13.8.2008 | 12:41
Nítjándu aldar götumyndin
Ég er nýkomin frá Kóngsins Kaupmannahöfn en þar reikaði ég um götur í Nørrebro og Østerbro í vikutíma til að komast í snertingu við minn innri Dana og finna æðasláttinn frá íslenskri og danskri sögu sem ófst saman og sló í takt á árunum 1400 til 1944. Ég hafði sérstakan áhuga á fyrri hluta nítjándu aldar, tímanum þar sem Finnur Magnússon og Grímur Thorkelín voru leyndarráð og rýndu íog túlkuðu fornrit og rúnir. Ég spáði í hvaða afleiðingar atburðir eins og gjaldþrot danska ríkisbankans árið 1813 hafði á Íslandi, hvaða áhrif hafði stríðsrekstur Dana eins og Napóleonstríðin og hvaða áhrif hafði það á Íslandi þegar gerð var sprengjuárás á höfuðborgina Kaupmannahöfn árið 1807 og hvaða áhrif hafði það á íslenska Hafnarstúdenta að Kaupmannahöfn var á þessum tíma mikið fúafen með læstum borgarhliðum og fólkið stráféll af sjúkdómum eins og í kólerufaraldri árið 1853. Var það kannski út af þeim faraldri sem borgarvirkin voru rifin nokkrum árum seinna?
Það er svo sannarlega hægt að skoða nítjándu aldar götumynd á Nørrebro og Østerbro enda tóku þau hverfi að byggjast þegar borgarhliðin voru rifin og fólk fór að setjast að í nágrenni gömlu miðborgarinnar. Hverfin byggðust í fyrstu nokkuð óskipulega upp, göturnar voru í einkaeigu og ekkert gott skipulag á aðveitu og fráveitumálum. Svo hafa þessi hverfi verið á tímabilum í niðurníðslu. Það er núna ansi líflegt í þessum hverfum, sérstaklega í Nørrebro. Núna er verið að leggja metró í kringum gömlu borgarbrúarhverfin og verða þessi hverfi vel í sveit sett árið 2018 þegar það verður tilbúið. Metrókerfið í Kaupmannahöfn er nú alveg frábært, metróvagnarnir ómannaðir og næstum hljóðlausir og fara á nokkurra mínútna fresti beint frá flugvellinum á Amager niður í miðbæ og svo um alla Kaupmannahöfn þegar tímar líða fram. Það er nú einhver munur en hérna á Íslandi þegar maður þarf að dröslast upp í rútu hjá Kynnisferðum í Keflavík og bíða þar til henni þóknast að fara á stað og svo fá Reykvíkingar ekki að fara úr rútunni nema á BSÍ og fyrir þetta erum við rukkuð um 1500 krónur sem er um fjórfalt meira en ferðin kostar inn í miðbæ Kaupmannahafnar.
Það er óskiljanlegt að ekki skuli vera meiri umræða og þrýstingur hér á Íslandi um metró frá Keflavíkurflugvelli, sennilega notar ekkert af háttsettum pólitíkusum og embættismönnum rútuferðirnar suður á völl og átta sig ekki á því hvað þetta er stirðnað og fáránlegt samgöngukerfi sem flestir ferðamenn og margir Íslendingar þurfa að búa við. Jafnfáránlegt og úr takt við tímann og lokuðu borgarhliðin voru í Kaupmannahöfn. Það er ekki bara hagsmunir Reykvíkinga heldur líka allra Suðurnesjabúa og raunar allra að samgöngurnar höfuðborgarsvæðisins séu greiðari við alþjóðaflugvöllinn og það kostar alveg gífurlega fjármuni og undirbúning að setja upp svona mannvirki. Jafnvel þó byrjað væri að plana í dag þá eru það mælt í áratugum hvenær svona lestarkerfi getur byrjað að starfa. Það var eitt helsta baráttumál móður minnar að rafmagnsjárnbraut kæmi frá Keflavík. Það er nú þannig ástand í dag að margir vinna erlendis og pendla á milli Íslands og vinnustaðarins. Vinnan eða skuldbindingar fólks eru ekki þannig í dag að fólk þurfi alltaf að mæta í vinnuna á sama tíma á hverjum morgni en það þarf oft að mæta á fundi. Það kom fram í fréttum í dag að Gísli Marteinn er að fara í nám í Edinborg en ætlar að mæta á borgarráðsfundi með því að fljúga heim þegar þeir eru. það eru margir í þessum sporum og það mikilvægasta fyrir áframhaldandi vöxt Reykjavíkursvæðisins - og þá á ég við allt höfuðborgarsvæðið og svæðin frá Borgarnesi til Selfoss og Suðurnesin öll - er gott og öruggt og hraðvirkt og ódýrt netsamband við útlönd og auðveldar samgöngur milli Íslands og umheimsins.
Það er algjörlega út í hött að hafa innanlandsflugvöll annars staðar en á stað þar sem samgöngumannvirki geta verið samnýtt með millilandaflugvelli. Það mun kosta svo mikið að leggja samgönguæðar frá flugvelli ef það verður svona metrókerfi.
Er verið að pæla í svona hlutum í Reykjavík í dag? Eru kjörnir leiðtogar fólksins að vinna baki brotnu til að sjá framtíðarsýn fyrir Reykjavík og átta sig á stóru málunum?
Nei aldeilis ekki. Hérna eru ráðamenn í Reykjavík núna stökk í Nítjándu aldar götumynd götumynd sem aldrei var til og er ekkert einkenni á reykvískri byggingarlist. Ef eitthvað einkennir reykvíska byggingarlist þá er það einmitt óreiðan og hvernig það úir og grúir af alls konar stílum við eina götu og hvert húsið er öðru skrautlegra í litavali og allt öðru vísi en hin. Reykvísku byggingarlistin er eins og steinbæirnir, steinhús byggð eins og torfkofar í tjasl og spottastíl. Bara bæta við einu bíslagi eða hækka risið ef með þar. Menn þurfa að læra að meta þessa sundurgerð og átta sig á því að hún er einkenni Reykjavíkur og hún er líka merki um líf, það er svona umhverfi sem listin blómstrar í og þar sem breytingar geta orðið. Nýja hugmyndin um listaháskólann er alveg fínt dæmi um það. Annars er ég líka orðin svona meðvituð um þennan sundurgerðarfjársjóð Reykjavíkur að mér finnst Morgunblaðshúsið gamla mjög glæsilegt. Er ég ein um þá skoðun að ég held.
Borgarstjórinn sem Sjálfstæðismenn púkkuðu upp á í þessa stöðu hefur engin sjáanleg baráttumál önnur en að varðveita gömul hús og hindra alla blómgun í miðbænum auk heldur að vilja hafa flugvöll á stað sem er alveg arfavitlaust að hafa flugvöll á. Svo virðist hann hvorki geta haldið frið við samherja né neina aðra og jafnvel núna í mestu gúrkunni þá sé ég á blöðum sem komu út meðan við vorum öll í sumarfríum að hann hefur klúðrað mörgu í viðbót, rekið sinn nánasta samstarfsmann hana Ólöfu og rifist við fjölmiðlafólk. Er þetta lítt til að auka vinsældir hans sem mældust þó aðeins 1% fyrir síðustu klúður.
Það er svona sem stjórnsýslan er í Reykjavík í dag, mér virðist hún algjörlega lömuð og það er allt of miklu púðri varið í fáránleg valdaplott og hallarbyltingar og fjölmiðlasjóv sem reyndar hefur snúist upp í að verða fjölmiðlaskrípaleikur. Jafnvel Sjálfstæðismenn eru búnir að fá sig fullsadda og vilja ekki grafa dýpri holu
Það hlýtur að vera eðlileg krafa okkar borgaranna í Reykjavík að hér sé fólk sem hugsar af framsýni um hag Reykjavíkur og hvernig hér eigi að tryggja blómlega byggð og menningu en eyði ekki allri orku sinni í alls konar plott og vitleysisgang. Það er líka mikilvægt að koma í veg fyrir að Reykjavíkurborg sé rúin eignum sínum þ.e. orkuveitunni og það er mikilvægt að þeir sem koma að stjórnmálum í Reykjavík átti sig á því að það er Reykjavík sem er vettvangur sviðsins. Það er alls ekki rétt að fara í einhverja fyrirtækjaútrás í önnur lönd sb Rei málið nema einhverjir augljósir hagsmunir Reykvíkinga séu þar hafðir að leiðarljósi.
Vilja breytingar á meirihlutasamstarfinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:45 | Facebook
Athugasemdir
Hárrétt:
Á Laugarveginum er nefnilega þverskurður af allri íslensku byggingasögunni, nema ég hef ekki fundið torfbæi ennþá. Ef menn vilja tala um einhverja 19. aldar götumynd til að vernda, er hana að finna efst á Skólavörðustígnum. Henni þarf að halda og hefur reksturinn þar lagað sig að húsnæðinu.
Gestur Guðjónsson, 13.8.2008 kl. 13:01
Nú er Morgunblaðshöllun að losna að mestu leiti, borgin ætti að nota tækifærið og kaupa hana og fjarlæga, því elsti hluti Reykjavíkur er falin bakvið. Gamla húsið er enn til og ætti að stefna að því að fá það til baka.
En áttið ykkur á því að það eru sömu aðilar sem eiga alla helstu fjölmiðla landsinns og eru stærstu niðurbrotsfjárfestar í gamlabænum. Er eithvað samhengi í því að Ólafur F Magnússon er lagður í einelti?
Sturla Snorrason, 13.8.2008 kl. 13:43
Er gamla húsið sem stóð áður þar sem Mbl-höllin stendur enn til?! Hvar?
Ég er sammála Salvöru um að stílleysið eða margbreytileikinn er eitt af einkennum miðborgarinnar. Og það er eftirsóknarvert að halda þessum einkennum í þeirri endurnýjun sem þarf að eiga sér stað. Hafið þið séð nýja hótelið í Þingholtsstrætinu? Hvílíkt slys.
Skólavörðustígurinn er flott gata og verður enn betri eftir breytingar. Þar ægir öllu saman og vonandi fær gatan að halda þessum einkennum áfram.
Hjálmtýr V Heiðdal, 13.8.2008 kl. 14:34
"19.aldar götumyndin" er búin að valda usla því að þetta heiti gefur ranga mynd af því sem málið snýst um, en það er það sem ég vil kalla "gamla Laugaveginn" eða hinn "klassiska Laugaveg.
Í mínum huga snýst þetta um að varðveita þá götumynd Laugavegarins sem var á honum fram til 1930.
Í þeirri mynd eru 19. aldar húsin hins vegar mjög mikilvæg því að þau eru það fá. Ætla að blogga nánar um þetta á bloggsíðu minni.
Ómar Ragnarsson, 13.8.2008 kl. 20:19
Hér er svarið við spurningu Hjálmtýs og mynd af húsinu.
Sturla Snorrason, 13.8.2008 kl. 21:11
Innilega sammála þér varðandi lestarsamgöngur og kosti metro, en hins vegar vil ég halda í það sem eftir er af gamalli götumynd Laugarvegar og satt að segja útheimtir það talsverðar endurbyggingar, því sum þessara húsa eru hroðalega illa farin. En það hafa orðið mörg slys þegar falleg, gömul hús eru fjarlægð og nú er farið að reyna að bæta það upp, Uppsalir (Aðalstræti 18) áttu að víkja fyrir hraðbraut sem átti að koma frá Tryggvagötu í Suðurgötu. Þar bjó ég þegar ég var lítil, í turninum fallega. Það var mikið slys að dauðadæma húsið, því þá var því ekki haldið sem skyldi við. Endurbyggingin á hótelinu þarna á horninu er reyndar alveg viðunandi lausn, en fallegra hefði verið að gamal húsið hefði verið gert upp. Vínbershúsið er ljómandi fallegt, en reyndar er þessi klissja um 19. aldar götumynd út í hött, þetta eru gömul hús en frá ýmsum tímum. Þarf að reyna að muna að lesa bloggið hans Ómars og ætla svo sannarlega að kíkja á myndina af húsinu sem Sturla linkar á.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 13.8.2008 kl. 22:32
Ef þið viljið skoða myndina sem Sturla ætlaði að linka á þá þarf að bæta h-i framan við linkinn.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 13.8.2008 kl. 22:35
Myndin er í myndaalbúm. Miðbærinn í Reykjavík. En hér er linkurinn aftur.
Sturla Snorrason, 13.8.2008 kl. 23:08
Anna: Iða í Lækjargötu er arfaljótt hús, jafnvel ég sé ekki fegurðina í því. Það passar alveg hryllilega illa inn og er þess vegna náttúrulega flott dæmi um týpíska reykvíska sundurgerð. Nú þarf bara að hefja herferð fyrir að fá glerskálann aftur byggðan við Iðnaðarmannahúsið á Tjarnarbakkanum, þá er smekkleysan fullkomin í þessari götumynd.
En talandi grínlaust um lækjargötuna þá er hún alveg misheppnuð, hún er gata bílanna og ekkert gaman að ganga þar um. Það ætti að vinna eitthvað meira með lækinn, láta hann birtast aftur og tengja mæðragarðinn eitthvað betur við götumyndina.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.8.2008 kl. 11:37
Það er líka eitt sem ég er að spá í .... sumir staðir í miðbænum eru alveg manntómir þó að mikið hafi verið í þá staði lagt. Öll borgarsamfélög í dag berjast um að halda grænum svæðum, það er mikil ásókn í byggingarreiti. Hins vegar eru þessu grænu svæði í Reykjavík ekki nógu vel sótt. Hugsanlega er það veðráttan en hugsanlega vantar eitthvað. þannig er Tjarnarsvæðið og gamli hallargarðurinn og mæðragarðurinn og hljómskálagarðurinn núna í niðurníðslu, ekkert notuð svæði á meðan allir flykkjast á Austurvöll.
Mjög margir eru vanalega á góðvirðisdögum í grasagarðinum í Laugardal.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.8.2008 kl. 11:44
Varðandi moggahöllina gömlu þá er ég alveg mótfallin því að mölva hana niður og flytja upprunalega húsið þangað. Moggahöllin er djásn frá vissum tíma Íslandssögunnar, tíma sem er ekki orðinn ennþá svo fjarri okkur að okkur finnst hann ennþá ljótur. En þetta er hús prentmenningar og kaldastríðsins og rússagrýlunnar.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.8.2008 kl. 11:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.