3.9.2008 | 19:15
Djúp kreppa
Hver einasti sem hefur verið að selja eða kaupa fasteignir undanfarna mánuði hefur fundið fyrir kreppunni. Það halda allir að sér höndum en hugsanlega er það fyrst núna með haustinu sem byggingariðnaðurinn getur hægt á sér. Það er þannig með byggingariðnað að það tekur langan tíma að bremsa, það er ekki hægt að hætta með hús í byggingu á miðju byggingarstigi jafnvel þó ekki sé fyrirsjáanlegt að húsnæðið seljist.
Það er ekki skynsamlegt að kaupa húsnæði í dag. Það er hagstæðara að leigja og það bindur fólk ekki í einhverja átthagafjötra skulda ef húsnæði lækkar og fólk getur ekki losnað við íbúðir. Það er lítið gagn í því að búa við þannig frelsi að maður geti farið hvert sem er í Evrópu til að vinna ef maður kemst ekki vegna skulda. Þannig aðstæður hafa reyndar margir á landsbyggðinni búið við lengi, fólk hefur þar ekki átt gott með að flytja vegna þess að allar eignir þess eru í fasteignum sem seljast langt undir kostnaðarverði. Við höfum hins vegar ekki búið svoleiðis aðstæður lengi hér á höfuðborgarsvæðinu. Svo hlýtur það að hafa áhrif á eftirspurn eftir leiguhúsnæði að þúsundir leiguíbúða eru á gamla hersvæðinu á Keflavíkurflugvelli, þær eru núna leigðar námsmönnum á afar hagstæðri leigu. Talandi annars um fasteignirnar á Keflavíkurflugvelli, þær voru seldar á spottprís til fyrirtækis í eigu bróður fjármálaráðherra en þó að íbúðirnar hafi allar verið seldar á spottprís þá skil ég samt ekki hvernig er hægt að láta það dæmi ganga upp með þessari óhemjulágu leigu sem núna á íbúðum þarna til námsmanna, mér heyrist á tölum sem ég hef heyrt að leigan þarna hjæa námsmönnum vestur á Velli sé ekki nema þriðjungur af leiguverði í Reykjavík og svo eru fríar ferðir til háskólanna í Reykjavík. Hvernig tókst þeim aðilum sem keyptu þessar íbúðir að borga þær núna þegar allir bankar hafa kippt að sér höndum?
Allir sem eiga húsnæði hafa verið að tapa undanfarið ár. Sennilega verða stjórnvöld einhvern veginn að koma inn í þetta mál t.d. með ennþá hagstæðari lánum til þeirra sem eru að kaupa húsnæði eða með því að sveitarfélög eða fyrirtæki í eigu sveitarfélaga kaupi upp húsnæði til að leigja og með það í huga að selja það á frjálsum markaði þegar betur árar. Það hafa stjórnvöld víða um heim gert við þessar aðstæður, þetta er langt í frá séríslenskt vandamál.
Það er alls staðar húsnæðiskreppa, húsnæði hríðfellur í verði. En kreppan magnast á Íslandi vegna þeirra spilakassamenningar sem hér yfirgnæfir allt. Hetjur íslensks samfélags undanfarin misseri hafa verið menn sem virðast galdra fram peninga úr engu, svona peninganaglasúpa þar sem hrært er í súpunni með því að búa til aragrúa af félögum sem kaupa hvert í öðru og búa til naglasúpuhagnað þannig. Svo hjálpar ekki til að stjórnvöld eru ráðþrota á Íslandi en halda uppi gjaldmiðli sem ræður ekkert við aðstæður. Gengið fellur og fellur og vörur og aðföng hækka og hækka. Þetta veldur keðjuverkun og óróa.
En þó húsnæðisverð hafi lækkað þá hefur þó verð á hlutafé í ýmsum stórum íslenskum fyrirtækjum, sérstaklega fjármálafyrirtækjum ekki bara lækkað, það hefur hríðfallið.
Það verður bara að horfast í augu við að það er skelfilegt ástand.
Ég skoðaði nokkur fyrirtæki á hlutabréfamarkaði, hvað þau hafa fallið mikið frá því fyrir 10 mánuðum. (í byrjun nóv 2007)
Svona er ástandið
- Landsbankinn var 44 er núna 24
- Spron var 15 er núna 4
- Exista var 32 er núna 7
- Kaupþing var 1134 er núna 713
- Glitnir var 28 er núna 14
- Straumur-Burðarás var 20 er núna 9
- Atorka Group var 10 er núna 5
- Fl Group var 25 en var komið niður í 6 þegar tekið úr KAuphöll í lok maí
- Bakkavör var 66 er núna 26
Fólk sem á eignir sínar í þessum hlutafélögum hefur verið að tapa ævintýralega miklu.
Það er kannski huggun fyrir þá sem eiga allt sitt í steinsteypu að vita af því að það hefur þó verið miklu hagstæðara en að eiga fé sitt bundið í hlutabréfum. það er nú samt þannig að það varðar okkur öll til langs tíma að hlutabréfamarkaðurinn sé svona, það eru mörg þúsund manns sem hafa atvinnu sína af bankaþjónustu og fjármálaþjónustu á Íslandi og sparifé margra landsmanna er bundið í lífeyrissjóðum sem eiga hlutafé.
Dýrasta og ódýrasta húsnæðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:44 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Salvör
Ef húsnæði hækkar um 50% þá kallast það ofþensla. Í kjölfar slíkra hækkana, fara byggingarverktakar hamförum, til þess að hagnast. Það þýðir offramboð, sem kallar á lækkun á markaði. Það heitir að ná jafnvægi, og það mun vera lækkun á húsnæði. Þetta var nú nokkuð fyrirsjáalegt og heitir ekki kreppa. Ábyrgð á þessu bera Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur í síðustu ríkisstjórn. Einn versti hlutinn í efnahagstjórninni var hækkun lánshlutfalls hjá Íbúðalánasjóði í 90% sem var vond tillaga Framsóknarflokksins.
Ofan þá innlenda slaka efnahagstjórn, kemur síðan samdráttur víða í hinum vestræna heimi, vegna olíuhækkana, hækkun matarverðs og erfiðleika í bankastarfsemi.
Orðið kreppa er ekki rétta orðið yfir þann samdrátt sem er nú.
Sigurður Þorsteinsson, 4.9.2008 kl. 04:16
Verðlækkun á húsnæði jafnvel þó hún sé 20% getur alveg skoðast sem verðleiðrétting vegna þess gullgrafaratímabils sem hér var og vissulega hafði húsnæði þá snögglega hækkað í verði m.a. vegna aukins aðgangs af lánsfé til húsbyggenda/húsakaupenda.
Þetta gerir ekki kreppuástand, sérstaklega ekki ef ástandið var þannig fyrir að mikill húsnæðisskortur var. En ef þú lítur á hlutabréfaverð þá er það einmitt mælikvarði á væntingar og forspár um nánustu framtíð. Hún er afar dökk, hlutabréfin í stórum fyrirtækjum, burðarfyrirtækjum í íslensku athafnalífi eru í miklu brattara falli en fall íslensku krónunnar er. Þetta eru fyrirtæki sem veita fjölda fólks atvinnu. Það er virkilegt áhyggjuefni hve djúpt niður bréf í Íslenskri erfðagreiningu eru komin og það að mörg hlutabréf hafa lækkað um helming eða meira á einu ári samfara því að gengið hefur lækkað um tugi prósenta er hrikalegt.
Eins gott að þessi fyrirtæki eru ekki farin að halda bókhaldið í evrum. Ef við reiknum verðlækkun fyrirtækja í evrum þessa mánuði þá er er verðfallið miklu meira. Ef þetta er ekki kreppa þá veit ég ekki hvað kreppa er.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 4.9.2008 kl. 09:58
Ég vil hins vegar taka fram að þetta er ekkert sérstaklega íslensk kreppa, þetta er alþjóðlegt vandamál sem hófst með hruni á bandarískum húsnæðislánamarkaði. En það er eins og alltaf að svona kreppan kemur misjafnlega við fólk og þjóðir og það þarf engan stóran spámann til að sjá að hún kemur sérstaklega illa við þjóð eins og Islendinga þar sem fjármálafyrirtækin eru orðin hlutfallslega stór miðað við ríkið og fjármálafyrirtækin hafa stundað áhættusama útrásarfjárfestingarstefnu.
Hins vegar er til langs tíma margt sem vinnur með Íslendingum, það er ekki slæmt að helstu útflutningstekjur komi frá sjávarafurðum og afurðum sem byggjast á orku fallvatna.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 4.9.2008 kl. 10:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.