Einn þingmaður af 63 axlar ábyrgð

bjarni-hardar.jpg

Ríkisstjórn Íslands hefur staðið sig með eindæmum illa. Það hlýtur að vera krafa okkar að hún segi af sér og boðað verði sem fyrst til kosninga. Stjórnarandstaðan hefur líka staðið sig illa og andvaraleysi allra þeirra 63 þingmanna sem nú sitja á Alþingi hefur verið mikið, svo mikið að það er spurning hvort þessu fólki sé treystandi til að bera ábyrgð á efnahag og velferðarmálum heillar þjóðar. Eftirlitskerfi og fjármálastjórn er í molum og athafnalífið og fjölmiðlarnir virðast gjörspillt og fléttast saman við stjórnmálamenn í alls konar vafningum og undarlegum gjörningum, sérstaklega saman við stjórnmálamenn tengda Sjálfstæðisflokknum.

Þegar ég segi að ríkisstjórnin hafi staðið sig með eindæmum illa þá á ég ekki síst við að ríkisstjórnin virðist hafa flotið sofandi að feigðarósi. Hvers vegna var það fólk sem er á launum hjá íslensku þjóðinni við að stjórna þjóðmálum og hefur til þess alls konar undirstofnanir og aðstoðarfólk ekki betur undir þessar aðstæður búið?

Það getur ekki verið að það hafi verið fyrst í september sem ríkisstjórnina fór að gruna að eitthvað gæti verið að hjá íslensku bönkunum, það voru ýmis teikn á lofti þegar  í mars 2008 um hræðilega erfiðleika banka og margir höfðu áhyggjur af því. Það veltu margir því fyrir sér hvernig bankabólan var hérna og hvenær hún myndi springa og hvað myndi gerast hérna Í þessu bloggi tóta er t.d.  skrifað um málið og Ívar Pálsson skrifar 13. mars t.d.

" Sjóðir bresta

Hugsanlega verða stærstu skellirnir þegar stórir sjóðir fara að bresta hver af öðrum á Íslandi eins og gerst hefur  í Bandaríkjunum síðustu vikur. Milljarða dollara sjóðir sem voru ofgíraðir upp fyrir haus, fá nú veðköll upp á hundruð milljóna dollara og eru þá leystir upp og renna inn til bankans. En hvað með verðbréfasjóði íslenskra banka? Rýrnunin er augljós, en einhverjir þeirra hljóta að verða leystir upp. Enn er spurt, hvernig tekst íslenskum banka að vera stikkfrí frá raunveruleikanum sem heimsbyggðin horfir á?"

Tóku stjórnvöld hérna ekki eftir því þegar Bear Stearns fjárfestingarbankinn féll í mars? Var það bara hálfu ári seinna sem þau þustu út í örvæntingu og bjuggu til neyðarlög sem þau keyrðu í gegnum þingið?

Aðgerðir íslenskra stjórnvalda eru fálmkenndar og eins og ekki sé eða hafi verið  unnið eftir  skipulagi. Sá sem býr sig undir ógnanir og gerir ráð fyrir að allt geti farið á versta veg  og hefur viðbragðsáætlun um hvernig þá eigi að bregðast við er ekki jafnóundirbúinn undir aðstæður eins og íslensk stjórnvöld voru.

Neyðarlögin virðast hafa verið skrýtin. Bæði standast þau sennilega ekki stjórnarskrá Íslands og svo eru þau ekki tekið alvarlega af neinum Evrópuþjóðum.  Það er líka mjög einkennilegt ef maður hugsar út í það að sami aðili og býr til regluverk sem gerir bankastofnunum kleift að starfa og veitir þeim starfsleyfi skuli einn daginn geta sett lög sem þjóðnýta slíkar stofnanir og svo ákveðið hverjir af þeim sem geymdu þar fé fá endurgreitt. Aðrar Evrópuþjóðir sætta sig ekki við að bara fólk með kennitölu þ.e. Íslendingar hafi rétt til endurgreiðslu. Sem betur fer hefur heimspressan ekki komist í þetta undarlega og að manni virðist óheiðarlega  möndl með Sjóður nr. 9 þegar bankinn þ.e. Glitnir keypti sjálfur út bréf aðalaeiganda bankans þ.e. Stoðir úr Sjóði nr. 9. 

Enn sem komið er hefur hins vegar aðeins einn maður axlað ábyrgð í þessari orrahríð. Það er grátbroslegt að það er nýr þingmaður sem ekki átti þátt í að steypa þjóðinni í glötun og hann hafi sagt af sér þingmennsku. Tilefnið var að hann varð uppvís að því að beita lævísri og óhreinskiptinni aðgerð til að ná sér niðri á samherja í stjórnmálum, samherja sem var á öndverðum meiði við hann í Evrópumálum og samherja sem lá vel við höggi af því hún var viðskiptaráðherra í síðustu ríkisstjórn. 

Í ljósi þess hve afdrifarík mistök  og aðgerðarleysi stjórnvalda er að taka ekki fyrr á málum og vera ekki viðbúnari undir svona aðstæður og í ljósi þess hve undarlega málum virðist hafa verið skipað í athafnalífi, seðlabanka, fjármálaeftirliti og ríkisstjórn og fjölmiðlum og hve hagsmunatengslin hafa verið ofin saman  þá er furðulegt að ekki skuli fleiri fara að dæmi Bjarna Harðarssonar. Yfirsjón hans er vissulega stór og hann reyndi að bregða fæti fyrir samherja(sjá málið hérna Áframsendi gagnrýni á Valgerði) en yfirsjón Bjarna  virkar bara svo örsmá samanborið vil yfirsjónir og svik margra þeirra sem sitja í ríkisstjórn, á Alþingi, í eftirlits- eða fjármálastofnunum og fjölmiðlum.

Það væri gott ef það fólk sæi sóma sinn í að segja strax af sér.


mbl.is Vaxandi styrkur mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórbergur Torfason

Sæl Salvör. Skelfilega er leiðinlegt að sjá svona hrokafullar fyrirsagnir. Þetta er eins og skafið af tungu Halldórs Ásgrímssonar. Allir 63 þingmenn. Þú veist mikið betur Salvör. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eiga hér einir sök á hvernig fór. Það er meira að segja ekki hægt að kenna Samfylkingunni um þar sem þau voru ennþá að hreiðra um sig við ylinn af kjötkötlunum. N'u súpa þau seiðið af því hvað þau voru græn í plottinu og verða von bráðar að yfirgefa ylinn og arka út í kuldann á eftir Guðna og Bjarna við hlið Geirs, Davíðs og þeirra fylgifiska.

Þú veist eins og landsmenn allir að hvorgi VG né Frjálslyndir komu þarna neitt við sögu. Þvert á móti höfðu VG uppi hávær mótmæli við þessum sóðaskap. Þú ferð hér með staðlausa stafi gegn betri vitund og þannig málflutningur er alveg óþolandi, sérstaklega þar sem ég fæ ekki séð að þú eigir þarna neinna hagsmuna að gæta. Ég verð þess vegna að líta á þetta sem eina kámuga tilraunina enn af hendi Framsóknar að skola af sér óværuna.

Þórbergur Torfason, 17.11.2008 kl. 16:29

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Finnst þér þeir þingmenn sem eru í 100% vinnu við lagasetningu í landinu hefðu ekki átt að fylgjast betur með? Finnst þér ekki að ráðherrar hefðu átt að fylgjast betur með,  sérstaklega ráðherrar sem bera ábyrgð á viðskiptum, fjármálum ríkisins og forsætisráðherra?

Víst bera þeir stjórnarflokkar mesta ábyrgð sem voru við völd. Það er svo sannarlega ábyrgð Framsóknarflokksins mikil á þeim tíma sem hann var við völd. En hann var ekki við völd eftir seinustu kosningar. Hins vegar er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að vera við völd allan þennan tíma og saga hans þessa daganna er ekki beisin.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 17.11.2008 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband