5.12.2007 | 08:43
Pisa 2006 - Hvers vegna standa íslensk börn sig ekki betur?
Nú hafa verið birtar niðurstöður úr Pisa rannsókninni 2006 og niðurstaðan er vonbrigði fyrir Ísland. Í fréttatilkynningu frá menntamálaráðuneyti segi m.a.:
"Námsmatsstofnun sá um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi og tóku allir grunnskólar og velflestir nemendur 10. bekkjar þátt í henni. Í könnuninni núna var sérstök áhersla á náttúrufræði þar sem reyndi á þekkingu nemenda á ýmsum sviðum raunvísinda, færni þeirra til að túlka vísindalegar staðreyndir og nota vísindaleg rök.
Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að í öllum greinum hefur staða Íslands miðað við aðrar þjóðir versnað milli áranna 2000 og 2006, mest í lesskilngi en minnst í stærðfræði. Í náttúrufræði lendir Ísland í 27. sæti af 57 löndum, rétt fyrir neðan meðaltal OECD landa. Í lesskilningi lendir Ísland í 24. sæti, einnig rétt fyrir neðan meðatal OECD, og í 17. sæti í stærðfræði, rétt fyrir ofan meðaltal OECD. Þegar undirfög náttúrufræðinnar eru borin saman kemur í ljós að íslenskir nemendur eru slakastir í líf- og vistfræði, næstbestir í eðlis- og efnafræði, en sterkastir í jarð- og stjörnufræði.
Í lesskilningi hefur frammistaða íslenskra nemenda hrakað marktækt frá árinu 2000. Þeim nemendum sem lenda í lægsta hæfnisþrepinu hefur fjölgað og þeim sem lenda í efsta hæfnisþrepinu fækkað, bæði í lesskilningi og náttúrufræði. Þá hefur frammistaða nemenda eftir landshlutum breyst á milli rannsókna. Vestfirðir, Norðurland eystra og vestra sýna bestu frammistöðu landshluta, en Austurlandi ásamt Reykjavík og nágrenni hrakar mest frá árinu 2000."
Það vekur athygli að Finnland kemur mun betur út úr þessari könnun en Ísland. Hvers vegna er Ísland ekki á sama róli og Finnland? Þetta eru lönd með svipaða menningu og að mörgu leyti sömu aðstæður í menntamálum, við lítum oft til Finnlands og annnarra Norðurlanda sem fyrirmyndar og reynum að breyta okkar kerfi þannig að tekið sé upp það sem reynst hefur vel þar. Ég nefni þar sérstaklega áherslu Finna á kennaramenntun og vel menntaða kennara, við höfum séð að það hefur gefið góða raun í Finnlandi og orðið driffjöður fyrir finnskt samfélag og efnahagslíf. Nú er einmitt unnið að því að breyta kennaramenntun á Íslandi og auka menntun kennara þannig að hún verði sambærileg við það sem hún er í Finnlandi og öðrum þeim löndum þar sem best þykir að verki staðið. Menntamálaráðherra mun leggja fram frumvarp um það á þessu þingi. Það er afar mikilvægt að hlú að grunnmenntun kennara og bæta hana en það tekur langan tíma að hafa áhrif, Ef kennaramenntun er breytt í dag og flutt yfir á M.ed. stig þá útskrifast kennarar með þá breyttu menntun ekki fyrr en eftir nokkur ár og nýútskrifaðir kennarar eru ekki nema brot af öllum kennurum í landinu. Smán saman mun þó fjölga kennurum með M.ed. próf og sambærilega menntun en það verður um langt skeið margs konar menntun meðal kennarastéttarinnar t.d. má nefna að þó það séu meira en tuttugu ár síðan kennaramenntun grunnskólakennara var flutt á háskólastig þá eru ennþá starfandi margir kennarar í landinu með gamla kennaraprófið. Til langs tíma er sennilega engin aðgerð áhrifaríkari til að auka gæði menntunar í landinu en að hafa vel menntaða kennara en menn verða að átta sig á að það er ekki skyndilausn sem skilar árangri strax á næsta ári að auka grunnmenntun kennara.
Það er þannig með kennarastarf eins og mörg önnur störf að starfsvettvangurinn breytist og það er mikil þörf á endurmenntun og endurskólun. Nú eru sem betur fer miklu meiri möguleikar fyrir starfandi kennara að fara í framhaldsnám og fjarnám hefur gert mögulegt bæði að stunda slíkt nám meðfram starfi og í heimabyggð.
Það er ekki mjög langt síðan sú staða var sums staðar á Íslandi að stór hluti kennara var án grunnmenntunar og kennsluréttinda. Það átti sérstaklega við um suma staði á landsbyggðinni, þar voru tíð kennaraskipti og afar erfitt að fá menntaða kennara sem ílengdust. Ég held að besta og farsælasta aðgerðin til að stykja dreifðar byggðir á Íslandi hafi verið þegar fólki bauðst að stunda heildstætt háskólanám, þriggja ára kennaranám í sinni heimabyggð í gegnum fjarnám. KHÍ var fyrsta stofnunin sem bauð upp á þannig nám og er nú svo komið að meira en helmingur nemenda er í fjarnámi. Það er gífurleg breyting á skömmum tíma.
Það geta verið margar ástæður fyrir því að íslensk börn koma ekki betur út á Písa. Meðal ástæðna geta verið að menntun kennara sé ekki nógu góð og kennslan sem börnin fá sé ekki nógu góð og þau námsgögn og viðfangsefni sem lögð eru fyrir þau séu ekki nógu góð. Það getur líka verið að písa rannsóknin mæli ekki nema svið hefðbundins skólanáms og okkar styrkleikar og aukning á færni á nýjum sviðum komi ekki að öllu leyti fram þar.
Það eru þó nokkur atriði sem ég vil benda á sem hugsanlega geta skýrt þetta:
1. Árið 2006 er að mörgu leyti einkennilegt ár, það er ár uppgangs og yfirspennu á atvinnumarkaði á Íslandi, það er gríðarleg eftirspurn eftir vinnuafli, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.
2. Raungreinar og vísindahyggju er ekki sérlega hátt skrifuð gildi eða hampað í íslensku samfélagi, það er ekki lögð sérstök áhersla á þessar greinar í skólakerfinu og t.d. miklu meiri aðdáun er á auðjöfrum sem hafa mikil umsvif en vísindamönnum og hugvitsmönnum.
3. Íslenskt samfélag er á hraðri leið með að verða tvítyngt samfélag, stór hluti af menningu ungmenna og starfsumhverfi fullorðinna er núna á ensku eða öðrum tungumálum en íslensku. Íslenskan er á hröðu undanhaldi sem samskiptamiðill í íslensku samfélagi. Unglingar eru inn í margs konar táknkerfum, þau eru læsari á ýmis tungumál og táknkerfi en eru hugsanlega vegna þessa umróts ekki eins góð í þeim lesskilningi sem pisa mælir.
Það er vissulega þarft fyrir okkur að ræða hvað veldur því að íslensk börn koma ekki betur út úr Pisa og það er m.a. íhugunarefni og áhyggjuefni hve illa íslenskir nemar koma út úr líffræði og vistfræðiþáttum. Þetta eru svið sem við þurfum að leggja rækt við og fá unglinga til að skilja mikilvægi þessa. Hér búum við við ysta haf þar sem náttúran er miklu viðkvæmari en á svæðum þar sem lífsskilyrði eru hagstæð og við höfum stórbrotna og sérstaka náttúru og vistkerfi. Á tímum þar sem tekist er á um með hvaða hætti hálendið og auðlindir landsins skuli nýttar og þar sem iðnaðarsjónarmið og vistfræðisjónarmið takast á þá varðar miklu að unglingar hafi skilning og áhuga á þessum sviðum. Það bendir auk heldur allt til þess að þessi mál verði mikilvægari á næstu árum.
Það eru mörg og mismunandi menntakerfi og kennsluaðferðir í heiminum og uppeldissögunni. Sums staðar þykir það eina sniðuga menntunin að láta börn læra utanað. Séstakleglega þykir það gefast vel með alls konar guðrækilegt og mannbætandi efni sem mikilvægt þykir að börn kunni skil á t.d. þykir sums staðar ágætt að láta börn læra utanað kóraninn. Svoleiðis nám hjálpar örugglega börnum við vissa færni og er hugarleikfimi sem bætir minnið. En það er vandséð að það sé mikilvægt fyrir íslensk börn að vera í slíku staglnámi og það mikilvægasta sem ætti að vera leiðarljós um menntun barna er að hafa sýn á hvers konar veruleiki býður þeirra í framtíðinni.
það er ekki sniðug aðferð að bakka marga áratugi aftur á bak eins og Atli Harðarson stingur upp á í pistlinum:
Látum skólana gera minna svo börnin læri meira
Ísland undir meðaltali | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:50 | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst athyglisvert að Vestfirðir og Vesturland komi best út en á þeim landshluta hefur lítil þensla verið. Kannski aðrir atvinnuvegir séu að "stela" hæfum kennurum þar sem þenslan er mest með þessum afleiðingum.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 5.12.2007 kl. 09:27
Þetta er ítarlegir þankar Salvör eins og þín er von og vísa. Að vísu hef ég innbyggða varúð gagnvart meðaltölum og "samræmdum" þekkingarkönnunum (hæfni) milli landa.
Sum lönd stýrðu því hvernig útökin voru valin en Ísland lét flesta nemendur taka þátt í þessari könnun. Ég er ekki viss að tímabundnar breytur s.s. stundarvelferð hefi mikið að segja. Jafnvel er talað um að skólakerfið hafi brugðist. Þá sprettur alltaf þessi sérkennilega röksemd að Íslendingar "eyða" mest í íslenska skólakerfið. Einkennileg vegna þess að Ísland er hlutfallslega yngst og þar af leiðandi hlutfallslega meiri kostnaður. (Sjá Glance at education). En Danir kippa sér ekki sérlega upp vegna þessa (sjá hér) En hér heima fara ansi margir upp á tærnar. Auðvitað er gott að auka við menntun kennara sem hér felst aðallega í því að bæta við kandidatsári og ritgerðasmíð. Hvernig væri að skoða foreldraábyrgðina? Nemendur hér á Akureyri eru að koma ágætlega út.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 09:45
Höhumm, Námsmatsstofnun er nú kannski ekki mjög vel að sér í samfélagsfræði, fyrirbærið Vesturkjördæmi er ekki til. Það svæði sem stofnunin kallar svo er samsett úr gömlu Vesturlands, Vestfjarða- og Norðurlands vestra kjördæmunum. Þannig er að nemendur á starfssvæði Félagsþjónustunnar í Sveitarfélaginu Skagafirði skora hæst í öllum þeim flokkum sem mældir voru. Það er auðvitað mjög ánægjulegt að fá góða einkunn og í þessu tilfelli er ákveðin fylgni milli árangursins og áherslunnar á skólaþróun.
Guðrún Helgadóttir, 18.12.2007 kl. 17:16
Það er mjög áhugavert að besta útkoman sé í Skagafirði. Ég hefði búist við að það væri á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í efnaðri nágrannasveitarfélögum við Reykjavík þar sem mikil áhersla er lögð á að búa vel að skólunum.
Ég hef nú reyndar fylgst ágætlega með skólamálum í Skagafirði vegna ættingja þar og veit að þar víða verið unnið gott starf. Það eru forréttindi hjá krökkum að geta verið í litlu sveitaskólum þar sem eru vel menntaðir og áhugasamir kennarar og góð aðstaða. Ég veit að svo hefur verið í þeim skólum sem börn úr fjölskyldu minni hafa verið en þau hafa verið í Akraskóla, Varmahlíðarskóla og skólanum á Hólum í Hjaltadal.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 18.12.2007 kl. 22:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.