Á Mogginn að ráða hvað má tala um?

Fjölmiðlar ganga alltaf erinda eigenda sinna. Það er bara blekking þegar fjölmiðlamenn segja að eigendurnir hafi engin áhrif, stundum held ég að þeir trúi því sjálfir, þetta sé einhvers konar sjálfdáleiðsla sem fjölmiðlamenn stunda til að finnast þeir ráða meiru en þeir raunverulega gera. Það getur verið að svona dags daglega þá telji eigendur sig ekki þurfa að skipta sér af rekstrinum og stundum er það þeim ágætlega í hag leyfa smásprikl blaðamanna til að skapa og viðhalda þeirri  ímynd að fjölmiðillinn sé óháður og frjáls og þeim ekki undirgefinn á neinn hátt. 

Það gildir það sama um  umræðuvettvanga á Netinu. Sá sem á vettvanginn og getur stjórnað boðleiðunum hann getur líka stjórnað umræðunni. Þannig hefur mogginn og moggabloggið verið að þróa ýmsar aðferðir til að lyfta upp umræðuefnum og lyfta um ákveðnum bloggurum. Það tryggir bloggara afar mikla lesningu að vera lyft til skýjanna á Moggablogginu, sérstaklega að vera settur í sviðsljósið á forsíðu mbl.is. 

Akkúrat í augnablikinu er kastljósið á kynlífssögur sjónvarpsþulunnar og frásögn af æðisgenginni leit Bjarna Harðarssonar að Framsóknarmönnum, leit sem núna stendur í fjallahéruðum í Perú.  Reyndar er það alveg óþarfi, íslenskir Framsóknarmenn eru ekki allir lagstir út og týndir og tröllum gefnir, þeir skila sér  af fjöllum í hefðbundna smalamennsku þegar féð rennur til byggða með haustinu. 

 Svo getur maður séð hvaða umræður eru heitar þ.e. með flestum athugasemdum. Ég tók stöðuna á því núna og það er heitast að taka um kynlíf eldri borgara, þvagleggjarmál og nauðgunarlyf og jagast yfir hvað bloggarar séu miklir hálfvitar að tala um vitlausa hluti.

Sniðugir bloggarar hafa náttúrulega lært á moggabloggið og hvernig megi tryggja vinsældir þar með því að enduróma það sem mogginn segir. Mogginn vill nefnilega náttúrulega láta moggabloggara tala sem mest um það sem stendur á mbl.is. Þannig hefur moggabloggið ýtt undir nýja listgrein á bloggi, svona bergmálsblogg sem gengur út á að endurtaka það sem stendur í fréttum mbl.is bara með pínulítið breyttu orðalagi.  Ef t.d. Mogginn flytur krassandi frétt eins og í dag Ljót heimkoma fjölskyldu í Garðabæ þá getur bergmálsblogglistamaður bloggar frétt eins og Ófögur heimkoma í Garðabæ. Reyndar er þessi bergmálum bloggsins farin að breiða sig yfir í aðra fjölmiðla  og margir búnir að læra kúnstina af Stebbafr, þannig sýnist mér Kastljósið á RÚV vera að verða daufur endurómur af umræðu sem hefur eða er að fjara út á moggablogginu.

Mogginn býður upp á blogg um fréttir og á forsíðunni þá má skoða það sérstaklega hvaða fréttir er bloggað um.  En mogginn leyfir ekki að það sé bloggað um allar fréttir. Stundum er slökkt á bloggafréttstakkanum. Sumir eru svo  ánægðir með það að þeir blogga  hrós til Moggavefsins en það er ég ekki.  Það er ákveðin ritstýring auðvitað í því hvaða fréttir mbl.is velur koma fram með og hvenær og hvernig fréttir eru orðaðar. Fréttirnar eru tilbúningur á þeim veruleika sem við búum við, einhvers konar uppteiknun á heimsmyndinni eins og sá sem skrifar fréttina vill sjá hana. Það er óþægilegt að mbl.is gefi sér fyrir fram að ekki megi hleypa bloggurum að einhverjum fréttum.  

ludvikEin nýjasta fréttin núna er frétt um faðernismál Lúðvíks Gizurarsonar en yfirgnæfandi likur eru á því að hann sé sonur fyrrum forsætisráðherra Íslands. Um þetta hefur verið fjallað í ótal mörgum blaðagreinum undanfarin ár. En það er áhugavert að mbl.is hefur stillt þessa frétt þannig að ekki er leyft að blogga um hana.

Það er umhugsunarefni hvers vegna mogginn kýs að beina bloggurum frá því að blogga um þessa frétt sem er mjög áhugaverð og hefur skírskotun langt út fyrir þetta einstaka mál.

Eru ef til vill til einhverjar reglur um hvaða fréttir eru bloggfréttstækar? 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fransman (IP-tala skráð) 28.8.2007 kl. 18:08

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég get tekið undir flest sem þú segir hér Salvör mín.  Ég hef svolítið furðað mig á vinsældum fréttaþulunnar og sérstaklega Stebba Fr.  Svo maður tali nú ekki um haturs-  og níðskrif Jónínu Benediktsdóttur.  En svona er bara lífið held ég, allstaðar er fólki hyglað, hvort sem það hefur eitthvað fram að færa eða ekki.  Ég veit ekki hvað stjórnar því.  Hef reyndar ekki mjög mikinn áhuga á að vita það.  En hér eru svo margir góðir bloggarar eins og þú til dæmis, sem ættu að vera miklu framar í vinsældum en þessi tvö sem þú nefnir og er eiginlega stórundarlegt að séu þar.  Eiginlega svolítið hallærislegt að mínu mati

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.8.2007 kl. 18:38

3 Smámynd: Gúrúinn

Ég velti þessu sama fyrir mér í þessari færslu. Það er ekki bara Lúðvík og hans DNA sem fær ekki bloggtengil, netkaffiheimilisleysingjar og alheimsneindir eru dæmi um annað hvort mistök eða ritskoðun. 

Ég held einmitt að mbl.is ætli sér að minnka þetta og leyfa bara bloggtengla á ákveðnar fréttir, þeim að skapi. 

Gúrúinn, 28.8.2007 kl. 18:39

4 Smámynd: Eva Þorsteinsdóttir

Já þetta er ansi stíliserað hjá þeim moggamönnum, ekki hægt að segja annað!

Gott hjá þér að vekja athygli á þessu, ekki veitir af.

Eva Þorsteinsdóttir, 28.8.2007 kl. 21:00

5 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Ég hef séð íþróttafréttir sem ekki var boðið upp á að blogga um. Það virðist engin regla í þessu. Ég held þó að Mbl treysti bloggurum ekki eins vel og áður til að sýna aðgát í nærveru sálar.

En varðandi sagnalist sjónvarpsþulunnar tók ég saman nokkur krassandi viðfangsefni og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri klám, eins og ég skil orðið. Sjá nánar hér.http://malbein.blog.is/blog/malbein/entry/296989/#comments

Gísli Ásgeirsson, 28.8.2007 kl. 21:33

6 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Þetta eru athyglisverðar hugleiðingar. Ef  bloggað er um ambögur og aulaþýðingar í Mogga, þá  stoppar bloggið í um það bil  tvær mínútur.  Síðan hverfur það út í tómarúm tölvuheima.  Það er hárrétt að  langlífi á  blogginu er fólgið í því að hafa skoðanir sem eru Mogga að skapi, bergmála og endursegja  fréttir úr Mogga.

Ekki er  heldur  verra  að  skrifa  pistla sem ekki við barna hæfi. Gott er líka að vera núverandi eða fyrrverandi blaðamaður  á Mogga. Það  tryggir langlífi á Moggabloggi.

Fleira mætti upptelja  sem  ritsjórum bloggsins líkar vel og láta  lifa lengi  á  bláskjá bloggsins.

Eiður Svanberg Guðnason, 28.8.2007 kl. 21:50

7 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Leiðrétting:

Ein setning brenglaðist hjá mér:

Svona átti hún að vera:

Ekki er heldur verra  að skrifa pistla sem  eru klám eða sóðalegir kynórar og alls ekki við barna hæfi.

Eiður Svanberg Guðnason, 28.8.2007 kl. 21:53

8 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Frábær pistill hjá þér Salvör.  Ég get tekið undir allt sem þú segir þarna.  Varðandi Ellýjarbloggið finnst mér það orðið ansans ári þreytt.  Það eru takmörk fyrir hvað hægt er að "klæmast" á erótíkinni.  Skemmtilegt og óvanalegt fyrst en eftir 10 - 15 skipti þá var ég búinn að fá nóg.

Sveinn Ingi Lýðsson, 28.8.2007 kl. 22:13

9 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

það er gaman að sjá hvernig fólk notar bloggið - notar það kannski á öðruvísi hátt en til var ætlast . Ég var að skoða "heitar umræður" og þá sá ég að það voru miklar umræður um þetta blogg Lífið er annarsstaðar 

og þegar ég las betur þá sé ég að þetta er einhvers konar bloggleshringur sem er að starta, fólk er að melda sig til leiks, segja að það sé búið að redda sér bókinni og þess háttar.

Fyrst hélt ég að þetta væri dulbúin auglýsing frá bókaútgefanda en mér virðist svo ekki vera. Það er góð hugmynd með svona leshring, stuðningshóp í lestri góðra bóka. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.8.2007 kl. 22:15

10 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ellýarbloggið er hætt að vera létt erótík. Það er komið yfir grensuna og orðið klámfengið og rustalegt. ég renndi yfir það áðan og mér fannst t.d. eitthvað blogg um dverghamstra vera alveg yfir markið. Mér finnst ekkert fyndið þegar fólk talar af hálfkæringi eða í gríni um um dýr sem kynlífsleikföng og segir tvíræðar sögur um það efni. Mér fannst líka afar óviðeigandi þegar smámyndin sem var með bloggi Ellýjar var mynd af cirka 8 ára stelpu (sennilega gömul mynd af henni?).

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.8.2007 kl. 22:35

11 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég leit á bloggið hjá Gísla  Að sleikja hor og hreinsa endaþarm og gerði athugasemd þar. Set það hér inn líka til minnis:

Svar til Gísla: 

vegna athugasemdar frá þér Gísli þá leit ég yfir bloggin hjá Ellý til að athuga hvort ég skilgreindi þetta sem klám. Fyrir löngu þá leit ég yfir þessar sögur hjá henni og þá var ekkert sem stuðaði mig sérstaklega. En það hefur breyst,  Já, þetta er klám. Klám er efni sem sýnir hlutaðeigandi á niðurlægjandi hátt. Það var sérstaklega einhvert blogg um dverghamstra sem fór alveg með þetta. Ég er kannski ekki að skilja þetta rétt, kannski er orðið dverghamstur notað um eitthvað kynlífstæki en skv. minni skilgreiningu er það dýr sb. http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=3549

Ég sé að þú hefur ekki sett þetta blogg í listann þinn.

Mér finnst mogginn alls ekki standa sig vel í hvaða efni er þar leyfilegt á bloggi og hvaða efni er hampað á moggablogginu. Það að vera einn vinsælasti bloggarinn og þekkt andlit í sjónvarpinu og ung kona virðist villa um fyrir þeim.  Það er hneykslanlegt að mogginn skuli taka þátt í að auglýsa upp þetta blogg.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.8.2007 kl. 22:55

12 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Mogginn rekur þennan vettvang og er frjáls að því að hæpa það sem honum sýnist. Ég er líka frjáls að því að lesa það sem mér sýnist og hef ekki minnstu áhyggjur af einhverjum endaþarmssögum sem ég les ekki. 

Nú á dögum veit fólk furðanlega sínu viti  og er klókara en margur heldur vegna þess að við erum í hreint massífri upplýsingabyltingu sem vex exponentialt og það er ekki massafjölmiðla auglýsingaruslpóstur sem stafar að þeirri byltingu. Síður en svo. Þannig að það er óþarfi að hafa áhyggjur af þeim hverra áhrif eru að gufa upp.

Baldur Fjölnisson, 29.8.2007 kl. 00:25

13 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

http://blekpenni.blog.is/blog/blekpenni/entry/286807/ Þetta var svar mbl.is þegar ég stóð í ljósum logum út af sama efni. Mbk, -H. 

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 29.8.2007 kl. 00:51

14 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Prófiði bara að ræða síkópatana í Washington - átrúnaðargoð og hugmyndafræðinga Moggans og Dabba og Björns og kó - á uppáhaldsbloggum moggans og þá mun vinsældalistinn fljótt breytast. Endurtakist eftir þörfum.

Baldur Fjölnisson, 29.8.2007 kl. 13:53

15 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Kærar þakkir fyrir að vekja athygli á þessu. Mér sjálfri finnst einmitt áhugavert hvernig að það verður alltaf til ákveðin félagsleg stigröðun á svona staðlausum stað. Ef svo má að orði komast.

Hvað varðar faðernismálið að fyrrverandi forsætisráðherranum gengnum, er það mikið álitamál. a) hvatinn að því að fylgja svo fast eftir málinu; að leita uppruna síns að honum gengnum var væntanlega tengt því að maðurinn var þekktur og málsmetandi maður í íslensku samfélagi. Það setur auðvitað ýmsa hljóða, kannski volduga málsmetandi menn að þeir eru ekki lengur "untouchable" eftir niðurstöður þessa máls b) Ef hægt er að fá úrskurð um uppruna sinn gegnum DNA að manni látnum, hlýtur réttur sífellt fjölgandi tæknifrjóvgaðra barna að aukast, til að vita hver var sæðisgjafinn.

Anna Karlsdóttir, 29.8.2007 kl. 14:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband