Sjóður dóttur minnar

Yngri dóttir mín 18 ára var dugleg að safna sér fé í sumarvinnu og vinnu meðfram skóla og hún treysti mér til að varðveita það. Hún ætlaði þetta fé til að kaupa bíl.  Ég hef þetta fé bundið í tveimur hlutafélögum og sagði við hana að þetta skyldi vera lexía hennar í fjármálum, hún skyldi fylgjast með því  hvernig hlutabréfamarkaður virkaði en ég myndi taka ábyrgð á því ef hlutabréf þessara félaga lækkuðu mikið. Þessi hlutafélög sem ég festi fé dóttur minna í eru Atorka og HB-Grandi. Svo vill til að frá því að hún byrjaði að spara þá hafa bæði þessi félög verið tekin af hlutabréfamarkaði.

Nú hefur hún lært þá lexíu að hlutabréfamarkaður virkar stundum alls ekki. Nú er ekki lengur verslað með bréf í þessum félögum og það er engin verðmyndun á markaði með þau.  Bréfin í HB-Granda hljóta hins vegar að halda nokkuð vel verðgildi sínu, það eru sjáanlegar eignir og kvóti og frystitogarar bak við þau bréf. Bréfin í Atorku eru óviss eign, Atorka er kjölfestufjárfestir í Geysir Green Energy og í ýmsum fleiri fyrirtækjum eins og  Promens sem mun að vera einn af stærstu plastframleiðendum í heimi og vera á Íslandi (sjá hérna)

Hvernig fer með sjóð dóttur minnar í nánustu framtíð? 

Hún á núna lítill part af því sem áður var Bæjarútgerð Reykvíkinga en heitir núna HB-Grandi og hún á núna lítinn part af fjárfestingarfyrirtæki. Það er ekki víst að þetta sé mikils virði núna þegar allt er á hvolfi  en það getur verið að það breytist.

Hér er er upplýsingar um stjórn Atorku. Þar sitja nú í stjórn Þorsteinn Vilhelmsson, Hrafn Magnússon, Ólafur Njál Sigurðsson, Örn Andrésson, Karl Axelsson, Stefán Bjarnason og Magnús Gústafsson.

Hér er skipurit yfir stjórn Granda. Þar sitja eingöngu karlmenn í stjórn.

Hugsanlega verður þetta öðruvísi lexía fyrir dóttur mína en ég ætlaði upphaflega. Hugsanlega verður þetta lexía í því hverjir sýsla með og stjórna verðmætum í samfélaginu og hvaða hópar samfélagsþegna fá ekki að að koma þar að. Af hverju eru engar konur hvorki í stjórn Atorku né stjórn HB-Granda?

Ég mætti á síðasta aðalfund hjá HB-Granda og ég bauð mig fram í stjórnina. Ég stefni líka að því að mæta á næsta aðalfund og þá ætla ég líka að bjóða mig fram. Ég sennilega býð mig líka fram í stjórn Atorku og vonandi tekur dóttir mín við af mér og reynir að komast til áhrifa þar sem sýslað er með lífsafkomu fólks og eigur heilla samfélaga. Vonandi mun hún berjast fyrir því að löggjöf okkar leyfi ekki að svona mikil slagsíða sé á félögum amk ekki almenningshlutafélögum varðandi kynjahlutföll. Það er kannski ekki hægt að kalla þetta slagsíðu, því á báðum stöðum eru konur ekki sýnilegar.

Talandi annars um það.... hvað voru margar konur í hinum margumtalaða útrásarvíkingahópi og í hinum glæfralegu fjárfestingum sem núna hafa sett Ísland á hliðina?

 

 


mbl.is Atorka óskar eftir afskráningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hlutabréf í Atorku eiga að vera nokkuð örugg. Þetta fyrirtæki á um 40% í Geysir Green sem á aftur stóran hlut í Hitaveitu Suðöurnesja sem á Bláa lónið. Þessi fyrirtæki eru sannkallaðar gullmyllur.

Promens er að stofninum Sæplast og því fyrirtæki stýrir fyrrum forstjóri Flugleiða sem þurfti eftir nokkra mánuði að víkja fyrir athafanmanni sem nú er floginn úr því hreiðri. Promens er mjög vel rekið fyrirtæki og skilaði Atorku góðan arð á síðasta ári.

Greinilegt er að þú þarft að setja þig betur inn í fyrirtækjarekstur ef þú ætlar að hafa tækifæri að ná kosningu í stjórn. Á síðasta aðalfundi HBGranda fékkstu atkvæði frá mér. Skipti þeim milli þín og Árna Vilhjálmsson.

Kveðja Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 13.10.2008 kl. 18:16

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Takk fyrir þessar upplýsingar.  Takk fyrir að gefa mér líka atkvæði á síðasta aðalfundi Granda, ég hafði gaman af því að bjóða mig fram. Árna Vilhjálmsson minn gamli kennari er nú líka alveg frábær.

Það var nú frekar svona aktívistaaðgerð að bjóða mig fram til að benda á hve konur eru lítt sýnilegar og koma ekki að kjötkötlunum. Ég þóttist vita að ég hefði ekki mikla möguleika, það eru miklir hagsmunir stórra eigenda í húfi. 

Takk fyrir líka þessar upplýsingar um Atorku. Þetta þýðir þá að sjóður dóttur minnar er nú bara nokkuð góðar varanlegar eignir, eignir sem ekkert bendir til að muni rýrna þó nú sé afleitt ástand og bæði félögin afskráð af markaði.

Ég þykist vita nokkuð um rekstur HB-Granda og það væri gaman að setja sig inn í rekstur Atorku. Ég hef gaman af því að eiga bréf í fyrirtækjum sem ég trúi á og það verður jarðsamband ef almenningur fylgist með atvinnulífi og finnur sjálfur fyrir hvernær gengur vel og hvenær gengur illa.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 13.10.2008 kl. 18:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband