Hvað er Vatnajökulsþjóðgarður stór?

Mér finnst óþolandi að vita ekki hvort Vatnajökulsþjóðgarður er 13% af Íslandi eða 15% af Íslandi eða hvort hann nær yfir 13 þús eða 15 þús. ferkílómetra. Ég nefnilega held áfram iðju minni að skrifa greinar inn á Wikipedia og þar verða upplýsingar að vera réttar og nákvæmar, ekki síst þegar maður er að montast með að þetta sé stærsti þjóðgarður í Evrópu. Það er ekki trúverðugt ef maður veit svo ekki hvað þjóðgarðurinn er stór. Hérna er íslenska greinin sem ég skrifaði á wikipedia um Vatnajökulþjóðgarð og hérna er grein sem ég var að enda við að skrifa á ensku wikipedia um Vatnajökull National Park.

Mér finnst þeir aðilar sem hafa það sem hluta af vinnu sinni að fræða bæði Íslendinga og erlenda tilvonandi ferðamenn um Ísland passi ekki nógu vel upp á hvað Wikipedia er mikilvæg heimild og byrjunarreitur fyrir ferðamenn og almenning og hve mikilvægt er að þar séu upplýsingar réttar og nægar um helstu ferðamannastaði og náttúruvætti. Google notar Wikipedia mikið og greinar í Wikipedia poppa oft efst í leit. Þannig fletti ég upp orðinu Vatnajökulsþjóðgarður áðan á Google og sé að wikipedia greinin sem ég skrifaði  og hef verið að breyta kemur efst og svo þar á eftir þá kemur tilkynning um frá umhverfisráðuneytinu um rútuferðir á stofnhátíðina.  

Ég held að þessu rútuferðatilkynning sé gagnleg fyrir marga í dag en það er miklu mikilvægara upp á ferðamennsku og náttúruvernd á Íslandi að þeim sem gúgla,sem eru sennilega allir  sem leita að upplýsingum á Netinu af Íslandi, sem beint á einhverjar bitastæðar upplýsingar.

Svo tók ég eftir að það var ekki komin nein grein á ensku wikipedia um Vatnajökulþjóðgarð og ekki búið að breyta neitt greinunum um Skaftafell og Jökulsárgjúfur þ.e. segja að þær myndu falla undir Vatnajökulsþjóðgarð. 

Á síðum hjá umhverfisráðuneyti er talað um að Vatnajökulsþjóðgarður verði 15 þús en á síðu hjá Icelandic Tourist board stendur að hann sé 13 þús ferkílómetrar. Mig grunar að það sé stefnt að því að þjóðgarðurinn verði 15 þús en sé núna við opnun 13 þús. Ég hins vegar sé það hvergi skrifað og  veit ekki hvora töluna ég á að taka með. Það eru líka afar litlar upplýsingar fyrir almenning um Vatnajökulsþjóðgarð á vefsíðu umhverfisráðuneytis, undarlega litlar miðað við hversu merkilegur þessi nýi þjóðgarður er, ekki bara fyrir Ísland heldur fyrir allan heiminn. Af hverju er ekki komið sérstakt vefsetur um þjóðgarðinn?

Ég sé nú reyndar á síðu hjá Iceland Tourist Board að þar benda menn á ensku Wikipedia greinina um Vatnajökull. Því spyr ég eins og fávís kona: Af hverju skrifa ferðamálayfirvöld bara ekki greinar sjálfir inn á ensku wikipedia eða fá kunnáttumenn til að þess  og/eða vakta hvort upplýsingar séu réttar í wikipedia greinum og hvort þeim sem gúgla sé beint á bitastæðar upplýsingar t.d. af hverju var ekki búið að skrifa grein á ensku um Vatnajökulsþjóðgarð í dag?

Ég verð svolítið  pirruð yfir þessu óvissa  2% af Íslandi (15 % - 13%) og tek ekki gleði mína á ný fyrr en ég veit nákvæmlega upp á fermetra hvað Vatnajökulsþjóðgarður er stór í dag á stofndaginn. Þetta er einhver töluþráhyggja, ég þoli ekki ónákvæmar og misvísandi tölur þar sem þær gætu verið nákvæmari. 

En til hamingju Íslendingar og allur heimurinn  með Vatnajökulþjóðgarð! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þjóðagarðurinn er 12.000 ferkílómetra og þekur því 12% af landinu.

Daníel (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 14:10

2 identicon

...eða a.m.k. samkvæmt Morgunblaðinu í dag. En til hamingju sömuleiðis.

Daníel (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 14:13

3 identicon

amm, Mogginn segir 12%. Mogginn lýgur aldrei

Halldór C. (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 14:13

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Nú vandast málið... vandamálið hefur magnast upp, þetta er orðið ennþá verra. Umhverfisráðuneytið er með töluna 15 þúsund, Ferðamálayfirvöld með töluna 13 þúsund og Mogginn með 12 þús.

Hverjum á ég að treysta? Hverjum á heimurinn (lesist enska wikipedia) að treysta? Mogganum ?

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.6.2008 kl. 14:22

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

þrjú prósent af Íslandi eru týnd

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.6.2008 kl. 14:23

6 identicon

Ef til vill skýrist þessi 3 þús. km2 mismunur af jörðinni Stafafell í Lóni sem "umsjónaaðilar Vatnajökulþjóðgarðs" vilja meina að sé í "umsjón Vatnajökulþjóðgarðs". Það vilja landeigendur hins vegar ekki kannast við.

Aðalsteinn (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 14:38

7 Smámynd: Einar Indriðason

RÚV og stöð 2 eru ekki heldur sammála, 11 þús. ferkílómetrar, versus 12 þús.

Hvert svarið er, veit ég ekki.

Einar Indriðason, 7.6.2008 kl. 23:27

8 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Skil þig vel að þola ekki svona ónámkvæmni.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 8.6.2008 kl. 04:27

9 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Jeminn! Hverjum á maður að treysta? Umhverfisráðuneyti, ferðamálaráði, mogganum, rúv eða stöð 2 þegar engum ber saman...Þetta er áhyggjuefni, Vatnajökulsþjóðgarður virðist skreppa saman með hverri mínútu, aðalhræðsluefni okkar hér á Íslandi er greinilega ekki að jöklarnir bráðni heldur að landsvæðið sem þeir eru á hætti að mælast á kortum og opinberum gögnum. Eða kannski er að taka sig upp þarna á Vatnjökulsvæðinu þarna huldar lendur eins og dalurinn sem Grettir fann hjá Geitlandi

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.6.2008 kl. 09:37

10 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Svo getur fólk verið endalaust að tala um að upplýsingar í Wikipedia séu óáreiðanlegar og ekkert að marka þær. En hvernig eru þessar upplýsingar sem við fáum frá ráðuneytum, opinberum stofnunum og fjölmiðlum. Eru þær áreiðanlegri?

Hvar getur maður fengið áreiðanlegustu upplýsingarnar um stærð Vatnajökulsþjóðgarðs?

Þegar tímar líða fram þá verður það sennilega í Wikipedia vegna þess að þeir sem skrifa í Wikipedia reyna (vonandi) að leita víða fanga að efni og það er auðvelt fyrir hvern og einn að leiðrétta villur. Það er hins vegar ekki gott að villur séu um alþjóðleg fyrirbæri eins og Vatnajökulsþjóðgarð á ensku wikipedia, þannig villur eru líklegar til að rata og verða endurteknar í alls konar greinum á  ýmsum tungumálum einfaldlega vegna þess að núna er enska wikipedia fyrsti og oft eini viðkomustaður þeirra sem leita að þekkingu á Netinu.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.6.2008 kl. 09:47

11 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Hér eru meiri upplýsingar um vatnajökulsþjóðgarð

blogg hjá Helgu í Stafafelli

http://pahuljica.blog.is/blog/pahuljica/entry/368575/

Svo er hérna fín grein hjá Landvernd þar sem Roger Croft stingur upp á að biðja Landsvirkjun og Alca að greiða 50 milljónir á ári næstu 20 ár í sjóð fyrir Vatnajökulsþjóðgarð, sjóð sem ekki tengdist fyrirtækjunum. Þetta finnst mér fín hugmynd og ágætlega rökstutt. Sjá greinina hérna: http://www.landvernd.is/page3.asp?ID=1146 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.6.2008 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband