Slagur í Kraga eru Siv og Páll tilbúin í formannsslag?

Það er þróttur í Framsóknarflokknum þó að andstæðingar flokksins hafi árum saman spáð  endalokum þessa rótgróna stjórnmálaflokks. Meira segja forustumenn flokksins gantast með brandarann alþekkta: "Þar sem tveir Framsóknarmenn koma saman, þar er spegill".Já, og þeir geta það alveg því að núna er góð þátttaka á alla fundi Framsóknarflokksins og vakning í flokknum. Það er reyndar  vakning í öllu pólítisku starfi á Íslandi, við höfum vaknað upp við vondan draum, við höfum uppgötvað að með því að fylgjast ekki með stjórnmálamönnum og hvað þeir eru að gera og með því að berjast ekki fyrir að þar væri valinn maður í hverju rúmi og þar væri unnið af hugsjónum og framsýni þá höfum við boðið hættunni heim á að fólk með annarleg sjónarmið og skerta dómgreind og litla framsýni tæki mikilvægar ákvarðanir sem skuldbinda okkur öll - skuldbinda okkur í orðsins fyllstu merkingu - gera okkur að skuldaþrælum sem eiga að borga fjármálalotterí sem við tókum engan þátt í.

Það er siðferðileg skylda allra borgara á Íslandi að taka þátt í stjórnmálum og láta sig varða hvernig landinu er stjórnað, hlusta á rök og mótrök og koma milliliðalausum skilaboðum til stjórnmálamanna ef það er eitthvað sem fólki blöskrar eða finnst að mætti betur fara.  Þetta hef ég reynt að gera í Framsóknarflokknum öll þau ár sem ég hef verið þar. Ég hef starfa í Framsóknarflokknum í Reykjavík. Fyrstu árin gekk mjög illa. Nú hafa hins vegar orðið umskipti í Reykjavík.  Það kannski gerðist þegar Framsókn missti völdin. Þá hófst mikill slagur - ekki hnífaslagur - frekar ætti að tala um hinn mikla hnífasettaslag þar sem vopnin voru líka reikningar um jakkaföt og skyrtur og punt og prjál til að skreyta frambjóðendur í prófkjörsbaráttu eins og frægt er orðið í fjölmiðlum. Svo hurfu á braut þeir sem annað hvort höfðu fengið nóg af leðjuslagnum og þeir sem  töldu ekki eftir neinum bitlingum að slægjast lengur sem og þeir sem voru svo sárir af hnífstungum og í svo götóttum jakkafötum að það næddi alls staðar í gegn. Síðan þá hefur verið friður í Framsóknarflokknum í Reykjavík, félög hafa verið sameinum og margir lagst á eitt að byggja upp aftur starf í flokknum. Það var líka Framsóknarflokkurinn undir forustu Óskars Bergssonar sem létti því oki af Reykjavík sem stjórn (eða stjórnleysi sem er nú réttara orð) Ólafs Magnússonar borgarstjóra var. Síðan þá hefur allt verið með kyrrum kjörum í borginni og það er unnið af heilindum og hugsjón, skynsemi og yfirvegum  í Framsóknarflokknum í Reykjavík að borgarmálum. 

Eftir að Framsóknarflokkurinn tók aftur að sér að stýra Reykjavíkurborg með Sjálfstæðisflokknum hefur skapast kyrrð um málefni borgarinnar og Óskar og Hanna Birna hafa unnið samstillt að því sem þarf og lagt kapp á að virða minnihlutann og vinna mál í sátt meirihluta og minnihluta og og upplýsa borgarbúa heiðarlega og hreinskiptið um gang mála. Svona er unnið í borgarmálum en því miður er ekki unnið á þennan hátt í ríkisstjórn Íslands. Það getur enginn sagt að það sé hreinskiptin og heiðarleg upplýsingamiðlum frá ríkisstjórninni núna eða hún hafi á þessum erfiðu tímum reynt eitthvað til að fá samþykki stjórnarandstöðu. Það hefði aldrei verið meiri ástæða til að hafa þjóðstjórn á Íslandi en því miður þá kann þessi ríkisstjórn ekki að vinna þannig, því miður kann hún ekki að vinna öðru vísi en með þjösnaskap þess sem hefur meirihluta, hún kann ekki að taka tillit til allra sem búa í íslensku samfélagi. Sérstaklega kann Sjálfstæðisflokkurinn það ekki, hann kann ekki annað en ganga erinda fjármagnseigenda og atvinnulífs og kann það ekki með öðrum ráðum en þeim að trúa í blindni á einkaframtak og gróðahyggju og hömluleysi fjármagnsins. Slík er blindni sumra (allra?) þar á bæ að jafnvel þótt þetti trúarbrögð markaðshyggjunnar hafi fengið þá verstu brotlendingu sem hugsast getur þá er talað um að aðalatriðið sé að endurreisa sams konar kerfi, sams konar banka, sams konar fjármagnshringrásir.

Það er í raun óhjákvæmilegt að allir flokkar fari í einhvers konar innri skoðun núna og það verði einhverjar breytingar á hverjir leiði flokkanna. Annars verður þetta spurning um leiði flokkanna, hvaða grafskrift eigi að setja á leiðið. Hvers konar gildi og hvers konar vinnubrögð og hvers konar hugsjónir viljum við sjá í flokkunum? Viljum við endurtaka skrípaleik síðustu ára, þar sem byggð var upp svikamylla og pýramídaviðskipti og kasínó í fjármálalífi og þar sem stjórnmálamenn kunna ekki annað en lofa upp í ermina á sér, lofa gulli og grænum skógum, lofa og lofa og kunna engin önnur ráð en að taka lán? Eða viljum við ábyrga efnahagsstjórn, fólk sem hefur vit og skilning og hugsjónir á þeim verkefnum sem ríkisstjórnum er ætlað að sinna og geti bæði verið sjálft í forustu sem og  haldið uppi öflugri  og ígrundaðri  stjórnarandstöðu ef aðrir eru í forustu.

Nú veit ég ekki hvort að formaður og varaformaður Framsóknarflokksins hafa hugsað sér að bjóða sig áfram til forustu.  Ef svo er þá munu flokksmenn að sjálfsögðu fylkja sér á bak við þau enda njóta bæði Guðni og Valgerður mikillar virðingar innan Framsóknarflokksins. Hins vegar hefur það gerst að stefna formanns í EBE málum en hann hefur talað á móti aðildarumsókn hefur beðið skipsbrot. Eins var varaformaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra á þeirri tíl sem mjög afdrifaríkar ákvarðanir voru teknar og hún var yfirmaður t.d. fjármálaeftirlits. Hún mun örugglega ekki víkja sér undan neinni ábyrgð í þeim efnum. 

En ef svo fer að það verða kosningar fljótlega um formann og varaformann Framsóknarflokksins þá er gaman að heyra að það sé hart barist um þau sæti og það löngu áður en nokkuð er vitað hvort formaður eða varaformaður gefa kost á sér aftur.  

Það er gaman að heyra marga Framsóknarmenn nefnda í umræðunni um væntanlegan formann, það sýnir að það er líf í flokknum og hann er svo sannarlega ekki í neinum dauðateygjum. Ég er náttúrulega mjög ánægð að talað um Siv, hún hefur svo sannarlega sýnt að hún er baráttukona sem gefst ekkert upp þó á móti blási. Svo held ég að Páll Magnússon sé hæfileikamaður þó því miður hafi mín fyrstu kynni af þeim bræðrum Árna og Páli í Framsóknarflokknum verið með þeim hætti að ég tók fyrst eftir þeim út af hinu fræga Freyjumáli í Kópavogi. Siv hefur verið ráðherra í ríkisstjórn og ber eins og allir ráðherrar ábyrgð á því sem sú ríkisstjórn gerði þó hennar verksvið hafi ekki verið efnahags- eða viðskiptamál. Það auðvitað vinnur nú ekki með Páli að hafa í sjö ár verið aðstoðarmaður þess ráðherra sem var ábyrgur fyrir viðskiptamálum og fjármálaeftirliti. En hann hefur frá 2006 verið bæjarritari í Kópavogi og þar hefur ábyrgðarsvið hans m.a. verið fjármál Kópavogs. Vonandi eru fjármál Kópavogs ekki sama rjúkandi rústin núna og fjármál íslenska ríkisins. Vonandi hefur Páll séð fyrir að það væri ekki skynsamlegt að taka risastórt gengistryggt lán fyrr en gengið hefði fallið eitthvað og ráðlagt bæjarstjóra það, allir sem eitthvað fylgjast með gengismálum vissu að stutt væri í að gengið myndi hrapa, það er langt síðan tímarit eins og Economist sagði íslensku krónuna þá mynt í heiminum sem væri ofmetnust og það eru margir mánuðir frá því að ljóst var að mikið gengisfall yrði á krónunni, það hefði fyrir löngu átt að vera en henni hefur verið haldið uppi með handafli af einhverjum seðlabankatiktúrum. Vonandi hafa skynsamir menn eins og Páll  sem stýra fjármálum í Kópavogi séð þetta fyrir og afstýrt því að Kópavogur tæki þetta 35 milljóna evrulán sem Kópavogur ætlaði að taka í apríl síðastliðnum. Ef Páll Magnússon  hefur afstýrt þeim glæfrum og vitfirringu að Kópavogur tæki þetta lán og breytti lánum sem voru að hluta í íslenskum krónum í gengistryggt lán þá vex virðing mín mikið fyrir honum. En ef hann hefur ekki gert það þá spyr ég - hvað var hann að hugsa?  


mbl.is Formannsslagur í Framsókn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ætli nokkur hafi lyst eða kjark til að taka við fjósinu núna með flórinn undir rjáfri. Ég á eftir að sjá það gerast.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.11.2008 kl. 12:55

2 identicon

"Það er siðferðileg skylda allra borgara á Íslandi að taka þátt í stjórnmálum og láta sig varða hvernig landinu er stjórnað, hlusta á rök og mótrök og koma milliliðalausum skilaboðum til stjórnmálamanna ef það er eitthvað sem fólki blöskrar eða finnst að mætti betur fara."

Þetta er eins og talað úr mínu hjarta - einmitt nú, þegar við stöndum frammi fyrir því algera gjaldþroti stjórnmálamenningar okkar. Eins og ræðukona gærdagsins á Austurvelli sagði, lýðræðið er ekki kósí - það er vinna!

Mín tillaga við félaga mína hefur verið þessi. Ef þú ert ekki nú þegar í stjórnmálaflokki, gakktu í þann sem þú kaust síðustu tvö eða þrjú skiptin. Eða þann sem þú hefur kosið oftast.

Af hverju ekki bara stofna nýjan? Well, miðað við það hve langan tíma það tekur að byggja upp stjórnmálaflokk (sjáið bara hvað Samfylkingunni gekk illa að sigra í kosningum eða komast í stjórn!), þá finnst mér ábyrgðarfyllra að styrkja það sem fyrir er en að byrja upp á nýtt.

Með orðinu styrkja meina ég:

Gagnrýna, móta, skoða, hafa áhrif, ræða saman, komast að niðurstöðu. Styrkja þýðir ekki sjálfkrafa að kjósa flokkinn, eða kyngja (fá)visku hans gagnrýnislaust.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 14:16

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé siðað og réttsýnt fólk í öllum flokkum og það er líka mikilvægt að það fólk gagnrýni sína forustu ef fólki finnst illa unnið. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 16.11.2008 kl. 14:46

4 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bara smá leirétting. Páll Magnússon er bæjarritari í Kópavogi ekki kjörinn fulltrúi. Og það er Ómar Stefánsson sem er kjörin fulltrúi þar og hefur nú ekki unnið neina stórsigra. En um fjármál Kópavogs bendi ég á blogið hennar Guðríðar Arnardóttur þar sem m.a. kemur fram:

Lóðainnskil í Glaðheimum og í Vatnsendahlíðinni eru þungt strandhögg fyrir bæjarstjóð, en skv. endurskoðaðri fjárhagsáætlun bæjarins árið 2008 hefur orðið viðsnúningur í rekstri upp á 8.8 milljarða!

Hér í Kópavogi eru 2 framsóknamenn sem ég hef haft trú á en það eru Sigurður Geirdal heitinn. Og svo Andrés Pétursson sem er sérhæfður í Evrópufræðum.

Magnús Helgi Björgvinsson, 16.11.2008 kl. 17:26

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Magnús Helgi: Sigurður Geirdal var hvers manns hugljúfi og naut virðingar þeirra sem honum kynntust. Bæði faðir minn og móðir þekktu hann vel.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 16.11.2008 kl. 18:56

6 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Salvör: Skemmtilegur pistill hjá þér þó langur væri. Hann var þess virði að lesa hann til enda.

Sjálfur vona ég að við framsóknarmenn fáum talsverða endurnýjun í forystusveitina, nýir vendir sópa best. Það þurfa samt einhverjir með reynslu að koma áfram að málum (að minnsta kosti í þingliði).

Ég tel ólíklegt að Valgerður muni afla flokknum mikils nýs fylgis sem formaður. Margt má gott um hana segja að sjálfsögðu, en við þurfum nýja rödd þarna. Það er þó ekki nóg að fá einhvern nýjan, sú manneskja þarf líka að vera heiðarleg, skynsöm og dugandi.

Það gladdi mig að heyra að Birkir býður sig fram til varaformanns. Þó ég þekki ekki náið til hans þá tek ég eftir að hann er alltaf málefnalegur og rökvís, og kemur vel fyrir.

Carlos: Frábært innlegg hjá þér. Það hefur hingað til verið erfitt að koma nýjum flokkum á laggirnar. Splunkunýir flokkar endast sjaldnast lengi, og sjaldgæft að þeir komi að stjórnarsamstarfi, nema Borgaraflokkurinn um '90 og Frjálslyndir og vinstri menn '71, sem báðir voru klofningsframboð. Samfylkingin er sterkari að því leyti að hún er sameining eldri flokka og flokksbrots úr Alþýðubandalagi (hitt brotið varð að VG). Og samt voru þeir lengi utan stjórnar.

Einar Sigurbergur Arason, 25.11.2008 kl. 02:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband