30.1.2008 | 10:46
Háskólavellir: Dumping á leigumarkaði
Ég fór í gær í kynnisferð til Keilis í Keflavík og skoðaði gamla varnarsvæðið. Ég hef ekki komið þarna í meira en aldafjórðung eða síðan félag herstöðvarandstæðinga bauð upp á kynnisferð almennings þangað í kjölfar mikillar fjölmiðlaumræðu um hvort að á varnarsvæðinu væru geymd kjarnorkuvopn. Ég fór með Ástu dóttur mína litla í þá ferð, hafði hugsað þetta sem svona fróðlegan sunnudagsbíltúr fyrir mig og barnið, það væri nú spennandi fyrir litla krakka að skoða risastór flugskýli og Avac sprengjuflugvélar og leita að kjarnorkuvopnum, þetta var svona þessara kaldastríðstíma útgáfa af páskaeggjaleit. Það var svolítið broslegt að þarna um árið var tekið á móti rútunni eins og hún væri full af mögulegum hryðjuverkamönnum enda voru í henni margir frægir herstöðvaandstæðingar eins og Birna Þórðardóttir. Birna er nú um stundir aðallega þekkt fyrir menningargönguferðir sínar um miðbæ Reykjavíkur og listsköpun og kúltúr. Það er nú líka broslegt. Heimurinn breytist og herstöðin er núna kölluð háskólavellir og Birna Þórðardóttir menningarfrömuður. Þetta hefði ég nú ekki séð fyrir.
Mér sýnist ágætt starf unnið hjá Keili og vonandi tekst að koma upp háskólastarfsemi þarna eins og fyrirætlanir eru um. Núna mun vera þarna um 100 manna hópur fullorðinna námsmanna í námi sem er á framhaldsskólastigi. Þó að námið sé á framhaldsskólastigi þá fá nemendur námslán og þeir þurfa að greiða skólagjöld. Aðeins hluti þessarra framhaldsskólanema býr á vallarstæðinu.
Það munu hins vegar vera yfir 1000 íbúar á vallarsvæðinu nú þegar sem leigja af fyrirtæki sem heitir Háskólavellir. Keilir er með einhvers konar milligöngu um leigu þessara íbúða og hefur tekjur af því. Leiguverð er afar hagstætt, 30 þús. fyrir fína stúdíóíbúð með Interneti og fríum ferðum til Reykjavíkur. Margir nemendur í háskólum í Reykjavík leigja því þarna og eftir því sem ég best veit þá er Norðurál flytja alla starfsmenn sína þangað þ.e. starfsmenn sem munu vinna að framkvæmdum á suðurlandi.
Staða mála er sem sagt þannig í augnablikinu að starfsemin sem fer fram á vallarsvæðinu er fyrst og fremst leigumiðlun fyrir íbúðir sem þetta fyrirtæki Háskólavellir á. Það er afar einkennilegt að ekki skuli hafa heyrst í neinum athugasemdir um hve óeðlileg svona samkeppni á leigumarkaði er, mér sýnist þetta vera dæmi um dumping og undirboð á leigumarkaði. Hugsanlega eru leigusalar og íbúðareigendur í Reykjavík og Reykjanesbæ ekkert uggandi yfir þessu og finnst þetta allt í lagi, hugsanlega er ennþá svo mikil þensla að þetta gerir ekkert til.
Það er nú þannig að frjáls samkeppni og framboð og eftirspurn geta oft komið neytendum vel en hve eðlileg er samkeppni fólks sem byggir, selur og leigir íbúðir við fyrirtæki eins og Háskólavelli? Hvers konar fyrirtæki er Háskólavellir, hverjir eiga það og hvernig komst það yfir eignir sínar?
Hvaða fyrirtæki er Háskólavellir?
Þegar skoðað er nánar hvaða fyrirtæki Háskólavellir er þá sést að það er í eigu fimm félaga og fyrirtækja; Glitnis, Sparisjóðs Keflavíkur, fjárfestingafélagsins Teigs, Fasteignafélagsins Þreks og svo Klasa sem er fasteignafélag tengt bróður fjármálaráðherra. Klasi á 22,5% í Háskólavöllum eins og allir hinir hluthafarnir, fyrir utan Teig sem á 10%.
Fyrirtækið Klasi mun vera að einhverju leyti í eigu bróðurs fjármálaráðherra og mun hann stýra því sb. þessa frétt á visir.is:
Fyrirtæki í eigu bróður fjármálaráðherra gæti hagnast um milljarða (frétt á vísir.is)
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar seldi á sínum tíma eignarhaldsfélaginu Háskólavöllum 96 byggingar fyrir 14 miljarða. Þetta eru að mestu íbúðabyggingar á gamla varnarliðssvæðinu. Þetta munu vera þúsundir íbúða.
Fyrirtækið Háskólavellir virðist hafa komist yfir eignirnar sem það núna falbýður til leigu á Keflavíkurflugvelli á undarlegan hátt. Það vekur afar mikla tortryggni hver fjölskyldutengsl Árna fjármálaráðherra eru við þá aðila sem fengu að kaupa þessar eignir, Atli Gíslason hefur fært rök fyrir því að staðið hafi verið ólöglega að sölu varnarliðseigna til Háskólavalla og það hafi verið handvaldir kaupendur sem þróunarfélagið (þ.e. sá aðili sem sá um söluna fyrir fjármálaráðuneytið) hafi velþóknun á.
Því spyr ég hvort ég sé ein um að finnast undarleg undirboð á leigumarkaði frá fyrirtæki eins og Háskólavöllum? Sætta fasteignaeigendur og húsbyggjendur og leigusalar á Suðurnesjum og Reykjavíkursvæðinu sig við svona samkeppni?
Sjá þessa grein sem birtist á dv.is í nóvember síðastliðinn:
Innlent | 20.11.2007 18:04:43 dv.is
Handvelja kaupendur segir þingmaður VG
Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýnir harðlega aðferðina við sölu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf á 1.700 íbúðum á Keflavíkurflugvelli í haust. Í umræðum um fjáraukalög á Alþingi í dag sagði hann efnislega að salan hefði verið heimildarlaus og ólögleg og hefði ekki fylgt reglum um gagnsætt og opið útboð. Svo virtist sem stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ohf. hefði handvalið mögulega kaupendur og selt þeim sem hún hafði velþóknun á.
Atli segir í samtali við dv.is að um sé að ræða nýtt Orkuveitumál um heilmildarlausa meðferð almannaeigna og almannafjár. Í Evróputilskipunun, sem um þetta gildi, segi að hlutafélög í opinberri eigu verði að fara að reglum um opið og gagnsætt útboð þegar seldar eru eignir almennings. Það er ekki hægt að skjóta þessu máli undan opinberu eftirliti. Auk þess er um svo mikil verðmæti að tefla að auglýsa hefði átt útboðið á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta er skýrt brot á 85. grein laga um opinber inkaup númer 84 frá árinu 2007 og reglugerð sem á lögunum byggir. Fullyrðingum Atla Gíslasonar, VG, um að lög hafi verið brotin var ekki andmælt á Alþingi í dag.
Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, upplýsti í umræðunum að hann hefði gert samning við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ohf. sem tryggja hefði átt sölu eignanna samkvæmt opnu útboði.
DV greinir frá því í dag að Fjárfestingarfélagið Háskólavellir hafi keypt tæplega 1.700 íbúðir af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ohf, en að félaginu koma meðal annars Glitnir, fasteignafélagið Þrek í Reykjanesbæ, fjárfestingarfélagið Teigur og fasteignaþróunarfélagið Klasi sem Þorgils Óttar Mathiesen, bróðir fjármálaráðherrans, leiðir. Kaupin voru gerð 5. október síðastliðinn og var söluverð 96 bygginga um 14 milljarðar króna. Einfaldur útreikningur bendir til þess kaupendur hafi greitt 80 til 110 þúsund krónur fyrir hvern fermetra.
Í stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf sitja Magnús Gunnarsson, stjórnarformaður, Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og Stefán Þórarinsson, stjórnarformaður Nýsis hf.
Fleiri tenglar um Háskólavellir
Víkurfréttir | Fyrirtæki ársins 2007: Keilir og Háskólavellir ehf.
Af árekstrum hins hörundsára bæjarstjóra - bjarnihardar.blog.is
Samningur um þróun og ráðstöfun eigna á Keflavíkurflugvelli
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:47 | Facebook
Athugasemdir
Góð úttekt.
Hvað sem veldur finnst mér þetta mál hafa týnst og lent á bak við margt annað sem minna máli skiptir.
Er það misskilningur hjá mér að þessar íbúðir séu eingöngu ætlaðar fólki í námi við H.Í.?
Árni Gunnarsson, 30.1.2008 kl. 11:21
Já það er rétt hjá þér Árni, þessar íbúðir eru eingungis fyrir fólk í háskólanámi. Núna er á prjónunum að byggja nokkurhundruð námsmannaíbúðir í Rekjavík sem verða boðnar á svona góðum kjörum. Það eru svona íbúðir til leigu, bæði á stútentagörðunum og í skuggahverfinu þar sem námsmenn fá íbúðir leigðar langt undir markaðsverði. Mér finnst það sjálfsagt að það séu boðnar íbúðir til leigu til námsmanna sem eru langt undir markaðsverði. Eða þarf að auka byrgðina á námsmenn ???
Bjöggi (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 14:10
Ég nennti nú ekki að lesa alla greinina hjá þér, en las nóg held ég. Ég leigi hér 50 fermetra íbúð, og er leigan 41.000. Þar sem ég er jú í námi get ég síðan fengið húsaleigubætur. Þessar íbúðir eru fyrir alla þá sem stunda háskólanám.
Þar sem ég er á námslánum fæ ég skitinn 70.000 kall á mánuði sem gerir það að verkum að ég get ekki leigt mér íbúð í Reykjavík, þar sem leigan er himinhá! Síðan eru nú eftir öll hin útjgöldin svo maður geti lifað eðlilegu lífi.
Þess vegna finnst mér asnalegt að vera að setja eitthvað út á hluti eins og þessa þar sem flest allt háskólafólk er á námslánum og á ekki krónu.
Einhvers staðar verðum við að búa....
Sema Erla Serdar, 30.1.2008 kl. 15:56
Ef um er að ræða dumping þá er það kannski gagnvart fyrirtæki eins og Félagsstofnun stúdenta og öðrum húsnæðisfélögum sem hafa verið að byggja námsmannaíbúðir á Reykjavíkursvæðinu. Framboð af þeim er hinsvegar takmarkað og fá færri en vilja. Námsmannaíbúðir hafa verið fjármagnaðar með lánum frá íbúðalánasjóði sem setur aftur skilyrði um hverjum má leigja og leiguverð þessara íbúða er mjög sambærilegt á öllum háskólasvæðunum; Akureyri, Bifröst, Hólum, Hvanneyri og Reykjavík. Háskólavellir er hugsanlega undantekning og spurningin er hvort aðrir aðilar sem eru að byggja upp húsnæði fyrir námsmenn ættu ekki að njóta sambærilegra kjara og Háskólavellir? Með það fyrir augum að auðvelda aðgengi til náms almennt, ekki bara fyrir þá sem búa á Vellinum?
Guðrún Helgadóttir, 30.1.2008 kl. 16:05
Árni: Ég held að Keilir hafi milligöngu um íbúðir sem allir háskólanemar og þeir sem stunda lánshæft nám geta sótt um. Ég veit ekki hvort Keilir hafi milligöngu um leigumiðlun til annarra aðila eins og álfyrirtækja og verktaka, það kæmi mér á óvart ef svo væri.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.1.2008 kl. 17:40
Sema: Leiðinlegt að þú nenntir ekki að lesa greinina hjá mér en telur samt eðlilegt að hafa skoðun á henni en finnst bara asnalegt að fólk sé að setja út á hluti sem þessa. Ef þér finnst eðlilegt að gagnrýna mín skrif þá væri mjög viðeigandi að þú nenntir að lesa þau. Vinsamlegast áttaðu þig á því að þessi grein fjallar um hagfræðilegt efni og stjórnmál. Einnig reyni ég að benda á með kurteislegum hætti að það er afar lítil háskólastarfsemi á Háskólavöllum og það er þegar farið að leigja öðrum hópum þessar íbúðirþ Ég er að gagnrýna hvernig staðið var að sölu gífurlegra verðmæta og hvaða afleiðingar það hefur. Það gefur augaleið að það er námsmönnum í hag að sem flestar og sem ódýrastar íbúðir.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.1.2008 kl. 17:48
Guðrún,
leiguverð þessara íbúða er þetta skv. vefsíðu keilir.net
Ásendahverfi
3 herbergja (94 fm íbúð) 53.964
4 herbergja (120 fm íbúð) 65.543
Víkingshverfi
2 herbergja (55 fm ) 40.965
Stúdío (33 fm) 33.989
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.1.2008 kl. 17:49
Það var undarlega staðið að því að selja þessar íbúðir og það er allt í fína lagi að ræða það og ræða hverjir mögulega skaðast á þessari sölu og því að þeir sem keyptu þessar íbúðir geti leigt þær út á hvaða verði sem er. Sennilega skiptir leiguverð litlu máli. Þetta eru eignir á alþjóðaflugvelli og fjárfestar vonast til að þær hækki í verði vegna staðsetningar. Þeir sem fengu að kaupa þessar eignir borguðu afar lágt verð og ég bendi á gagnrýni Atla Gíslasonar. Það er byggingarmarkaður á höfuðborgarsvæðinu, þeir sem byggja,leigja og selja eignir til almennings sem eru að tapa á því að boðnar séu til leigu íbúðir langt, langt undir kostnaðarverði.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.1.2008 kl. 17:55
Ég fór líka að skoða aðeins betur kauptilboð og hvað Háskólavellir greiddu fyrir þessar 1700 íbúðir. Mér sýnis með ólíkindum hvernig staðið var að þessari sölu. Stjórnarformaður Þróunarfélagsins er Árni Sigfússon, hann situr í bæjarstjórn Reykjanesbæjar ásamt Böðvari Jónssyni sem er aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Þróunarfélagið seldi Háskólavöllum þar sem bróðir fjármálaráðherra stýrir einu af þeim fyrirtækjum 1700 íbúðir þar sem meðalfermetraverðið var 87 þús. fermetrinn og lóðafermetrinn á um 1 þús. krónur.
Fyrir 12 milljarða fá Háskólavellir 1660 íbúðir sem eru tæplega 140 þús fermetrar og 16 þús. fermetra atvinnuhúsnæði og nýtingarrétt á óbyggðu landi sem er áætlað um 405 fm. Fyrsta greiðslan 3 milljarðar var greidd um áramót. Afganginn borga Háskólavellir á þremur árum. Það er vaxtalaus skuld sem er þó verðtryggð en þó ekki meira en 3%.
þetta eru mjög góð kjör. Fínn díll fyrir Háskólavelli. Satt að segja óhemjugóð kjör. Velti ég fyrir mér hvernig söngurinn um ósýnilegu höndina hans Adams Smiths frjálsa samkeppni og framboð og eftirspurn virkar í þessu máli. Finnst íbúðareigendum á Suðurnesjum til Reykjavíkur þetta bara hið besta mál og hugljúft hvernig fjölskylduböndin eru sterk í Sjálfstæðisflokknum og hvað Sjálfstæðismenn standa þétt við bakið hver á öðrum þegar kemur að því að ákveða hver má kaupa hvað á hvaða verði.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.1.2008 kl. 18:32
Bjöggi.. ég held að þetta sé rangt hjá þér.. ekki bara háskólafólk má sækja um íbúðir á keilir heldur má einnig fólk sem stundar nám í iðnskóla Reykjavíkur sækja einnig um á keilir... allavega þegar maður sækir um íbúð á Keilir og á að nefna skóla sem maður er í þá koma upp; HÍ, HR, HA, Keilir, KHÍ, LHÍ, Bifróst, Iðnskólinn í Reykjavík, Íþróttaakademían og annar skóli.
ég bý á keilir og mér finnst alveg æðislegt að geta leigt á svona lágu verði.
en annars mjög góð grein hjá þér Salvör
Guðlaug Jóna (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 19:04
Halló,
Með þvílíkum ólíkindum.
Erfiðasti fasteignamarkaður í Evrópu, og þó víðar væri leitað. Bandaríski herinn yfirgefur herstöðin. Íbúðir leigðar út til námsmanna í mesta veðravíti á byggðu bóli á Íslandi, og mest ósjarmerandi hverfi á Íslandi.
Vinstri manneskjan notfærir sér málið til að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína, og gleymir öllum "hugsjónum sínum". Talar um dumping á markaðsverði
Jafnvel í Bandaríkjunum þar sem ójöfnuðurinn á að vera svo rosalega mikill er léttara að verða sér úti um húsnæði.
.....nei, en vinstri manneskjan á Íslandi talar um dumping á markaðsverði vegna útleigu á námsmannaíbúðum gamallar herstöðvar í ljótasta hverfi á Íslandi og mesta rokrassgati á Íslandi, á meðan biðlistar eftir námsmannaíbúðum hafa aldrei verið lengri, og biðlisti eftir félagsíbúðum telur tæplega 3000 manns. ...........Guð minn almáttugur..... ég sný bara við gömlum málshætti og segi....ef Sjálfstæðiflokkurinn á svona óvini, þá þarf hann enga vini
Jóhannes (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 19:24
Jóhannes: Soldið fyndið að heyra talað um mig sem vinstri mann Ég hélt ég væri of markaðssinnuð og of mikil einstaklingsfrelsismanneskja til þess. En ég er líka samvinnumaður, ég held að við græðum öll mest á því að vinna saman í staðinn fyrir að eyða orkunni í að tæta niður það sem aðrir gera. Þess vegna finnst mér líka Framsóknarflokkurinn vera skynsamlegur kostur. Ég er svo sannarlega ekki að gleyma neinum hugsjónum þó ég minni Sjálfstæðismenn á hagfræðina og reyni að hitta þá fyrir þar sem þeir eru aumastir. Það er voða gaman að benda á hve svona einkavinavæðing (1700 íbúða dæmið) kemur sér illa fyrir litla atvinnurekendur og þá er ég að tala um þá sem byggja og leigja íbúðarhúsnæði. Þeir tapa og þeir þurfa að horfast í augu við að svona vinnubrögð eru ekki góð.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.1.2008 kl. 21:34
Smávegis meiri upplýsingar um fjölskylduböndin. Sá þetta á vefnum hjá Sjóvá, frétt frá maí 2007:
"Þorgils Óttar Mathiesen forstjóri Sjóvá hefur keypt 40% hlut í fasteigna- og þróunarfélaginu Klasa. Þorgils Óttar mun í kjölfar fjárfestingarinnar taka við stjórnun félagsins og um leið láta af störfum sem forstjóri Sjóvá. Aðrir eigendur Klasa eru Sjóvá og Glitnir.
Stjórn Sjóvá hefur ráðið Þór Sigfússon sem forstjóra en hann mun hefja störf í desembermánuði."
Þess má geta að Þorgils Óttar (sem stýrir einu af fyrirtækinu sem fékk að kaupa 1700 íbúðir af þróunarfélaginu) er bróðir fjármálarráðherra (sem sér um ríkiseigur) og Þór Sigfússon sem tók við starfinu af Þorgils Óttari er bróðir Árna Sigfúsar bæjarstjóra í Reykjanesbæ (sem er formaður stjórnar þróunarfélagsins sem seldi 1700 íbúðir).
Ég er nú ekki alveg inn í lögum um almenningshlutafélög og innherjaviðskipti. En er ekki dáldið skrýtið hvernig þessi eignatengslaflækja er? Hver á raunverulega hvað?
það vekur t.d. athygli mína að Glitnir á bæði í Klasa og svo á Glitnir líka í Háskólavöllum í eigin nafni. Þetta er alsherjar eignaflækja. Skrýtið að fjölmiðlarnir virðast ekki hafa áhuga á að upplýsa okkur almenning um þetta.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.1.2008 kl. 21:46
Salvör: Fjölmiðlar þyrftu að skipuleggja sig afar vel og skipta með sér verkum ef þeim ætti að takast að koma öllum dæmum um pólitíska spillingu til lesenda.
Endurnýjunin á þessu efni er líka svo hröð að fréttamenn þreytast.
Árni Gunnarsson, 30.1.2008 kl. 22:47
Árni: Ég held að það sé nú ekkert mikið vinna að fylgjast með þessu ef fjölmiðlamenn eru á vaktinni og hafa aðgang að upplýsingalindum. Hins vegar held ég að flestir fjölmiðlar séu í eign fjármálamanna sem hafa hag af því að upplýsingum um hvernig þeir stíga til jarðar séu settar fram svo að þeim komi vel.
Annars keypti Sigla Klasa. það er erfitt að átta sig á hver á hvar t.d. í svona fréttum. Sennilega nennir almenningur ekki að setja sig inn í svona fréttir. Það er bara frétt ef einhver rugludallur segir að hann sé með mörg hnífasett í bakinu og hvort einhver sé að bruðla með skyrtur og jakkaföt. Það er nógu einfalt og myndrænt.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 31.1.2008 kl. 00:05
Það kemur ekki illa við atvinnurekendur að námsmenn fái íbúðir undir markaðsverði. Það er skortur á menntuðu vinnuafli og himinhá legia fælir fólk frá því að fara í nám. Skortur á menntuðu vinnuafli er miklu meira hamlandi fyrir hagkerfið en nokkurþúsund íbúðir leigðar undir markaðsverði. Talandi um hagfræði þá held ég að þjóðfélagslegur ábati af nokkurþúsund ódýrum íbúðum fyrir námsmenn sé miklu meiri en sá kostnaður sem af hlýst. Víst eru sjálfstæðismenn betri en framsóknarmenn í hagfræði, it´s not all about the money Svo ekki vera að tala um einkavinavæðingu x-D, það vita allir að Framsókn er verst í þeirri deild. Sjálfstæðismenn sem eru við völd í Reykjanesbæ eru bara að gefa svæðinu smá efnahagslegt búst, fjölga íbúum á svæðinu, svo fá kaupendur örugglega svona góðan díl af því að þeir eru skuldbundnir til að leigja námsmönnum íbúðirnar á góðum kjörum sem takmarkar tekjur af fjárfestingunni. Ekkert athugavert við þetta mín kæra.
Bjöggi (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 01:54
Sæl, ég las allann póstinn en nennti þó ekki að lesa nema hálfa wikipedia
færsluna, rak þar augun í þessa skilgreiningu á "Dumping", og finnst þú
seilast full langt í að sjá það útúr aðstæðum hér.
Af wikipedia: "A standard technical definition of dumping is the act of
charging a lower price for a good in a foreign market than one charges for
the same good in a domestic market."
Að dumpa er að fara inn á erlendann markað og selja þar vöru "goods" á
lægra verði en á heimamarkaði fyrirtækis.
Goods er þá húsaleiga,
Hvað er þá domestic market fasteignafyrirtækisins Háskólavalla? Eru það aðrir/fyrrum leigjendur námsmann, þ.e. láginnkomu leigumarkaður Höfuðborgarsvæðisins eins og hann var?
Og foreign market þá hvað? Inná hvaða markað er Háskólavellir að ryðjast og undirbjóða? Það var enginn leigumarkaður fyrir námsmenn úr Reykjavík, í Reykjanesbæ á meðan þessi "bragga" byggð stóð tóm eða hýsti ennþá nató hermenn.
Þór (IP-tala skráð) 10.2.2008 kl. 20:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.