3.11.2007 | 16:57
Eru Vítisenglar skipulögð glæpasamtök
Ég veit það ekki. Og ég tek ekki fullyrðingar íslenskrar lögreglu trúanlegar ef þeim fylgir ekki rökstutt greinargerð. En fyrsta skrefið í að svara þessari spurningu er að afla sér upplýsinga. Ég skrifaði grein um Vítisengla og Vítisengla á Íslandi á íslensku wikipedia og skimaði Netið í upplýsingaleit.
Ég renndi líka yfir moggabloggið til að sjá hvað bloggarar segja um mál sem mér finnst varða mikilsverð mannréttindi. Þetta er spurning um mannréttindi og manngreinarálit. Ferðafrelsi er mannréttindi. Ferðafrelsi á ekki að vera aðeins fyrir útvalda, ekki aðeins fyrir þá sem eru eins og við og sem okkur finnst vera að ferðast í göfugum og góðum tilgangi. Ferðafrelsi á líka að vera fyrir skúrka og þá sem okkur finnst að ætti að loka inni og henda lyklinum. Ef við teljum að það megi takmarka ferðafrelsi skúrka meira en okkar þessarra göfugu og góðu sem förum bara í göfugar og fallegar ferðir milli landa til að sinna göfugum og fallegum og mannbætandi viðfangsefnum þá verðum við að rökstyðja sérlega vel hvers vegna svo sé. Lögin á Íslandi og lögin í Evrópu gilda líka fyrir vonda og ljóta fólkið, líka fyrir þá sem okkur líkar illa við, líka fyrir þá sem okkur finnst að ættu að éta það sem úti frýs.
Ég var frekar niðurdregin þegar ég las hvað moggabloggurum finnst um Vítisenglauppákomuna. Þar varð fyrst á vegi mínum bergmálsbloggið hans Stebbifr en hann setur nýtt persónulegt met í froðusnakki í blogginu sínu Lögreglan heldur vel á málum í Leifsstöð
Ég renndi yfir nokkra aðra minni (lesna) spámenn moggabloggsins og ég held barasta að fásinnið og molbúahátturinn sé meiri á Íslandi en ég ímyndaði mér og ég veit ekki fyrir hvort barátta Voltaire eða annara mannréttindafrömuða sögunnar hefur nokkuð náð hér upp á skerið.
Vonandi finn ég einhverja vitræna umræðu á blogginu um þetta mál ef ég leita betur.
Hér eru nokkrar fréttir um málið
Vítisenglar sendir heim í fylgd lögreglumanna
Fleiri Vítisenglar væntanlegir
Vítisenglar sendir heim í fylgd lögreglumanna
Sjö vítisenglum synjað um leyfi til landgöngu
Myndband: Vísir vitni að Vítisenglahandtöku
Vítisenglarnir farnir af landi brott | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:03 | Facebook
Athugasemdir
Er ekki svolítið freistandi að tengja þessa vítisenglaumræðu við negrastrákamálið? Rétt eins og í þeirri gömlu rasistaþulu eru hér allir vítisenglar settir undir einn hatt. Það er nefnilega svo þægilegt að einfalda málin. Þá þarf engin rök, bara segja: ,,Vítisengill? Úr landi með hann."
Athyglisvert hefði verið að sjá sömu viðbrögð gagnvart jarðsprengjudílerunum sem voru hér um daginn.
Matthías
Ár & síð, 3.11.2007 kl. 17:16
Já, þarna inn á milli eru örugglega margir glæpahundar með sakaskrá eins langa og vondan vetur en þegar löggan segir: ,,Við höfum rökstuddan grun um að SUMIR séu á sakaskrá", finnst mér eins og það sé ekki nóg öflug röksemd til að loka landinu fyrir öllum sem eiga mótorhjól eða langar til að eignast það.
Ár & síð, 3.11.2007 kl. 17:32
Falun Gong fékk líka útreið. Músíkelskandi sígaunum var hent í burtu,Vitisenglum a.m.k. í tvígang og svo fer allt í viðbragðstöðu og á 3 hættustig þegar von er á mótmælendum til landsins.
Á meðan flæða hér inn eiturlyf, fólk er barið heilsulaus í bænum og nauðgað. Sagt er að hér sé stundað vændi og mannsal og er víst engin leið að komast hjá því.
Allt er í blóma bara ef Falung Gong, sígaunar, vítisenglar eða mótmælendur komast ekki inn í landið. Hvað verður næsta skref hjá yfirvöldum? Samar?
Heidi Strand, 3.11.2007 kl. 17:38
Hehe, og þar sem nóg er af fíkniefnum og djöfulsskap hér fyrir þá finnst þér bara eðlilegt að flytja inn atvinnumenn í bransanum svo þeir geti skipulagt þetta betur, er það það sem þú ert að segja Heidi? En svona eru því miður flestir íslendingar, aumingjagóðir upp að eyrum, en svo þegar eitthvað kemur upp á þá er spurt; Hvar er löggan og afhverju gerðu þeir ekki neitt áður en þetta varð svona.
Það er það sem er verið að gera núna, það er verið að hugsa fyrir ykkur hin sem sjáið ekki skóginn fyrir trjánum svo allt fari ekki til fjandans á næsta ári eða árið eftir það. Hlutirnir eru nógu slæmir eins og Heidi bendir á, ekki er á það bætandi.
Vítisenglar eru ekki vélhjólasamtök, þetta eru glæpasamtök. Til að verða fullgildur meðlimur í Vítisenglunum þarftu að drepa í nafni samtakana, eða gera eitthvað annað sem eyðir samkeppni við samtökin á fíkniefna- og mannsalsmarkaðnum. Það sem Fáfnir er að gera núna er að reyna að verða svokallaðir Hang-arounds við Vítisenglana í þeirri von að verða einhverntíman beðnir um að sanna sig svo þeir fái að verða fullgildir meðlimir. Og hvað ætli Vítisenglarnir myndu biðja þá um að gera? Kannski leggja undir sig mest alla fíkniefnasölu á Íslandi? Sjá um að reglulegum sendingum hingað til lands yrði komið á?? Drepa einhvern sem stendur í vegi fyrir því? Allt slæmir kostir finnst mér allavega.
Sniglarnir eru vélhjólasamtök, ekki vítisenglar.
Mölbúi (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 18:10
Heidi, Samar eru þegar fyrir í landinu hreina, þeir komu strax á Landnámsöld. Eru nú sumir afkomendur þeirra bankafinnar eða fjárfestingarhálftröll. Sumir kalla þá bara Lappa (og má það örugglega ekki). Mér þykir leitt að sjá að þú líkir vítisenglum við sígauna. Vítisenglar voru ekki, síðast að ég vissi, þjóðflokkur.
Hells Angels eru skipulögð glæpasamtök! Salvör, þú ljómar ekki beint sjálf af vitrænni umræðu um Vítisengla. Ef þú hefðir búið í 25 ár í Danmörku eins og ég, hefðu morð þeirra og aðrir glæpir ekki farið fram hjá þér. Þetta er ekki neinn ofsóttur hópur. Þetta er hópur sem hefur stundað glæpi og slæst um yfirráðin í heimi glæpanna á Norðurlöndum. Þessar ómyndir þurfa sér fangelsi, því þeir herja á aðra fanga. Þessir drulludelar koma sér upp vopnabúrum og berjast við innflytjendahópa um yfirráðin í eiturheimum. Nóg er að við séum með íslenska eiturpésa og nauðgara. Við erum greinilega sammála um, að ekki sé á það bætandi.
Salvör, í allri vinsemd, þú ert því miður í hlutverki saklausa heimalningsins. Heimurinn er nefnilega miklu verri í útlandinu, þótt að veruleikinn sé ekki neitt sérstaklega fallegur á Íslandi heldur. Þú yrðir vart hrifinn af kvenfyrirlitningu Hells Angels. Ekki mæli ég með því að þú bregðir þér í partý til þeirra.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 3.11.2007 kl. 18:17
Eigi veit ég hvar fásinnið og molbúaháttinn er helst að finna. Hitt veit ég, að Hells Angels hér í Danmörku eru þaulskipulögð glæpasamtök sem enn eru undir gríðarlegu eftirliti dönsku lögreglunnar. Í dag birtust fréttir í dönskum fjölmiðlum þess efnis að Hells Angels væru að stofna deild fyrir ungt fólk sem ekki á mótorhjól. Ástæðan samkvæmt æðsta presti englanna í fjölmiðlum er sú að þeir sem nú eru í samtökunum fá engan frið fyrir lögreglunni og hafa ekki haft frið síðan árið 2002 og þar til í dag, en síðan 2002 hefur verið sérstakt átak í gangi gegn þeim og ekki að ástæðulausu "skulle jeg hilse og sige" eins og við segjum hér í Danmörku. Ég vitna fyrst í heimasíðu "Politiforbundet" http://www.politiforbund.dk/show.php?area=4&show=486 hér í Danmörku, en þar má lesa aðeins um helstu afreksverk englanna. Sjálfur hef ég lesið reglubundið fréttir um þessa blessaða engla síðastliðin 30 ár. Síðastliðin 5 ár eða svo og jafnvel lengur hefur lögreglan meðal annars verið að skoða skattaskýrslur þeirra og sætir mjög stór hluti félaganna ítarlegri rannsókn núna. Nei, þeir hafa ekki verið að vinna hefðbundna svarta vinnu eins og kallað er í daglegu tali. Margir þeirra hafa verið á atvinnuleysisbótum, en hafa lifað eins og auðmenn og þegar farið er að kanna hvaðan fjármagnið er komið, þá kemur nær undantekningarlaust fram að það kemur beint úr skipulagðri glæpastarfsemi af verstu sort. Um þetta má finna fjöldann allan af vefsíðum á dönsku á Google frá virtum fjölmiðlum auk "Politiforbundet" eins og áður gat.
Menn ættu að hugleiða örlítið betur það sem þeir slá fram um mannréttindi og þess háttar áður en þeir tjá sig um það. Það er ekkert sjálfgefið að íslenska lögreglan vaði uppi eins og ótíndir glæpamenn og brjóti á mannréttindum þessara manna. Hér er verið að vísa til allsherjarreglu á mjög svo sanngjarnan hátt þar sem um þaulskipulögð glæpasamtök er að ræða sem nú þegar sæta gífurlegu eftirliti hér í Danmörku og einnig í Svíþjóð, en þangað reyndu margir þeirra að flýja þegar þeir fóru að sæta skattrannsóknum hér í landi. Blessunarlega hefur lögregla á Norðurlöndunum sífellt meira samstarf sín á milli. Hnattvæðingin á sér ekki bara stað hjá auðmönnum sem kaupa fyrirtæki út um allt. Glæponarnir eru fljótir að tileinka sér nýja siði einnig og ekkert er því athugavert við að íslensk lögregluyfirvöld bregðist við eins og þau gera í þessu tilviki.
Rökstuddi grunurinn hjá lögreglu snýst um skipulagða glæpastarfsemi á mjög háu stigi og bið ég menn enn og aftur um að kíkja á heimasíðuna hjá "Politiforbundet" hér í Danmörku áður en þeir vísa til örfárra einstaklinga á sakaskrá eður ei. Málið snýst hreint ekki um það.
Kannski má einnig finna fásinnið og molbúaháttinn á heimasíðu "Politiforbundet", hver veit?
Magnús Guðnason (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 18:18
Las Wiki færsluna. Það er varla setning í henni rétt. Svona greinar eru ástæðan fyrir því að Wikipedia er svona lágt skrifuð sem heimildaskrá.
Það á heldur ekki að kalla þessa glæpamenn Vítisengla. Hells Angels er skrásett vörumerki. Ekki íslenskum við Coca Cola.
Og hjólaáhuginn ristir nú ekkert sérstaklega djúpt hjá þessum mönnum.
Steinarr Kr. , 3.11.2007 kl. 19:26
Með þessari þróun er stutt í að fólk verði dæmt í fangelsi áður en það nær að brjóta af sér. Það ferðast örugglega margir glæpamenn í fortíð og framtíð; eiturlyfjasalar, nauðgarar, morðingjar, ræningjar, barnaníðingar, skattsvikarar ofl, um öryggishlið Leifsstöðvar á hverjum degi. Hvað á til bragðs að taka?
Ef við ætlum að meina þessum Vítisenglum inngöngu verður einnig að meina vopnasölum, stjórnmálamönnum, sem styðja og ryðja veginn fyrir styrjaldir, sem drepa börn og almenna borgara í hrönnum og aðra um inngöngu í þetta stórkostlega land forhyggju og sakleysis.
Lögin hafa kannski alltaf farið í manngreinarálit, en það er sjaldgæft áður en glæpur hefur átt sér stað!
Ef það á að verða einhver breyting á, væri ágætt að byrja á að taka stjórnmálamenn úr umferð, sem þyggja mútur til að greiða götur borgara í hinum ýmsu málum. Þeir finnast meira að segja hérna á landi!!
Jónas Rafnar Ingason, 3.11.2007 kl. 20:12
Þessi hópar sem ég nefndi eru auðvitað ólíkir en ég nefndi þá sem dæmi um hópa fólks sem ekki hefur verið velkomið inn í landið.
Þegar ég ólst upp í Noregi var algengt að bílalestir með sígaunum og töturum kæmu til Noregs. Yfirvöld þar ráku fólkið úr landi. Landar mínir ráku þá í burtu eða óku í gripavögnum vegna þess að sígaunar/tatarar voru með slæmt orð á sé, eflaust sumir þjófóttir, og þau voru hrædd um að þeir myndu rupla og ræna.
Ég man eftir hópi sem var við ströndina rétt hjá skólanum okkar en þeir voru reknir í burtu af löggunni og fundu sér nýjan stað.
Ég ætla ekki að tjá mig meira um vítisengla en margt sem maður hefur séð á lífsleiðinni situr í manni.
Heidi Strand, 3.11.2007 kl. 20:18
Að sjálfsögðu eru glæpamenn í Hells Angels og okkur langar ekkert að fá þá í heimsókn.
Það þurfti ekki 70 manna lögreglulið til að senda þá heim, kannski hefði mátt stoppa þá í Osló, eða stöðva þá við hefðbundið landamæraeftirlit. Fáfnismenn hafa þó vonandi haft gaman af þessum heimskupörum og vonandi finnst Jóhanni Benediktssyni og Stefáni Eiríkssyni þeir hafa farið vel með fjármuni lögreglunnar. Ég fékk bara kjánahroll.
Ég er með nokkrar hugmyndir handa þeim í viðbót, þeir reyndar misstu af vopnasölunum en það eru dæmdir glæpamenn sem sitja á Alþingi, getum við ekki skellt löggunum 70 til að snúa Árna Johnsen aftur til eyja frá Reykjavíkurflugvelli. Svo er eru það þessir tölvuleikjafíklar sem spilla æsku landsins með fjölnotendaspili þar sem þeir leika sjóræningja í geymnum, þar er greinilega ógn við allsherjaröryggi sem þarf að bregðast við af festu.
Þröstur Jónasson (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 00:44
Þú ættir að skammast þín Salvör fyrir þessa færslu þína. Að reyna að sannfæra þjóðina um ágæti þessara glæpasamtaka er hreint ótrúlegt. Það er fyrir fólk eins og þig sem menn eru í sífelldri réttlætingu fyrir glæpalýð þessa lands og annara. Árni Johnsen sá ástæðu til að færa morðingjum, nauðgurum og ofbeldismönnum tíu flatsjónvarpstæki áður en honum datt í hug aðrir þjóðfélagshópar sem gæti notið góðs af þeim.
Hvað er þetta með ykkur sem viljið standa vörð um mannréttindi til handa glæpamönnum? Hvers vegna er ákeðinn hópur þessa samfélags ávallt tilbúinn til að taka upp hanskann fyrir þennan samfélagshóp?
Hefði Salvör verið tilbúin til að axla ábygðina á gjörðum þessara manna, hefði þeim verið hleypt inn í landið? Þjóðfélagið á að njóta vafans í svona málum, ekki ótýnd glæpasamtök.
Þeir sem tala fyrir réttindum glæpasamtaka á að heimsækja landið eru engu betri en þeir sem þeir tala fyrir. Satt að segja er ég hissa á þessum málflutningi.
Sveinn (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 00:51
Það hefði þá alveg eins mátt snúa glæpamönnunum sem komu hingað á vegum illræmds vopnaframleiðanda þó hans illa starf sé varið af lögum þar sem ótrúlega margir sjái ekkert athugavert við iðju þeirra eða að t.d árið 2006 voru útgjöld til hermála sirka 1,3 trilljónir !!! dollara í öllum heiminum sem er náttúrulega bara glæpsamlegt út af fyrir sig. Alldrei skortir vopn eða lánsfé fyrir hverjn þann sem í stríð vill eða koma sér upp her, stórum eða litlum. Þetta er allavegana mun viðsjárverðara lið en Falun Gong og aðrir tiltölulega meinlausir mótmælendur alls konar.
"One has to realize that the powerful industrial groups concerned in the manufacture of arms are doing their best in all countries to prevent the peaceful settlement of international disputes, and that rulers can achieve this great end only if they are sure of the vigorous support of the majority of their peoples”.
– Albert Einstein –
Georg P Sveinbjörnsson, 4.11.2007 kl. 04:39
Ég held að málið snúist einfaldlega ekki um hvort snúa skuli Vítisenglum við á Leifsstöð eða ekki. Þetta er öllu frekar spurning um hverja skuli skilgreina sem svo hættulega þjóðaröryggi að þeir megi ekki stíga fæti á íslenskri grund.
Íslensk yfirvöld búa mun betur en flestar aðrar ríkisstjórnir hvað það varðar að útiloka "óæskilega" vegna þess að þeir þurfa í langflestum tilfellum að koma hingað með flugi.
Þetta vekur hins vegar upp spurningar um lögregluríkið og hverjir skilgreini "óæskilega" og hvernig. Vel þekkt er hvernig Bush-stjórnin hefur haldið á málum og þar hafa saklausir beðið oft á tíðum gríðarlegt tjón. Ekki má heldur gleyma því að oft og iðulega hefur ferðalöngum verið snúið við frá því að komast inn í lönd fyrir það eitt að vera í röngum stjórnmálaflokki!
Lykilatriðið er að ákvarðanaferlið yfir skilgreiningu "óæskilegra" sé opið og gagnsætt. Stjórnvöld mega ekki komast upp með að fela geðþóttaákvarðanir heldur verður að vera skýr og sterkur rökstuðningur fyrir ákvörðunum yfirvalda hverju sinni. Þetta er lykilatriðið í öllum þessum málum.
Skúli Sæland (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 11:09
Held að þú ættir að reyna að kynna þér Hells Angels áður en þú ferð að reyna að verja þá svona,ég er mjög sáttur við að reyna að stoppa svona ruslalýð áður en hann almennilega inn í landið vegna þess að ef þetta eru ekki skipulögð glæpasamtök þá veit ég hreint ekki hvað það er
Viðar Hansen, 4.11.2007 kl. 12:45
Á dauða mínum átti ég nú frekar von, en því að fullorðnir Íslendingar færu að spyrja svona einfeldingslegra spurninga.
Já: jörðin er flot.
Já: vatn er blautt.
Já: vítisenglar eru 'glæpasamtök' í þeim skilningi að þau fjármagna sig með ólöglegri starfsemi.
Fransman (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 13:38
Hvað með íslenska alþingismenn??? Innan raða þeirra eru einstaklingar sem hafa hlotið dóma vegna lögbrota...Hvað með restina af þeim??? Eru allir Alþingismenn glæpamenn???
Guðrún Magnea Helgadóttir, 4.11.2007 kl. 15:34
Ég tek undir með Salvöru og bendi á mín eigin skrif um málið :
http://skari60.blog.is/blog/skari60/entry/354905/
Ég óttast það að fólki finnst þetta bara okay að löggan taki það upp hjá sjálfri sér hverjir séu æskilegir til landins.
Óskar Þorkelsson, 4.11.2007 kl. 15:44
Þetta eru samtök hugleysingja og heimskingja. Hugleysið er fólgið í því að hópast saman eins og hýenur til að vera ógnvekjandi.
Þeim finnst að tattóveraðir, hjólbeinóttir og leðurklæddir uxar séu töff og svalir í útliti. Og mótorhjólin náttúrlega toppurinn.
Tengsl þessara samtaka við íslenska drullusokka á borð við Jón Trausta Lútersson segir allt sem segja þarf um þessi fyrirbæri.
Árni Gunnarsson, 4.11.2007 kl. 16:08
Besta ráðið sem ég hef fengið í lífinu var áminning um það að verða ekki eitt af fórnarlömbum óttans og að frelsið sé örygginu ávalt mikilvægara.
Georg P Sveinbjörnsson, 4.11.2007 kl. 19:32
Jurgen þvílíkt bull!! ??
Þetta snýst um grundvallar mannréttirndi! ekki hvort okkur líkar vel við þennan eða hinn eða ætlum að bjóða þeim heim. Það er fullt af fólki sem ég hefði ekki minnsta áhuga á að bjóða heim til mín en get hreint ekkert amast við þótt gangi um göturnar.
Ef ekki er stigið varlega til jarðar í þessum efnum gæti runnið upp sá dagur að þú Jurgen værir allt í einu orðinn óæskilegur skv. skilgreiningu einhverra aðila og hvað ætlarðu að gera þá?
Bjarni Bragi Kjartansson, 6.11.2007 kl. 15:11
Líklega erum við að brjóta lög á þessu fólki og svo verðum við að spyrja okkur hvort löglegt sé að brjóta lög á "mögulegum" lögbrjótum. Raunverulegir, ekki dæmdir lögbrjótar einsog eiginmaður fyrrverandi Dómsmálaráðherra, ferðast inn og útúr Leifsstöð, óáreittur, svo spurningin er þessi: Hver er hræsnarinn?
K Zeta (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 00:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.