Fólkið hrópaði "Vanhæf ríkisstjórn"

 

Hér eru vídeó sem ég tók upp í kryddsíldarmótmælunum. Það var magnþrungin stemming inn í portinu við Hótel Borg, þetta var eins og hljómkviða. Sumir voru með potta og ýlur og þvottabretti og fólkið hrópaði í kór "Vanhæf ríkisstjórn" og "Valdníðsla" og að þetta væru lögleg mótmæli en ólögleg ríkisstjórn.  Ég sá ekki þegar sprautað var með piparúða. Ég heyrði bara mjög óljós í einhverjum mjög ámátlegum og máttlausum háttalara að þetta væri síðasta aðvörun, lögreglan hefði fengið heimild til að nota táragas. Það skemmdi stemminguna dáldið og mér fannst hyggilegt að koma mér langt út á Austurvöll. Nú veit ég ekki hvort að piparúði og táragas er það sama, mér finnst orðið piparúði hjóma eitthvað minna ógnvekjandi, er piparúði sama og táragas? 

En mér finnst bara hallærislegt að lögreglan sé svo illa búin að hún hafi einhver hátalaraskrapatól sem næstum heyrist ekkert í, það var bara mildi að ég heyrði þessa viðvörun lögreglunnar, hún drukknaði næstum í mótmælaskarkalanum. Svo er ég ekki frá því að mér hafi vöknað um augu, ég veit ekki alveg hvort það var út af einhverjum piparúða eða hvort það var út að  því sem einn strákurinn hrópaði að lögreglumönnunum. Hann hrópaði "Af hverju standið þið ekki með okkur? Þeir hafa rænt ykkur líka. Þið eruð í sömu sporum og við"

Eftir mótmælin leit sviðið á einum stað svona út:

 


mbl.is Mótmælin áttu að vera friðsamleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Takk aftur, Salvör, fyrir að lofa okkur hinum að sjá þetta. Ætti að þagga niður í þeim, sem halda því fram að mótmælendur hafi byrjað ofbeldið.

Björgvin R. Leifsson, 31.12.2008 kl. 22:18

2 identicon

Svona til þess að svara hugleiðingu þinni:

Táragas er ekki það sama og piparúði. Piparúði er búið til úr capsaicin sem er eitur úr ákveðnum plöntum, t.d. chilli ávöxtum. Þessu fitukennda efni er blandað við vökva til þess að geta úðað því yfir fólk.

Táragas er hinsvegar allt annað efni eins og sést á wikipedia:

http://en.wikipedia.org/wiki/CS_gas

Þetta er reyndar eitthvað sem að fólk ruglar saman sem getur valdið miklu meiri ótta hjá fólki sem veit hvað átt er við með bæði.

Fræðingur (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 00:17

3 identicon

Piparúða má nota til sjálfsvarnar og er selt fólki, Táragas er aftur ámóti flokkað sem efnavopn og er aðeins notað í eiturefnahernaði (var ein af afsökunum Halldórs Ásgrímssonar fyrir stríðinu við Saddam)

baddibæk (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 01:01

4 identicon

Björgvin Rúnar - ef ég ákveð að fremja lögbrot og lögreglan veit af því og kemur á móti mér - á lögreglan þá upptökin af átökunum? Ég held varla - siðblinda af þessu tagi ætti ekki að vera þér samboðin en þú veist sjálfsagt hvar þín sjálfsvirðing liggur ef einhver er.

Ólafur I Hrólfsson

Ólafur I Hrólfsson (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 02:49

5 identicon

Þetta hyski sem hangir þarna og hrópar "fasistar" (án þess að hafa hugmynd um hvað það orð merkir) að lögreglunni eru ekkert annað en krakkaaumingjar í frekjukasti. Mágur minn komst ágætlega að orði þegar hann sagði "allir þeir sem hafa alið upp börn í frekjukasti taka ekki mark á þessu rugli"

Mótmæli eru eitt og skemmdarverk, athyglissýki og KJAFTÆÐI eru annað. Þetta er greinilega fólkið sem sagði "hey förum og hendum í seðlabankann, löggan getur ekki gert jack shit!"

Athyglissjúkt pakk! Skemmir málstaðinn fyrir okkur hinum.

Þegar ég sé þetta get ég ekki annað en spurt....

HVAR ERU MÆÐUR ÞESSA LANDS?!??!

Þórður Ingi (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 03:27

6 identicon

Samkvæmt stjórnmálafræðingnum Dr Lawrence Britt eru fjórtán atriði sem einkenna fasískt samfélag. Ég sé ekki betur en að amk 4 þeirra eigi ágætlega við Ísland í dag.

Eitt af einkennum fasisma sem Dr Britt nefnir er að lögreglu (og her þar sem hann er til staðar) er beitt til þess að kæfa niður andspyrnu, hylma yfir allskyns spillingu yfirvalda og viðhalda völdum fámennra hagsmunahópa.

Annað einkenni sem er að verða mjög áberandi í okkar samfélagi er mikið eftirlit með fólki sem er stjórnvöldum til óþæginda. 

Þriðja einkennið sem öllum ætti að vera ljóst er mikil spilling á öllum sviðum og fjórða einkennið að stórfyrirtæki hafa mikil völd sem eru vernduð af lögum og ríkisvaldi.

Þegar fólk hrópar 'fasistar'  er verið að vísa til þess að við búum þegar við fjögur einkenni af fjórtán og það er bara tímaspursmál hvenær fleiri fasísk einkenni ná yfirhöndinni hér. Þessu er beint sérstaklega til lögreglu vegna þess að það er blind þjónkun lögreglumanna við valdhafa sem gerir það mögulegt að koma á fasistaríki.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 09:20

7 identicon

Ég var svo heppin sjálf að fá góða aðhlynningu bæði frá leikmönnum og sjúkraliðum á vegum slökkviliðsins í dag. Þegar ég var búin að jafna mig fór ég aftur á staðinn en var búin að hylja andlit mitt þegar úðanum var beitt í annað sinn og fór þá að sjálfsögðu í það að koma fólki að sjúkrabílunum og aðstoða á annan hátt. Ég sá aðeins einn krakka í þessum hóp og hann þurfti ekki hjálp en nokkuð var um ungmenni á aldrinum 20-30 ára.

Þegar reiðin í samfélaginu er komin á það stig að upp rísa hópar sem setja sér það markmið að trufla fundi ráðamanna, hvenær sem því verður við komið, þá þarf lögreglan að fara að gera upp við sig hvort hún ætlar að sýna það þrælseðli að halda áfram að vernda hagsmuni fámennrar valdaklíku sem í þokkabót er gerspillt, eða láta almenning um að koma henni frá völdum.

Það er ekki við því að búast að fólk sem er heilaþvegið til undirgefni við valdhafa, hversu ógeðfelldir sem þeir eru (eins og lögreglumenn eru) hugsi sjálfstætt og taki ábyrgð á gjörðum sínum en það má þó gera þá kröfu til þeirra að þeir haldi aftur af þörfinni fyrir að sýna vald sitt þegar fólk er að tínast burt með hendur á lofti.

http://hehau.blog.is/blog/hehau/

http://salvor.blog.is/blog/salvor/entry/759037/

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 10:55

8 Smámynd: Ólafur Tryggvason

Eva, Björgvin og þið hin, hvað heitir ykkar vinnustaður og ykkar vinnuveitandi?

Kannski hafa þeir gert mér eitthvað og kannski er kominn tími til að ég safni liði og mæti á staðinn með flugelda og grjót að vopni, kasti drasli og öðru lauslegu í saklausa starfsfélaga ykkar og ykkur sjálf ásamt því að ráðast á ykkur með ofbeldi og öskrum.

Starfsfólk Stöðvar 2 og Hótel Borgar hefur ekkert unnið sér til sakar sem réttlætir það að lenda í þessari lífsreynslu hverjir svo sem eigendur eru á þeim fyrirtækjum séu. Að þið hafið ætlað að trufla útsendingu með því að toga í eða brenna snúru og halda það að það sé bara eitthvað eins og að toga í sjónvarpskapalinn í stofunni þinni sínir einungis hvaða kjánar þið eruð og hvað málflutningur ykkar er veikur og tilviljunarkenndur.

Það skiptir engu máli hver ykkar málstaður er hann er dæmdur dauður og ómerkur með þeirri framkomu sem sést á þessum myndbrotum öllum, líka þeim sem þið sýnið frá ykkar hlið og viljið meina að sé "saklaus".

Ólafur Tryggvason, 1.1.2009 kl. 11:33

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er mjög fróðlegt að lesa orðbragð þeirra sem hér eru að gagnrýna mótmælendur.  Það lýsir samræðuþroska þeirra: ''hyski'', ''athyglissjúkt pakk'','' gangir ekki heil til skógar'', ''greindarvísitölu við frostmark'', ''krakkaaumingjar í frekjukasti'', ''siðblinda''. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.1.2009 kl. 11:52

10 identicon

Það er sárt að horfa upp á það sem gerðist í gær, og í fyrsta skiptið á æfinni skammaðist ég mín fyrir að kalla aðra Íslendinga landa mína. Maður horfir á fólk í öðrum löndum láta eins og bjána og fá útrás fyrir skemdafýkn sýna og hefur hingað til getað sagt að svona nokkuð gerist ekki hjá viti bornum Íslendingum. Þarna var maður að reina að fá upplýsingar frá ráðamönnum Íslendinga og þá kemur lítill hópur hriðjuverkamanna og skemmir það fyrir öllum öðrum. Ég veit ekki hver skilgreiningin fyrir hriðjuverkamann er en ég tel að þegar fólk ræðst gegn lögreglunni og skemmir eigur annara þá sé það komið nokkuð nálagt því að falla í þann hóp.

Skammist ykkar.

Guðmundur Ragnar Rúnarsson (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 11:53

11 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Frá mínu sjónarmiði séð, vantar okkur ekki meira af upplausn, ofbeldi eða skemmdarverkum. Fjárráð okkar eru sérstaklega þröng núna, þegar allar leiðir til lánsfjáröflunar hafa verið fullnýttar og enginn treystir okkur fyrir meira lánsfé. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að fara vel með öll verðmæti og valda ekki skemmdum að óþörfu.

Mér virðist þjóð okkar fyrst og fremst vanta hugmyndafræði að sem flestum þáttum stjórnunar þjóðfélags okkar, en hvorki markmiðslaus hróp og köll, árásir eða skemmdarverk.

Ég vil því skora á þetta unga fólk, sem hrópar hæst, að setja saman nothæfa hugmyndafræði um stjórnun samfélagsins, þar sem tekjugrunnur þjóðarinnar er í forgrunni.

Það er mikið um það fjallað, hve vel mentuð þjóð okkar er. Þið eruð ung, með ferskan huga. Virkið orku ykkar til sköpunar á nýju hugmyndakerfi til reksturs þjóðfélagsins, því slíks er mikil þörf núna. Mætið svo til  leiks með þá hugmyndafræði. Gangi hún upp, sannið þið rétmæti óánægju ykkar og öðlist virðingu allra sem nú þegar eru að leita leiða til betra samfélags; en gera það án ofbeldis eða skemmrarverka. 

Guðbjörn Jónsson, 1.1.2009 kl. 12:15

12 identicon

Guðbjörn. Það er til nóg af fólki með nothæfar hugmyndir um stjórn samfélagsins en sá öfgakapítalismi sem ríkisstjórnin hefur boðað og ástundað er greinilega ekki ein þeirra. Það verður að koma þessu fólki frá völdum.

Nei Vilmundur, ég hélt ekki og tel ólíklegt að nokkur maður hafi haldið, að lögreglan myndi ganga til liðs við okkur á staðnum. Hinsvegar höfum við séð á undanförnum vikum að fleiri og fleiri lögreglumenn kjósa að beita sér eins lítið og þeir komast upp með. Í aðgerð við ráðherrabústaðinn ekki alls fyrir löngu sögðu 2 lögreglumenn við mótmælendur að þeir óskuðu frekar eftir því að fá fyrirskipun um að handtaka einhvern ráðherranna en þeir yrðu því miður að hindra okkur í að meina þeim aðgang. Fyrir fjórum árum voru unglingar á aldrinum 12-18 ára, dregnir á hárinu út af skrifstofum Alcoa. Nú í síðasta mánuði braut hópur fólks sér leið inn í fjármálaráðuneytið án þess að lögreglan (sem mætti vel liðuð á staðinn) gerði neitt í málinu.  Þetta segir mér bara að margir lögreglumenn vildu helst láta okkur afskiptalaus og ég vona bara að sem flestir þeirra eigi eftir að ganga svo langt að hundsa skipanir yfirmanna um að beita piparúða og öðru ofbeldi og hætta að styðja þá félaga sína sem fóru í lögguna til þess að geta verið á stöðugu páerflippi.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 12:45

13 identicon

Tókstu ekki myndir af því þegar starfsfólk stöðvar 2 reyndi að varna óviðkomandi fólki aðgangi að vinnusvæði þeirra í þessum hliðardyrum, áður en lögreglan kom í hurðina? það sá ég á visir.is og það var ekki fallegt... Á ekki næst að henda múrsteinum í blaðburðarbörn Fréttablaðsins fyrir að dreifa orðum stjórnarliða... er það ekki allt í lagi bara? þetta er hvortsemer "Baugsmiðill"??!!

Mér fannst gaman að heyra í mótmælunum í bakgrunni í kryddsíldinni og sjá óróann í augum þeirra sem þar sátu í mynd... að hindra Geir H Haarde frá því að komast í útsendinguna fannst mér gott mál

Ég var fylgjandi borgalegri óhlýðni upp að vissu marki -ná athygli, valda truflun en þetta er komið yfir strikið... langt yfir það...

Afraim (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 14:18

14 identicon

Mótmælendur við Kryddsíldina voru á öllum aldri og fæstir komnir á staðinn til að skemma eitt né neitt. Markmið mótmælanna var að láta í sér heyra með hrópum og hávaða til þess að ráðamenn, sem alla jafna eru umkringdir já-fólki, fynndu fyrir ólgunni í samfélaginu og að í útsendingunni heyrðist að fólk væri óánægt með ríkisstjórnina. Þetta tókst líka mjög vel. Einhverjir brutu sér síðan leið inn í andyri Hótelsins, til þess að betur heyrðist í þeim, geri ég ráð fyrir.

Ég var staddur á mótmælunum, ég er N.B. yfir fertugu, og mér fannst þau fara vel fram í stórum dráttum. Langflestir létu sér nægja að hrópa og klappa og gerðu ekkert ólöglegt. Ég tók ekki eftir því að neinn væri að skemma neitt og sá það eftir að ég kom heim á vefmiðlum. Flestir voru bara að hrópa og klappa á ríkisstjórnina. Síðan er öllum kennt um skemmdir, rétt eins og 300 manns hefðu verið saman komnir til þess að lumbra á fréttamönnum og skemma hluti. Það er ekki rétt.

Hrólfur (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 16:54

15 identicon

það er ljótt að skemma þessi kreppa hefur kostað fólkið miljónir og á eftir að kosta enn fleiri milljónir  bara ég tapaði 1.5 m á bílaláni og sé fram á að tapa einni íbúð til og það er í lagi en ekki reina að koma ráðamönnum í skilning um að þeir eru til trafala er það það sem Afraim, Guðbjörn, Guðmundur, Ólafur T, Vilmundur, Þórður og Ólafur I Hvilja

PS sá á netinu að eiðilegging fyrir 4 miljónir (4.000.000) á dag í 7.500 daga er svipað og aðgérðarleisi stjórnvalda kostar

baddibæk (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 16:55

16 identicon

Sá myndband þar sem reiður mótmælandi kvaðst vilja fá skýringu á hver bæri ábyrgð á betingu piparúðans. Ég myndi segja að hann bæri sjálfur ábyrgð á beitingunni og ég væri alveg til í að bera hana fyrir hann.

Þarna ruddist fólk með látum inn og hóf að skemma hluti sem þarna voru. Lögregla kemur á staðinn og gefur skýr fyrirmæli sem ekki er hlýtt. Staðinn heldur fólkið látunum áfram og auðvitað bara moka liðinu út með piparúða.

Þegar komið er út í svona aðgerðir þá er ekki hægt að láta ykkur afskiptalaus, lögregla er mætt á mótmæli fyrst og fremst til að tryggja líf og limi ásamt eignum almennings. Um leið og farið er að brjóta og bramla ber að skakka leikinn. Ef þér finnst það eðlilegt að þið valsið inn og brjótið og bramlið í þágu ykkar málstaðs held ég að ekki sé mikið varið í þennan málstað.

Það hafa farið fram mótmæli og mikill fjóldi mætt á austurvöll sem hafa farið friðsamlega fram og ég held að það séu þau mótmæli sem hafa mest áhrif.´afþví hver heldur þú að taki mark á nokkrum skemmdarvörgum.

Þessi fasísku atriði sem þú nefnir þarna ert þú búin að misnotka sem gerir þig líklega fasista. Eru mótmæli kæfð niður á íslandi? Nei hafa ekki verið kæfð niður. Þegar hópur lögreglumann mætir með gúmmíkúlubyssu og táragas og svælir Hörð torfa af austurvelli er byrjað að kæfa niður mótmæli. 

Hvaða sannanir hefur fyrir auknu eftirliti með borgaranum, það er engin leyniþjónusta og eingin sem situr fyrir utan húsið þitt og ætlar að handtaka þig fyrir að skrifa hér skoðanir þínar.

Farðu og fyndu fyrir mig lög sem vernda stórfyrirtæki, get nú ekki betur séð en að eitt íslenska stórveldið hafi verið hundelt af íslenskum stjórnvöldum. Sem aldrei gekk neit rosalega vel.

Árni (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 17:24

17 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Gleðilegt nýtt ár allir!

Ég tók þátt í þessum mótmælum og vissi ekki til annars en þau væru fullkomlega löglegt þ.e.  að safnast saman við stjórnarráðið kl. 13:30, kveikja þar á neyðarblysum og svo ganga að Austurvelli og vera þar þegar Kryddsíldin byrjaði og reyna með háreysti að komast inn í útsendinguna líka með neyðarákall.  meirihluti þeirra mótmælenda sem voru á Austurvelli var reyndar fólk sem stóð bara álengdar þarna og fylgdist með.

Ég hugsa að einhver hópur mótmælenda hafi ætlað að gera meira, mér sýnist það á skjólgóðum klæðnaði þeirra svo sem treflum sem náði alveg fyrir andlitið og hlýjum svörtum hettum (vonandi úr íslenskum lopa)  og hve vel nestuð þau voru (btw mjög hollt nesti,  virtust vera útbúin með lauk, sítrónur og mjólk).

Ég held hins vegar að það hafi ekki verið planað hvernig þetta fór og enginn séð fyrir (amk ekki ég) að það yrði að fresta Kryddsíldinni. Það er mjög miður. Ég hefði litið á það sem ágætis árangur ef veik neyðaróp frá ógöngufólkinu hefðu náð inn í viðtæki landsmanna í bakgrunni á Kryddsíldinni í byrjun. Ég hugsa að það hafi líka verið ætlunin - bara að stela senunni eitt sekúndubrot.

En svona gerðist þetta eins og ég sá það: 

Það byrjuðu svo einhverjir (2 eða 3 að mig minnir) fóru að berja á rúður á Hótel Borg en eftir skamma hríð þá var kallað að það væri enginn fyrir innan og þá fór fólkið í andyrið og svo inn í port - sem mér í fyrstu virtist lokað en var svo galopið og mannfjoldinn for þar inn. Það  magnaðist svo upp mikil spenna í þessu porti. Ég sé núna á vídeói að margir hafa reynt að koma sér inn í húsið sem auðvitað var kolólöglegt.  Mér virtist hins vegar flestir í portinu vera þar eingöngu í því markmiði að hafa uppi háreysti, láta heyrast inn í útsendinguna.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 1.1.2009 kl. 18:39

18 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Bendi á að ég er búin að setja nokkur vídeó inn á youtube, það er hægt að horfa á þau í hærri upplausn (smella á watch in hign quality) en á moggabloggsvídeóum.

http://www.youtube.com/watch?v=20-xiRxjUR0

http://www.youtube.com/watch?v=2FLnbjEP1aE 

http://www.youtube.com/watch?v=4HDaij3zv14 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 1.1.2009 kl. 18:42

19 identicon

Þann tíma sem ég var þarna, eða um 50 mínútur (frá blysförinni og áfram) var áherslan á að gera hávaða, láta í sér heyra. Ég er einn þeirra sem sló flötum lófa á glugga hótel Borgar og kallaði ríkisstjórn vanhæfa. Sé ekkert rangt við það.

Hinsvegar tek ég ekki þátt í barsmíðum og það að stefna fólki með blys, á stað sem þennan kalla ég vafasamt svo ég taki ekki dýpra á árinni. Alltaf eru einhverjir inni á milli sem kunna ekki að fara með eld.

Ég held að þau sem skipuleggja svona mótmæli þurfi að hafa með sér fólk, sem kann að taka á hettu- og grímuklæddum nafnleysingjum sem eru komnir til að búa til öngþveiti. Annars eru svona atburðir vísir til að fara úr böndunum, sem ég er ekki viss um að skipuleggjendur vilja.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 20:25

20 identicon

'Ég held hins vegar að það hafi ekki verið planað hvernig þetta fór og enginn séð fyrir (amk ekki ég) að það yrði að fresta Kryddsíldinni.'

Ég get staðfest að það var hópur þarna sem kom með því ágæta markmiði að trufla fundinn og helst rjúfa útsendingu líka. Ég fjalla nánar um það hér.

Hinsvegar voru ekki teknar neinar sameiginlegar ákvarðanir um skemmdarverk og því síður ofbeldi. Ég á ákvaflega bágt með að trúa því upp á það fólk sem ég vinn með að nokkur í þeim hópi hafi beitt ofbeldi eða varið sig með sérstakri hörku.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 05:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband