Bréf til ráðherra eru ekki ætluð til opinberrar birtingar

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra er lögfræðingur og eflaust miklu skólaðri í lögum og góðum stjórnsýsluhefðum heldur en ég.  En er löglegt og siðlegt að birta tölvupósta frá nafngreindum mönnum á bloggsíðu dómsmálaráðherra? Þetta eru  tölvupóstar sem hann hefur klárlega fengið sem æðsti embættismaður dómsmála á Íslandi. Ef þeir tölvupóstar sem Björn birtir eru birtir þar með samþykki og vitund þeirra sem þá sendu þá er auðvitað ekkert við það að athuga. Ef þetta væru færslur í opið athugasemdakerfi í bloggi þar sem notendum ætti að vera ljóst að  athugasemdir eru opinberar þá er heldur ekkert við það að athuga.

En einkabréf sem ætla má að séu send frá einstaklingum til stjórnvalds, hversu ruddaleg og ógeðsleg sem þau eru hljóta  að kalla á einhvers konar afgreiðslu og það er ekki eðlilegt að sú afgreiðsla sé fólgin í því að hengja bréfin upp á almannafæri bréfriturum til háðungar.

Nú er ég ekki að mæla bót svona skrifum og hótun í bréfum á alltaf að taka alvarlega. Fólk sem hefur orðað einhvers konar hótun er miklu líklegra til að framkvæma hana heldur er það fólk sem aldrei hefur klætt hótanir í búnað orðanna.  Það er örugglega til einhvers konar verklagsreglur innan stjórnsýslu um hvernig fara eigi með svona rustaleg skrif.

Það er alveg ljóst að fólk sem skrifar svona eins og þessi dæmi sem tekin eru úr bréfunum er eitthvað á jaðrinum, þroskahamlað eða tæpt á geði  og ekki fært um að setja sér nein mörk í skrifum og sennilega ekki heldur í breytni sinni í lífinu.  Hamagangur í stjórnmálum virkar eins og segull á fólk sem eitthvað er að hjá og það er þekkt að fólk með geðraskanir eltir stjórnmálamenn og aðra sem eru áberandi á röndum með ofsóknum.

Ég hef alltaf talið að meginreglan sé sú að tölvupóstur sé ekki eitthvað sem er til opinberrar birtingar amk ef það er bréfritara til háðungar og vanvirðu. Ég held að þetta sé ein af siðareglum í Netheimum. Hins vegar getur komið upp sú staða að það verður að birta efni tölvubréfa til að færa sönnur á mál sitt.

þegar ég birti tölvubréf á bloggi og viðbrögð við því

 Hér fylgir á eftir frásögn frá árinu 2002 en þá birti ég brot úr tveimur tölvubréfum á blogginu mínu og varð af því logandi umræða í bloggheimum. Annað bréfið var svær var bréfi sem ég fékk frá Brynjólfi Ægi Sævarssyni framkvæmdastjóra Stúdentaráðs. Hér er það blogg:

Lágmarkskröfur sem Brynjólfur Ægir gerir á bloggið mitt

Það er soldið gaman að lesa svarhala (athugasemdir) með því bloggi núna. Svanson sjálfur sem er núna öflugur og ráðsettur eyjabloggari skrifar þar þessi orð:

"Hvaða djöfuls rugl er þetta? Að birta tölvupóst opinberlega. Algjörlega á forsendum sem þú gefur þér sjálf. Póst sem var greinilega ekki ætlað að koma fyrir almenningssjónir!

Auk get ég ekki séð að blogg þitt komi málefnalegum umræðum og rökstuðningi nokkurn skapaðan hlut við. Nafn Brynjólfs er miðpunktur í fyrirsögninni. Það kemur fram í nánast hverri einustu málsgrein. Lokaorðin snúa eingöngu að honum.

Auk þess er bætt við sleggjudómum um kvenfyrirlitningu og kvenhatur? Þessar fullyrðingar eru hvergi rökstuddar á nokkurn hátt, heldur bara slengt fram.

Þú ert að taka tölvupóst, sem er einkabréf, en ekki blogg, og birta úr því valdar málsgreinar. Og tilgangurinn virðist eingöngu sá að koma höggi á nafngreindan einstakling.

Þetta blogg er þér engan veginn til sóma. Og því síður innlegg í málefnalegar umræður"

Ætli Svanson tapi sér ekki í æsingi núna þegar dómsmálaráðherra er farinn að birta tölvupóstinn sinn.

Annrs rifjaði ég nú upp aftur aftur svar mitt til Svanson á sínum tíma en ég segi.

 Svar til Guðmundar:
Þetta blogg mitt er ekki partur af málefnalegri umræðu og snýst ekki um kvenréttindamál almennt eða hvaða afstöðu Stúdentaráð hefur heldur um það hvernig viðbrögð ákveðins einstaklings sem mér barst í tölvupósti komu mér fyrir sjónir.

Ég hugleiddi mjög gaumgæfilega hvort þetta væri einkabréf og hvort ég væri að brjóta einhverjar siðareglur með að vitna orðrétt í það. Mitt mat var að svo væri ekki. Þetta var nokkurs konar svarbréf við erindi sem ég sendi til stofnunar á vegum stúdenta (reyndar á einstaklinga sem voru í forsvari fyrir þær stofnanir) daginn áður.

Ég reyndi eins og ég gat að snúa ekki út úr orðum sem voru í bréfinu og gætti þess að oftúlka ekki eða rangherma hluti upp á viðkomandi. Mér þykir miður ef það virkar þannig.

Ástæðan fyrir að nafn viðkomandi kemur svona oft fram í blogginu er að mér er mjög umfram um að það sjáist að ég er bara að tala um þennan Brynjólf Ægi og þetta bréf, mér þótti miður að hafa óvart ruglast á honum og öðrum Brynjólfi í fyrradag.

Orðalag mitt um kvenfyrirlitningu og kvenhatur vísar ekki eingöngu til þeirra málsgreina sem ég tek úr bréfinu.

Ég nota bloggið til að hugsa upphátt og þetta blogg endurspeglar hugsanir mínar og hverjir mér fannst áherslupunktarnir vera í bréfi Brynjólfs Ægis.

Ég er líka að prófa hvernig blogg virkar í umræðu um þjóðfélagsmál og þessi athugasemd mín við athugasemd við blogg sem fjallar um tölvupóst sem fjallar um blogg sem fjallar um... er þáttur í þeirri tilraun.

Blogg virkar bara nokkuð vel.

Arnór skrifari orðar hlutina:

Góðan dagin björn gerðu þjóðini greiða og skjótu þig svo við hin getum lifað lifinu þu ert ein stæðst hálfiti Islands


mbl.is „Gerðu þjóðini greiða og skjótu þig"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Salvör.

Þetta er fróðleg umræða. Ekki síst þar sem allar skilgreiningar á einkamálum og ekki síst höfundaréttarvörðu efni eru í mikilli óvissu með tilkomu netbyltingarinnar.

Ég stóð alltaf í þeim skilningi að bréf væri eign þess sem væri viðtakandi. Honum væri nokkuð frjálst að gera það sem hann ákvæði að gera við bréfið og sendandi yrði að gera sér grein fyrir því.

Að senda líflátshótanir og óhróður er ósvinna. Viðtakandi getur brugðist á tvennan máta til að svara fyrir sig: Kært slíkar bréfsendingar eða birt óhroðann sem sendur er. Það er hans að velja og sendandi slíks bréfs felur honum það vald. 

Skúli (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 00:24

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Þverrifukostnaður Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar virðist fara stöðugt hækkandi þessa dagana. Greinilegt er að fólk verður því að fara að passa sig meira á því sem sagt er og hvað er skrifað.

BB má þó eiga það að hann bregst umsvifalaust við þeim bréfaskrifum sem honum eru send, sem er flott mál, en annars er mín reynsla sú af stjórnvöldum að þau hreinlega svara ekki þeim fyrirspurnum sem til þeirra eru send, þvert á öll lög sem stjórnsýslunni er gert að starfa eftir.

En þar sem BB er löglærður maður, þá hlýtur hann að vita hvað hann er að gera?

Kjartan Pétur Sigurðsson, 25.4.2008 kl. 08:35

3 identicon

Það virðist vera misskilningur í gangi hvað þetta mál varðar, að um hótanir sé að ræða. Hvatning um að maður ætti að fyrirfara sér er hvorki hótun né hvatning til refsiverðs verknaðar, enda er sjálfsvíg eða tilraun til sjálfsvígs ekki refsivert skv. íslenskum lögum.

Annar póstur sem dómsmálaráðherra birti varðar einlægar óskir um að hann fái kvalafullan sjúkdóm og deyji. Þetta er heldur ekki hótun, heldur kallast þetta bölbænir.

Arngrímur (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 10:55

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það er nú almennt held ég í skilmálum netsamskiptafyrirtækja eitthvað um tölvupóst og birtinga, þetta er nú almennt netiquette. Sjá hins vegar lög hér http://www.pta.is/displayer.asp?cat_id=100

En burtséð frá því að það passar ekki við þær siðareglur og umgengisreglur sem ég þekki að birta svona tölvupóst þá vil ég benda á að í þessu tilviki er tölvupósturinn sendur til stjórnvalds.

Þetta eru vissulega bölbænir og sendendum til mikillar minnkunar og hneisu. En er rétt og eðlilegt að birta svona upplýs með kennitölu á vefsetri dómsmálaráðherra. 

Allir ættu að fara í naflaskoðun og skoða hvernig það er á þeirra starfsvettvangi. Við þurfum öll að glíma við erfiða einstaklinga, stundum einstaklinga sem eru ekki heilir á geði. Ef ég eða einhver sem starfar í skólamálum yrði fyrir því að nemandi ógnaði mér og sendi mér bréf með viðbjóðslegum bölbænum og óhróðri um mína persónu, væri það þá eðlilegt hjá mér að ég myndi birta slík bréf á blogginu mínu þannig að ég auglýsti fyrir alþjóð  skrýtin og óeðlileg bréf frá viðkomandi. Ég get svarað því að mér mundi finnast mjög ófagmannlegt að birta slíkan póst. Hins vegar er eðlilegt að vísa honum áfram annað hvort innan stofnunar til þeirra aðila sem eiga að taka á svona málum.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 25.4.2008 kl. 11:17

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Meginreglan er sem sagt sú. Þó aðrir hegði sér eins og fífl og skrímsli þá ætti maður sjálfur aldrei að missa sjónar á því hvað er eðlileg og siðleg vinnubrögð. Sérstaklega verða allir sem eru í þjónustu ríkisins og fá send erindi vegna starfa sinna (bölbænabréf er nú ein tegund af frekar óskýrum og illa orðuðu erindi. Beiðni til ráðherra um að hann eigi að skjóta sig er nú eiginlega eitthvað sem á að fara strax til lögreglu). Eðlileg afgreiðsla á svona bréfi væri að svara því og upplýsa sendanda um að hann hafi (sennilega) brotið lög með orðfæri sínu og hótunum og bréfið verði sent í viðeigandi farveg.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 25.4.2008 kl. 11:23

6 identicon

Sæl Salbjörg

 Fróðleg lesning og gaman að þú skildir taka mál þetta upp.

 kveðja

Björn Gunnarsson (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 11:54

7 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Væntanlega hefur Björn fengið þessi skeyti í persónulegt netfang sitt, bjorn@centrum.is, sem gefið er m.a. upp á heimasíðu hans Bjorn.is. Þessi skeyti voru annars æði persónuleg svo ekki sé meira sagt og geta vart talizt varða einhver stjórnsýsluleg atriði.

Hjörtur J. Guðmundsson, 25.4.2008 kl. 12:45

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Salvör, öll skrif/erindi til stjórnvalds teljast opinber.  Hafi þessir póstar verið sendir á Björn sem dómsmálaráðherra, þá gilda upplýsingalög um póstana.  Það er því ekki verið að brjóta neinn rétt nema þau falli undir þær reglur laga sem varða trúnað.  Það er ekki hægt að skilja það á þeim póstum sem Björn birti að þar fari efni sem falli undir trúnaðarreglu (það er oftast málefni barna og unglinga og atriði er varða heilsufar).  Hafi þeir verið sendir á hann persónulega, þá er honum í sjálfsvald sett hvort hann birtir þá meðan sendandinn biður ekki um trúnað.  Ég læt t.d. nær alltaf fylgja "undirskrift" með þeim tölvupósti sem ég sendi, þar sem ég bendi á að innihald póstsins sé eingöngu ætlaður ætluðum viðtakanda og hann megi ekki birta eða áframsenda nema með mínu samþykki.  Ég er ekki viss um að þeir sem sendu Birni póstana, hafi gætt sömu varkárni.

Marinó G. Njálsson, 25.4.2008 kl. 17:52

9 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Marínó: Þeir sem sendu Birni Bjarnasyni þessa pósta eru afar ólíklegir til að vita almennt um starfshætti í stjórnsýslu.Orðalag þessara pósta ber með sér að hér skrifa vöntunarmenn. Þeir verða sér til minnkunnar með þessum skrifum. En það er samt ekki þannig að siðlegt sé að hengja draslskrif þeirra upp á almannafæri þeim til háðungar.

Annars er svolítið gaman að bera saman lönd. Í sumum löndum, sérstaklega löndum þar sem mikið hefð er fyrir ofbeldi og ofsóknum frá opinberum aðilum, ekki síst á stríðstímum, þá er mikil andstaða með öllu eftirliti með þegnunum og útlendingar skilja margir hverjir ekki okkar notkun á kennitölum og hve frjálslega við förum með birtingu persónugreinanlegra gagna.  Ég held að þeir yrðu nú ennþá meira forviða ef þeir vissu að dómsmálaráðherra í ríki okkar skrifaði blogg um þá sem senda honum skammarbréf/bölbænir og þar birti hann kennitölur þeirra sem skrifuðu.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 25.4.2008 kl. 18:22

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Salvör, ég býst við að það sé með Björn, eins og mörg okkar sem skrifum  á bloggið alls konar vitleysu, að við höfum þörf fyrir meiri athygli en við njótum dags daglega.  Mín skoðun er að það sé ekki viðeigandi að ráðherrar tjái sig á bloggi líkt og Björn og Össur gera, en þetta er þeirra val.  Ég reyni, t.d., að sneyða alveg hjá því að taka þátt í umræðu sem snúa að mínu sérsviði, nema til að veita upplýsingar eða faglega skoðun.

Varðandi þetta með kennitöluna, þá er hún nú kapituli út af fyrir sig og er raunar sorglegt hvernig komið er fyrir henni.  Upptaka hennar var ekki nauðsynleg og hin frjálslega notkun hennar er alveg út í hött.

Marinó G. Njálsson, 25.4.2008 kl. 20:14

11 identicon

Salvör.

Mér finnst sem þú sért ekki endilega að ræða hvort viðtakanda sóðabréfs sé heimilt sé að birta það á netinu heldur hvort ráðherra sé slíkt heimilt umfram öðrum þegnum þessa lands. Hér ertu komin inn á lögfræðilegt skilgreiningaratriði þar sem opinberum starfsmönnum og pólitíkusum er oft gert að sætta sig við opinbert skítkast stöðu sinnar vegna. Ef ég man rétt þá hafa tilraunir sumra embættismanna til að sækja menn til saka fyrir dylgjur og aðdróttanir fallið í grýttan jarðveg hjá dómstólum.

Fyrrum fréttaritari Ríkisútvarpsins á Suðurlandi var látinn hætta störfum eftir að hann lét óviðeigandi skrif birtast á einkabloggsíðu sinni. Hér er hins vegar annað á ferð. Ráðherrann birtir bréf á persónulegri heimasíðu sinni. Sem viðtakandi þess sé ég ekki annað en hann hafi til þess fullan rétt. Hitt er annað að hann hefur líklega engar sannanir fyrir því að undirrituð nöfn séu í raun og veru rétt og sönn. Hafi bréfritarar gefið upp röng nöfn er dómsmálaráðherra í verulega slæmum málum. Þá verður ekki annað séð en hann sé að rógbera saklausan aðila. Birting nafna með svona bréfum verður því að gera með gát - ef menn á annað borð ætla sér að gera það.

Skúli (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 14:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband