25.11.2006 | 14:32
Kaupum ekkert dagurinn á 66 norður
Ég held upp á kauptu ekkert daginn í dag eins og ég hef gert undanfarin ár. Kaupi ekkert og hugleiði stöðu mála í okkar heimshluta hérna á Norðurslóðum nálægt Íshafinu þar sem jöklarnir eru að bráðna og aðrar siglingarleiðir í sjónmáli. Hér ríkir sú trú ríkir að gangvirki mannlegra samfélaga sé skiptimiðakerfi fjármagns og peninga og að óhindrað flæði peninga um heiminn muni eins og ósýnileg hönd verða til þess að lífskjör jafnist og allir græði.
Ég er á því að sem mest frelsi upplýstra einstaklinga til athafna og orða sé sennilega affarasælast fyrir flesta, einstaklingar sem hafa aðgang að sem mestum upplýsingum og hafa úr sem flestum valkostum að velja eru sennilega færari en miðstýrt fjarlægt vald til að taka skynsamlegar ákvarðanir um framtíð sína og þess nærsamfélags sem þeir lifa í. Allra skynsamlegast virðist mér að haga samfélagsgerð þannig að einstaklingar kunni að vinna saman og búa til samfélag þar sem samlegðaráhrifin eru ekki bara fólginn í fjöldanum heldur líka fjölbreytninni og því að margir ólíkir einstaklingar með mismunandi hugmyndir og orku geta lagt í púkk og myndað kerfi þar sem allir græða og það þarf ekki endilega að vera kerfi sem byggir á borgun eða peningum. Til þess að ólíkir einstaklingar vinni saman þá þarf að vera umburðarlyndi fyrir þeim sem eru öðruvísi og það þarf líka að vera einhvers konar samkennd eða samhygð þannig að einstaklingar taki ekki ákvarðanir eingöngu út frá eigin hagsmunum.
Það frelsi sem ríkir í okkar heimshluta gengur mjög á misvíxl. Á sama tíma og það er mikið frelsi í hvernig peningar mega flæða um heiminn þá er frelsi fólks til að flytja sig um set lítið. Það er núna að ég held afar erfitt fyrir fólk frá Asíulöndum að setjast að á Íslandi en það er hins vegar alveg í fínu lagi að flytja þaðan vörur og staðsetja verksmiðjur þar.
Ég er með Fréttablaðið í dag fyrir framan mig á opnuviðtali við Sigurjón Sighvatsson sem núna hefur keypt 66 norður. Einu sinni var 66 norður sjóklæðagerð en núna framleiðir fyrirtækið útivistarvörur. Í opnuviðtalinu er oft rætt um ímynd Íslands og það tengt við vörur frá 66 norður og það er talað um hönnunina, hönnuðir fyrirtækisins hafi svo góða tilfinningu fyrir hvað 66 norður stendur fyrir.
En hvað stendur 66 norður fyrir?
Hvað standa önnur íslensk fyrirtæki í útrás fyrir?
Það er langt síðan öll fataframleiðsla 66 Norður á Íslandi var lögð niður. Núna er þessi fatnaður saumaður í Austur-Evrópu og efnin sennilega koma ennþá austar að.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.11.2006 kl. 13:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.