænir á meðan fólki úr öðrum flokkum var meinað að tala á mótmælafundum.

Ég hafði trú á Vinstri Grænu þar til ég varð vitni að vinnubrögðum þeirra og hvernig þeir fótum troða lýðræðið á fundum sínum. Nú hef ég áttað mig á því að þessir aðilar stefna á að koma upp kommúnísku ríki á Íslandi að fyrirmynd Sovétríkjanna og Kína.

Ástþór Magnússon Wium, 3.1.2009 kl. 14:14

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ferningur: Ég er að tala um raunveruleg vandamál og raunverulegar þjóðfélagsbreytingar. Ég er að tala um samfélag sem er að breytast úr verksmiðjusamfélagi þar sem orðræðan er línuleg og miðstýrð í þekkingarsamfélag eða starfendasamfélag  þar sem allir taka þátt, mismikinn þátt en þar sem sköpunin og framleiðslan er ekki matreitt ofan í okkur heldur er síkvikt kerfi þar sem engin skörp skil eru milli hver er framleiðandi og hver er neytandi - og fólk er ekki eins heldur styrkurinn er fólginn í margbreytninni og hvernig mismunandi einstaklingar og hópar vinna saman. Ekki samfélag þar sem einn er með gjallarhorn heldur samfélag þar sem margir hafa sín eigin hljóðfæri, hljóðfæri sem þeir hafa sumir búið til sjálfir og sumir tjá sig bara með rödd og lófum en samt vinna hljóðfærin saman og  búa í sífellu til ný hljómverk með blöndun og endurblöndun.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 3.1.2009 kl. 14:23

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ástþór: Ég skil vonbrigði þín yfir að fá ekki að tala á Austurvelli og að þér þyki súrt að  börn fái að tala þar en þú þurfir að þegja. En það eru margir sem vilja tala þar og Hörður hefur verið slyngur að fá alls konar fólk og láta alls konar raddir heyrast. Ég ráðlegg þér að skrifa bara á bloggið þitt þær ræður sem þú hefðir haldið ef Hörður hefði viljað leyfa þér að tala.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 3.1.2009 kl. 14:30

5 Smámynd: smg

Sæl Salvör. Ég er sammála um að ekki sé æskilegt að nota börn í pólitískum tilgangi, eða öðrum.

Hvað hefði þér fundist, ef á fundinum hefði t.d. verið barn með spjaldi sem stæði á "Geir er maðurinn!" ?

Mín skoðun er að Íslenska þjóðin hafi á herðum sér það verkefni að koma frá gerspilltum mafíusmituðum auðvaldsflokki, halda  litla græna og undirgefna mafíu flokknum frá völdum, og tryggja að grundvallarbreytingar verði á hugsunarhætti stjórnmálamanna almennt.

Þó að rétt á meðan séu smáir hópar í öfgakenndum mótmælum, eru það smámunir miðað við hvað stjórnvöld síðustu tæpra tveggja áratuga er búin að ræna frá Íslensku þjóðinni.

smg, 3.1.2009 kl. 16:44

6 identicon

Þakka fyrir þessi myndbönd. Það er greinilegt að nægar voru viðvaranirnar aður en gasinu var sprautað.

Mer fannst eg sja ljosmyndarann Spessa við annan mann taka upp murstein og gryta i næstsiðasta myndbandinu, getur það verið?

Þorður Ingi (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 17:55

7 identicon

Þakka þér kærlega Salvör fyrir að sýna okkur þína hlið þessara sögulegu mótmæla á gamlársdag. Margt afar fróðlegt kemur fram í því sem þú skrifar og sýnir á myndböndum.

Ég taldi ansi margar hettur á höfðum fundarmanna á Austurvelli í dag. Reyndar töluvert fleiri en ég varð vör við í Kryddsíldarmótmælunum með Herði Torfasyni á gamlársdag. Að sjálfsögðu klæðumst við öll eftir tilefninu og skýlum okkur fyrir því sem við þurfum hvort heldur það er rigningarúði af himnum eða gasúði fautalegrar lögreglunnar. Hörður Torfason talaði niður til mín í dag og margra annarra. Fyrir það fær hann skömm í hattinn frá mér. Og svo ætlast hann til að við sýnum samstöðu. Sýni hann sjálfur samtöðu segi ég nú bara.!

Auk þess finnst mér það ábyrgðarhluti hjá honum að setja barn í fremstu víglínu, þó Dagnýju Dimmblá hafi mælst sérlega vel í ræðu dagsins. Halldóra og Einar Már voru líka með feiknfínar ræður bæði tvö.

Börn í fremstu víglínu?

http://svanurg.blog.is/blog/svanurg/entry/761208/

Guggan (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 19:47

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Guggan: Ég var nú ekki á mótmælunum í dag, ég er eiginlega ennþá að jafna mig á kryddsíldarmótmælum en hingað til hefur ástandið verið frekar vinalegt á mótmælunum sem Hörður stjórnar og börn svo sannarlega ekki í neinni hættu enda margir tekið börnin sín með sér. Stundum hafa þau komið með eigin kröfuspjöld, spjöld sem ég er viss um að þau hafa gert sjálf.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 3.1.2009 kl. 21:01

9 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Þórður Ingi: Ég sá engan grýta neinu nema einhverjum hvítum pappír. þeir mótmælendur sem ég fylgdist með voru mjög meðvitaðir um að beita ekki ofbeldi þó þau skirrðust ekki sum við að brjótast inn í hús og skemma kapla.

Reyndar var mesta ofbeldið hótunin sem ég varð fyrir þegar stelpa hótaði að rífa af mér myndavélina og kallaði til mín ókvæðisorðum. Hún var miklu ruddalegri en þessi hagfræðigaur sem allir eru að vitna í. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 3.1.2009 kl. 21:04

10 identicon

Salvör: Jú það er alveg rétt hjá þér að það hefur verið áberandi hvað barnafólk hefur verið duglegt að mæta á laugardögum - og ég er alls ekki að mæla því í móti. Þar axlar hvert foreldri sína uppeldisábyrgð eins og vera ber.

En ákúra mín snýr að því að senda börn upp á svið mótmælenda til ræðuhalda og standa þar „í fremstu víglínu“ - þar set ég mér mörk. Eflaust meint vel hjá Herði kallinum og til að gera þetta enn manneskjulegra allt saman, en aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Það sást síðan vel hvernig sjónvarpsfréttir kvöldsins veltu sér uppúr „gúddí fílíngnum“ í kringum Dagnýju Dimmblá (sem hún var vel að komin blessað barnið) en sneiddu nánast alveg hjá hrópunum að Yfirstjórnandanum.

Lestu endilega pistilinn hjá Svani:

http://svanurg.blog.is/blog/svanurg/entry/761208/

Hann er þar með þarfa áminningu til okkar sem teljumst fullorðin og þá er ég líka að meina þann frábæra hóp ungmenna og stúdenta sem margir úthrópa sem krakkasskríl þessa dagana.

Framtíð okkar allra er í húfi og ekki síst þessa unga fólks.

Og enn og aftur vil ég þakka þér fyrir hugrekkið að taka virkan þátt í borgaralegrii óhlýðni - vertu stolt af því! Áfram stelpa!

Guggan (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 22:41

11 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Það hefur ekki tíðkast á Íslandi að mótmæla af neinum krafti. Þegar þjóðinni hefur misboðið eitthvað nægilega til að ekki dugir lengur að tuða í eldhúsinu eða á kaffistofum þá mætir fólk á Hlemm, röltir niður Laugaveginn í breiðfylkingu og endar á Austurvelli. Þar eru haldnar ræður og ráðamenn láta eins og ekkert hafi gerst.

Staðan í dag er orðin önnur. Mótmæli dagsins snúast ekki um vafasamar virkjunarframkvæmdir eða staðbundin náttúruspjöll. Þær snúast um gjaldþrot þjóðarinnar. Þær snúast um að mótmæla algeru ráðleysi, nema ef vera kynni siðleysi, þeirra sem stjórna landinu. Forsætisráðherra segir í apríl að hann telji rangt að bankarnir séu orðnir of stórir fyrir þjóðina. Hann segir í september að vandamál erlendra fjármálastofnana muni ekki hafa áhrif á íslenskt bankakerfi, en í október þá varð hrunið ekki umflúið vegna vanda erlendra bankastofnana. Þessum manni, sem greinilega sér ekki fyrir húshorn í fjármálum, er engan vegin treystandi til að bjarga þjóðinni úr þeim kröggum sem hann og hans flokkur hafa komið henni í. 

Hvað samstarfsflokkinn áhrærir þá er þar engra vona að vitja. Öryggisráðsklappstýran hefur gert meira ógagn en gagn og kostað þjóðina einhverja milljarða í að eltast við framadraum Halldórs Ásgrímssonar.

Reynsla okkar er sú að raddir hinna prúðu mótmælenda eru hunsaðar. Tími borgaralegrar óhlýðni er runninn upp. Ef lögregla fer að beita auknu ofbeldi í kjölfarið til þess eins að hægt sé að senda út einhvern hvítþvott þeirra sem ég nefndi hér að ofan, þá er valdníðslan staðfest. Þegar svo er komið, þá er illt í efni og aðeins vondir valkostir framundan. 

Sigurður Ingi Jónsson, 4.1.2009 kl. 11:45

12 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Guggan: Ég get nú ekkert stært mig af borgaralegri óhlýðni, ég hef alla vega reynt að vera eins löghlýðin og mér  er frekast unnt og hlýða fyrirmælum lögreglu tafarlaust.

Neyðarblysin við stjórnarráðið voru tæpast ólögleg (það má vera með blys á þessum árstíma) amk er mér ekki kunnugt um það og ég hef enga ástæðu til að ætla að auglýst óganga hafi verið ólögleg - það hafa verið farnar svona grínkröfugöngur oft áður og þetta var bara framhald af því. Voru hinar allar ólöglegar? Eða var þessi bara ólögleg af því hún gekk mikið út á að mótmæla ástandinu? Má hafa sprellgöngu þar sem þú mótmælir einhverju rugli t.d. að rauðir bílar keyri á götum Reykjavíkur en ekki ef þú vilt koma því á framfæri að ríkisstjórnin sé vanhæf? 

Þessi ganga var mjög kyrfilega auglýst - á facebook og líka sá ég í dagblöðum og á netmiðlum. Fólk skráði sig meira segja fyrirfram til þátttöku, sennilega skráðu svartálfarnir sig ekki, hluti af þeirra stíl er að vera andlitslaus og þekkjast ekki. En það er stjórnarskrárvarinn réttur að mega mótmæla - þarf einhver leyfi til þess? 

Það var hins vegar borgaraleg óhlýðni að fara inn á Hótel Borg og það var ekki nema mjög lítill hluti þeirra sem þarna voru sem gerðu það. Það gerði ég ekki heldur en gat reyndar ekki stillt mig um að beina myndavélinni minni að innganginum en held nú að myndataka af mótmælendum í borgaralegri óhlýðni sé kki ólögleg.

En þeir sem fóru inn i hótelið  voru held ég flestir meðvitaðir um að það mætti ekki en reyndu að paufast sem mest og ströggla m.a. með að sitja og þvælast fyrir svo það væri erfiðara að losna við þá. Lögreglan var nú reyndar mjög þolinmóð og það voru allir bara að bíða eftir gasinu, það kom engum á óvart held ég. Reyndar sé ég og heyri á vídeóunum hvernig sumir mótmælenda ískra af kátínu þegar gasið er loksins komið. 

Það var um tíma frekar alvarleg staða, sérstaklega eftir að lögreglan hafði beitt gasinu, sumir urðu mjög æstir og ráðvilltir og voru að missa stjórn á sér. fólk var með flugelda á sér og það hefði ýmislegt getað gerst. Þess vegna skulum við þakka lögreglunni að hafa sýnt þá stillingu sem hún gerði, eitt feilspor hjá þeim hefði getað orðið til að allt varð brjálað. 

En reyndar alltaf allt vitlaust á gamlársdag í miðbænum þegar faðir minn var ungur maður. Það er kannski siður sem nú er verið að taka upp aftur.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 4.1.2009 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband