Myndir af hættulega fólkinu á Austurvelli - ennþá eitt mótmæla hi-jackið!

IMG_1933

 Ég var á byrjun fundarins á Austurvelli. Upphaflega ætlaði ég ekki að vera á fundinum einmitt vegna þess að ég vil ekki taka þátt í neinu sem tengist skrílslátum og múgæsingu. Við erum mörg sem erum reið og örvingluð yfir ástandinu í íslensku samfélagi og traust okkar á stjórnvöldum er núna afar lítið. Við erum líka mörg sem vituð að rétta leiðin er ekki að skapa algjöran glundroða. Það eina sem það gerir er að búa til aðstæður fyrir ógnarstjórn, ennþá verri stjórn en við höfum núna. IMG_1926 Það sem ég sá á fundinum á Austurvelli í dag voru friðsamleg mótmæli og  það voru fínir frummælendur og Hörður Torfason sem ávarpaði fundinn í byrjun brýndi fyrir fólki hve mikilvægt væri  að mótmæli væru friðsamleg og hve mikilvægt væri að láta svona mótmæli ekki fara í upplausnarástand. Þess vegna er ég nokkur viss um að það eggjakast og stympingar sem talað er um að hafi verið á Austurvelli áðan eru hvorki að undirlagi né með samþykki þeirra sem boðuðu til fundarins.  

IMG_1923

IMG_1934 IMG_1930

Það var bara venjulegt fólk á Austurvelli,  ekki fólk sem er líklegt til að ráðast á lögreglu og Alþingishúsið. Mótmælafundurinn fór friðsamlega fram amk það sem ég heyrði af honum. Hins vegar eru það skrílslætin sem vekja mesta eftirtekt fjölmiðla.

Það vilja margir mótmæla ástandinu á Íslandi í dag. Það eru líka margir sem vilja stela mótmælendum og þykjast vera í forsvari fyrir þá og stela senunni þegar fólki hefur verið stefnt niður í bæ til friðsamlegra mótmæla. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem reynt var að stela mótmælendum frá Herði Torfasyni og co. í dag.

Fjölmiðlar eins og t.d. mbl.is  flytja ekki trúverðugar og réttar fréttir af mótmælunum á Austurvelli.Tala þeirra sem mótmæla er ekki rétt í blöðum og núna er fréttaflutningur þannig að lögð er áhersla á hvað það sé hættulegt og eldfimt ástand. Er þessi fréttaflutningu til þess að réttlæta að næst verði einhvers konar óeirðalögregla á staðnum? Ég bið fólk að skoða þessar myndir sem ég tók af mótmælendum og spá í hvort þetta sé hættulegt fólk sem þurfi sérstakan viðbúnað gegn.

Sjá fleiri myndir sem ég tók af friðsamlegum mótmælum á Kreppan - Austurvöllur 8. nóv 2008

 


mbl.is Geir Jón: Lítið má út af bregða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Salvör ..hafðu þakkir fyrir fínar myndir af mótmælunum. Þær gefa skýra mynd af því hvernig þau fóru fram...mikið fjölmenni og mikil friðsemd þó auðvitað sé fólk reitt og hrætt um sína framtíð. Það voru þarna nokkrir unglingar sem tóku upp á því að henda eggjum og skyri í alþingishúsið og fjölmiðlar gera auðvitað mikið úr því. Aðalatriðið er að þarna komu saman þúsundir íslendinga til að leggja áherslu á kröfur sínar um réttlæti og sanngirni og gerði það vel. Og það er þakkarvert að þú skulir sýna þessar myndir. Það má ekki rugla saman þeim sem koma í friðsamleg mótmæli við þá sem koma til að kasta nokkrum eggjum í unggæðishætti.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.11.2008 kl. 17:35

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Dæmi um hve hallærisleg umfjöllun fjölmiðla er af kreppumótmælum er t.d. fréttin sem núna er á vef ruv.is  sem er ríkisfjölmiðill um fundinn sem var í Iðnó í dag. Rúv lætur eins og Illugi Gunnarsson hafi verið aðalglansnúmerið á fundinum og eina sem ég finn núna er haft eftir honum. Ég skil ekki í þeim sem boðuðu til þessa fundar að bjóða upp á Illuga dansæfingar og bjóða hættunni heim á svona fréttaflutningi. Skrýtið líka að einhver vilji heyra í Illuga núna. Illugi var aðstoðarmaður forsætisráðherra um tíma svo hann er auðvitað þannig ábyrgur fyrir ástandinu. Svona er fréttin á RÚV:

Fjölmenni á borgarafundi

Fjölmenni á borgarafundi

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að stýrivaxtahækkun Seðlabankans dugi ekki til að halda fjármagni inni í landinu. Fari fjármagnið úr landi aukast líkur gengisfalli og enn meiri verðbólgu. Þessu lýsti hann yfir á fjölmennum borgarafundi í Iðnó í dag. Fullt var út úr dyrum á fundinum og mikill hiti í mönnum.

Ýmsir tóku til máls á fundinum og lýstu því sem þeir telja óréttlæti í íslensku samfélagi. Sjónir manna beindust m.a. að verðtryggingunni en Seðlabankinn spáir 20% verðbólgu.

Illugi var sem sagt vonarstjarnan sem skein skærast á þessum borgarafundi eða hvað?

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.11.2008 kl. 18:09

3 identicon

Var á Austurvelli og fundurinnn var allt öðruvísi en fjölmiðlar segja frá.

Fjölmiðungarnirn, krakkarnir á fjölmiðlunum, fjalla bara um aukaatriðin.

Leitið í þessum miðlum að því sem Einar Már sagði í sinni mögnuðu ræðu eða þá það sem Sigurbjörg Árnadóttir sagði um finnsku leiðina.

Finnið það hvergi því þessir fákunnandi og skilningslausu börn sem hafa það hlutverk að miðla fréttum geta ekki greint aukaatriðin frá aðalatriðunum.

101 (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 18:16

4 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Það er verulegt áhyggjuefni hvernig umfjöllun fjölmiðla okkar er..bæði villandi og illa unnin. Aðalatriðin týnast og aukaatriðinum gerð góð skil ásamt því að alltaf skulu þeir birta rangar tölur um fjölda. Hvað er eiginlega í gangi og er fólk alveg tilbúið að láta þetta viðgangast???

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.11.2008 kl. 18:22

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég get staðfest það, Salvör, að eggjakastið var aldeilis ekki á vegum skipuleggjenda fundarins. Ekki heldur reykspólun mótorhjólamannanna fyrir fundinn.

Eins og þú varðst sjálf vitni að bað Hörður fundarmenn að vera og fara með friði.

En það er heldur ekki hægt að koma í veg fyrir - í sæmilega frjálsu samfélagi - að einhverjir hópar fólks séu með uppákomur eins og gerðist í dag.

Það segir ekkert um hug fjöldans og í hvaða tilgangi fundurinn er haldinn.

En ég tek undir áhyggjur ykkar af miðlun fjölmiðlanna. Ég skil þetta ekki.

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.11.2008 kl. 18:29

6 identicon

er fjölmiðlaumfjöllunin um ,,óða skrílinn" frá 1949 að endurtaka sig?

mbl.is: Eggjum kastað í Alþingishúsið

visir.is: Aðsúgur gerður að lögreglu - Alþingi grýtt með eggjum

hva, voru þetta 3 egg max ..

sjaldan minnst á 95%-in sem hegða sér skikkanlega.

og hvað vitum við nema ,agents provocateurs' - óeinkennisklæddir skjólstæðingar Björns Bjarna, td - kasti eggjum til að búa til ,skríls' -stimpil?

með slíkum stimpli má réttlæta mikla fjölgun í lögreglunni, rafbyssur og hvað sem hentar valdhöfum best.

hljómar paranoid, veit. en þetta er alþekkt aðferð erlendis.


Halldór C. (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 18:55

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

það er ekkert nýtt að það sé kolskakkt sjónarhorn sem birtist í fjölmiðlum. Sjónarhorn fjölmiðla er sjónarmið eigenda þeirra og þeirra sem leggja þeim til fé.

það er hins vegar núna í brjáluðu upplausnarástandi að það skrælast og afhjúpast hve skökk þessi mynd sem fjölmiðlar gefa okkur af veruleikanum er.

Ég byrjaði að blogga fyrir sjö árum og fyrsta bloggið var einmitt um þetta. Fyrirsögnin var Álitsgjafar Íslands http://www.ismennt.is/not/salvor/meinhorn/2001_04_01_eldri1.htm#3017558

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.11.2008 kl. 19:00

8 identicon

það sem skiptir þó mestu var:

- öll þessi prentuðu spjöld sem voru nákvæmlega eins, sköpuðu mjög sterka samstöðu.

- það var amk 3 x fleira fólk en síðasta laugardag.

 valdið til fólksins. beint lýðræði

Halldór C. (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 19:51

9 identicon

Tek undir með 101 - fréttir af fundinum á Austurvelli eru vægast sagt snubbóttar.

Hvar eru t.d. hljóð- og mynd-upptökurnar af því þegar mannfjöldinn blístrar og æpir, æ ofaní æ, og hristir mótmælaspjöld sín til samþykkis orðum Sigurbjargar og Einars Más (dj. er hann góður). Á hvorugri stöðinni voru myndskeið þar sem er panað almennilega yfir mannfjöldann, til að áhorfendur fái tilfinningu fyrir mætingunni og stemmningunni - og hverjir voru þarna. Bara einblínt á unga fólkið og anarkistana, egg og reykspól, að ógleymdum Geir Jóni sem var nú bara í vinnunni... sorrí, en ekki var hann að mótmæla.

Verst finnst mér að vinnufélagar mínir á RÚV voru með lélegustu sjónvarpsfréttirnar af þessu.

Lana Kolbrún Eddudóttir (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 19:59

10 Smámynd: Viðar Eggertsson

Svo handtók lögreglan einn mann, en það var rangur maður!

Við bíðum öll eftir því að lög verði sett yfir þá menn sem komu þjóðinni á vonarvöl. Nei, ónei, þeir ganga lausir og eru jafnvel á himinháum launum að störfum í nýju bönkunum okkar og Seðlabankanum, svo nokkur skálkaskjól séu nefnd.

Viðar Eggertsson, 8.11.2008 kl. 20:16

11 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Og Logi Bergmann  sagði einmitt svo smekklega frá Tónleikum Páls Óskars sem hann var með á Nasa í dag og hófst fréttin á þessum orðum..."Og meðan fullorðna fólkið kastaði eggjum í alþingishúsið skemmti Páll óskar... Það er svoleiðis verið að vanda sig að búa til mjög ákveðna ímynd af mótmælunum ..eflaust með það í huga að fæla allt venjulegt fólk frá því að nýta sér þennan lýðræðislega rétt sinn.

Við megum alveg hafa verulegar áhyggjur af þeim "fréttum " sem bornar eru á borð fyrir okkur af þessum fréttamiðlum....í alvöru!!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.11.2008 kl. 20:34

12 Smámynd: Theódór Norðkvist

Nær væri að handtaka þá sem að öllu jöfnu eru inni í Alþingishúsinu, ekki þá sem príla utan á því.

Annars er ég alltaf á móti því að henda mat.

Theódór Norðkvist, 8.11.2008 kl. 21:07

13 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Já, svo slógu sjónvarpsfréttirnar á báðum rásum þetta út. Það þarf ekki bara að taka til í stjórnsýslunni!

María Kristjánsdóttir, 8.11.2008 kl. 21:46

14 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ég var allan fundinn og það var allt í rólegheitum á Austurvelli, einhver óróleiki heyrðist nær Dómkirkju og Alþingishúsinu en svo sem ekkert mikið. Sá gula Bónus-fánann dreginn að húni en að öðru leyti var þetta bara pollrólegt, svona þar til maður tékkaði á fréttunum alla vega.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 8.11.2008 kl. 21:57

15 Smámynd: Jakob Ágúst Hjálmarsson

Mér leist ekkert á liðið á Austurvelli. Þetta er ekki það sem við þurfum núna og reiði eer ekki neitt sem ástæða er til að hefja til vegs. http://jagust.blog.is/blog/jagust/entry/704409

Jakob Ágúst Hjálmarsson, 8.11.2008 kl. 22:02

16 identicon

Þvert á móti, kollega Jakob, ef við kjósum ekki með fótunum núna, höfum við ekkert að kjósa um næst nema allt þetta sama gamla, sem öllu sigldi í strand. Ef við fáum ekki að vera reið núna, þá verður bara valtað yfir okkur þegar við sofum í nótt. Við höfum verið rænd, verið er að sigla okkur í óvissu án þess að við fáum að vita hvað snýr upp eða niður, við erum töluð niður og gert lítið úr okkur.

Ónefndur hafi það, við *verðum* að vera reið, til þess að háir herrar átti sig á því að "buisiness as usual, with the usual suspects" er ekki viðeigandi! Þeir sem sigldu skútunni í strand eiga að víkja, núna, vegna þess að kreppan er djúp vegna þess að þetta fólk sem hefur stjórnað okkur kann ekki að iðrast. Það heldur að nóg sé að spinna - og halda svo velli.

Ljóst er að til er *fullt* af velmenntuðu fólki sem bíður á hliðarlínunni eftir að fá tækifæri að gera betur en hinir háu herrar sem brugðust okkur - og munu síst gera verr. Það er við hæfi að vera reiður yfir því að þeir fá ekki að komast að og það er við hæfi að sýna það í verki að manni er ekki sama. Minna má það ekki vera!

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 22:23

17 identicon

Varðandi Illuga á borgarafundinum - þegar hann dansaði ekki steppdans eftir danstakti spunans, þá var hann púaður niður. Verst þótti mér þó að heyra hvað sumir aðrir stjórnmálamenn vildu nota tækifærið til að afla sér fylgis eða fegra hlut sinna flokka.

Vonarstjörnur voru þau Lilja Mosesdóttir og Ingólfur (man ekki föðurnafn) sem komu með tillögur sem þingmenn lofuðu að skoða ... sjáum til um efndir.

Fáum væntanlega að sjá upptökur af fundinum á þriðjudaginn á rás 1 í RÚV.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 23:07

18 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Fjölmiðlaumfjöllunin er ekki upp á marga fiska frekar en fyrri daginn. Ég var þarna allan fundinn og get tekið undir það sem aðrir hafa vottað hér að ofan, að þetta fór friðsamlega fram þótt fólki væri heitt í hamsi. Það er ekki áfellisdómur yfir mótmælunum sem slíkum, að nokkrir tugir verði eftir og hendi nokkrum eggjum í þinghúsið. Einhvers staðar hefðu menn hent handsprengjum.

Vésteinn Valgarðsson, 9.11.2008 kl. 01:26

19 Smámynd: Linda

Ég var á staðnum, og ég skal segja þér mín kæra, að þú er kóari af verstu sort, það var yndislegt að sjá kraftinn, í unga fólkinu, sjá og heyra í mótorhjólunum, sem gáfu tóninn, "NEI NEI, VIÐ BORGUM EKKI MEIR"  "BURT MEÐ RÍKISTJÓRNINA" ETC.  Ég sá líka það sem gekk á, á bak við alþingis hús landsmann og er með myndir á minni síðu sem fjölmiðlar hafa ekki sýnt.  Það var ungt fólk þarna með þor og dug að láta í sér heyra, það vill ekki kóa, það vill ekki taka þessu bulli þegjandi og þjóðalaust, og ég neita að taka þátt í kellinga bulli, sem vilja kveða slíkt burt, mótmæli eru til þess gerð að í fólki sé heyrt, ekki til þess að engin taki eftir þeim. 

Ég vona að þú ritskoðir ekki þessa færslu, eins og þú vilt ritskoða mótmæli.

egg og jógurt er hægt að þvo af, gjaldþrot og að missa heimili fyrir gjörðir fárra, verður aldrei þvegið í burt..

Linda.

Linda, 9.11.2008 kl. 13:42

20 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Linda: Skil ekki alveg...beinir þú þessum orðum til mín? hvers vegna er ég kóari sem vil ritskoða mótmæli? Þessi bloggfærsla hjá mér er mín sýn á byrjun þessara mótmæla, sýn sem er mjög frábrugðin þeirri mynd sem dregin var upp í fjölmiðlum. Ég tók myndir og reyni að sýna það sem ég sá með myndum. Ég sá falleg og kyrrlát mótmæli hjá fólki sem er mjög þungt niðri fyrir.

það getur verið að þér finnist viðeigandi að heyra kraftinn í mótorhjólunum... ég persónulega fór nú bara að hugsa um hvað þessi tryllitæki kostuðu.  

en ég missti reyndar af þessari reykspólun, ég var á mótmælum gegn bretum niður á höfn, við vorum að henda tepokum í sjóinn.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.11.2008 kl. 15:52

21 identicon

tilviljanir - eða vandlega úthugsuð sögufölsun? :

forsíða Fréttablaðsins í morgun er klassík, og raunar öll umfjöllunin um útifundinn í gær. ætti að fara í skólabækur um aðferðir fjölmiðla sem er fjarstýrt af valdhöfum:

ekki EITT orð um kröfur amk 4000 friðramra mótmælenda.  

ekki orð úr mergjaðri ræðu Einars Más Guðmundssonar.

örlitlar myndir sem þarf stækkunargler til að skoða. 

ekki stafur um sömu skilaboðin sem sáust í hundruðatali um ALLAN MIÐBÆINN: 

 - BORGUM EKKI. - STÖÐVUM SPILLINGUNA. - BURT MEÐ STJÓRNINA. - 

eina myndin sem prentuð er í almennilegri stærð, þekur hálfa forsíðuna.

myndin er vel valin: það eina sem hún gefur til kynna eru orð Moggans frá mars 

1949: ,,óður skríll ræðst á Alþingishúsið."

en svo minnst sé á Mbl., þá er ég búinn að fletta tvisvar gegnum blaðið í dag, 9. nóvember.

í blaðinu er HVERGI ORÐ, EKKI EINN STAFUR um mótmæli amk 4000 Íslendinga gegn spillingu, valdahroka, þjófnaði og feluleik.

___ 

ja hérna. detta nú allar dauðar úr höfði, eins og Kolbeinn Kafteinn sagði, - þegar einu fjölmiðlarnir sem ekki ljúga eru DV og Útvarp Saga.

því mitt á milli slúðurs og sleggjudóma er þó sannleikur sem heyrist alls ekki lengur á stofnununum þremur: Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Ríkisútvarpinu. 

___

það EINA sem valdhafar í svona ÖMURLEGRI stöðu eru hræddir við eru

(það sem Mahatma Gandhi var alltaf að kenna okkur):

friðsamleg mótmæli fjöldans. 

þá geta þeir ekki beitt kylfum og táragasi næsta laugardag.

___ 

strákurinn minn æfir bardagaíþróttir. hann veit að sá sem er REIÐUR, TAPAR

því hann hugsar ekki skýrt.

geymið eggin heima næsta laugardag, læsið Saving Iceland-krakkana inni.

Bónus-fánar eru voða fyndnir. haha. en það er bara enginn tími á djók þegar maður hefur á tilfinningunni að Geir Haarde þori ekki að segja sannleikann um einhverja afarkosti sem hann stendur frammi fyrir til að fá lán hjá IMF.

megum við ekki vita smáa letrið?

megum við ekki vita hvort hann ætlar að veðsetja vatnsföll landsins, eða vottever er í gangi í bakherbergjunum? 

___ 

ef Fréttablaðið skrifar árið 2008 eins og Morgunblaðið gerði 1949 - og Morgunblaðið hundsar mótmælin alveg, amk á prenti - 

þá er ekki ólíklegt að lögreglan hegði sér bráðum svipað eða verr en hvítliðarnir 1949.  

ætli Jón Ólafsson heimspekingur hafi haft rétt f sér í Silfri Egils áðan:

að á Íslandi ríki einræði og stjórnleysi?

engin merki um þingræði - og þaðan af síður lýðræði - lengur.

___

takk f. allt-of-mikið-pláss, Salvör. þú ritskoðar ekki. og margir lesa þig. skiptir miklu á þessum síðustu og súr (realísk) ustu. 

ég sendi grein í Fréttablaðið f. 3 vikum, um hryðjuverkalögin.

síðan hefur ekkert til hennar spurst. 

Halldór Carlsson.

fjölmiðlafræðingur

Halldór Carlsson (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 16:51

22 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Læsa anarkistana inni? Pant mæta á mótmæli þar sem fólk er sorterað eftir lífsviðhorfum, hvort það má vera með eða ekki.

Vésteinn Valgarðsson, 10.11.2008 kl. 01:59

23 identicon

já, loka Hauk inni á róló næsta laugardag.

hvorki staður né stund fyrir skyrslettingar né sýndarmennsku.

verður bara til þess að lögreglan breytist í hvítliða, verður neydd til þess. 

það er eitthvað alvarlegt að gerast baksviðs sem við fáum ekki að vita.

gæti það tengst ,,smáa" letrinu - skilyrðum IMF ?

enn ólíklegra að hlustað verði á almenning ef hægt er að skrumskæla allar fréttir og gera myndina af fjöldamótmælum örvæntingarfullra almennra borgara að trúðslátum sojahippa.  

Hc (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband