Ríkisstjórn sem gætir hagsmuna bílasala betur en ófæddra barna

Það er afar einkennilega staðið að málum hjá Ríkisstjórn Íslands núna. Venjulegir Íslendingar þurfa að lesa vef Financial Times til að vita hvað ríkisstjórnin er að plotta og að núna sé búið að leita formlega til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er algjört virðingarleysi fyrir almennum borgurum á Íslandi. Okkur er ekki skýrt frá ástandinu og margoft hafa æðstu ráðamenn gefið okkur villandi og rangar upplýsingar.

En þessi ríkisstjórn hefur tíma til að vera í hagsmunagæslu fyrir ákveðna aðila. Núna var í kvöldfréttum sagt frá því að í smíði væri sérstakt frumvarp í fjármálaráðuneytinu til að bílasalar gætu selt úr landi 5000 bíla, það ætti að búa til undanþágu til að endurgreiða gjöld af þessum bílum. Þetta er stórfurðulegt, það er í fyrsta lagi stórfurðulegt að einhverjir telji sig geta selt bíla frekar annars staðar en hér því allar fréttir sem ég les hvaðanæva úr heiminum segja að markaður með bíla er alveg botnfrosinn, það er ekkert séríslenskt vandamál. Það er líka stórfurðulegt og siðlaust að ríkisstjórnin skuli leggja svona kapp á að redda bílasölunum. Það er fordæmalaust að það séu endurgreiddir skattar og innflutningsgjöld vegna þess að söluaðilar bíla geti ekki losnað við bíla. Það er stórundarlegt og ég get ekki skilið að það sé löglegt að hægt sé að ívilna svona einni atvinnugrein þ.e. bílasölunum. 

Hér er fréttin um þennan fíflaskap, takið eftir hvernig orðalag er á fréttinni "bjarga frá gjaldþroti", "mikill gjaldeyrir", það er hins vegar ekki nein gagnrýni hjá RÚV um hvers vegna svona fyrirgreiðsla er og hverjum hún þjónar. það er oft erfitt að hlusta á fréttaflutning frá íslenskum fjölmiðlum. Þessi fréttaflutningur á RÚV er eins og frá þriðja flokks fréttamiðli sem er óbeint í eigu bílasalanna.

Gjöld á notuðum bílum endurgreidd að hluta

Það er margt ungt fólk sem hefur verið vélað til að taka dýr gengistryggð bílalán sem það ræður ekkert við að borga af. Er verið að létta skuldabagga af þessu fólki og losa það út úr samingum um bílalán með þessu? Hver er að græða á þessu?  Það hlýtur að kosta offjár að flytja bíla úr landi og það er ekki hægt að losna við þá nema á hrægammaverði/brunaútsöluverði núna þegar markaður með bíla er botnfrosinn, ekki bara á Íslandi heldur annars staðar.

Af hverju eru þessir bílar ekki boðnir á því sama verði hér innanlands og þeir færu fyrir erlendis?
Er sams konar viðskipti orðin með notaða bíla á Íslandi og með lambakjöt til útflutnings? Er það dumpað inn á markað einhvers staðar annars staðar? 

Það er gott hjá Ögmundi að benda á hættuna á að ríkisstjórnin skattleggi ófædd börn.  Ég vil líta benda á að Kristinn þingmaður allra flokka (er hann ekki búinn að vera alls staðar?) hefur líka oft skrifað ágætar greinar um efnahagsmál m.a. rakst ég á þessa grein um græðgina og hlutabréfin.
 


mbl.is Rangt að skuldbinda ófædd börn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Takk Salvör. Fínn pistill

Heiða B. Heiðars, 20.10.2008 kl. 20:53

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Bílasalar eru líka fæddir sem börn og eins eru bíleigendur fædd börn.  Það er verið að tala um notaða bíla, nýir óseldir bílar eru í flestum tilfellum óleystir í tolli því þarf hvorki að endurgreiða vsk né gjöld þeirra vegna.

Það er jákvætt við þessa frétt ef ráðherrar eru að hugsa um eitthvað annað en að skuldsetja þjóðina þessa daganna. 

Hvernig væri að koma með fleiri tillögur um hvað gæti gagnast fæddum fyrrverandi börnum í því ástandi sem er uppi í dag;

T.d. að fara fram á að ekki megi ganga að heimilum fólks vegna vanskila á bílalánum.

T.d. að breyta gjaldþrotalögum á þann hátt að fólk geti gengið frá skuldum sínum vegna vonlausra íbúðalána, þ.e.a.s. að fullnusta kröfu einskorðist við þá íbúð sem lánið hvílir á, en fólk verði ekki hundelt út í það óendanlega.  Íbúðalánasjóði og ríkisbönkum væri hægt að beita í þessum tilgangi. 

Magnús Sigurðsson, 20.10.2008 kl. 21:25

3 Smámynd: Ágúst Hjörtur

Sammála því að fréttaflutingur eins og þessi er ekki til fyrirmyndar - reyndar hafa miðlarnir allir verið heldur linir og sætt sig við þessa ofurvarkárni Geirs og co sem ekkert vilja segja fyrir en tilkynnt er um frágengna hluti. Það er eins og fjölmiðlarnir upplfii sig sem hluta af stjórninni en ekki sem "fjórða valdið". Það er vont að eiginlega allar nýjar fréttir af því sem er að gerast á Íslandi séu fyrst að birtast erlendis. Hafa íslenskir fjölmiðlar minni burði til að afla frétta af því sem er í bígerð á Íslandi en erlendir fjölmiðar?

Hitt er svo annað mál að það væri gott mál að flytja sem mest af bílum frá Íslandi og setja svo alvölru umhverfisskatta á bílainnflútning í framtíðinni þannig að rafmangs- og vetnisbílar beri enga skatta og hinir í stighækkandi hlutfalli við bensíneyðslu. Hyrfi þá Hummerarnir fljótt hygg ég.

Ágúst Hjörtur , 20.10.2008 kl. 23:58

4 identicon

Sæl Salvör.

Fin grein hjá þér. og sýnir hvað menn vitkast hægt eða er það.

Kærleikskveðjur.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 03:31

5 identicon

Þetta bara heimska það er enginn markaður fyrir bíla annarstaðar nema Rússlandi kannski og þá verður erfitt að þá bílanna til bakka

ADOLF (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 09:36

6 identicon

Þetta er algjör snilld

Væri ekki nær að flytja nýja (ónotaða) bíla úr landi þar sem ekki hafa verið greidd af þeim innflutningsgjöld? Þá þarf ekki að breyta lögum og reglum.

 Bara spyr

Páll Kristjánsson (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 09:46

7 identicon

Það er hægt að selja bíla úti núna það er hagstætt fyrir þá meðan gengið er svona hátt. Það sem ég hef áhyggjur af er að ríkisstjórnin býður þeim sem missa vinnunna hjá bönkunum full laun í 3 - 6 mánuði, Það hefur hingað til verið þannig ef fyrirtæki fara á hausinn að fólk hefur þurft að sækja það sjálft og fær yfirleitt 80 % af þeim launum sem þeir eiga inni ef að þeir fá það, en þess þurfa bankamenn ekki. Ég spyr verður það þá gert hjá öðrum fyrirtækjum.

Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 09:50

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sammála þessu með laun bankamanna! Til hvers hafa þeir unnið að fá þessa sérmeðferð?

Bankamenn hafa fengið kauphækkanir og bónusa langt umfram aðra launþega undanfarin ár og núna eiga þeir að fá einhverja "lúxusmeðferð"!

Ég nota nú bara orð Röggu Gísla: Hvað er svona merkilegt við það að vera bankastarfsmaður?

Hversvegna heldur þessi vitleysa með "starfslokasamningana" áfram eftir að bankafólkið eru búið að koma allri þjóðinni og framtíðarkynslóðum hennar gjörsamlega á hausinn?

Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.10.2008 kl. 11:27

9 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

það er mjög skrýtið og sennilega brot á lögum að hygla einum atvinnuhópi svona. Af hverju að endurgreiða gjöld af bílum en ekki einhverjum öðrum notuðum hlutum?

annars hugsa ég að ríkisstjórnin sé að fremja mörg vafasöm verk núna, mér er til efs að neyðarlögin standist stjórnarskrána.

því miður er þessi ríkisstjórn í botnlausu klúðri. þau eru ekki öfundsverð en það hefði verið betra ef þau hefðu séð þessar aðstæður betur fyrir.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 21.10.2008 kl. 11:41

10 identicon

Einhver sagði: Ekki gera ekki neitt. Ef við eigum að hugsa um að gera sem mest úr þeim verðmætum sem í landinu eru, tel ég þetta vera betri leið en að láta milljarða króna bílaflota grotna niður hérna á fróni. Það kemur ENGUM vel. Svo er ekki verið að tala um að senda flotann út uppá von og óvon eins og nefnt er hér að framan. Hver einasti bíll væri seldur áður en hann fer úr landinu. Ef bifreiðaumboð fer á hausinn missa margir vinnuna ! Er það þér í hag ? Ef þinn bíll bilar og umboðið er farið á hausinn, hvar færðu varahluti ? Ég held að það sé hollast fyrir alla að horfa fram á veginn. Það er búið að gera alltof margar vitleysur og ég trúi ekki að þú viljir halda áfram á þeirri braut.

Guðmundur borgarbarn (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 12:39

11 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Guðmundur: Ég held að það verði að gera eitthvað fyrir þá sem vélaðir voru til að kaupa bíl í gengistryggðum lánum. En það er þá verið að hjálpa einstaklingum. En að endurgreiða gjöld af notuðum vörum og flytja þær úr landi er ekki að gagnast íslendingum. það gagnast íslendingum betur að fá að kaupa þessa bíla á sams konar útsöluverði og þeir verða seldir á í þessum hrægammaviðskiptum.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 21.10.2008 kl. 13:50

12 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

það hins vegar gagnast bílasölunum ekki  og þessi ríkisstjórn gætir hagsmuna bílasalanna.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 21.10.2008 kl. 13:50

13 identicon

Salvör: Það er alveg öruggt mál, að þessi floti er falur þeim er hæst býður. Vantar ekki gjaldeyri inn í landið ? Það verður að athuga það, að þessi gjöld sem stendur til að endurgreiða af þessum bifreiðum, voru greidd í ríkissjóð vegna þessara sömu bifreiða, þannig að þetta er bara INN og ÚT ! Hver er að tapa á því ? Og hver heldurðu að eigi þessa bíla í raun og veru ? Hefur þessi þjóð og þessi útrás í heild verið rekin á erlendum lánum síðustu árin ?

Guðmundur borgarbarn (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 14:14

14 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Guðmundur borgarbarn: Einu sinni var hægt að véla okkur til allra hluta af því það miðaði að því "að ná niður verðbólgunni". Þannig var tíminn frá Geir Hallgrímssyni til Geir Haarde. Það var óðaverðbólga oft á þeim tíma samt. Núna er nýja sefjunarorðið "að fá mikinn gjaldeyrir inn í landið". Það blekkir okkur til að halda að það sé einhver glóra í því að ríkið hjálpi til við að selja bíla á tombóluverði út úr landinu.

Það er sjálfsagt að flytja alla þessa ótollafgreiddu bíla úr landi. Af hverju er ekki löngu búið að því? Það er líka sjálfsagt að aðstoða einstaklinga við að komast burt úr því skuldafangelsi sem gengistryggð bílalán eru og gera fólki kleift að skila inn bílunum. En það er arfavitlaust að borga með að flytja notaða bíla úr landi á slikk.

það verður vitleysislega farið með verðmæti nú í vetur og það hefur verið vitleysislega farið með verðmæti. En að ríkisstjórnin gangi erinda bílasalanna er botninn á öllu. Dýpra er ekki hægt að sökkva.  Bíddu annars... hvernig var það með þessar nokkur þúsund íbúðir sem bróðir fjármálaráðherra keypti þegar kaninn fór... var honum lánað af ríkispeningum fyrir þeim íbúðum? Er hann kannski ekki búin að borga þær?

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 21.10.2008 kl. 16:54

15 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Rökin sem Bílgreinasambandið nota halda ekki vatni.

Það segir að milljarðar streymi inn í landið við sölu á bílunum.

Ég hefði haldið að það væru fleiri milljarðar sem streymdu inn í landið með því að selja þá 5000 nýja bíla sem standa á hafnarbakkanum heldur en 5000 notaða.

Það segir að það sé svo umhverfisvænt að losa sig við mengandi bíla og betra sé að keyra um á nýjum bílum sem menga minna.

Ég bendi á að þessir mengandi bílar halda áfram að menga í útlöndum og loftmengunin spyr ekki um landamæri.

Þegar maður les þessa frétt hér og sér auglýsingar allra bílaumboðana fyrir neðan þá er augljóst hvaðan þessi boðskapur kemur. Vonandi láta stjórnvöld ekki blekkjast.

Sigurður Haukur Gíslason, 22.10.2008 kl. 00:16

16 identicon

Nokkrar leiðréttingar og ábendingar til Salvarar og Sigurðs.  Jú satt er það Bílgreinasambandið eru samtök þeirra sem starfa í bílgreininni, ekki bara bifreiðaumboða heldur líka verkstæða, bæði málningar og réttingaverkstæða sem og vélaverkstæða og er starfsgrundvöllur þeirra háður hvor öðrum.

 

Eins og kemur fram í frétt á www.bgs.is sem Sigurður fullyrðir að haldi ekki vatni, þó án þess að færa rök fyrir því, þá eru 8-10þús. notaðir bílar til sölu á landinu. Bílaumboðin eiga uþb. 3000 stk. af þessum fjölda.  Bílaleigur eru með uþb. 2000 bíla á hverju hausti til sölu og afgangurinn er í eigu einstaklinga.

Allir þessir bílar íþyngja eigendum sínum hverjir sem þeir eru, þeir safna á sig kostnaði í formi vaxta, bifreiðagjalda og trygginga og á meðan það gerist falla þeir í verði, verðmæti tapast.

 

Þið talið um brunaútsölur án þess að færa rök fyrir því.!  Það er búið að kanna hvað er að skila sér inní landið ef þessir bílar eru seldir úr landi og þá er búið að taka allan kostnað með og er ekki um brunaútsölu að ræða, annars væru þær haldnar hér heima!.  Þið fullyrðir að það sé ekki hægt að selja þessa bíla þar sem markaðir fyrir bíla séu frosnir.  Markaðir fyrir nýja bíla eru frosnir það er rétt, en það á ekki við um notaða bíla ef hægt er að bjóða þá á samkeppnishæfu verði.  Það er hægt ef þessi gjöld eru endurgreidd að hluta.  Það er líka búið að kanna það, staða krónunnar skiptir þar líka sköpum.  Eins og ekki hefur farið framhjá neinum þá hafa útlendingar streymt til landsins til að versla.

 

Það er ekki hægt að flytja út þessa nýju bíla sem standa niður á hafnarbakka, það er búið að kanna það og búið að flytja þá bíla úr sem mögulegt var.  Þeir eru ekki samkeppnishæfir í verði ef þeir eru fluttir út aftur.  Þá bíla á eftir að greiða öll gjöld af.

 

Bílar menga áfram þó þeir séu fluttir út eins og Sigurður bendir á en virðist ekki hafa haft þolinmæði til að lesa alla fréttina á bgs.is þar sem sagt er frá því að líftími bíla erlendis er mun styttri í flestum tilfellum en hér á landi svo þeir eru fyrr að hverfa af götunum en ef þeir væru hér á landi og annað ekki síður mikilvægt, þeir væru til gagns sem þeir eru ekki hér.!

Þó svo þú Sigurður sért eflaust mjög klár að reikna þá er líka búið að reikna út og á nokkrum stöðum, að útflutningur á þessum bílum skilar miljörðum í gjaldeyri inní landið eða á bilinu 8-10 miljarða.  Það sem ríkið þarf að greiða ÚT er á bilinu 1,5 til 2 miljarðar. Eins og Guðmundur “borgarbarn” benti á, þá er verið að tala um INN og ÚT nema hvað það verður aldrei endurgreitt að fullu ÚT heldur aðeins hlutfalslega miðað við verðmæti og aldur bíls.  Einnig er rétt að benda á að þetta fyrirkomulag um endurgreiðslu gjalda þegar bíll er fluttur úr landi er tíðkaður í flestum öðrum löndum með góðum árangri.

Það er oft gott að kynna sér hlutina til hlítar áður en farið er af stað með fullyrðingar “sem halda ekki vatni”!

 

Ps. Salvör, útflutningsbætur með lambakjöti voru felldar niður fyrir 15 árum og er það einungis flutt út á markaði sem borga vel og í flestum tilfellum betur en sá Íslenski, skilar líka gjaldeyri..

Özur Lárusson (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 10:26

17 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Özur!

Nýju bílarnir sem standa á hafnarbakkanum voru greiddir fyrir a.m.k. sex mánuðum síðan á þáverandi gengi og ættu því að vera mjög samkeppnisfærir á erlendri grundu eins og gengið er núna. Af hverju ekki að nota útflutningsbæturnar sem þið viljið að sé greiddar með gömlu til að flytja út nýju bílana?

Jú Özur, ég hafði þolinmæði að lesa fréttina og sérstaklega þetta:

Bílar í Evrópu ganga yfirleitt fyrr úr sér þar sem notkunin er mun meiri á ári hverju en hér.

Sem sagt þeir keyra jafn marga kílómetra í útlöndum en bara á styttri tíma. Mengunin er jafn mikil fyrir því.

Sigurður Haukur Gíslason, 22.10.2008 kl. 11:48

18 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Özur: Það er alveg fordæmislaust að endurgreiða skatta á notuðu dóti hvort sem það eru bílar eða annað.  Þessi ríkisstjórn er rúin öllu trausti ef hún fer núna að ganga erinda bílaeigendanna en hefur ekkert hirt um það að margar fjölskyldur eru lamaðar af ótta vegna skulda og atvinnumissis og ofan á það eignamissir flestra sem eitthvað áttu fyrir í hlutabréfum og sjóðum. Lífeyrisréttindi fólks gufa upp.  Það er auvirðilegt að ríkisstjórn skuli á þessum tíma ganga hagsmuna bílasala.

Til langs tíma er það líka andsnúið hagsmunum Íslands að farartæki séu selt úr landi. Allt í lagi með þessa ótollafgreiddu, gott að losna við það. En þessa bíla sem búið er að nota og búið að greiða gjöld af og ekki fæst nema brot fyrir erlendis, það er miklu betra þjóðhagslega að þeim verði dumpað á sama verði hér á markaði. En það er verra fyrir bílasalana.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 23.10.2008 kl. 17:01

19 identicon

Salvör, þú ættir að hafa vit á því að þegja bara.  Meiri þvælu hef ég sjaldan séð.  Þú ert alveg ótrúlega illa upplýst og það skín af þessum skrifum þínum langar leiðir að þú veist nákvæmlega ekki neitt um hagfræði, lögfræði, skattamál, gengismál, bílasölu yfirleitt, ríkisfjármál yfirleitt ofl. sem þú ert að tjá þig um.

Það eina sem nokkur hefur sagt af viti hérna er Özur.  Hitt kjaftæðið er út fyrir allan þjófabálk.  Ég nenni ekki að útskýra þetta í löngu máli, Özur gerir það að hluta, en þú myndir sennilega aldrei skilja orð af því hvort eð er.

Þetta með nýju lögin (sem eru ekki orðin lög ennþá) um að heimila endurgreiðslu vsk. og kannski vörugjalda af bílum, er ekki bara fyrir bílasala heldur alla.  Það er svo mikið ótrúlegt þvaður sem kemur út úr þér að það nær ekki nokkurri átt.  

 Þú skrifar t.d. þetta: ,,Til langs tíma er það líka andsnúið hagsmunum Íslands að farartæki séu selt úr landi. Allt í lagi með þessa ótollafgreiddu, gott að losna við það. En þessa bíla sem búið er að nota og búið að greiða gjöld af og ekki fæst nema brot fyrir erlendis, það er miklu betra þjóðhagslega að þeim verði dumpað á sama verði hér á markaði. En það er verra fyrir bílasalana."

Maður fær bara kjánahroll.  Andsnúið hagsmunum landsins að losna við umfram bílaflota????  Gengur þú ekki alveg heil til skógar? 

Þú ættir að snúa þér að því að prjóna eða eitthvað, ekki tjá þig um viðskipti og hagfræði, þú veist minna en ekki neitt um þessi mál, augljóslega.

Hverjum myndi þetta gagnast?  Þú talar um allar fjölskyldurnar sem voru vélaðar til að taka lán í erlendri mynt og telur að bæta eigi hag þeirra, þvert ofan í kjaftæðið sem þú segir um bílana.  Það er einmitt leið fyrir þetta sama fólk að selja  bílana sína úr landi, losna undan því skuldaoki.

Þú ert svo hræðilega illa lesin að þú telur að ekki fáist betra verð fyrir bílana annars staðar, því þar sé allt botnfrosið.  Ertu drukkin?  Hvaða endalausa þvaður er þetta?  Sala á nýjum bílum hefur dregist saman víða en hvergi er talað um botnfrost á neinu.  

Nú kemur smá útskýring á þessu sem ég held að þú munir ekki skilja.  Þú ert nú ekki það skarpasta sem ég hef séð hérna í bloggheimum.

Ef ísl. krónan fellur um 100% gagnv. öðrum gjaldmiðlum, eins og hún hefur gert gagnvart sumum á ca. 12 mán., þá kostar það sem við viljum kaupa frá öðrum, 100% meira en áður, fyrir 12 mánuðum.  En það sem aðrir vilja kaupa af okkur kostar 100% minna fyrir þá en áður.  Það þýðir að ef bíll var keyptur í fyrra á 2 milljónir hér á landi, kostar það nú 1 milljón fyrir útlending að kaupa hann til baka en sá sem selur hann fær sínar 2 milljónir í íslenskum krónum eins og hann borgaði fyrir bílinn í fyrra.  Já, útlendingurinn fær bílinn á hálfvirði m.v. sinn gjaldmiðil en Íslendingurinn fær FULLT VERÐ, FULLT VERÐ fyrir bílinn.  Ég ætla að segja þetta einu sinni enn svo þú skiljir það kannski, FULLT VERÐ.  Það er einmitt þess vegna sem þessi stórgóða hugmynd kom upp. 

Þannig að ef kvalin fjölskylda var véluð til þess að kaupa t.d. 4 milljón króna bíl á 2 milljóna króna erlendu láni i fyrra og skuldar núna 4 milljónir í bílnum, væri þetta einmitt þeirra eina leið út úr vandanum því sá sem kaupir bílinn með öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum er að fá bílinn á t.d. 3,5 milljónir í stað 4 sem væri kannski gangverð í hans heimalandi og er því að gera mjög góð kaup.  Kaupverðið gæti verið hærra og gæti verið lægra en það fer eftir landinu, t.d. eru bílar miklu dýrari í Danmörku en hér.  Að sama skapi fær fjölskyldan þessar 3,5 milljónir í íslenskum krónum og bíllinn er seldur.  Ríkið fengi síðan þessa upphæð í Seðlabankann í þessum erlenda gjaldmiðli því fjölskyldan skiptir í krónur og allir, ALLIR græða, ALLIR GRÆÐA, ÞÚ LÍKA BJÁNINN ÞINN.  Salvör mannvitsbrekka.  Þannig minnka líkur þessarar fjölskyldu á gjalþroti (aftur græða allir) og hún tapar ekki nema 500þ. af eigin fé en ekki öllum bílnum og sæti uppi með 2 milljónir í skuld að auki, því bíllinn selst ekki hér á landi þó hann væri hirtur af lánveitandanum.  Vsk. og vörugjöldin sem fengjust endurgreidd frá ríkinu kæmu til móts við lækkað verð bílsins því sá sem kaupir hann í öðru landi þarf að greiða þessi gjöld þar í staðinn og verðið kemur þá eins út fyrir hann.

En þú í þinni endalausu fáfræði og bjánaskap vilt koma í veg fyrir að menn ,,losni undan því að verða gjaldþrota með því að koma bílum úr landi".

Þú ert beinlínis illa gefin.

Hjá bílaumboðum vinnur fólk, það fólk sér fyrir fjölskyldum, þær fjölskyldur (ásamt fyrirtækinu) greiða tekjuskatt til ríkisins og eiga svo kannski sjálfar bíla með lánum á sem ekki er hægt að selja hér.  Ef umboð fer á hausinn, missir fólkið vinnuna, getur ekki greitt sína reikninga, þ.m.t. afborg. af bílnum og fer líka á hausinn.  Hver situr svo uppi með kostnaðinn af því?  Jú, það ert þú ásamt öllum hinum sem eiga hlut í ríkiskassanum.  Ríkið er við, við erum ríkið.  Ríkiskassinn er okkar, það sem lendir á ríkinu lendir á okkur.  Þér líka. 

Það er hægt að fara miklu dýpra í þetta og skýra betur og telja til ótal önnur atriði sem skipta hér máli, en ég hef ekki tíma í það.  Það sem eftir stendur er þetta:

Það að lýsa því yfir að bílaeigendur ca. 10.000 bíla eigi bara skilið að fara á hausinn og ríkið sé að brjóta stjórnarskrá með því að reyna að hjálpa fólki að koma þessu í verð, og það í erlendum gjaldeyri sem aldrei hefur verið meiri þörf fyrir (það var jú greitt fyrir þessa bíla með gjaldeyri og þar með stuðlað að ójafnvægi í vöruskiptum (neikvæður vöruskiptahalli) sem aftur veikir krónuna og allir tapa), er alveg örugglega það heimskulegasta af öllu heimskulegu sem maður hefur orðið vitni að í þessu öllu hingað til.

Tjáðu þig um allt annað en fjármál og hagfræði (og lögfræði, vísandi í stjórnarskránna án þess að hafa hugmynd um hvað stendur þar). 

Freyr (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 19:49

20 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Freyr! Fyrst þú ert svona gáfaður og við vitlaus hlýtur þú að geta svarað þessum spurningum:

Af hverju á að nota útflutningsbætur með notuðum bílum en ekki nýjum? Það standa 5000 nýjir bílar á hafnarbakkanum tilbúnir til útflutnings.

Má ekki fá gjaldeyri inn í landið með því að nota útflutningsbæturnar og flytja út mjólk, kjöt og notuð fellihýsi?

Sigurður Haukur Gíslason, 2.11.2008 kl. 22:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband