10.6.2008 | 18:33
Hver á Heiðmörk, Esjuhlíðar og Úlfarsfell?
Það er mjög gleðilegt að umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar hafi gert samning við Skógræktarfélag Reykjavíkur um að planta 460 þús. trjám í Heiðmörk, Esjuhlíðar og Úlfarsfell næstu þrjú árin.
Það er eitt sem stuðlar að betri lífsgæðum í borgum í dag og í framtíðinni hversu mikið þar er um græn svæði, helst sem náttúrulegust útivistarsvæði þar sem fólk getur gengið um og skoðað náttúruna og notið landslagsins og umhverfisins. Gæði borga fara ekki eftir hversu margar keiluhallir og spilakassar og bíóhús eru þar. Fólk metur mikils að vera nálægt útivistarsvæðum. En það er mikil sókn í lóðir í nágrenni borga, bæði sem athafnasvæði fyrir fyrirtæki og til búsetu fyrir fólk. Það er hins vegar bráðnauðsynlegt að reyna að auka útivistarsvæði Reykvíkinga. Það er ekki bara fyrir okkur sem erum búsett hérna, allir landsmenn geta notið okkar útivistarsvæða og þetta hefur mikið gildi fyrir ferðamennsku í Reykjavík. Flestir erlendir ferðamenn koma til Íslands út af náttúru landsins og hafa áhuga á útivist. Það eru náttúrulega margir staðir á Íslandi þar sem fólk getur farið en flestir eiga það sameiginlegt að þeir staldra hér á landi aðeins skamma stund, stundum aðeins dagpart og stundum nokkra daga. Svo skamma viðdvöl hafa margir að þeir sjá bara Bláa lónið af því það er sérstæður staður rétt hjá alþjóðaflugvellinum þar sem flestir koma til landsins.
Ok. það er ekki margt í Reykjavík sem getur keppt við Bláa lónið en það eru ekki margar höfuðborgir sem geta stært sig af fjalli inn í sjálfri borginni. Esjan er gimsteinn í Reykjavík, hún verður eflaust þegar tímar líða fram eins mikið kennileiti fyrir þessa borg eins og reykurinn af heitu uppsprettunum sem borgin heitir eftir. Esjan okkar er eins og Table Mountain í Höfðaborg í Afríku.
Mikið af landsvæði í grennd við byggðina í Reykjavík er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, landsvæði sem Orkuveitan hefur keypt til að tryggja jarðhitaréttindi og sem Orkuveitan hefur verið látin kaupa vegna þess að það er stórgróðafyrirtæki og eini aðilinn sem hafði fé til að kaupa jarðir. Það var gott og blessað á meðan Orkuveitan gætti hagsmuna Reykvíkinga en það bendir allt til þess að það fyrirtæki sé rekið núna eins og einkafyrirtæki í eigu þeirra manna sem því stýra. Þannig hefur Orkuveitan auglýst jarðirnar Hvammsvík og Hvamm í Kjósarhreppi til sölu.
Ég hef skrifað tvö blogg um þetta
Hvammsvík - framtíðarútivistarsvæði Reykvíkinga og nærsveita
Má selja Hvammsvík án jarðhitaréttinda?
Orkuveitan hefur ekki framtíðarhagsmuni Reykvíkinga að leiðarljósi þegar það fyrirtæki auglýsir þetta stóra útivistarsvæði sem ægifögur jörð við bæjarmörkin á Reykjavík er. Þess má geta Orkuveitan á jörðina Elliðavatn sem mun eiga stóran part af Heiðmörk.
Kannski mun Orkuveitan bráðlega auglýsa sinn hlut í Heiðmörk með svona auglýsingu:
"Fallegt skógarsvæði í Reykjavík til sölu, frábært tækifæri fyrir fjársterka aðila sem vilja koma sér upp sínum einkaskógarreit. Þegar svæðið er girt af til einkanota þá verður eigandinn að passa að nota aðeins umhverfisvænar girðingar sem falla vel inn í landslagið"
Hvenær ætli Esjan verði auglýst til sölu?
Kannski auglýsingin væri svona:
"Vertu á toppnum! Lítið notað fjall til sölu, fullt af fallegum trjám sem voru þjóðargjöf Norðmanna til Íslendinga. Gott útsýni frá toppnum yfir byggðina"
Ég var einu sinni í Palestínu og keyrði þar um sveitirnar nálægt Jerúsalem. Leiðsögumaðurinn (danskur prestur) vissi mikið um Landið helga og hann sagði okkur frá því hvernig Gyðingar hefðu keypt upp jarðnæði, jarðnæði sem innfæddum Palestínumönnum datt ekki í hug að hægt væri að selja - eitthvað sem var inngróið í menninguna að væri ekki til sölu. Þetta var svona stuð tveggja menningarheima, heimsins sem telur réttlæti innsiglast í því að einhver telji sig eiga og selji það sem má ekki selja og reki svo fólkið í burtu. Þannig var fólk flæmt burtu með aðstoð lagabókstafa og með því að veifa einhverjum eignaréttarpappírum, hinir nýkomnu þóttust hafa keypt landið. Einkaeignaréttur og kaup og sala jarðnæðis og lífsgæða tryggir ekki réttlæti.
Fólk í Reykjavík er andvaralaust gagnvart því hver er að sölsa undir sig eignarrétt á því sem skiptir máli til að búa hérna. Það eru trúarbrögð hjá hluta stjórnmálamanna að einkaeign tryggi einhverja betri ráðstöfun á gæðum heimsins. Þessi ehf trúarbrögð skila vissulega gróða til einhverra, gróða til þeirra sem ráða yfir gæðunum og sölsa þau undir sig. Þeir sem eru handbendi slíkra aðila fá svo auðvitað einhverjar sposlur fyrir að aðstoða þá við að komast yfir eignir. En það er skrýtið að þeir sem trúa svona á ofurmátt einkaframtaksins og einkaeignar skuli ekki hafa lesið betur mannkynssöguna. Alls staðar þar sem velmegun ríkir eru sterk og rík staðbundin samfélög.
Planta 460 þúsund trjám | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.