23.10.2008 | 18:33
Vér hryðjuverkamenn
Fjármálaorð dagsins er "stagflation".
Kreppuorðabókin hjá BBC útskýrir stagflation svona: "The dreaded combination of inflation and stagnation - an economy that is not growing while prices continue to rise".
Það er magnað hvað ég hef lært mikið í ensku síðustu vikurnar, alls konar orð sem ég vissi ekki að væru til ... sem skiptir kannski ekki miklu því mörg hver lýstu fyrirbærum sem þurrkuðust út og hurfu í risastórri manngerðri flóðbylgju sem nú skellur yfir heim allan.
Þetta er ef til vill eitt risastórt samsæri til að velta heiminum á hliðina eins og höfundur greinarinnar the Iceland syndrome ýjar að. Það er nú samt ekki auðvelt að sjá að neinn sé að græða á ástandinu af þeim sem heimsálfu okkar byggja. Vissulega hafa herkonungar allra tíma notað peninga til að greiða sér leið og tryggja völd sín. Sagði ekki Hammúrabí hinn forni að enginn borgarmúr væri svo hár að asni klyfjaður gulli kæmist ekki þar yfir? Núna þarf ekkert að sigra þjóðir með mútufé. Það er nóg að senda inn eldsprengjur í fréttum um að einhver hlutabréf á verðbréfamarkaði standi tæpt, þá verður einhvers konar sjálfsíkveikja, þá fuðrar samfélagið upp af sjálfu sér og splundrast. Þetta sparar marga asna.
Í greininni The Iceland Syndrome þá hugleiðir höfundur:
To put it another way: If you wanted to destabilize a country, wouldn't this be an excellent time to do it? If Country X's stock market can crash after the publication of a single article in an obscure newspaper, think what might happen if someone conducted a systematic campaign against Country X. And if you can imagine this, so can others.
Hmmm... þegar ég hugsa þetta upp á nýtt og pússa gleraugun betur þá sé ég þetta miklu skýrar. Við erum fórnarlömb, við höfum orðið fyrir hryðjuverkaárás inn á fjármálamarkaðinn hérna og það hefur velt öllu á hvolft. Nú þarf bara að bíða eftir að einhver lýsi verknaðinum á hendur sér. Það getur verið löng bið en mér líður alla vega betur eftir þetta nýuppgötvaða píslarvætti. Það er betra að vera fórnarlamb heldur en gerandi, heldur en sjóræningaútrásarÍslendingur sem rænir og ruplar alls staðar í útlöndum.
Mér líður eins og þegar ég prófaði Hljómskálann hennar Þórunnar Valdimarsdóttur, sjá þessa frásögn af vitrun minni þar. Í bók Þórunnar á bersyndugt fólk athvarf og gestgjafar í hljómskálanum eru Samtök sannleikans en um þau segir:
"Þessi ameríska hreyfing byggir á þeirri sálfræðilegu staðreynd að fólk bætir líðan sína með því að opna sig. Það hefur reynst mörgum vel að koma í ræðustól í Hljómskálanum, en ekki síður að setjast síðar í ró og næði heima við tölvuna og halda áfram að ræða um sín mál á Netinu. Allir hafa aðgengi að heimasíðunni okkar en sumir kjósa að skrifa þar undir dulnefni, meðan að fleiri og fleiri horfast í augu við heiminn með allt sitt. Í þeim hópi er að sumra dómi afbrotafólk, sem kýs að hafa syndir sínar öllum opnar á Netinu, með eigin apologiu. Æ fleiri viðurkenna að gott og illt hafi óljós mörk."
Eða er ég ennþá hryðjuverkamaður (hér fer betur á að segja hryðjuverkakona)?
Svíþjóð hikandi um Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.