21.4.2008 | 18:53
"Svo langt gengu þeir í fáránleikans uppákomum.."
Moggabloggið logar nú af umræðu um málfrelsi. Ég hef ekki fylgst mikið með málinu en mér sýnist það snúast um að skrif einhvers kalls með Islamfóbíu var eytt af moggablogginu. Ég veit nú ekki hversu svæsin þessi skrif voru því ég hef ekki lesið þau. Eftir því sem ég best veit þá kvörtuðu Múslimar á Íslandi til Morgunblaðsins og sennilega hefur mbl. ekki verið stætt á öðru en taka út skrifin ef þau hafa verið verulega stuðandi og hætta á að málaferli töpuðust. Í lögum er verndaður réttur nokkurra hópa. Í lögum stendur:
233. gr. a. [Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á [mann eða hóp manna] 1) vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, [kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar] 1) sæti sektum ... 2) eða fangelsi allt að 2 árum.] 3)
1) L. 135/1996, 2. gr. 2) L. 82/1998, 126. gr. 3) L. 96/1973, 1. gr.
Það var á grundvelli þessara laga sem Samtökin78 kærðu lesendabréf sem birtist í Morgunblaðinu eftir Gaypride 2003. Lesendabréfin voru eins og bloggið í dag og Morgunblaðið birti sérstaka afsökunarbeiðni þar sem beðist var afsökunar á að bréfið hefði birst.
Það var ansi rustalegur stíll á lesendabréfinu, skrifara var mikið niðri fyrir, sérstaklega vegna konunnar á krossinum. Hér er brot úr lesendabréfinu:
"Hátíð kynvillinganna var kölluð fjölskylduhátíð þótt lifnaður þeirra brjóti öll fjölskyldulögmál. Svo langt gengu þeir í fáránleikans uppákomum að þeir hengdu hálfnakta, eggjandi og brosandi lesbíu upp á kross og fór hún þannig niður aðalgötu borgarinnar."
Ég skrifaði þá bloggið Málfrelsi og fordómar 29.9.03 og varði rétt bréfritara til að vera auli og tjá sig rustalega. Mér fannst asnalegt af Morgunblaðinu að taka svona á málum. Ég skrifaði um lesendabréfið:
Þetta var soldið brosleg grein og bernsk og náttúrulega löðrandi í fordómum en ég gat ekki séð að það væri vegið að æru eins eða neins með þessum skrifum. Mér finnst líka einn punktur í greininni alveg vera sjónarmið sem ætti að heyrast og mér finnst að fólk sem finnst það hjartans mál ætti að hafa hátt og láta vita að því að það var farið yfir markið. Það var í sambandi við manneskjuna á krossinum, það stakk mig. Ekki af því að ég sé svo trúuð eða kristin að það hafi komið illa við mig... frekar af því að mér finnst að maður eigi að virða trúartákn eða tákn sem öðrum hópum finnast vera heilög og ekki alla vega skrumskæla þau og hæðast að þeim. Ef krossfestingaratriðið í Gaypride var gert af fólki sem er trúað eða alla vega á einhvern hátt virðir kristin tákn og þetta hafi verið einhver partur af því stefi að tengja samkynhneigð, fjölbreytileika og umburðarlyndi við kristni og vera vísun í þá sem eru ofsóttir og þjáðir þá er það gott mál... en mér fannst þetta bara eins og einhvers konar glensatriði.
Mér finnst svona barátta við fordóma fara í báðar áttir... það er lítilsvirðing á því sem stórum hluta fólks finnst heilagt að hafa svona krossfestingaratriði... og það er bara gott mál að fólk sem sárnaði þetta skuli fá að tjá sig.
Það er náttúrulega samt erfitt að hafa ekki fordóma fyrir fólki sem er með fordóma fyrir öðru fólki.
Ég skrifaði nýlega um myndina Fitna eftir Geert Wilders þetta:
þetta er léleg mynd full af hleypidómum og fordómum og samsæriskenningum. það er varla að maður geti lagt sig niður við að ræða hversu léleg hún er því ekki vill maður verða til auka áhuga fólk á svona mannskemmandi efni.
Sama gildir um myndina af kallinum með sprengjuna í vefjarhettinum. Sú mynd er drasl.
En ég mun vonandi fram í rauðan dauðann verja rétt fólk til að tjá sig á rustafenginn hátt sem mér býður við.
Ég hef ekki séð þau skrif sem fjarlægð voru en ég styð eindregið að Morgunblaðið útskúfi þeim bloggurum sem skrifa hatursgrein eftir hatursgrein um múslima. Ástandið er eldfimt í heiminum í dag og Múslimar á Vesturlöndum eru afar, afar illa settir. Þeir mæta tortryggni og hatri á Vesturlöndum vegna voðaverka sem þeir áttu engan þátt í. Það er afar illa gert að efla hatur á þessum hóp sem þfrekar illa staddur í samfélaginu (margir eru fátækir innflytjendur sem vinna störf fyrir ófaglærða á lágmarkslaunum). Margir múslimar eru dökkir á hörund með austrænt yfirbragð og það sést vel hvaðan uppruni þeirra er.
Mér finnst allt í lagi að Moggabloggið hafi ákveðnar reglur um að klám eða múslimahatur eða trúarhatur eða ofsóknir á einstaka menn eða hópa séu ekki leyfðar. Þetta er vettvangur í einkaeigu og það er engin skylda til að leyfa öllum að segja allt. Ég er einmitt hér á moggablogginu vegna þess að þetta er tiltölulega siðleg og hófstillt umræða. Ég vil ekki tjá mig á sama vettvangi og brjálaðir rasistar og haturáróðursmenn.
En mér finnst að Morgunblaðið eigi ekkert með að eyða skrifum sem þar eru komin, alla vega er það siðlaust að eyða þeim svo að bloggari geti ekki afritað þau annað. það er nóg að loka almennum aðgangi að þeim og biðja bloggara vinsamlegast að flytja sig um set t.d. stofna blogg á wordpress.com eða blogger.com. Reyndar held ég að ofstækisblogg yrðu þurrkuð þar út líka.
Ég mun vonandi halda áfram að verja rétt fólks til þess að tjá sig á rustafenginn hátt. En það er ekki sama að verja tjáningarfrelsið og að átta sig á því að sá sem á tjáningarrýmið hann getur bara alveg ráðið því hvaða tjáningu hann leyfir í því rými. Fólk verður að átta sig á takmörkunum á því að nota rými eins og moggabloggið, það er frekar íhaldssamur, borgaralegur og hægrisinnaður vettvangur og tjáning sem ekki fellur undir það er ekki vel séð.
En sem sagt, ég hef ekkert séð þessi blogg sem voru fjarlægð og get nú ekki dæmt fyrirfram um hvort þau hafa verið yfir strikið. Margir hafa tjáð sig um þetta:
Ritskoðun staðreynd á blog.is?
Málfrelsi hefur styrkst á Íslandi
MOGGINN HELDUR ÁFRAM - NÚ RITSKOÐAR HANN MITT BLOGG!
Ritskoðun moggabloggsins
Trúarofstæki og Baldur Freyr
Ritskoðun dauðans
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:55 | Facebook
Athugasemdir
engin einasta grein hjá Skúla gekk útá hatur gagnvart múslimum almennt en hann var sköruglegur í að segja sannleikann um það sem býr að baki hjá svokölluðum islamistum og öfga islam, hann sagði frá mannréttindabrotum og morðum og tengslum þess við guðfræðina sem þessir öfgamúslimar (slæmt orð, ætti frekar að vera skrímsli og það gildir um öll illmenni) nota til að réttlæta mikið af þessum gjörðum. Hjá Skúla var mikinn fróðleik að finna og ég varð aldrei vör við að hann alhæfði um múslima eða sýndi þeim einhverja andstyggð, þvert á móti gerði hann í því þegar fólk réðst á hann fyrir skrifin að skýra frá því að hann ætti bara við islamistana. Og hann hafði opið fyrir komment frá öllum (hann fór eitthvað að ritskoða þau samt síðar meir en ekki frá byrjun) og þar gátu allir komið og sagt sitt álit. Hann var sko ekki bara "kall með islamófóbíu"
núna er þessi brjálsemi og bloggheimaöfgar komin algjörlega úr böndunum þegar doktor E sjálfur er tekinn fyrir í sjónvarpinu, ég á sko ekki til orð yfir því sem er að gerast
halkatla, 21.4.2008 kl. 21:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.