Stríð við Bretland. Látum þá finna til tevatnsins!

 

Nú þegar búið er að svínbeygja Ísland undir IMF og hækka hér stýrivexti og beita hér aðgerðum sem eru þvert á það sem er gert í öðrum löndum þá bætist við að hollensk og bresk stjórnvöld reyna að koma í veg fyrir lán til Íslendinga hjá IMF. Við eigum í stríði við Bretland og það er nú ekki í fyrsta skipti. Í síðasta stríði sem við háðum við þá þjóð þá voru vopnin klippur á varðskipunum sem klipptu á togvíra breskra togara. 

Núna hafa stríðstólin breyst og stríð eru meira háð innan frá og skuldaviðurkenningar eru notaðar sem þumalskrúfur og pyntingartæki í kasínókapítaliskum samfélögum. Svo hafa stjórnvöld allra vestrænna landa notað síðustu misseri til að koma sér upp einkar þægilegum lögum til að hafa heimil á þeim sem þau telja ógna hagsmunum sínum og svipta þá aðila öllum mannréttindum. Fyrsta skrefið sem stjórnvöld nota er að skilgreina þá sem eru þeim ekki þóknalegir sem hryðjuverkafólk. 

Ég fór vopnuð niður í bæ í dag. Í vasanum var ég með leynivopn. Það var tepoki.

Kl. 14:40 söfnuðust félagar í Reykjavík Tea Party saman og frömdu táknræna athöfn við hafnarpakkann í Reykjavík. Þeir helltu te í hafið. 

Fleiri myndir af tehellingu dagsins

Hér eru upplýsingar um félagsskapinn sem stendur að þessum aðgerðum: Reykjavík Tea Party

Ég hugsa að bresk stjórnvöld séu nú mjög uggandi um framvinduna þegar þau sjá hversu harkaleg mótspyrna er veitt hér á landi. Þau sjá sennilega að það borgar sig að semja strax.

Hér er fróðleikur um sögu svipaðra félagsskapa Boston Tea Party

Annars verð ég að kvarta yfir þessum þvoglukennda fréttastíl hjá mbl.is. Hvað merkir "styðja illa" og "eigi erfitt með að styðja" annað er að bæði Bretar og Hollendingar hreinlega neiti að Ísland fái neyðarlán hjá IMF.  Hvers vegna í ósköpunum á ég og aðrir Íslendingar að þurfa að greiða lán út af einhverjum netbanka sem við vissum ekki að væri til þaðan af síður að við værum eitthvað ábyrg fyrir innistæðum þar?  Hvernig í ósköpunum á almenningur á Íslandi að geta greitt slík lán, hvaða stríð höfum við háð sem gerir okkur skulduga til að greiða óhemjuháar stríðskaðabætur? Hvert fóru þessir peningar? Af hverju leyfði breskt fjármálaeftirlit svona starfsemi?

Íslendingar þurfa skjól og verndara í heimi þar sem Bandaríkjamenn hafa hörfað.  Þeir þurfa skjól fyrir Bretlandi. Þetta mál snýst um margt meira en Icesave reikninga. 

 


mbl.is Styðja illa Íslendinga hjá IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óborganlegt, Salvör, óborganlegt. Vantar ekkert nema indíánadulargerfið, eða ættu víkingahjálmar að vera í öndvegi???

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 22:37

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Carlos, ertu ekki kominn í þennan fína félagsskap? Svona teklúbbar eru fyrir okkur sem viljum táknræn og fáguð mótmæli

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.11.2008 kl. 22:46

3 identicon

Ég er sko kominn í góðan félagsskap - mættur í Iðnó kl. hálf eitt og var fyrst viðmælandi og svo mótmælandi! Það toppar hinsvegar enginn svona teboð!

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 23:01

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Teteitið er flott. Býr meira að baki en bretar vilja muna. Hvað myndi annars gerast ef okkar stjórnvöld misstu þolinmæðina og segðu einfaldlega nei? Við getum ekki borgað þetta, við munum ekki borga þetta. Sorrí. Nei.

Hverjar yrðu afleiðingarnar?

Villi Asgeirsson, 8.11.2008 kl. 23:22

5 identicon

Icesave var eins og hvert annað útibú LÍ víðsvegar um landið - nema hvað þetta tiltekna var í Bretlandi. Ef þú átt peninga inni á LÍ á Stöðvafirði, LÍ fer á hausinn og allir á landinu en Stöðfirðingar fá fullar bætur, Stöðfirðingar kannski x% á meðan rest fær y% - myndir þú nokkurn tíma álíta þá sem stæðu fyrir þessu annað en ótínda glæpamenn?

Ef við komum ekki jafnt fram við alla þá sem treystu íslenskum bönkum, Íslendinga jafnt sem útlendinga ... dísus, mig langar ekki að hugsa þá hugsun til enda. Við höldum kannski að við séum í djúpri mykju stödd, akkúrat núna. Ég held að við séum enn dýpra sokkin og að stjórnvöld leyni okkur hyldýpinu sem við okkur blasir.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 23:53

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Þessi Icesave mál ætti skv. venjum siðaðra þjóða að leysa fyrir dómstólum. Íslensk stjórnvöld telja sig hafa þar góða stöðu.

Hins vegar býst ég við að Ísland hafi ekki góða stöðu varðandi þessi neyðarlög. Mér skilst að það sé efamál að þau standist stjórnarskrána. Svo finnst mér líklegt að þau brjóti einhverja milliríkjasamninga. Það er furðulegt ef sá sem stjórnar og samþykkir lög um bankaumhverfið og bankar eru í einkaeigu geti hrifsað til sín bankana og ákveðið hverjir bera ekki skell. 

Mér er hins vegar ljóst að þetta var neyðarráðstöfun. Sennilega var ekkert annað í stöðunni.  Þetta getur samt kallað á málaferli og það sem verra er... gert stöðu Íslands óbærilega í samfélagi Evrópuþjóða.

Ef til vill er aðeins ein lausn til við því. Það er að skipa sér með öðrum þjóðum en vin nú gerum.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.11.2008 kl. 00:38

7 identicon

Já, ég held að við eigum eftir að vera "pariah" víða um nokkurt skeið ... á meðan að Icesave og Edge hangir yfir okkur. Það er eitt að einkaaðilar plata fólk, annað að þeir gera það í skjóli laga og enn annað að þeir sem áttu að gæta hagsmuna almennings hygla sumum (Íslendingum) en láta aðra mæta afgangi (allir hinir). Stríðir gegn svo mörgum siðaboðum að mig skortir fingur og tær til að telja þau öll.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 01:32

8 Smámynd: Egill Jóhannsson

Salvör, þetta er frábært framtak hjá ykkur.

Carlos, Salvör, Villi:

Varðandi ábyrgð Íslendinga á IceSave þá tel ég að málið standi svona (afsakaðu, Salvör, hvað þetta er langt).

Snýst ekki IceSave deilan um þetta?

IceSave var stofnað sem útibúi Landsbankans í Bretlandi og Hollandi en ekki dótturfélag. Það þýðir að móðurfélagið hér á landi er ábyrgt og innstæður eru því tryggðar hér á landi.

Að þessu leiti var ábyrgðin sett á okkur Íslendinga þ.e. í gegnum Tryggingarsjóð innstæðueigenda sem er í umsjá ríkisins og því á ábyrgð Íslendinga.

Síðan kemur að því hversu mikil ábyrgðin er og er það rót deilunnar milli Íslendinga annarsvegar og Breta og Hollendinga hinsvegar.

Það sem þjóðirnar deila í raun um er;

1. Takmarkast tryggingin við það sem til var í sjóðum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda?

Þangað greiða bankar eitthvert hlutfall af innlánum og ef banki fer á hausinn á þessi sjóður að standa skil á endurgreiðslum.

2. Takmarkast tryggingin fyrir hámarksupphæðinni skv. EES samningnum sem er rúmlega 20,000 evrur?

Þarna er rétt að hafa í huga að þessi upphæð miðast við hvern og einn innstæðueiganda. Ef einn á 30,000 evrur fær hann 20,000 evrur en ef annar á 10,000 evrur þá fær hann 10,000 evrur.

3. Takmarkast ábyrgðin við yfirlýsingu rikisstjórnar um að allar innstæður á Íslandi væru tryggðar óháð upphæð?

Ríkisstjórnin er búin að segja að við munum uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar en að það sé bara ekki á hreinu hverjar þær eru. Það er öruggt að við berum ábyrgð skv. lið 1 enda hefur tryggingasjóður innstæðueiganda lýst því yfir á vefsíðu sinni.

Síðan er deilt um hvort við séum ábyrg alveg gagnvart lið 2. og sumir segja jafnvel gagnvart lið 3. Mér finnst nú líklegra að liður 2 sé hámarkið.

Varðandi neyðarlögin þá þýddu þau í hnotskurn að;

1. Innstæður voru settar framar öðrum kröfur í þrotabúið nema launum sem eru jafnsett. Þetta er víst sama leið og Bandaríkjastjórn fór með Washington Mutual bankann.

Mér skildist þegar lögin voru kynnt að þetta væri reglan frekar en hitt í öðrum löndum og við hefðum einfaldlega ekki verið búin að framkvæma þessa lagabreytingu.

2. Liður 1. þýðir að lánadrottnar t.d. aðrir bankar sem höfðu lánað bönkunum fara aftar í kröfuröðina og tapa megninu af sínu fé vegna þess að innstæður og laun verða greidd á undan.

Þetta þýðir auðvitað að það eru meiri líkur en minni á því að eignir bankans muni duga fyrir innstæðum hér á landi og í Bretlandi og Hollandi. Þá munu Íslendingar ekki þurfa að taka á sig neinar byrðar vegna þessa máls.

Varðandi þá umræðu að við stofnun nýju bankanna þá hafi eignir verið færðar úr þeim gömlu og yfir í þá nýju. Ef ég skil það rétt þá held ég að það hljóti að vera gert á svipaðan hátt og með gjaldþrot t.d. að skilanefnd getur selt eign úr þrotabúi. Greiðslan fyrir hana gæti verið sú að taka yfir skuldir.

Eina deilan sem gæti þá komið upp væri hvort eignin hefði verið verðlögð rétt þannig að þetta er örugglega allt skv. lögum. Þannig að ég er ekki sammála þeim sem telja að þarna sé eitthvað óeðlilegt í gangi heldur alþjóðleg leið til að ráðstafa eignum úr þrotabúum.

Varðandi EES samninginn þá tel ég að hann hafi verið frábær fyrir okkur í alla staði. En ég færi fyrir því rök á bloggi mínu að það hafi verið lagaheimildir til að banna stofnun IceSave í formi útibús og/eða a.m.k. stöðva stofnunina í maí 2008 í Hollandi. Ergó: EES samningurinn og lögin sem ég vitnaði í heimila stofnun útibús en um leið heimilar samningurinn og lögin að stöðva stofnun útibúa ef ástæða þykir til.

Í viðtali Björns Inga Hrafnssonar við Sigurð Einarsson í Markaðnum á Stöð 2 í gær tekur Sigurður undir það sjónarmið og segir að staðan hefði átt að vera ljós i mars og því hefði a.m.k. átt að stöðva stofnun IceSave í Hollandi. Fjölmiðlar mættu spyrja Fjármálaeftirlit nánar út í þetta.

Það er síðan mjög áhugaverður punktur hjá bloggaranum Jóni Steinari varðandi 40. grein stjórnarskrárinnar um að ekki megi skuldsetja ríkið nema með lagaheimild. Í raun heimila lög um fjármálafyrirtæki nr. 161 frá 20. des. 2002 stofnun útibúa sem í raun skuldsetja ríkið beint. Þá er verið að hefja skuldsetningu Tryggingasjóðs innstæðueigenda og um leið ríkisins.

Á móti má segja að þetta eru samt ekki lög sem fjalla um þessa tilteknu skuldbindingu og einnig er hún opin í annan endann þ.e. skuldbindingin gæti verið óendanleg ef vöxtur innlána héldi endalaust áfram. Það ætti því að vera andstætt stjórnarskrá.

Fjölmiðlar mættu skoða þetta betur og spyrja Alþingi hvernig stendur á að þetta var leyft og hvers vegna eftirlitsstofnanir (FME og Seðlabanki Íslands) sem starfa undir Alþingi beittu þó ekki þeim lagaákvæðum sem til taks voru til að hægja á ferlinu eða stoppa.

Egill Jóhannsson, 9.11.2008 kl. 13:33

9 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

hehe, bretar geta sko verið skíthræddir við okkur 14 eða svo!

Svo er spurningin - höldum við áfram?  Ég þarf smá spark...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 10.11.2008 kl. 01:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband