18.9.2008 | 13:07
Íslendingabók á 20. öld
Það er dökkt útlit núna hjá því þekkingarfyrirtæki á Íslandi sem hvað mestar vonir voru á sínum tíma bundnar við. Eins og hjá mörgum fyrirtækjum sem núna róa lífróður þá skapast þetta ástand vegna ytri aðstæðna sem íslensk fyrirtæki ráða ekki við. Fjármálakerfi heimsins er að hruni komið og enginn veit hvað gerist á næstunni.
Ég hugsa að það séu fá íslensk fyrirtæki sem almenningur batt eins miklar vonir við og deCode. Grein sem birtist í Guardian í lok árs 2002 lýsir tilurð Decode, bæði ofurvæntingum almennings þar sem mörgum var ráðlagt af virðulegum fjárfestingaraðilum og bönkum að kaupa í deCode sem og heiftarlegum ágreiningi um gagnagrunn lífsýna, hér er greinin: Decode átti að bjarga mannslífum, en er nú að eyðileggja þau ...
Væntingarnar og tilhlökkunin hjá sumum við stofnun deCode minnir á tilurð Eimskipafélags Íslands árið 1914. Í iðnaðarsamfélaginu í byrjun tuttugustu aldar þá var flutningafyrirtæki sem rauf einangrun landsins og sigldi með aðföng til landsins og vörur frá landinu nauðsyn fyrir hagvöxt hérna. Á eylandi þurfti ekki eimreiðar, það þurfti eimskip. Í þekkingarsamfélaginu í lok tuttugustu aldar var deCode öflugt þekkingarfyrirtæki sem dró til sín menntað fólk sem rannsakaði og kortlagði hinn örsmáa heim gena í lífverunni maður.
Flestir Íslendingar þekkja eitthvað til deCode þó ekki sé nema í gegnum Íslendingabók ættfræðigagnagrunninn. Það er reyndar til tvær Íslendingabækur, það eru um 900 ár á milli ritunartíma þeirra og hin eldri er Íslendingabók Ara fróða sem virðist við fyrstu sýn ekki eiga mikið sameiginlegt með Íslendingabók ættfræðigrunninum en þegar betur er að gáð þá eru báðar bækurnar heimsmynd sinna tíða, lýsing á Íslendingum og ferðalagi þeirra í gegnum söguna og milli landa og ferðalag erfðaefnisins og flæði genamassans milli kynslóða, ferðalag og flæði í takt við tíðarandann eins og hann var þegar þessar Íslendingabækur voru skráðar. Þær eru líka skrifaðar á þann máta sem hæfir ritunartímanum, hin fyrri er skrifuð á skinn og væntanlega eftir munnlegum heimildum, hin síðari er skrifuð í stafrænt rými og er aðgengileg á Internetinu.
Ég velti fyrir mér hvernig hin þriðja Íslendingabók verði skrifuð, af hverjum, með hvaða heimssýn og í hvaða form og hvenær. Ef til vill líða nokkur hundruð ár þangað til hún verður skrifuð. Mig grunar að í þeirri bók verði aðeins lítill kafli helgaður okkur sem erum afkomendur fólksins sem skráð er í Íslendingabók I og Íslendingabók II. Hugsanlega heitir sá kafli "Frumbyggjarnir".
Versti kostur er að kaflinn um okkur heiti "Hinir útdauðu" og lýsi minjum um horfna menningu sem skildi fátt eftir sig nema tungumál og rúnastafi íslenskt máls sem enginn getur þá ráðið lengur nema fornleifafræðingar.
Gengi deCode í ölduróti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:13 | Facebook
Athugasemdir
Merkilegt hvað einokunaraðstaðan virðist hafa skilað óskabörnum þjóðarinnar litlu, þegar á reynir.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 17:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.