Tjóðraða stelpan

Ég er að taka til í dóti og fann eftirfarandi frásögn á ljósrituðum blöðum, frásögn manns sem rifjar upp minningar úr bernsku. Það var nýlega haldið upp á afmæli Kleppsspítalans. Þessi frásögn segir  frá lífi eins af fyrstu vistmönnum þar, konu sem dó á Kleppi:

Ekki er mér kunnugt um, hve mikla skatta faðir minn bar á þessum árum til ríkis og sveitarsjóðs. En hitt fellur mér aldrei úr minni, á hvern hátt hluti útsvars var á lagður í Seltjarnarneshreppi. Það var einn vetrardag, fyrsta árið okkar í Skildinganesi, að maður sást koma heim traðirnar og hafði konu í bandi, sem búin var kufli úr hessian-pokastriga, og allur var annar búnaður hennar eftir því. Á eftir konunni gekk unglingur og hottaði á hana, ef hún hægði á sér, rétt eins og þegar verið var að leiða kú, sem treg er í taumi. Kvatt var dyra hjá foreldrum mínum, og þeim afhent konan til varðveizlu ákveðinn tíma.

Kona þessi hét Guðný Einarsdóttir. Ekki er mér kunnugt um aldur hennar, en hún mun þá hafa verið eitthvað um fertugt. Hafði hún farið fimm ára telpa með foreldrum sínum út í Örfirirsey að morgni, en er á daginn leið þurftu hjónin að fara snöggvast í land. Var þá grandinn milli lands og eyjar undir sjó. Og með því að veður var hið bezta, telpan sofandi í sólskininu og ætlunin að koma strax aftur, tóku foreldrarnir það ráð að tjóðra telpuna, svo að hún færi sér ekki að voða, ef hún skyldi vakna, áður en þau kæmu aftur til eyjarinnar. 

En svo illa vildi til, að þegar hjónin ætluðu aftur úr bænum, var komið slíkt illveður, að ófært þótti öllum fleytum út til eyjarinnar. Það var ekki fyrr en að morgni næsta dags, að komizt varð út til barnsins. Var telpan þá enn lifandi og enn í tjóðrinu, en vitið hafði hún misst um nóttina af hræðslu, og aldrei fengið það aftur.

Þegar hreppurinn varð að taka við henni þótti hún svo erfiður ómagi, að enginn fékkst til að hafa hana að staðaldri, og var þá þetta snjallræði fundið upp, að jafna henni niður á bæina eftir efnum og ástæðum, á sama hátt og útsvarinu.

Víða var hún látin dvelja í fjósinu, bundin þar á bás með kúnum, með moði að sæng og einhverjum druslum að yfirbreiðslu. Skammtað var henni í dall eða ask, og át hún allar máltíðir með höndunum einum, hvort heldur um var að ræða fasta eða fljótandi fæðu, nema hvað hún drakk lög úr krúsum eða bollum.

Ég man hvað okkur öllum brá, er við sáum fyrst þennan vesaling, og móður minni þó mest. Er spurt var í hvaða bás ætti að binda hana, bauð móðir mín að hún skyldi færð í baðstofu sem annað fólk. Klæddi hún hana úr hverri spjór, bjó henni ullarnærföt og gekk svo frá sem hún væri með hvítvoðung á höndum sér. Henni var síðan fengið eitt af rúmunum til að sofa í, en binda varð hana þar, svo hún færi sér ekki að voða. Hjá okkur var hún þannig um hálfsmánaðartíma ár hvert, og var það jafnan móðir mín, sem annaðist hana að öllu leyti.

Guðný var þægt stórt barn, gerði engum mein, en hún skalf og nötraði í hvert sinn, sem hún var leidd fyrir gripahús, en í þeim hafði hún eytt mestri ævi sinni. Hún var alla tíð ákaflega myrkfælin, og þó að hún fengi ekki mælt, þá sást jafnan á svipbrigðum hennar, hvort henni bjó í huga gleði eða sorg, kvíði eða ánægja.

Það er fátt, sem ég hef blessað móður mína meira fyrir eftir að ég fór að hafa fullt vit, en það, hvernig hún hjúkraði Guðnýju og reyndi allt til að létta henni þann kross, sem lagður var á herðar henni í æsku. Þegar geðveikrahælið á Kleppi var reist, var hún með fyrstu sjúklingunum, sem þangað voru fluttir, og þar lauk hinni ömurlegu ævi hennar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl,Salvör...

Ég á bókaflokkinn Mánasilfur;brot úr ævisögum Íslendinga. Þar er brot úr ævi

manns,sem lauk ævi sinni á Kópavogshæli .Þessi maður hét Sæmundur

Stefánsson; 

f. 1859-d.1945.Hann var ómagi;fluttur bæja á milli langt fram eftir ævi og farið með

hann eins og brúkshest.Held samt að dýrin hafi hlotið betri meðferð?Ótrúleg

lesning. Datt þetta í hug er ég las um ævi Guðnýjar.

Kv.Guðrún 

Guðrún Garðarsdóttir (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 13:35

2 identicon

Þegar ég las þessa sögu rifjaðist upp fyrir mér tíminn þegar ég vann á Kleppsspítala. Einhvern tíma var ég beðin um að leysa af í sumarafleysingum í mánuð á svokallaðri krónískri kvennadeild. Þetta var á áttunda áratugnum. Ég fæ ennþá kökk í háls og tár á hvarm þegar ég hugsa um konurnar sem dvöldu þarna. Og ég man ekki hvað síst eftir þessari yfirþyrmandi vanmáttarkennd sem ég fékk yfir því að geta svo lítið lagt af mörkum til að gera líf þeirra betra. Ekki það að aðbúnaðurinn var góður og allt gert fyrir þær sem hægt var, málið var bara að það var svo augljóst að mörgum þeirra hefði verið hægt að koma út í lífið aftur þegar þær voru ungar ef þær hefðu verið að koma inn á Klepp á þeim tíma sem ég var þarna, og enn frekar þegar hugsað er um framfarirnar sem orðið hafa síðan.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 14:06

3 identicon

Sæl Salvör, alltaf gaman að lesa bloggið þitt 

Sorgleg saga, spurning um fáfræði eða mannvonsku. Verð alltaf döpur þegar ég les svona sögur.

kv Inga
Fyrrum nemandi þinn í KHÍ

Ingigerður (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 14:58

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Takk fyrir ábendinguna um söguna í Mánasilfri. Mér finnst þessi saga sem ég reyndar veit ekki úr hvaða bók er (ég var bara með ljósritaða þessa síðu) sláandi út af alþýðuskýringunni sem gefin er á vanheilsu Guðnýjar, áfall af því að hún var skilin eftir tjóðruð - og svo hvernig hún er tjóðruð allt sitt líf og höfð í gripahúsum - þrátt fyrir að hún sé mjög hrædd við það umhverfi.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 25.8.2007 kl. 16:23

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sem betur fer þá geta margir vanheilir verið sjálfs síns í dag og þurfa hvorki að vera á stofnunum né svona ferjaðir milli fólks. En mér finnst reyndar kjör margra veikra aldraðra sem ekki komast inn á stofnun  og kjör margra dópista og djúpt sokkinna drykkjumanna vera afleit. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 25.8.2007 kl. 16:27

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

Þetta er mjög áhrifamikil saga. Mér fannst það furðulegt að láta sér detta í hug að skilja barnið eftir tjóðrað, en þetta voru aðrir tímar. Ég get reynt að ímynda mér hvernig foreldrunum leið um nóttina...

Það er merkilegt hvernig farið var með "fávita" langt fram á 20. öldina. 

Villi Asgeirsson, 25.8.2007 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband