8.9.2008 | 10:03
Hljóðmengun og sjónmengun - rafmagnsfarartæki
Daglegt líf á götum í mörgum fallegum borgum einkennist oft af ærandi götuhávaða ásamt því að bílar af öllum stærðum og gerðum æða með ógnarhraða um götur, bílar sem eru ekki í neinum takti við byggingar, fólk og umhverfi. Þessir bílar búa til beljandi hættuleg stórfljót þar sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Fólk hefur vaknað til vitundar um mengun sem hægt er að mæla í úrgangsefnum og eiturefnum, nú er tími kolefnisjöfnunar og kolefniskvótakaupa. Þetta eru auðvitað brýn vandamál nútímans. Það er hins vegar alls ekki nógu mikil vitundarvakning um þau lífsgæði sem felast í því að vera ekki króaður inni í ljótleika og ærandi umferðarnið.
Úrgangsefnavandamálin eru vandamál sem eru ekki leyst nógu hratt vegna þess að svo mikið fjármagn er bundið í infrastrúktúr sem þjónar núverandi tækni (þ.e. vegir og gatnamannvirki fyrir bensíneinkabíla) og svo mikil er bundið í framleiðslutækjum (bílaiðnaði/bensínsiðnaði) og þjónustu sem býr til og rekur núverandi kerfi. Rafmagsnsfarartæki þurfa mikið forskot á einhverju sviði til að vera hagkvæm til að vega upp á móti þeirri miklu forgjöf sem núverandi kerfi bensín og díselbíla býr við. Einhvern tíma kemur vonandi að því að ekki verður hagkvæmt lengur að framleiða og reka bensínbíla miðað við rafmagnsknúða bíla og það verður hagkvæmara að byggja og reka litlar sjálfvirkar raflestir.
Hljóðmengun, sjónmengun, ljósmengun
En það eru ekki eingöngu útblástur eiturefna sem veldur mengun í borgum og á vinnustöðum og heimilum. Það er hljóðmengun og sjónmengun og ljósmengun. Borgarumhverfi sem aldrei sefur og ærslast áfram með ærandi hávaða þar sem bílar þjóta framhjá á ógnarhraða og mynda síbreytilegt og óútreiknanlegt landslag er ekki heppilegasta umhverfið fyrir kyrrláta íhugun og sálarró.
Þessi tegund af mengun mælist reyndar ágætlega í verði húseigna. Það lækkar verð íbúðarhúsnæðis mikið að vera staðsett við hávaðasama umferðaræð eða á stað þar útsýnið er yfir ljót iðnaðarhverfi - á sama hátt er það húsnæði eftirsóknarvert þar sem aðgengi og/eða útsýni er yfir almenningsgarða og falleg torg og fallegt menningarlandslag eða náttúruútsýni.
Malbikuð bílastæði eða kaffihús og listagallerí
Það reyndar hækkar líka verð fasteigna að vera einhvers staðar þar sem er líf - kaffihúsamenning og listir blómstra og þar sem er gaman að ganga um.Það er ekki líklegt að fólk sækist eftir að búa á stöðum þar sem eina nærlandslagið er malbikuð bílastæði og eina tilbreyting í umhverfinu er að horfa yfir mörg hundruð bíla. Það er líka fáránlegt að skipuleggja umhverfi með þeim hætti að húsin séu ekki annað en hulstur utan um bílamenningu. Það er vel hægt með nútímatækni og nútímaaðferðum að búa til fallegt, kyrrlátt náttúrulandslag í borgum, einhverja staði þar sem fólk vill ganga um og njóta lífsins.
Oft er skipulag unnið með skammvinna hagsmuni verslunareigenda í huga og öll hönnun þannig að best sér fyrir fólk að koma að versla. það virðist hafa verið leiðarljós varðandi Laugaveginn, enda er hann gömul verslunargata. En það er kannski ekki góð aðkoma að verslunarhúsnæði og auðvelt aðgengi að bílastæðum og lág stöðumælagjöld sem gera borg að menningarvin.
Hér er viðtal við Sigmund sem er fulltrúi okkar Framsóknarmanna í skipulagsráði Reykjavíkur.
Þetta eru áhugaverðar hugmyndir hjá honum
Ráðstefna um byltingu í rafmagnssamgöngum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:09 | Facebook
Athugasemdir
Gættu þín á því hvað þú kallar "eiturefni" (-: Fólk hefur verið voða duglegt að benda mér á að t.d. CO2 er ósköp náttúrulegt efni og er náttúrulega eitt og sér ekki hættulegt heilsu manna (ólíkt t.d. CO).
Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 13:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.