Minn gamli skóli býður grunnskólanemum fjarnám í framhaldsskóla

Það er frábært að lesa fréttina af því að Fjölbrautaskólinn í Ármúla bjóði grunnskólanemendum fjarnám og borgin styrki þetta. Ég hef fylgst með þessu undanfarin ár, það hafa verið gerðar tilraunir og það hefur gengið vel. Duglegir og áhugasamir grunnskólanemendur geta þannig flýtt fyrir sér í námi í framhaldsskóla, þeir hafa nóg fyrir stafni af námsviðfangsefnum sem hæfa þeim, þeir stíga fyrstu skref sín inn í framhaldsskóla án þess að vera alveg komin úr grunnskólanum og síðast en ekki síst þá býr þessi tegund af námi þá betur undir framtíðina - þá framtíð þegar vinnustaðir þeirra og ýmis konar samskipti verða í netheimum og það er bara gott að þeir læri sem fyrst að nota stafræn verkfæri.

Ég var framhaldskólakennari í Fjölbrautaskólanum við Ármúla fyrstu árin eftir að ég lauk háskólanámi. Þá voru fyrstu tölvurnar að koma í skólann og var ég tölvukennari. Ég skrifaði þetta í reynslusögu um fyrstu skrefin mín sem kennari á tölvur:

Að loknu háskólanámi gerðist ég tölvukennari í Fjölbrautaskólanum við Ármúla en þá höfðu verið keyptar tölvur í fyrsta skipti til skólans og skyldi ég m.a. kenna tölvubókhald. Fyrsta misserið gekk brösuglega, tölvukerfið hrundi oft í hverjum tíma eða tölvurnar frusu. Skrýtnast þótti mér þó þegar það kom í ljós að tölvubókhaldið var bara hægt að vinna á einni tölvu í einu en búnaðurinn var í fyrstu bara fjórir samtengdir skjáir og nemendur mörgum sinnum fleiri. Tölvusalinn reyndi að sannfæra mig um gildi þeirrar kennsluaðferðar að láta einn nemanda færa bókhald í tölvu og alla hina sitja þrjá til fjóra við hvern skjá og fylgjast aðgerðalausir með bókhaldsfærslum renna um skjáina. Ég lét ekki sannfærast og lagði tölvubókhaldskerfið snarlega á hilluna. Svo komu betri tölvur til skólans og ég byrjaði að kenna á notendaforrit eins og ritvinnslu og töflureikna.

Fyrir utan þessa fyrstu önn þar sem allt gekk á afturfótum, tölvurnar virkuðu bara ekki og svo dauðleiddist nemendunum að vera bara að horfa á bókhaldsfærslur líða um skjáina þá gekk kennslan bara vel og mér hefur alltaf fundist skemmtilegt og gefandi að kynna nýja tækni, ný vinnubrögð og nýjar hugmyndir fyrir nemendum. Sérstaklega eru nemendur á framhaldsskólaaldri móttækilegir og jákvæðir, sennilega af því flestir krakkar á þessum aldri eru ekki með stífar  fyrirfram mótaðar skoðanir á hvað sé praktískt og þau trúa líka gífurlega mikið á mátt sinn og megin.  

Reyndar finnst mér skipulag á fjarnámi á Íslandi í dag vera afar hefðbundið, það er eins og þessi klassíska skólastofa hafi flust inn í netheima, þessi umgjörð utan um skólastarf sem er þannig að skólastofan er lokuð bygging og flæðið er ekki mikið frá heiminum í kring. 

Það kerfi sem flestir nota - ég sem ég nota reyndar sjálf með nemendum mínum á þessari önn - er kerfið Web CT. Það er afar hefðbundin nálgun á fjarkennslu og fjarnámi. Ef til vill fellur kennurum og nemendum vel að vinna í því kerfi einmitt af því að það er svo líkt öðru skólanámi. En þó breytingar gerist hægt þá verður við að reyna að hugsa aðeins út fyrir verkfærin og spá í hvernig verkfærin, umgjörðin og byggingarnar móta skipulag stofnunar og vinnulag þar.

Ef öll borð og stólar nemenda eru boltuð niður í stórum fyrirlestrasölum og kennarinn getur hvergi verið nema fyrir framan hóp af nemendum sem allir horfa á kennarann og það er flott og fullkomið hátalarakerfi í pontu og skjávarpi með powerpointglærum og tvö hundruð nemendur í einu í kennslustundum þá er næstum öruggt hvernig kennarinn mun skipuleggja kennslustundir og námsreynslu nemenda, hann hefur ekki mikið val.

Á sama hátt verðum við að skilja að námsumhverfi á Internetinu getur líka verið fjötrandi og hvatt til einnar gerðar af kennslu, gerðar sem er kannski ekki sú albesta. Fjarkennsluumhverfin Web CT, Moodle og Blackboard eru öll alveg ágæt en þau endurspegla afar hefðbundna sín á hvernig nám á að fara fram. Ég hef reynt að tala fyrir því að nám sé byggt upp í kringum nemandann og m.a. reynt að tengja það hugmyndum um leiðarbækur og skilamöppur þar sem nemandinn skrásetur sjálfur sína þekkingarleit og byggir upp þekkingarnet, ekki einn og sér heldur í samvinnu við aðra, námssamfélagið sé eins og starfendafélag (communitiy of practice).

Til að það sé hægt að byggja upp slíkt námsumhverfi þá þurfa kerfi eins og web ct að þróast og bjóða upp á fjölbreytari námsreynslu og þekkingaruppbyggingu og taka meira mið af nemandanum. Eins og er þá þjóna þessi kerfi ágætlega kennurum sem vilja setja inn skjöl og glærur og verkefni og skrásetja árangur stórra nemendahópa. En þessi kerfi eru öll að þróast og verða aðgengilegri og ég er ekki í neinum vafa um að Moodle  og fleiri kerfi sem er opinn hugbúnaður hefur pínt áfram framþróun í þessum kennslukerfum, þessi rándýru kerfi verða að hafa eitthvað fram að færa ef fólk vill nota þau frekar en alíslenskuð ókeypis og góð kennslukerfi sem skrifuð eru í samvinnu við kennara og kennslufræðinga og sem eru í stöðugri þróun.

 


mbl.is Grunnskólanemum býðst ókeypis fjarnám í framhaldsskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er búið að þýða WebCT yfir á íslensku eða er FÁ að bjóða nemendum í 9. og 10. bekk upp á enskt námsumhverfi á Netinu?

Ég er líka spenntur að sjá viðbrögð annarra skóla við þessum samningi því það eru jú fleiri reykvískir framhaldsskólar sem bjóða upp á fjarnám fyrir nemendur í 9. og 10. bekk. Ætlar Menntasvið að semja við þá á sömu nótum og auka þannig enn meira á val nemenda?

sfjalar

Sigurður Fjalar Jónsson (IP-tala skráð) 29.8.2007 kl. 20:41

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það verða vonandi aðrir framhaldsskólar sem kalla eftir svona samningi. Vonandi ber Menntasvið gæfu til að hlú að fjölbreytileika. Það væri samt sniðugt að einverjir skólar tækju sig saman t.d. Borgarholtsskóli og FB og byðu saman fjarnám. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.8.2007 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband