Kúfskel í öðru lífi

Í þann mund sem ég var að klára greinina um kúfskel á íslensku wikipedia þá kom Guðmundur ljósmyndari frá 24 stundum til að taka af mér ljósmynd sem birtast á með umfjöllun um ráðstefnu 3F félags um upplýsingatækni og menntun  sem verður næsta föstudag. Ég mun þar halda erindi um annað líf, nánar tiltekið sýndarveruleikaheiminn SecondLife. Það virðist í fljótu bragði ekkert fjarlægara  og ótengdara en  sýndarveruleiki Internetsins og 400 ára gamlar kúfskeljar sem mara í sandi og leir á sjávarbotni við Ísland. 

Það er skemmtilegt að þau dýr jarðar sem nú eru talin elst skuli finnast við Íslandsstrendur. Það er líka áhugavert að þau dýr lifa við óblíð skilyrði og vaxa afar hægt og geta lagað sig að mjög erfiðum aðstæðum og geti haldið sér á lífi með að falla í einhvers konar dá.


Ég fann á Youtube þetta skemmtilega myndband  frá íslenskum kafara af viðureign kúfskeljar og krossfisks. 
mbl.is Íslensk kúskel líklega elsta dýr heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Matthíasson

Mig langaði að vita hvaða þú hefur orðið kúfskel, hvort það sé eitthvað sem þú hafir alist upp við eða lært á fullorðinsaldri.

Ef leitað er að kúskel í gagnasafni Morgunblaðsins frá janúar 1986 til nóvember 2007 koma 25 greinar. Kúfskel skilar 17 greinum.

Ef leitað er í eldri Morgunblöðum (janúar 1913 til desember 2000) skilar kúskel 40 niðurstöðum, en kúfskel 19.

Orðið kúfskel birtist fyrst í Morgunblaðinu 1975, en dæmi um kúskel eru frá 1915.

Þess má svo geta að ef leitað er að kúskel í orðabanka íslenskra málstöðvar fæst niðurstaða en leit að kúfskel skilar:

Ekkert fannst. Var leitarmálið rétt?


Árni Matthíasson , 29.10.2007 kl. 15:50

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

 Ég var með bókina sjávarnytjar við Ísland. Það er nú nokkurs konar biblía í þessum fræðum, skrifað af sérfræðingum. Ég treysti þeirra orðanotkun. Einnig var nú einmitt í textanum hvers vegna nafnið væri kúfskel, það er auðvitað af því að skelin er sérlega kúft. Greinar á vísindavefnum og hafrannsóknarstofnun nota líka kúfskel. Það er því fræðilega rétta íslenska orðið, ég amk. treysti þeim. 

Ef þú lýtur á heimildirnar á wikipedia greinninni þá sést að kúfskel er nafnið  

Hins vegar virðist í almennri notkun  meðal almennings vera notað kúskel og ég verð því að gera  tilvísun á wikipedia þannig að þeir sem slá inn "kúskel" lendi á "kúfskel".

það er nú dáldið fyndið að kenna skel sem  lifir allan sinn aldur í sjónum og hefur engin tengsl við kýr við þær. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 29.10.2007 kl. 16:43

3 identicon

Sæl Salvör. Ég er alin upp á Akranesi og þar var alltaf talað um kúfskel og líka á Ströndum þar sem ég dvaldi oft á sumrin. Sýringuna sem þú gefur að hún heiti kúfskel af því hún er kúft lærði ég hjá ömmu minni í kringum 1965. Ég hef svo kennt ungum börnum þetta heiti í 25 ár.

Annað ef það er einhver sem hefur áhuga á Ráðstefnunni Vörður vísa veginn þá er slóðin á vef ráðstefnunnar hér og hægt að skrá sig á ráðstefnuna hér.

Kveðja,

Fjóla Þorvalds.

Fjóla Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 17:40

4 Smámynd: Árni Matthíasson

Ég geri ekki athugasemd við að kúfskel sé notað, öðru nær, það er ekkert að því orði. Mér finnst það þó merkilegt að orðið það sjáist ekki á prenti í Morgunblaðinu fyrr en frá 1975, en kúskel allt frá 1915.

Ég verð svo að fá skýringu á því hvernig eitthvað geti verið "fræðilega rétt" í íslensku máli. Þýðir það að öll tilvik þar sem menn nota kúskel sé "fræðilega rangt"?

Lúðvík Kristjánsson, höfundur Íslenskra sjávarhátta, notar kúskel, en nefnir kúfskel líka sem jafngilt orð. Ég veit ekki hvort þér finnist hann nógu merkilegur fræðimaður, en samkvæmt hans orðum bendir flest til þess að kúskel sé almenn notkun og algeng, en kúfskel síður notað og sjaldséðara.

(Heitið kúskel er væntanlega komið frá því að skelfiskurinn var gefinn kúm á Vestfjörðum, saltaður í tunnu og síðar soðinn handa þeim. Norðanlands var kúskel stundum kölluð skelkussi, eða kussi og þar og á Austfjörðum stundum nefnd kúari.)

Merkilegast í þessu öllu þykir mér að uppruni heitisins sé sá að skelin sé "kúft" (meira að segja "sérlega kúft"), enda hef ég ekki séð það orð á prenti áður svo ég muni. Það finnst til að mynda ekki í orðabók Menningarsjóðs frá 1979 og ekki í öðrum uppflettiritum sem ég hef aðgang að.

Í gagnasafni Morgunblaðsins frá 1913 til 2007 finnast tvö dæmi um kúft (annað frá 1923, hitt frá 1925, bæði í auglýsingum), en allmörg um kúpt (sem er af kúpa skv. Halldór Hermannsyni). Það er kannski "fræðilega rangt" að nota kúpt. Hvað veit ég?

(Ég Googlaði bæði orðin og fann 15 síður þar sem kúft kemur fyrir en 12.200 þar sem sjá má orðið kúpt. Til gamans má svo geta þess að villupúkinn sem tengdur er blogginu skilur ekki orðið kúft.)

Árni Matthíasson , 29.10.2007 kl. 22:43

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það hefði nú verið gaman að því, ef hún hefði getað sagt okkur frá því, hvernig hafi verið að hitta hann Guðbrand biskup þarna í fjörunni fyrir svo sem 400 árum.

Jón Valur Jensson, 29.10.2007 kl. 23:30

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Árni, þú hefur lög að mæla. Kúskel er sennilega upprunalegra og það heitir það líka í norsku kuskjell.  Þegar ég fletti hins vegar á hafro.is þá finn ég ekkert undir kúskel en helling af greinum undir kúfskel. Það er áhugavert hvers vegna Hafrannsóknarstofnun kýs að nota orð sem finnst ekki í orðabanka íslenskrar málstöðvar. Ég held að bæði orðin hljóti að vera jafngjaldgeng. Ég setti inn spjall á wikipediagreinina, sjá hérna http://is.wikipedia.org/wiki/Spjall:K%C3%BAfskel og setti líka tilvísun þannig að kúskel skilar sömu grein og kúfskel.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.10.2007 kl. 00:01

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

það er mjög skemmtilegt að skoða hvernig greinar eru skrifaðar á ensku wikipedia, það var engin grein til um kúfskel í gær og það var greinilega einhver vitleysa í skeljaflokkun. Síðan þegar fréttin kom á BBC þá var náttúrulega skandall að það væri ekki til grein á ensku wikipedia með sínum 2 milljónum greina um kúfskel svo einhverjir byrjuðu á grein um hana. Sú grein hefur svo í dag verið breytt um það bil 50 sinnum og nokkrum sinnum tekið út eitthvað rugl.

hér er breytingaskráin við ensku greinina:

http://en.wikipedia.org/w/index.php?title=Arctica_islandica&action=history

Hér er enska greinin

http://en.wikipedia.org/wiki/Arctica_islandica 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.10.2007 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband