Er starf Landsbjargar fjármagnað með sprengiefnasölu?

Það stuðar mig verulega að núna þegar flugeldasalan er hafin þá séu einhvers konar auglýsingainnskot fyrir flugeldasölu björgunarsveita dulbúið sem fréttaefni í öllum fjölmiðlum og látið að því liggja að það sé þjóðþrifaverk að kaupa flugeldapakka, því stærri því betra. Þá geti nefnilega björgunarsveitirnar í landinu eflst og unnið betur sitt góða starf.  

Er ég eina manneskjan hér á höfuðborgarsvæðinu sem finnst flugeldamökkurinn um áramótin  andstæður öllu sem heitir ábyrgð í umhverfismálum og vitund fyrir aðstæðum við framleiðslu og dreifingu og notkun hættulegra efna? Er ég eina manneskjan sem finnst óforsvaranlegt að þau boð berist úr öllum áttum til barnafjölskyldna að það sé partur af vellukkuðu gamlárskvöldi hamingjusamrar  fjölskyldu og nánast skylda til að tryggja hjálparstarf í landinu að eyða tugþúsundum í flugelda til að skjóta upp á innan við hálftíma?  

Ég hvet alla sem kaupa flugelda til að hugleiða hvaðan flugeldarnir koma og við hvernig aðstæður þeir voru framleiddir og hvernig öryggis og heilsuaðstæður starfsmanna við framleiðsluna eru.

Ef til vill eru  flugeldarnir sem þú sprengir upp á gamlárskvöld  úr verksmiðju Yangquan Xingtong Fireworks Co. workshop eða annarri sams konar verksmiðju í Kína. Þar varð sprenging 11 manns að bana fyrir mánuði síðan og daginn áður þá dóu 13 í annarri verksmiðju við sams konar aðstæður, sjá þessa frétt:

Eleven people were killed and eight injured in an explosion in a fireworks factory in central China. The explosion late Wednesday afternoon reduced part of the Yangquan Xingtong Fireworks Co. workshop - on the rural outskirts of Yangquan city - to rubble, and it was not known whether others were buried in the blast, the government's Xinhua News Agency reported.

The cause of the explosion was under investigation, and a manager of the privately run fireworks company was being held for questioning, said an officer with the police station in Yangjiazhuang town, where the factory is located. The officer gave his surname, Li, but declined to further identify himself.

Accidents in Chinese factories are common, with thousands dying every year in part because of lax enforcement of safety rules. Fireworks factories, many of them illegal, are notoriously unsafe. The day before the Yangquan blast, 13 people died in an accident in a fireworks factory in the southern province of Hunan

 Það er ekki langt síðan flugeldar voru framleiddir á Íslandi og öðrum Norðurlöndum. Hugsanlega fer slík framleiðsla fram ennþá . Hrikalegt hættuástand skapaðist í Danmörku fyrir nokkrum árum þegar mikil sprenging varð í flugeldaverksmiðju í þéttbýli.  Hér á Íslandi sprakk flugeldaverksmiðja á Akranesi í loft upp fyrir meira en tveimur áratugum. Skólabróðir minn missti föður sinn og litla bróður sinn í því slysi.

Það er ekki rétt og ekki siðlegt að fjölmiðlar og björgunarsveitir leggist á eitt um hver áramót og æsi fólk upp í að kaupa flugelda.  Af þeim er mikil mengun og í þeim eru hættuleg sprengjuefni og víða eru þeir framleiddir við aðstæður sem setja fólk í bráða lífshættu. Það er ekkert þjóðþrifaverk að kaupa og skjóta upp flugeldum.

 Það eru þannig aðstæður í Kína að stjórnvöld reyna að  koma í veg fyrir að fréttir sem andstæðar þykja kínverskum hagsmunum berist til umheimsins. Það er því líklegt að  allar fréttir og umræða um mörg umhverfisslys vegna flugeldaframleiðslu séu þaggaðar niður. Þannig var um sprengingarnar í Puyang  í Henan 18. september síðastliðinn. 

Serial Explosions Level 100 Houses, Many Feared Dead in Central China

Hér eru nokkrar fleiri fréttir af svona málum. 

Second China fireworks factory blast kills 11 | World | Reuters

 Fireworks factory explosion kills 4 - The China Post

Workers’ deaths cast shadow over political celebrations in Beijing

Hér eru fréttir af flugeldaverksmiðjuslysum í Evrópu t.d. í Kolding árið 2004

TV 2 Nyhederne - Kolding-katastrofe skal under lup

Í Kolding kom í ljós að mörg þúsund tonn af sprengiefni  til flugeldaframleiðslu voru geymd í íbúðarhverfi. Það var lýst yfir hættuástandi og 2000 íbúar urðu að yfirgefa heimili sín, 50 hús eyðilögðust, 750 hús skemmdust, 1 slökkviliðsmaður lést, 70 slösuðust.

 


mbl.is Hörð samkeppni í flugeldasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Jökulsson

Hvernig væri nú að líta bara á gamlárskvöld sem laugardag.. leyfa sér smá gaman ;)

Sigurður Jökulsson, 28.12.2007 kl. 13:57

2 identicon

Sæl Salvör,

Það er ekki nýtilkomið að Björgunarsveitir fjármagni starf sitt að mestu leiti með sölu flugelda um áramótin. Sá hátturinn hefur verið hafður á til fjölda ára. Lengi vel voru ýmis íþróttafélög einnig á þessum markaði og sum eru enn.

Enginn getur efast um þann öryggisþátt sem björgunarsveitirnar standa fyrir. Við höfum að sjálfsögðu atvinnubjörgunarlið eins og slökkviliðin og Landhelgisgæsluna. En sá hópur er þó stundum ekki nema brot af þeim mannskap sem þarf til ýmissa aðgerða. 

Hvað væri til ráða ef björgunarsveitanna nyti ekki við? Hver færi til fjalla, út í óveður, í sjávarháska eða til leitar ef við gætum ekki leitað til þeirra?  Einkaaðilarnir sem selja flugelda í samkeppni við björgunarsveitirnar eða hugsanlega atvinnuher eða atvinnubjörgunarlið?

Staðreyndin er sú að björgunarsveitirnar eru reknar af sjálfboðaliðum og peningar til búnaðarkaupa koma í gegnum fjáraflanir þar sem sú stærsta er flugeldasalan um áramótin.

Ég tek umhverfisáhyggjur þínar en eins og staðan er í dag geta björgunarsveitirnar ekki annað því þær þurfa fjármagn til að halda starfsemi sinni gangandi til að tryggja öryggi almennings og ferðamanna. Í fullkomnum heimi værum við kannski með fullfjarmagnað atvinnulið nokkurra hundruða manna. Í fullkomnum heimi væru Háskóli Íslands, SÁÁ og Rauði Krossinn ekki að betla pening með spilakössum. Í fullkomnum heimi væru alþingismenn ekki að hugsa um að eyða 9 milljörðum króna til fegrunaraðgerða líkar þeim að setja raflínur í jörðu meðan það er ótalmargt annað sem við getum gert við þennan pening.

I siðferðislega réttum heimi værum við heldur ekki að kaupa flugelda af einkaaðilum sem eru í beinni samkeppni við björgunarsveitirnar.  

Því segi ég aftur.... 

... hverjir koma til aðstoðar þegar verst bjátar á????

Því er það stór þáttur í flugeldakaupum, fyrir utan að njóta ljósadýrðar og hvella, að styrkja björgunarsveitirnar.

Einkaaðilinn kemur þér ekki til hjálpar.   Ef þú vilt ekki kaupa flugelda af björgunarsveit, kauptu þá þess heldur af íþróttafélögum sem skila einnig sínu til samfélagsins.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár!!

Kv. Sigurbjörn

Sigurbjörn (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 14:17

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

ÉG hef engu við að bæta við það sem Sigurbjörn og Einar Elí skrifa, en er hjartanlega sammála þeim.

Ásdís Sigurðardóttir, 28.12.2007 kl. 14:31

4 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

Eitthvað held ég Salvör vanmeti að aðrir en hún hugi að sínum málum.

Hún, sem setur það fram að hún sé vel inni í málunum, hefur þó ekki skoðað ýmsar úttektir, s.s. í dönskum fjölmiðlum um umhverfisáhrif flugelda. Þar hafa líka Salvarir kvartað og kveinað eins og dönum er einum líkt, og þá kom t.d. í ljós að umhverfisáhrif flugelda í DK eru hverfandi í viðurkenndum flugeldum, minni t.d. heldur en af varalitanotkun. Getur verið að kínverskur heimamarkaður sé aðeins stærri en sá íslenski, og því þrífist þar nokkrar rakettuverksmiðjur sem ekki séu í útflutningi?

Held svona uppskrúfuð samviskupæling sé... bara uppskrúfuð. með kveðju frá einum sem leiðist samviskutilgerð.

Baldvin Kristjánsson, 28.12.2007 kl. 14:32

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Baldvin: Ég held að þú ættir að lesa almennilega blogg áður en þú ferð að tjá þig á kommentakerfum. Ég vísaði í bloggi mínu í stórt mengunarslys sem varð í Danmörku og sagði í blogginu að hrikalegt hættuástand hefði orðið þegar sprenging varð í flugvélaverksmiðju í þéttbýli. Ég sagði í blogginu ekkert annað um Danmörku en ég hef núna til að upplýsa þína líka bætt við neðst kafla um þetta hættulega slys sem varð árið 2004.  Í bænum  Kolding í Danmörku kom í ljós að mörg þúsund tonn af sprengiefni  til flugeldaframleiðslu voru geymd í íbúðarhverfi. þegar flugeldaverksmiðja þar sprakk í loft upp Það var lýst yfir hættuástandi og 2000 íbúar urðu að yfirgefa heimili sín, 50 hús eyðilögðust, 750 hús skemmdust, 1 slökkviliðsmaður lést, 70 slösuðust.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.12.2007 kl. 15:04

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Einar Elí: Það er ábyrgð okkar sem íbúa í þessum heimi að ganga ekki þannig á lífsgæði annarra að við búum til hættuástand eða mengum meira en við þurfum  til að skemmta okkur í augnabliksvímu. Það er vissulega betra að björgunarsveitir og aðilar sem sérstakan áhuga hafa á öryggismálum selji hættuleg sprengjuefni heldur en einkaaðilar sem hafa bara áhuga á sem mestri sölu. En það er einhliða áróður fyrir þessari flugeldasölu og ég er að nýta möguleika mína til að skoða málin frá annarri hlið - sérstaklega þeirri hlið að framleiðsla á flugeldum fer fram víða við gersamlega óviðunandi aðstæður og setur fólk í hættu. Ég vona svo sannarlega að ferðir manna frá björgunarsveitunum til Kína séu farnar fyrst og fremst til að skoða hvort aðstæður þar sem flugeldarnir eru framleiddir séu sæmandi hvað varðar öryggi og heilsu starfsmanna þar en séu ekki boðsferðir þar sem aðaláherslan er lögð á skoða nýjustu og fínustu sprengiterturnar. Vonandi leggja björgunarsveitarmenn sitt af mörkum til að flugeldaverksmiðjur í Kína bæti aðstæður, þar eru því miður víða óviðunandi aðstæður og stjórnvöld virðast leyna umfangi slysa þar.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.12.2007 kl. 15:13

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sigurbjörn: Það er víst alveg satt að í fullkomnum heimi þá er SÁÁ ekki fjármagnað beint með því að fá peninga úr spilakössum (spilakössum sem eru víða bannaðir vegna þeirrar fíknar sem þeir ýta undir) og í fullkomnum heimi þá dettur íþróttafélögum ekki í hug að ganga um og auglýsa sígarettur á plastpokum og merkja keppnislið sín með auglýsingum frá Goldfinger á þeim tíma sem einkadansinn var leyfður þar.  En það er vís leið til að heimurinn verði ófullkomnari og grotni niður að fólk taki ekki eftir þessu og reyni eftir þeim mætti sem það getur að sporna við því sem það telur ósiðlegt og óeðlilegt. Við teljum ekki rétt að auglýsa og ýta undir reykingar og þær hafa víða verið bannaðar. Fyrir því eru gild lýðheilsu og þessi bönn eru afrakstur af margra baráttu við að sporna við reykingum.  Okkar ábyrgð í hnattrænu samfélagi er meiri en bara að stuðla að heilsu fólksins sem hérna býr. Okkar ábyrgð er líka að ýta ekki undir hættuleg skilyrði annars staðar og kaupa ekki vörur sem hafa valdið þannig aðstæðum.

Starf hjálparsveita er gríðarlega mikilvægt og þar verður einhvern veginn að fjármagna en það skiptir máli hvernig. Það er kaldranalegt að þannig starf sé fjármagnað með iðju sem setur aðra í hættu. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.12.2007 kl. 15:26

8 Smámynd: Ingimar Eydal

Í fullkomnum heimi þyrftu björgunarsveitir ekki að selja flugelda, starfsemi þeirra væri fjármögnuð með opinberu fé. 

Þegar því marki er náð þá væri fínt að banna flugeldana, að vísu yrði þá dálítið tómlegra á Gamlárskvöld og við þyrftum þá að fara til útlanda til að horfa á flugeldasýningar.  Í flestum löndum í kringum okkur eru reglulega flugeldasýningar sem gefa okkar sýningum ekkert eftir.  Í Kína er síðan risamarkaður, við megum ekki gleyma því að Kínverjar sprengja flugelda allt árið um kring og það sem þeir selja hingað  til að sprengja þetta eina kvöld er þvílíkt brotabrot af þeirra framleiðslu, sem n.b. er að mestu heimatilbúinn.  Sú framleiðsla er yfirleitt ólögleg og það er jú þar sem slysin verða.

Það sem þeir flytja út m.a. til okkar er yfirleitt framleitt í viðurkenndum "verksmiðjum" (sem eru varla hægt að kalla því orði, því til að uppfylla öryggisstaðla þá er framleiðslan mjög dreifð í litlum skýlum til að tryggja öryggi starfsfólks).   Svo vill til að ég þekki persónulega menn frá Landsbjörg sem hafa farið út og skoðað þessa framleiðsluaðila sem keypt er frá, einmitt til að kanna öryggi þeirra sem vinna við framleiðsluna, því það væri jú, tvískynnungur að vinna að slysavörnum á Íslandi með því að ógna fólki í Kína !  Enda þekkist varla slys hjá þeim framleiðendum.

En meðhöndlun þessara vöru er langt í frá hættulaus og því er það væntanlegra skynsamlegra að þeir sem vinna að slysavörnum meðhöndli hana frekar en þeir sem hugsa bara um hámarksgróða.. eða hvað?

Barátta björgunarsveita á Íslandi í dag er fyrst og fremst fólgin í því að koma í veg fyrir að einkaaðilar (skyndigróðamenn) eyðileggi þessa fjáröflun fyrir þeim.

Ingimar Eydal, 28.12.2007 kl. 15:38

9 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

Sælar verið þið Salvör og Elísabet - og kveðja úr danaríki.

Það yrði gaman ef samviskupælingin næði að draga saman mengun sem hlýst af danskri notkun á snyrtivörum, tískuvörum, markaðsvinnu í einnota tískubransanum og fl. og fl. Svona fyrst verið er að benda á danskar upplýsingar. Þá fyrst yrði skrattinn laus. Það er ekki nóg að taka eitt dæmi af ótölulega löngum lista mála - og setja svona fram. Það kalla ég tækifærismennsku vegna uppskrúfaðrar samviskusemi.

Það verða slys og mengun af öllum iðnaði. Öryggismál og mengun á ársvísu, vegna flugelda sem fluttir eru til Evrópu - eða notaðir í Evrópu eru etv. lakari en af átöppun vatns, en betri en svo ofsalega margt annað. Og á Íslandi rennur stærsti hluti teknanna það í ofanálag til góðra málefna en ekki skyndigróðabraskara með litla virðingu fyrir því sem þeir græða á. Það væri því etv. ráð fyrir Salvöru að benda á hvað björgunarsveitirnar leggja á sig til að tryggja að þetta sé sem best, frekar en svona væl. Íslendingar eru gríðarlega heppnir að hafa björgunarsveitir með þessu fyrirkomulagi, sem gera landið mun byggilegra en ella. Gleðilegt nýtt ár.

Baldvin Kristjánsson, 28.12.2007 kl. 16:14

10 Smámynd: Steinþór Ásgeirsson

Það er soldið kaldranalegt að að horfa upp í himininn og sjá heilu fimmþúsund kallana puðrast úti í loftið undir því yfirskyni að Björgunarsveitirnar þurfi á þessu að halda.

Það er mín skoðun að mannbjörg og neyðarhjálp eigi að vera á framfæri hins opinbera. það styttist í stórslys af völdum rangrar flugelda notkunnar hér á landi.

Sprengjuóðir menn vígbúast í þágu góðs málefnis.

Það er gaman að horfa upp í loftið á gamlárskvöld, sérstaklega í góðu veðri.

Svo finnst mér það líka gaman að puðra soldið út í loftið en samt finnst mér þetta soldið komið út í öfgar. sértaklega að Björgunarsveitir skuli eiga allt sitt undir þessari sölu, svo að venjulegt fólk skuli hafa "afsökun" fyrir því að eyða tugum þúsunda í þágu góðs málefnis. Og er svo í misgóðu ástandi að puðra þessu út í loftið.

Góðar stundir og gangið hægt um gleðinnar dyr.

Gleðilegt nýtt ár!!!

Steinþór Ásgeirsson, 28.12.2007 kl. 16:21

11 identicon

Það væri gaman að sjá hvernig björgunarsveitinar næðu að starfa ef ekki væri fyrir flugeldasölunnar. Allt þetta fólk sem vinnur sjálfboðastarf og þarf mikinn og dýran búnað og ekki er hann fenginn ókeypis. Ef fólk höndlar ekki smá #ragettulykt" þá á það að halda sig innandyra og fylgjast með ljósadýrðinni úr stofunni, fjarri loftmengun.

Jói (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 16:27

12 identicon

Hvernig væri að horfa svolítið upp úr skotgröfunum og taka umræðuna um grundvallarmálin. Fyrst dálítil fantasía:

  • Hvað ef kirkjan fjárfesti í áhættuhlutabréfum, tæki þátt í útrásinni og græddi svolítið á kostnað annarra en innlendra?
  • Hvað ef skólakerfið væri alfarið fjármagnað af gróða áfengis og tóbakssölu í landinu?
  • Hvað ef Rauði krossinn, Slysavarnarfélögin og Íþróttafélögin hefðu verulegar tekjur af rekstri spilavíta?

Salvör benti á hlut sem stingur í augun á fólki sem er sér meðvitað um samfélagslega ábyrgð sína í heimi sem fer minnkandi. Í gamla heiminum var í lagi að kirkjur fjárfestu í hverju sem er nema e.t.v. hergagnaframleiðslu. Ekki lengur. Í gamla heiminum var e.t.v. í lagi að reykja inni á kennarastofu og veita vín í fermingarveislum. Ekki lengur. Og það er löngu orðið tímabært að skoða aðrar leiðir en rekstur spilakassa sem gróðaleið fyrir frjáls félagasamtök, sama hvaða gagn er af þeim

Þetta hefur ekkert með feminisma að gera. Miklu frekar að fólk átti sig á því að e.t.v. væri sniðugra að gefa peninga beint til tiltekinna félaga eða finna sér tímabærari fjáröflunarleiðir en að stuðla að ójöfnuði eða bruðli í nafni þjóðþrifaverka. 

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 17:09

13 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

Sæll Carlos

fólk hefur frá upphafi gefið peninga beint til björgunarsveita. það er hinsvegar enganvegin nóg.

Salvör benti á mengun og slys af notkun flugelda. það er rétt. hún hinsvegar gerir sér litla grein fyrir því hvað kostar að gera út sveitirnar, sem eru vel að merkja, einstakar í heiminum. hér höfum við kerfi byggt upp af fólki sem barðist í björgun við sjóslys og slys á fjöllum. Á Íslandi er enginn her blessunarlega. Erlendis er björgunarmálum sinnt af her, lögreglu og slíku. Þú getur rétt ímyndað þér mengunina sem er á bakvið þróun hermála. Hvað þá slys. Hvað þá annað sem þarf til að halda úti slíkri útgerð. Íslendingar hafa verið heppnir með hvernig þeir byggðu sjálfir upp sína lausn, án hermála eða utanaðkomandi reglugerða. Ef Íslendingar hefðu beðið eftir því að yfirvöld landsins - sem þá voru í Danmörku - leystu þessi mál, væri landið í sömu stöðu og Grænlendingar. Þar bý ég og hér eru björgunarmál næstum ekki til, fólk verður bara úti, drukknar eða ferst og ekkert hægt að gera. Flugeldar eru hér seldir af byggingavörubúðum, pípurum og hverjum sem dettur það í hug - með sömu mengun - ekki kemur það að gagni fólki sem þarf aðstoð. Og ekki leysa yfirvöldin í danmörku það, ráða varla við landið sitt, þar sem stormviðvörun er gefin út við 10 m/sek.

Hlusta ekki á svona bull hjá fólki sem heldur að það sé bara hægt að gera þetta einhvernvegin öðruvísi en fólkið sem hefur staðið í þessu streði í áratugi. Með kveðju.

Baldvin Kristjánsson, 28.12.2007 kl. 17:44

14 identicon

Ég hlakka alltaf mikið til gamlárskvöld einkum vegna flugeldanna. Þau spila mikið hlutverk á mínu heimili, og er beðið með tilhlökkun eftir að flugeldar björgunarsveitanna verður skotið á loft. Alla hina daga ársins, endurvinn ég rusl, keyri um á litlum sparneytnum bíl, er ein af þessum leiðinlegu sem aldrei fer yfir hámarkshraða, og nota sparperur í öll ljós á heimilinu. Þennan eina dag ársins langar mig að  gleðja sjálfa mig og börnin mín og kaupi þess vegna flugelda. Vissulega á maður að hugsa um umhverfið sitt en ef fólk vill agnúast út í mengum væri ekki frekar að agnúast út í núverandi og allar fyrrverandi ríkisstjórnir, fyrir að stuðla ekki að minni mengun með því t.d að hafa enga tolla á dísel bílum og lækka verðið á dísel olíu..... en núna er ég komin langt út fyrir efnið.

Gleðilegt ár!!!

Lísa Margrét Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 21:15

15 identicon

Það er kannski vert að benda þér á,að það fer eftir meðferð hversu hættulegt þetta er.Varðandi mengun þá munu þessi 800 tonn sem talið að verði skotið upp núna,jafngilda mengun 11 Toy Yaris bíla. Þú vilt kannski hætta að keyra. Eins líka það,að börnin bíða með mikilli eftirvæntingu eftir þessu kvöldi,sum meira en jólunum.Þetta er hefð og þó það sé töff að vera umhverfisverndarsinni,fittar þetta ekki inn í það alment.

kveðja jobbi

jobbi (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 02:17

16 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

O, ætli Íslendingar myndu hætta að kaupa flugelda þótt einhverjir aðrir en björgunarsveitirnar seldu þá?

Öryggiskröfum um meðferð og sölu flugelda er líka lang best framfylgt af því að ein stór og ábyrg landssamtök selja lang mestan part af þeim.

Annars af því að í nokkrum kommentum er farið fram á að að björgunarsveitir skuli kostaðar af ríkinu, þá er ég því ósammála. Ríki og sveitarfélög eiga vissulega að koma að einhverju leyti að stuðningi við starf björgunarsveita og slysavarnafélaga, en ekki að öllu leyti. Þetta eru og eiga að vera sjálfboðaliðasamtök, en ekki deild undir ríkislögreglustjóra.

Soffía Sigurðardóttir, 29.12.2007 kl. 02:18

17 identicon

Sæll Baldvin

Ég held að við Salvör gerum okkur grein fyrir því hvað kostar að halda úti björgunarsveitum, hvaða gagn þær gera og reynsla þín af búsetu á Grænlandi er víti til varnaðar.  Rök þín halda, menn hætta ekki að skjóta upp flugeldum, þótt björgunarsveitir hætti að selja þá. Á sama hátt halda rökin um að stríðstól verða framleidd óháð stuðningi kirkna í formi hlutafjárkaupa og að menn munu halda áfram að spila með peninga þótt frjáls félagasamtök hætti að reka spilakassa.

Salvör spyr hinsvegar réttilega, hvort að neysla okkar og stuðningur sé ekki verði keyptur sem hefur neikvæð áhrif annars staðar. Sú spurning er algerlega lögmæt, sérstaklega ef horft er til mannslífa og aðbúnaðar við framleiðslu þess sem við kaupum. Vissulega væri sú leið sem þú bendir á (her - lögregla) dýrari og líkast til meira mengandi (ef herleiðin er farin), en sú spurning vekur aðra spurningu, sem er:

Er kannski kominn tími til að ríkið styrki björgunarsveitir þannig að þeim er gert kleift að starfa í fjárhagslegu öryggi? 

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 10:38

18 identicon

Það hlýtur að vera leiðinlegt að vera svona leiðinlegur. Femínistar og aðrar þurrkunntur landsins, fáið ykkur að ríða og reynið að brosa framan í heiminn, þá brosir hann framan í ykkur.

Gunnar (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 11:17

19 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Af hverju alltaf að skjóta sér á bak við þessa svokölluðu "hnatttvæðingu" hvern fjandan hefur það með okkur Íslendinga að gera, við sem erum færri en íbúar í smæðstu  krummaskuðum víðast hvar á erlendri grund.

Trúir einhver því að það hafi einhver áhrif á sölu flugeldaframleiðenda í Kína eða annarstaðar, þótt við hættum að kaupa flugelda af þeim.Þeir tækju ekki einu sinni eftir því að við værum hættir að versla við þá

.Danska dæmið finnst mér út í hött, það sýnir okkur bara hvað óprúttnir komast langt ef efirlit hins opinbera bregst.

 Og þó, Svona dæmi hefur verið óhugsandi hér fram að þessu þar sem ábyrgir söluaðilar hafa staðið að þessum málum,en nú er að verða breyting á, æ fleiri einkaaðilar sem hugsa bara um skyndigróða eru í auknum mæli farnir að sækja á þennann markað,án þeirrar kunnáttu og þekkingar sem til þarf ef þetta á að vera öruggt,og leggja lítið og jafnvel ekkert til þjóðfélagsins í staðinn.

Á meðan andstæðingar þessarar fjármögnunarleiðar björgunarsveitanna koma ekki með einhverjar raunhæfar tillögur um aðrar fjáröflunarleiðir, ættu þeir að beina kröftum sínum til stuðnings því að þessi sala verði eingöngu í höndum sveitanna þar til annað býðst.

Það er alveg ljóst að þótt Íslendingar hætti að kaupa flugelda verður engin samdráttur í framleiðslunni. Og endilega góða fólk látið ykkur detta eitthvað annað í hug, þótt ekki væri nema stundum,að finna einhver önnur úrræði, en að banna þetta, og banna hitt.

Og munið að það er sama hvað við gerum við björgum ekki heiminum. Með bestu kveðju og óskum um ásættanlegt ár.

Brýni svo fyrir þeim sem ætla að kaupa flugelda að versla við björgunarsveitrinar

Ari Guðmar Hallgrímsson, 29.12.2007 kl. 11:56

20 identicon

Takk fyrir gott innlegg í umræðuna.  Þú hefur greinilega snert á viðkvæmu máli hér og fengið mikið af tilfinningaþrungnum athugasemdum. 

Mér hefur í mörg ár þótt þetta flugeldabrölt hlægilegt, enda skilst mér að fólk komi alla leið frá Asíu til þess að hlægja að delluþjóðinni á gamlárskvöld.   

 ÉG held að enginn efist um gildi björgunarsveitanna, en það er ekki ósanngjarnt að ræða aðbúnað starfsmanna meðal þeirra sem við skiptum við.  Kínverjar og önnur kommaríki eru ótrúlega aftarlega í öryggismálum og auðvitið umhverfismálum líka.  Við sem neytendur og berum ábyrgð, en margir íslendingar virðast ekki alveg tilbúnir fyrir þá umræðu. 

Ragnar Pálsson (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 16:09

21 Smámynd: Margrét Elín Arnarsdóttir

Ragnar, það er búið að benda á það oft hér í kommentakerfinu að Landsbjörg fer til Kína gagngert til þess að skoða öryggismálin þar, einnig er búið að fjalla um umhverfismálin. Manni sýnist á öllu að þú hafir ekki lesið ofangreind komment, sem hafa verið greinargóð og skýr og tekið vel á umræddum málum, sem væri kannski ágætt að gera áður en þú kemur með svona ályktun!!!

Margrét Elín Arnarsdóttir, 29.12.2007 kl. 16:27

22 Smámynd: Íslands-Bersi

Salvör þú ert hræsnari og vell það , hvernig heldur að tölvan sem þú notar til að blogga hér sé búinn til skoðaðu það, og bitu svo björgunarsveitirnar afsökun á bullinu í þér, svo þú þurfir ekki að skammast þín og þín fjölskilda  ef þið mundu þurfa á afstoð þeir að halda, og skammastu þín fyrir þessi skrif

Íslands-Bersi, 29.12.2007 kl. 20:03

23 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég vil að björgunarsveitir njóti sem mest ágóðans af sölu flugelda í þágu hvers konar björgunar - og hjálparstarfa.Hins vegar er ég sammála þér Salvör út frá umhverfismálum,að öll sú mengun og óþríf,sem fylgja flugeldaskotum frá heimilum fólks er til skammar.Það á að finna ákveðin svæði til að skjóta upp flugveldum eins og tíðkast með áramótabrenndur og hafa strangt öryggiseftirlit á viðkomandi stöðum.

Kristján Pétursson, 29.12.2007 kl. 23:29

24 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

Skrítið að taka þátt í rökræðum um björgunarsveitir, með fólki sem greinilega hefur aldrei tekið þátt í starfi þeirra. Ég sagði hér ofar að Salvör gerði ekki ráð fyrir að aðrir hugi að sínum málum. Hversu mikil vinna ætli fari í þessa umræðu innan sveitanna á hverju ári, í áratugi, um öryggismál, fjáraflanir og fl.

Ég mæli með að Salvör og Carlos bjóði sig fram í björgunarsveit í sínu héraði. Þær eru opnar, lýðræðislegar og gott fólk, sem vill/nennir/telur sér skylt að aðstoða þegar á þarf að halda, er tekið inn á hverju hausti. Flestar sveitirnar eru með fjáröflunarhópa, sem vantar alltaf nýjar hugmyndir. Þar getið þið kynnt ykkur þessi mál af eigin raun - og tekið þátt í þróun þeirra, eins og allir hinir sjálfboðaliðarnir.

Fyrst þarf reyndar að fara í gegnum nýliðaþjálfun og slíkt, en það herðir bara.

Baldvin Kristjánsson, 29.12.2007 kl. 23:32

25 identicon

Margrét, ég var búinn að lesa þetta með ferðirnar og umhverfismálin.  Það breytir ekki því að gömlu kommaþjóðirnar eru mjög aftarlega í umhverfismálum.  ÉG er heldur ekki að halda því fram að hjálparsveitirnar séu sponsorar fyrir einhverjar verksmiðjur þar sem börnum er þrælað úr og öryggismálum ekkert sinnt.  Hins vegar finnst mér allt í lagi að velta upp þessum hugleiðingum sem Salvör kom með og mér finnst að fólk geti svarað því án þess að vera með skítkast.  ÉG hef sjálfur tekið þátt í flugeldasölu og þekki mikið af góðu björgunarsveitarfólki.  Ef Salvör var var ekki með réttar upplýsingar þá er þetta ágætt tækifæri fyrir þá sem vita betur að koma réttum upplýsingum á framfæri.  Mér þykja sumar af athugasemdunum hér að ofan mjög dónalegar og ómálefnalegar.  Bloggið hjá Salvöru er vandað og málefnalegt að mínu mati, hún er að velta upp hlutum sem skipta máli fyrir marga. 

Ragnar Pálsson (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 01:42

26 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

Sagan af litlu gulu hænunni kemur upp í hugann, þegar maður les bloggið hennar Salvarar. Þetta blogg er sett þannig fram að maður eigi að efast um að Slysavarnafélagið Landsbjörg hugsi minna um slysavarnir og mengun en Salvör.

Sumir Íslendingar átta sig held ég ekki á því hversu Íslendingar eru heppnir að hafa sjálfir barist fyrir framförum í sínu landi. Ef ekki væri fyrir íslenskar lausnir, eins og björgunarsveitir sjálfboðaliða, án íblöndunar ríkisins, væri miklu óbyggilegra á landinu. Ef Ragnari þykir ég hafa verið dónalegur á ég mér það til varnar að ég væri dauður, ásamt 5 öðrum á sama bát, ef ekki hefði verið fyrir björgunarsveit. Ég ber fyllsta traust til allra þeirra sem taka þátt í daglegum rekstri íslensku björgunarsveitanna og, eins og all flestir Íslendingar, geri mér fyllstu grein fyrir því að landið byggist ekki bara af akurhænum í miðbæ Reykjavíkur.

Fyrst landið fær enn og aftur áminningu um hvar í heiminum það liggur, nú um áramót, skora ég á Carlos og Salvöru að gera eins og svo margir hafa gert í gegnum tíðina - kaupa stjörnuljós og gefa 5000 kall að auki.

Baldvin Kristjánsson, 30.12.2007 kl. 15:05

27 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Þetta er greinilega hitamál og ráðist á helg vé ef einhverjum ofbýður flugeldafárið. Ólína skrifar bloggið Það á ekki að leyfa flugeldasölu til almennings >:

og margir taka þátt í umræðunni þar. Það er áhugavert að þar kemur fram að frá 1. janúar á næsta ári verður rakettusala bönnuð í Noregi. 

En aðalatriðið í þessu bloggi hjá  mér er ekki að berjast fyrir banni við flugeldum heldur að benda á hversu óviðeigandi sé að björgunarsveitir og fjölmiðlar leggist á eitt til að fá almenning - og þá sérstaklega barnafjölskyldur - til að eyða peningunum sínum í skjóta þeim út í loftið og einnig að benda á ábyrgð allra sem eru kaupendur og seljendur á þessum vörum á því að þetta eru hættulegar vörur sem geta valdið slysum  og ekki síður að þessar vörur eru framleiddar og geymdar víða við óviðunandi öryggisaðstæður þannig að líf fólks er í hættu.  

90 % af flugeldaframleiðslu heimsins er framleitt í Kína og sennilega koma þaðan allir flugeldar sem hér eru sprengdir í loft upp. Því tek ég sérstaklega dæmi frá því ríki. Margir segja að það eigi ekki að taka flugeldaframleiðslu neitt sérstaklega út, það sé hræsni hjá fólki eins og mér, ég eigi alveg eins að tala um tölvuna sem ég skrifa á og bíla. Vissulega eigum við að huga að uppruna allra þeirra neysluvara sem falboðnar eru í vestrænu samfélagi og vissulega er þar víða umbóta þörf í öryggismálum og mengun við framleiðslu og notkun. Það eru hins vegar fáar vörur sem eru eins ónauðsynlegar og menga eins mikið og flugeldar og það eru því miður ákaflega algeng slys og sprengingar við framleiðsluna.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.12.2007 kl. 15:20

28 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

Leggið þið þá björgunarsveitunum lið. Þær eru alfarið mannaðar af sjálfboðaliðum og lýðræðislega kjörnar stjórnir hverrar sveitar og Landsbjargar.

Noregur er með geysilega öflugan her sem sinnir björgunarmálum. Noregur er líka ríkasta (olíu og gas) land í heimi. Þeir geta leyft sér hvað sem þeim dettur í hug. Viljið þið þá banna þeim að vinna olíu og gas af því það mengar og drepur?

Þar er líka bannað að kaupa tvöfaldan snafs á bar, en mátt kaupa 2 x einfaldan, þeir hafa sjálfsagt sínar ástæður fyrir því. Þeir eru líka að velta fyrir sér að banna stóra bíla, enda getur ríkasta land í heimi byggt fína vegi, lestir og niðurgreitt ferjur. Aftur, það er ekkert að græða á að benda á önnur lönd, með þeirra allt aðrar aðstæður. Björgunarsveitirnar standa gríðarlega vel að flugeldamálum hjá sér og hafa verið leiðandi í þróun öryggismála við geymslu og sölu þeirra á Íslandi.

Vandamál við sölu flugelda í DK eru að mestu leyti vegna ólöglegrar sölu, þar með stærð flugeldanna, geymslu og hvernig staðið er að sölu. Það er hægt að benda í allar áttir og finna að öllu. Hér er verið að vega að gríðarlega mikilvægu starfi, sem hefur þróast í hátt í hundrað ár, með þátttöku þúsunda sjálfboðaliða, sem allir vilja gera þetta vel.

Umræða um mengun og slysavarnir á alltaf rétt á sér - og veit að sú umræða er mjög virk (virkust?) innan björgunarsveitanna. En að sama skapi er gagg um að þetta eigi að banna - og þessir sjálfboðaliðar geti bara fundið upp á einhverju öðru, til skammar hjá fólki sem býr í harðbýlasta landi í heimi, án hers. Styðjið sveitirnar, gangið í þær ef þið viljið breyta starfsáherslum þeirra, en kastið ekki upp svona fyrirsögn upp eins og hér sé um ósiðlega glæpastarfsemi að ræða, sem græða á annarra óförum.

Baldvin Kristjánsson, 30.12.2007 kl. 17:30

29 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég eða við hér á þessu heimili kaupum enga flugelda og höfum aldrei gert.
Ég vil samt gjarnan styrkja þetta málefni en þó með öðrum hætti t.d. bara beinum fjárstyrkjum, kaupa klósettpappír, sérvíettur, eða hvaðeina annað. 

Björgunarsveitarfólk er það ósérhlífnasta fólk sem fyrir finnst að ég held. Alltaf tilbúið að leggja á sig löng og erfið ferðarlög og jafnvel að leggja sig í lífsháska ef svo ber við oft til að bjarga fólki sem lagt hefur af stað út í háskaför þrátt fyrir aðvaranir.

Hvað varðar flugelda finnst mér slæmt hvað byrjað er að sprengja snemma þ.e. þetta er ekki lengur bundið bara við gamlárskvöld og nýársnótt.
Síðastliðna nótt var stöðugt verið að sprengja hérna í götunni og einnig nóttina þar áður eða um leið og sala flugelda hófst. Þannig verður þetta næstu daga og allt fram yfir þrettándann.

Kolbrún Baldursdóttir, 30.12.2007 kl. 17:50

30 Smámynd: Páll Einarsson

Hummm..

Hvernig væri ad teir sem keyptu flugelda af bjørgunarsveitum ættu ad geyma kvittanir og mundu fá fría bjørgun einu sinni á ári.

Teir sem kaupa ekki flugelda og festa sig uppi á hálendi vitandi um vedurspá borgi á stadnum (med pening, korti eda jafnvel fá sendan gíró) fyrir bjørgun.

Ég og mín fjølskylda høfum alltaf gengid um hverfid á nýarsdag sídan ég man eftir mér og týnt upp flugelda og hent eda haldid littlar brennur. Verd ég ad segja ad í mínu hverfi eru margar fjølslkyldur sem gera slíkt hid sama.

Kannski er tetta bara gert í hafnarfyrdi ?

Páll Einarsson, 31.12.2007 kl. 07:34

31 identicon

Umræðunni miðar í hvert sinn sem fleiri fletir eru skoðaðir. Það er eitt að styrkja, annað að taka að sér. Það er eitt að kaupa tiltekna vöru, annað að kaupa hana þegar vitað er að hún er framleidd undir óviðunandi kringumstæðum.

Ég hugsa að hluti þeirra miljarða sem sparast við að hafa ekki her hér á landi megi fara í formi tækjakaupa og þjálfunar til björgunarsveita ... ég hugsa að meðvituð viðskipti við aðila sem tryggja verkafólki mannsæmandi kjör séu eðlileg viðbrögð við minnkandi heimi og aukinni meðvitund um mátt neytandans. 

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband