16.11.2008 | 21:31
Hvenær mun liggja fyrir hvað þetta er há upphæð?
Ég skildi aldrei með hvaða rökum íslensk stjórnvöld gætu neitað að greiða þessa lágmarksupphæð sem skylt er að tryggja fyrir hverja innistæðu á evrópska efnahagssvæðinu. Það hefur reyndar komið á daginn að stjörnvöld alla annarra Evrópulanda skildu það heldur ekki. Mér fannst borðleggjandi að það hlyti að vera forsenda fyrir að bankar fengju leyfi til að starfa og vissulega störfuðu þessir íslensku bankar löglega á erlendri grundu eða í netríki þarlendra. Fjármálaeftirlit hefur hins vegar brugðist stjórkostlega m.a. að aðvara ekki almenning og ríkisstjórn hvað miklar ábyrgðir íslenska þjóðin hefði tekið að sér út af skuldafylleríi útrásarmanna. Aldrei óraði mig fyrir að Ísland væri í ábyrgðum fyrir einhverjum reikningum breskra sveitarfélaga í einhverjum netbanka. Aldrei óraði mig fyrir því að litla bankakreppan 2006 hefði verið velt undan sér eins og eldhnetti með því að fá almenning í Bretlandi til að leggja fé inn á netbankareikninga tengda við Ísland. Aldrei óraði mig fyrir því að hið kasínókapítaliska kerfi sem drifið hefur áfram umsvif íslenskra banka erlendis væri þannig að umfangi að það gæti sogað allan lífsþrótt úr íslenskri þjóð.
En ég skil núna ekki heldur hvernig það heldur ekki áfram að vera mismunun á þegnum að greiða upp í topp innistæður íslenskra (þ.e. þeirra sem eru með kennitölur) en eingöngu ákveðið lágmark af innistæðu erlendra. Bresk og hollensk stjórnvöld hafa eftir því sem ég best veit ákveðið að tryggja að fullu innlán einstaklinga en munu þau gera einhvern endurkröfurétt á Íslendinga? Bresk og hollensk stjórnvöld tryggja ekki neitt af innistæðum stofnana t.d. sveitarfélaga því þau teljast upplýstir fjárfestar en það mun hafa verið mjög vinsælt hjá sveitastjórnum breskum að eiga peninga á Icesave. Munu þessir aðilar ekkert fá nema 20 þús evrur? Munu þeir ekki í hrönnum höfða mál á hendur íslenska ríkinu vegna mismununar því hér á Íslandi var meira að segja borgað út stór partur af áhættusjóðum eins og Sjóður nr. 9 hjá Glitni og það eftir að mokað hafði verið fé inn í sjóðinn til að kaupa upp ónýtar kröfur frá aðaleiganda bankans? Inneign í peningamarkaðssjóði er svo sannarlega ekki sama og innistæða á bankareikningi sem stofnanir í rekstri hafa til að greiða laun og sjá um daglegan rekstur. Hvernig ætla íslenskir bankar að útskýra þessa skrýtnu mismunum milli erlendra og innlendra viðskiptavina?
Ég styð alveg alla viðleitni íslenskra stjórnvalda til að stöggla á móti því að borga og ef það var einhver smuga til að borga ekki einu sinni þessa lágmarkstryggingu þá hefði átt að nota hana. Þessi smuga er ekki fyrir hendi, það hefur komið á daginn. En það er mikilvægt að tryggja að Íslendingar þurfi ekki að ábyrgjast nema þessa lágmarkstryggingu - að fá sátt um að ekki verði hér stjórnvöld og bankar hundeltir af málaferlum vegna annarra krafna.
Það er hins vegar afar erfitt að taka á sig skuldbindingar sem enginn veit hversu miklar eru. Ég hef á tilfinningunni að við séum leynd upplýsingum, það getur ekki annað verið í nútímabankakerfi á dögum upplýsingaaldar en að það liggi algjörlega ljóst fyrir hversu miklar þessar ábyrgðir eru þ.e. um hve marga innlánsreikninga er að ræða og hversu margir voru með inneign undir 20 þúsund (sem sennilega voru mjög margir) og þá hve samanlögð var þessi upphæð sem er á reikningum sem eru með innistæður undir lágmarki.
Ég vona að ástæðan fyrir því að ekki sé birt hve mikil þessi ábyrgðin sé að hún sé svo lág að það virki ekki nógu vel á alþjóðavettvangi, það sé plott hjá íslenskum stjórnvöldum að láta eins og Íslendingar séu að taka á sig miklar byrðir. Sennilega er það til að komast hjá því að taka á sig ennþá meiri endurgreiðslu á innlánum. Ég vona líka að það sé rétt að miklar eignir séu til sem nægi fyrir þessum skuldum.
hér er fréttin á bloomberg.com
Iceland Reaches Accord With U.K., Netherlands to Repay Icesave Depositors
Icesave-deilan leyst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.