Stafrófskverið - flott framtak hjá bókasöfnunum

Það er frábært framtak hjá bókasöfnunum að gefa börnum í Reykjavík, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ stafrófskver. Vonandi er þetta byrjun á einhverju meiru í þessa veru.  Það eru ekki nema rúm fjögur þúsund börn í hverjum árangri á Íslandi og vonandi er öllum ljóst hverju miklu máli skiptir fyrir framtíðarsamfélag á Íslandi að börn fái gott veganesti út í lífið hvað menntun varðar. 

Umferðarskólinn hefur verið til fyrirmyndar undanfarin ár, sent ungum börnum bæklinga og kassettur. Ég man þegar dóttir mín sem núna er sautján ára og einmitt nýbúin að taka bílpróf og orðinn fullgildur ökumaður á Íslandi fékk kasettur og bæklinga frá Umferðarfræðslunni þegar hún var að mig minnir fjögurra ára þá var hún mjög spennt og ánægð og geymdi þetta eins og mikil djásn og var alltaf að hlusta á kassetturnar og maður þurfti endalaust að lesa upphátt fyrir hana  einhverjar sögur um Ella andarunga eða aðra sem voru að fara yfir götu og þurftu að læra umferðarreglurnar. Ég man hvað ég óskaði mér oft að menntakerfið á Íslandi væri eins vel skipulagt og umferðarskólinn og teldi það sitt hlutverk að senda börnum öðru hvoru einhvern glaðning og fræðsluefni.

Talandi um svona gjafir til barna og barnafjölskyldna þá bíð ég spennt eftir að íslenska ríkið  taki upp sama sið og Finnar og fagni hverjum nýjum Íslendingi með að senda þeim veglega sængurgjöf. Þetta hafa Finnar gert í mörg ár og það kemur stóreflis pakki með mörgu sem ungbörn þurfa fyrstu mánuði í lífi sínu og meðal foreldra ríkir spenningur yfir hvernig hönnunin verði í ár en mér skilst að það sé á hverju ári hannaður nýr sængurgjafapakki þ.e. mismunandi útlit á göllum og öðru. 

Ég átti yngri dóttur mína á háskólasjúkrahúsi í Ameríku og í því ríki markaðshyggjunnar þá fór ég klyfjuð út af spítalanum af alls konar vörum, stóru fyrirtækin sem selja ungbarnavörur gáfu gjafir eða sýnishorn af vörum sínum og spítalinn gaf sjálfur  ýmsar gjafir svo sem  sett með ýmsum nauðsynjahlutum og ýmis konar fræðsluefni fyrir nýbakaða foreldra.  Það var líka grannt fylgst með því að foreldrar hefðu komið sér upp ýmsum hlutum fyrir barnið svo sem barnabílstól og ég held að spítalinn hafi útvegað slíkt ef ég hefði ekki átt það fyrir.  

Í því ríki ofgnóttar sem við búum við núna þá finnst mörgum það eflaust óþarfi að fylgjast með nýjum foreldrum og gefa nýburum gjafir. En það er táknrænt að taka á móti nýjum þegnum með gjöf og það að allir fái sama pakkann (ný hönnun reyndar á hverju ári) er líka táknrænt - það segir meira en mörg orð um hvernig þetta samfélag ætlar að reynast þegnum sínum  og að sá andi svífi yfir vötnum að það eigi það sama yfir alla að ganga. 


mbl.is Börn á fjórða ári fá stafrófskver að gjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband