17.9.2008 | 08:46
Bankahrunið mikla - lögmál skortsins - hagfræði þess sem er ókeypis
Góð grein hjá mbl.is. Það þarf samt óhemju yfirlegu til að botna í öllum þessum hugtökum í nútíma fjárfestingarstarfsemi.
Þessi hugtök eru mér ekki töm:
- afleiður derivative
- skortsala short sale
- framtíðarsamningar futures
- valréttur options
- skiptasamningar swaps
Ég held líka að það sé of mikil einföldun að skella skuldinni á afleiðusamninga. Margt af því sem fjárfestar gera er að reyna með einhverjum hætti að spá fram í tímann og dreifa áhættu og hámarka hagnað, gera einhverja spá um framtíðina og skrá væntingar um hvað gerist í næstu framtíð með því að skrá það sem tölur í fjármálareikningum. Það sem getur hafa gerst er að spádómar um framtíðina eru einfaldlega ekki góðir t.d. að íbúðarhúsnæði á vesturlöndum er of hátt metið en kerfið er orðið svo samantvinnað og flókið að um leið og mat á einhverju breytist verulega þá hefur það keðjuverkun á öðrum sviðum og sendir bylgjur í allar áttir og magnar upp.
Þetta sést vel í verði hlutabréfa. Þar er eins og einhver sjokkalda gangi stundum yfir, verð hlutabréfa lækkar vegna minni væntinga en lækkunin verður keðjuverkandi og nær yfir öll hlutabréf.
Ég held að það verði að kryfja dýpra til að átta sig á hvað hefur gerst. Hugsanlega er að molna undan núverandi kerfi á mörgum stöðum vegna breytinga á framleiðsluháttum, tækni og viðskiptaumhverfi. Hugsanlega er það sama að gerast í bankastarfsemi og í prentun bóka á sinni tíð - ný tækni kom prentiðnaðinum mjög vel og gerði auðveldara og ódýrara að prenta bækur. En af sama meiði var hin nýja tækni sem gerði prentun að mörgu leyti úrelta. Fyrir meira en tuttugu árum þá var ég í alls kyns leshópum um "arbejdens fremtid" og um hvað nútímatækni myndi breyta vinnunni mikið og mörg störf myndu hverfa. Ég reyndi að tala um fyrir foreldrum mínum og segja þeim frá þessari framtíðarsýn. Faðir minn var þá vanur að benda á bankana og segja: "Sjáið bankana, engir nota upplýsingatækni og nútíma samskiptatækni meira en þeir. Samt fjölgar fólki þar og fjölgar. Tölvuvæðinging virðist ekki valda atvinnuleysi."
Víst er það þannig að í marga áratugi hefur bankakerfi þanist út og hugsanlega er þessi útþensla eitthvað í tengslum við að þetta er það svið þar sem upplýsingar eru hagnýttar til hins ítrasta og upplýsingum er breytt í peninga - upplýsingar breytast í peninga þegar áhætta er mæld mismunandi mikil. Hugsanlega er þetta hrun bankakerfisins að einhverfu leyti bundin verðfalli á upplýsingum alveg eins og verðfalli á fasteignum.
Í fyrsta tímanum sem ég sat í hagfræði í háskólanum þá lærði ég að hagfræði er lögmál skortsins. Öll hagfræði sem ég lærði var hagfræði skortsins, hagfræði framboðs og eftirspurnar. Hugsanlega þarf ný líkön, nýja sýn í breyttu landslagi, hagfræði þar sem verð er ekki mælikvarðinn, hagfræði hinna ókeypis gæða (the economics of free).
Fréttaskýring: Afleiðurnar undirrót bankahrunsins? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.