7.12.2008 | 16:52
Nýja Rúgbrauðsgerðin
Við erum ekki fransbrauð, við erum rúgbrauð, sagði Gerður Kristný í ræðu á mótmælafundi á Austurvelli og benti á að við eigum fiskimiðin og auðlindirnar og annað sem við getum nýtt okkur til að koma okkur á rétta braut. En þetta er blekking. Hvorki ég né Gerður Kristný eigum neítt í fiskimiðunum þó um það séu fjálgleg orð í íslenskum lögum. Rétturinn til að nytja fiskimiðin var afhentur útgerðarmönnum og úr þessum rétti voru búnir til peningar sem skoppuðu til og frá um íslenskt hagkerfi og bólgnuðu upp og aftengjust við útgerðina og urðu bara ennþá ein peningabólugerðarvélin á Íslandi.
Hver á kvótann í dag? Eru það bankarnir í gegnum gjaldþrota útgerðir? Eru það þá ekki erlendir kröfuhafar bankanna sem raunverulega munu eiga íslenska útgerð ef þeim verður afhent þrotabú bankanna. Hvers vegna má ekki þjóðnýta fiskimiðin á Íslandi í dag á sama hátt og það mátti þjóðnýta banka á Íslandi og byggja upp áætlanir sem miða að endurreisn sams konar kasínókapítalisma kerfis með fulltingi IMF?
Og hvernig er það með aðrar auðlindir á Íslandi? Sannleikurinn er sá að undanfarna áratugi hafa fulltrúar peningaaflanna haft öll ítök í stjórnmálum á Íslandi m.a. með því að efla og styrkja sína kandidata og þá sem eru vænlegir hagsmunagæslumenn þeirra til stjórnmálabaráttu. Þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa leynt og þó aðallega ljóst unnið í einhvers konar þráhyggju einkavæðingadýrkunar að því að breyta Íslandi í vettvang verðmiðanna þar sem væri verðmiðar á öllu sem ríkið ætti og allt væri falt og eins auðvelt væri að selja Ísland í bútum eins og að láta vatn falla niður í móti í fallvatnsvirkjunum. Það er tílviljun að ekki er lengra komið í því að selja burt íslenskar auðlindir á sviði orkumála eins og að láta burt kvótann og bankakerfið. Það er enginn ástæða til að treysta þeim sem töluðu eins og þeir byðu upp á trausta efnahagsstjórn (loforð Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar). Þeir buðu bara upp á yfirhylmingu og hagsmunagæslu fyrir fjármagnseigendur og núna eftir hrunið þá botnlausa og örvæntingarfulla spillingu.
Ég er hvorki franskbrauð né rúgbrauð þó Gerður Krisný haldi því fram. Þær leiðir sem við Íslendingar getum farið núna eru ef til vill bara tvær. Annars vegar að verða þurfamenn sem haldið er uppi með bónbjörgum í jaðarsvæði eða nýlendu þar sem tappað er af orku og hráefnum fyrir vinnslu og neyslu annars staðar, þurfamenn sem séð er fyrir brauði til að þeir kjósi rétt svona svipað múgurinn í Róm til forna fékk mjöl svo hann væri þægur. Eða að taka til okkar ráða og búa sjálf til okkar brauðgerð. Nýja Rúgbrauðsgerð. Gerður Kristný og allir sem lesa þetta blogg, ég er ekki rúgbrauð en ég vil fá að stýra brauðgerðarvélum samfélagsins!
Það er engin raunveruleg verðmæti í peningagerðarvélum og braski sem er ekki í tengslum við raunverulega iðju fólks og framleiðslu.
Það er áhugavert að fylgjast með þróun borga, margir enduróma núna hina einföldu hagfræðikenningu um samband milli fjölda byggingarkrana og hruns fjármálakerfis. Núna þarf ekki annað en fara um viðskiptagötur í Reykjavík t.d. Ármúla og Síðumúla til að sjá hve illa er komið, alls staðar er tómt húsnæði og athafnalíf er lamað. Í fjármálahverfinu í Borgartúni voru fyrir nokkrum misserum mölvuð niður hús til að rýma til fyrir nýjum fjármálabyggingum. Núna eru þar margar byggingar ónotaðar. En það er smán saman að verða breyting á fjármálahverfinu og hún er sýnilegust við gömlu Rúgbrauðsgerðina. Vegfarandi sem þar gengur um sér mæður koma þarna með börnin sín, nú eru þar skólar þar sem kennd er list, þar eru dansskólar og sönglistarskólar og núna hafa ýmisr hópar sem vinna að umbætum og endurreisn á Íslandi eftir hrunið sett þar upp bækistöðvar. Þarna andspænis gömlu Rúgbrauðsgerðinni er núna Neyðarstjórn kvenna til húsa og þarna rétt hjá eru líka nýopnaðar bækistöðvar þeirrar borgarahreyfingar sem hefur gengist fyrir borgarafundum. Svo er Samhjálp með sína kaffistofu fyrir útigangsfólk þarna rétt hjá og Sjálfstæðiskonur voru líka á næstu grösum í tómri nýrri skrifstofubyggingu með ráðgjafastofu fyrir gjaldþrota Íslendinga.
Á þessum slóðum, við byrjun á því sem var fjármálahverfi gamla Íslands fyrir hrunið er nú frjósamur rúgakur þeirra sem munu byggja upp nýju Rúgbrauðsgerðina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir síðast Salvör. Sjáumst á rúgakrinum!
Anna Karlsdóttir, 7.12.2008 kl. 17:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.