5.1.2008 | 16:22
Ár kartöflunnar
Ætli Ólafur Ragnar og Dorrit setji niður kartöflur á Bessastöðum í vor?
Í sumar eru 250 ár frá því að kartöflur voru fyrst ræktaðar á Íslandi og það var einmitt á Bessastöðum sem sá merki atburður gerðist, það var hrútabarónninn Hastfer sem árið 1758 stóð að þeirri tilraun.
Allur heimurinn tekur undir með þessu merkisafmæli íslenskrar kartöfluræktar því árið 2008 hefur verið valið af Sameinuðu þjóðunum sem alþjóðlegt ár kartöflunnar.
Á íslensku wikipedíu er samvinna janúarmánaðar 2008 helguð kartöflunni og fólk hvatt til að skrifa greinar um ýmislegt tengt kartöflum. Það er komin stórfín grein um jarðeplin gullnu og nokkrar minni greinar. Vonandi verður þetta góður þekkingarbrunnur fyrir fólk sem hyggur á kartöflurækt næsta sumar. Ég ákvað að taka þátt í þessu samvinnuverkefni og er þegar búin að skrifa eina grein, ég skrifaði greinina Kartöflubjalla um skaðvald í kartöflurækt. Ég hefði náttúrulega átt að skrifa grein um eitthvað praktískt fyrir Ísland eins og kartöflumyglu því kartöflubjöllur eru víst ekki skaðvaldar á Íslandi. En mér finnst þessar bjöllur bara miklu fallegri en kartöflumygla og ég er alltaf hugfangin af dýrum sem taka svona umbreytingum á lífsferlinum bjalla-lirfa-púpa og dýrum sem leggjast í dá.
Ég gæti alveg hugsað mér að rækta kartöflur í sumar. Ekki þó premier sem mér finnst ekki hafa neitt erfiðisgildi í ræktun, mig hefur hins vegar alltaf langað til að rækta sjaldgæfari tegundir eins og möndlukartöflur og bláar kartöflur. Ef einhver veit hvað maður getur fengið útsæði að svoleiðis kartöflum eða er að gera tilraunir með spennandi kartöfluafbrigði þá endilega skrifið í athugasemdir við þetta blogg.
Það er mjög smart fyrir okkur hérna á norðurhveli jarðar og sérstaklega á Íslandi að nota þetta ár til að minnast kartöflunnar og hvaða gildi hún hefur og á eftir að hafa á lífsskilyrði okkar. Það er miklu meira í anda skynsamlegrar auðlindanýtingar og náttúrustefnu að við hérna borðum mat sem er framleiddur nálægt okkur á okkar búsvæði heldur en t.d. matvæli sem framleidd eru á svæðum þar sem við getum ekkert fylgst með framleiðslunni og þar sem flytja þarf afurðirnar langan veg á markað og nota til þess dýrmæta orku og farartæki.
Kartöflur voru mikilvæg fæða í Evrópu og það varð hungursneyð þar sem milljónir sultu í hel í Írlandi þegar kartöfluuppskeran brást um miðja 19. öld (sjá t.d. BBC - History - The Irish Famine) það hratt á stað geysilegum fólksflutningum uppflosnaðra Íra til Vesturheims. Þegar Sovétríkin liðu undir lok þá lifði alþýða manna í Rússlandi víða við kröpp kjör og þá hefðu miklu fleiri soltið ef ekki væri fyrir kartöflurækt. Björn í Sauðlauksdal ræktaði svo fyrstur íslendinga kartöflur. En þekkingin á kartöflum og kartöflurækt barst ekki bara til landsins með barónum sem sendir voru af danska kónginum. Kambsránið og Brimarhólmsvist íslenskra fanga ýtti undir kartöfluræktun á Eyrarbakka:
"Einn merkilegasti eiginleiki kartöflunnar er sá að fólk getur nærst á henni og litlu öðru. "Þess vegna voru fangar gjarnan fóðraðir á kartöflum, enda voru þær ódýrasti maturinn. Hafliði Guðmundsson, sem flæktist í Kambsránið og sat af sér dóm á Brimarhólmi, var einn þeirra sem komu að utan með kartöflur í vasanum og hóf að rækta þær eftir heimkomuna. Hann var orðinn aðstoðarmaður fangelsislæknisins og hefur lært þar hvað þetta var gagnleg planta. Við þetta hljóp fjör í kartöfluræktina á Eyrarbakka."
heimild Dugnaðarforkurinn kartaflan
Kartaflan hefur verið og mun verða mikilvæg fæða fátækra manna og skapar öryggi í fæðuframboði á stríðs- og hörmungartímum þegar verður að taka aftur upp sjálfsþurftarbúskap. Það er hins vegar hægt að læra af kartöfluhungursneyðinni í Írlandi hve viðsjárvert er að vera svo háður einni fæðutegund að þegar uppskera hennar bregst þá verði hungursneyð milljóna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.