8.10.2007 | 11:14
Hvernig er verðmæti REI fengið út?
það eru ekki eingöngu kaupréttarsamningarnir sem eru skrýtnir varðandi REI samrunann. Það er afar skrýtið hvernig verðmat á fyrirtækinu er unnið, hvernig í ósköpunum menn geta fengið það út að nýstofnað pappírsfyrirtæki sem ekki hefur ennþá selt neina vöru eða þjónustu og raunar er í mínum huga afar óljóst hvað þetta fyrirtæki ætlar að gera. Það étur hver eftir öðrum um að það þurfi að taka þátt í útrásinni og það séu einhver gífurleg verðmæti fólgin í sérþekkingu og hugviti Íslendinga á sviði jarðvarmamála en eini mælikvarðinn er einhver tala sem var fundin út sem "goodwill" við samrunann og var að mér skilst hvergi metinn af utanaðkomandi aðilum. Svo virðast margir halda að þegar stjórnarformaðurinn Bjarni Ármannsson kaupi í fyrirtækinu tvisvar sinnum, fyrst á genginu 1,28 og síðan á genginu 2.77 þá hafi á einhvern dularfullan hátt allt markaðsverði fyrirtækisins hækkað.
Það er líka afar skrýtið að orkufyrirtæki í eigu borgarbúa í Reykjavík skuli vera að fara út í fjárfestingarstarfsemi í fjarlægum heimsálfum. Það er ömurlegt að heyra Vilhjálm borgarstjóra mæla því einhverra bót og líkja þessu saman við t.d. lina.net. Lagning kapla um Reykjavík til að tryggja infrastrúktúr upplýsingasamfélagsins er langt frá því sambærilegt við að fjármagna hitaveitur í Indónesíu og á Fillipseyjum. Það er infrastrúktúr sem gagnast því samfélagi sem er veitusvæði Orkuveitunnar. Á sama hátt hefði ég alveg verið sátt við að opinberir aðilar kæmu að því að fjármagna fleiri sæstrengi til Íslands, það er nauðsynleg forsenda og grunnstrúktúr fyrir borgarsamfélagið hérna. En það er afar óeðlilegt að opinber veitufyrirtæki leggi fé í áhættusöm fjárfestingarævintýri og tendrist upp í að "vera með í íslensku útrásinni". Vettvangur þeirra er hérna heima og þeirra umhverfi er borgarsamfélagið á Íslandi.
En þetta er allt of mikil skynding og lítið upplýsingastreymi til almenning þegar ráðskast er með eigur Reykvíkinga. Það er ætti að vera krafa okkar borgarbúa að geta fylgst með hvernig farið er með eigur okkar og að við megum gera athugasemdir. En það eru auðvitað fyrst og fremst löglega kjörnir fulltrúar borgarbúa sem eru okkar umbjóðendur. Það hefur komið í ljós að fulltrúar minnihlutans fengu bara þrjá klukkutíma fyrirvara um fund þar sem tekin var ákvörðun um að binda verulegt fé í áhætturekstri erlendis.
En voru þá þeir borgarfulltrúar þess stjórnmálaafls sem er við völd í borginni betur settir? Fengu þeir að taka þátt í umræðum og skoða málið nákvæmlega. Nú hefur komið í ljós að þeir voru boðaðir til skyndifundar á þriðjudagskvöld og þar heyrðu þeir fyrst af þessu máli:
Upphaf deilnanna má rekja til þess að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru boðaðir til skyndifundar" um málefni Orkuveitunnar í stöðvarstjórahúsinu í Elliðaárdalnum á þriðjudagskvöld og vissu aðeins Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Björn Ingi Hrafnsson fundarefnið. Þar voru fulltrúar annarra sveitarfélaga sem sæti eiga í stjórn Orkuveitunnar, Borgarbyggðar og Akraness. Þá var þar Haukur Leósson, stjórnarformaður Orkuveitunnar og stjórnarmaður í REI, og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI. Eins og fundinum er lýst fyrir blaðamanni var fólk boðið velkomið og síðan brugðið upp glæru þar sem stóð: Samruni REI við Geysi Green Energy."
Það er margt meira athugavert í þessu máli annað en kaupréttarsamningarnir, þetta eru stjórnarhættir sem eru andstæðir lýðræðislegum vinnubrögðum í stjórnsýslu borgar.
Átti að vaða yfir okkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er ekki alvond grein og réttmætar hugleiðingar per se þótt ekki beri hún vitni um mikla reynslu af viðskiptum. Verðmæti fyrirtækja felast í vaxandi mæli í þekkingu. Þannig er upplausnarvirði fyrirtækja á markaði líklega aðeins 20% af markaðsvirði þeirra. Restin er t.d. viðskiptavild og væntingar um framtíðarhorfur. Ástæðan fyrir því að REI hækkar eru t.d. stór verkefni í Kína og víðar sem eru á teikniborðinu. Vitanlega er umdeilanlegt hvort OR eigi að freista þess að koma þekkingu sinni í verð í gegnum REI. Þér finnst ekkert að því að hið opinbera leggi ljósleiðara til að styðja þekkingarsamfélagið en snýst öndverð þegar opinbert fyrirtæki hyggst flytja þekkinguna út með hagnaðarvon í huga. Umræðan á Íslandi hverfist oft um aukaatriði. Eftir nokkur ár mun engin muna eftir okkar mistæka borgarstjóra eða flokksbróður þínum Birni Inga. Hvað þá arfavitlausum kaupsamningum sem augljóslega lykta af spillingu. Þá mun þó vonandi standa eftir glæsilegt fyrirtæki sem skapar arð fyrir eigendur sína og lætur gott af sér leiða um allan heim.
Prófessor Mambó (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 12:05
Þú segir á þínu bloggi:"Þessi þekking eru slík verðmæti að í einni svipan jukust óefnislegar eignir Reykvíkinga um 10 milljarða við samruna GGE og REI!".
Þessar óefnislegu eignir eru eins og loftgítar. Þær eru óefnislegar. Loftgítar er búinn til úr ímyndunarafli og þessar umræddu óefnislegu eignir eru búnar til úr orðum og væntingum.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.10.2007 kl. 13:03
Tja - ekki alveg. Þú þarft ekki að kunna á gítar til að leika á luftgítar. Í REI bý á hinn bóginn mikil þekking sem góðar vonir standa að verði að áþreifanlegum verðmætum í næstu framtíð. Flokksbróðir þinn Björn Ingi er t.d. búinn að sannfæra sjálfan sig um margföldun þessara verðmæta. Það er kjánalegt að tala væntingar upp enda getur engin vitað hvert gengi REI verður í framtíðinni. En það er einnig ástæðulaust að tala niður til þess góða fólks sem skipar REI og ætlar að takast á hendur spennandi verkefni.
Prófessor Mambó (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 13:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.