Ríkjasamband Norðurslóða Noregur-Ísland-Færeyjar-Grænland

Steingrímur sem hélt útréttri sáttahönd lengi, lengi og vonaðist eftir þjóðstjórn er núna ekki handadofnari en svo að hann veifar brugnum brandi í nýjustu útgáfu af íslenskum víkingaferðum, það eru ferðirnar til að slá lán.  Steingrímur byrjar það strandhögg í Noregi og mér líst ekkert illa á þetta þó Steingrímur sé umboðslausari er fjandinn sjálfur til að semja um örlög Íslendinga. En þó er umboð Steingríms meira en útrásarvíkinganna, fjárglæframannanna sem hafa átt stóran þátt í að steypa okkur í glötun. Var ég spurð um hvort ég vildi vera ábyrgðaraðili á einhverjum Icesave reikningi á netbanka? Vissi ég að þessi Icesave reikningar væru til? Nei og aftur nei.

Þó að kostir Íslendinga séu þröngir núna þá eru nokkrar leiðir færar. Ein er sú að sigla á fullu stími eins hratt og hægt er inn í Evrópusambandið. Hin er sú að tengjast eitthvað annarri þjóð sem á meira undir sér en við og getur betur ráðið við að velkjast í ólgusjó sem smáþjóðir með verðlausan gjaldmiðill drukkna í. Þar er auðvitað Noregur efst á blaði, það eru margar ástæður, íslenska þjóðin er af sama meiði og norska þjóðin, sagan og menningin er sameiginleg og það sem mestu varðar er að hagsmunir fara að mörgu leyti saman núna og styrkt bandalag beggja þjóða getur gagnast báðum á næstu áratugum.

Raunar er það þannig að best væri fyrir allar Norðurslóðaþjóðir að vera í sameiginlegu ríkjasambandi undir forystu Norðmanna. 

Ég held ekki að það gagnist Íslendingum neitt sérstaklega vel að verða dreifbýlisjaðarsvæði á útkanti Evrópusambandsins.  Það getur vel verið skynsamlegra fyrir Ísland og fyrir heiminn að þjóðir á svipuðum slóðum með líka hagsmuni myndi bandalög. Umhverfismál beinast nú þegar að hinum miklu auðæfum Norðurslóða og þeirri viðkvæmu náttúru sem þar er. Ég held ekki að Evrópusambandið sé heppilegasti aðilinn til að hlú að því svæði. 


mbl.is Steingrímur J: Biðlar til norskra stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Rosalega finnst mér skrýtið þegar gáfað fólk hérna á Íslandi fer að viðra hugmyndir um norrænt ríkjasamsamband á tímum Evrópusambandsins. Er fólk ekki alveg með á því að Svíþjóð er í ESB, gekk þar inn í bankakrísunni sinni fyrir rúmum áratug. Danmörk er þarna líka og Finnar gengu þar inn eftir að Sóvíet og þeir þurftu að endurskipuleggja efnahag sinn. Finnar t.d. hafa haft meiri hagvöxt en Ísland, eru með evru og líður mjög vel.

Afhverju ættu þessi lönd að hafa áhuga á því að mynda eitthvað ríkjasamstarf við Ísland sem er á barmi gjaldþrots? Hvernig gæti það ríkjasamband virkað þar sem við Noregur erum 80% innan regla Evrópusambandsins, og hin norðurlöndin að fullu? (utan við að Danmörk og Svíþjóð standa á hvorn sinn hátt fyrir utan ESB).

Er þetta vel gefna fólk sem kemur með þessa hugmynd bara svona mikið á móti Evrópusambandinu að það neitar að horfast í augu við að stórt ríkjasamband með stóran sameiginlegan markað og mynt er betri en lítið? Skandenavíska módelið rúmast alveg innan Evrópusambandsins og þessar þjóðir geta tekið sér höndum saman um það, en að mynda ríkjasamband norðurslóða; ég get bara ekki séð hvernig það á að nýtast okkur. 

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 20.10.2008 kl. 11:36

2 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

utan við að Danmörk og Svíþjóð standa á hvorn sinn hátt fyrir utan EMU átti þetta að vera.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 20.10.2008 kl. 11:37

3 identicon

Mér hugnast hugmyndin um náið samstarf Íslands og Noregs mun betur heldur en að við göngum í ESB. Slíkt samstarf gæti verið um sameiginlega mynt, og þar með sameiginlegan seðlabanka og helst sameiginleg fjármálaeftirlit. Ég er ekki að tala um yfirþjóðlegt batterí með eigin fána og þjóðsöng og hvaðeina heldur bara laustengt bandalag fullvalda ríkja. Ég held að þeir sem hæst hrópa nú á ESB-aðild sem einhverskonar skyndilausn á bankakrísunni geri sér litla grein fyrir því hvað felst í aðild. Er það virkilega sniðugt að afsala okkur til frambúðar ákvörðunarvaldi í sjávarútvegi, landbúnaði, viðskiptamálum, orkumálum o.s.frv. bara til þess að freista þess að leysa krísu dagsins í dag? Ekki finnst mér það, ekki ef það eru aðrar lausnir í boði.

Bjarki (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband