22.8.2007 | 02:20
Nýtt jafnréttisráð með góðu fólki
Ég er ánægð með að sjá hverjir skipa nýtt jafnréttisráð, mér sýnist þar valinn maður í hverju sæti og það er fólk sem hefur látið sig jafnréttisráð miklu varða. Frábært að Hildur sé formaður jafnréttisráðs, allir sem hafa fylgst með jafnréttismálum síðustu áratugi vita hvað hún hefur starfað ötullega og svo eru margir reynsluboltar sem ég þekki af góðu einu í jafnréttismálum, Una María í Landssambandi Framsóknarkvenna og Svandís í Vinstri grænum og borgarstjórn og Þorbjörg í Kvenréttindafélaginu og svo vann ég einu sinni með Þórveigu í Menntamálaráðuneytinu og veit að hún stendur sig alls staðar vel og ekki finnst mér verra að Ólafur Pétur frændi minn sé í jafnréttisráði.
Formaður jafnréttisráðs er Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi. Aðrir í ráðinu eru Maríanna Traustadóttir, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands, Þórveig Þormóðsdóttir, tilnefnd af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Björn Rögnvaldsson, tilnefndur af fjármálaráðuneyti, Ólafur Pétur Pálsson, tilnefndur af Háskóla Íslands, Una María Óskarsdóttir, tilnefnd af Kvenfélagasambandi Íslands, Þorbjörg I. Jónsdóttir, tilnefnd af Kvenréttindafélagi Íslands, Svandís Svavarsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Hörður Vilberg, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins.
Ég sé að það eru fjórir karlmenn búnir að blogga um fréttina um skipan jafnréttisráðs og það er allt á sömu bókina lært, þeir fylgjast mjög nákvæmlega með kynjahlutfallinu í jafnréttisráði og hrópa hástöfum um að það séu of fáir karlar þar. Ég vildi óska þess að sama árvökula auga fylgdist með öðrum valdastöðum í samfélaginu eins og t.d. hverjir fara með fjármálavöldin og stjórna auðlindum Íslendinga. Til að upplýsa hvernig staðan er þá er hérna stutt vídeó sem ég tók þegar ég smyglaði mér einu sinni inn á landsfund íslenskra útvegsmanna árið 2003 og leit í kringum mig og svipaðist um eftir konum þar. Það var nú bara eins og að taka þátt í einhverri leit að því sem hvergi er sjáanlegt, það væri gaman að vita hvort einhver sem les þetta blogg kemur auga á konu í þeim hundruðum sem þennan fund sóttu og þá hve margar.
Reyndar er það svo að jafnréttisráð er eina nefndin þar sem tiltekið er eitthvað um hvernig kynjahlutfallið skuli vera. Svona er lagagreinin:
7. gr.Jafnréttisráð.Eftir hverjar alþingiskosningar skipar félagsmálaráðherra níu manna Jafnréttisráð. Ráðherra skipar formann án tilnefningar, einn nefndarmann tilnefndan af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndan af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn tilnefndan af fjármálaráðuneyti, einn tilnefndan af Háskóla Íslands, einn tilnefndan af Kvenfélagasambandi Íslands, einn tilnefndan af Kvenréttindafélagi Íslands, einn tilnefndan af Samtökum atvinnulífsins og einn tilnefndan af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Tilnefningaraðilar skulu tilnefna einn karl og eina konu til setu í Jafnréttisráði. Við skipun í ráðið skal þess gætt að hlutfall kynjanna verði sem jafnast.
Kostnaður við starfsemi ráðsins greiðist úr ríkissjóði. Félagsmálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um störf Jafnréttisráðs og skrifstofuhald.
Það er nú nánast sjálfgefið að Kvenréttindasamband Íslands og Kvenfélagasamband Íslands tilnefni konur í ráðið amk þegar eingöngu konur bera upp starfið í þessum félagasamtökum. Félagsmálaráðherra skipar bara einn aðila þ.e. formanninn og það er erfitt að koma auga á karl sem hefði meiri burði en Hildur Jónsdóttir til að vera formaður ráðsins.
Það er ekki gott að kynjahlutfallið sé ójafnt í nefndum og það er nauðsynlegt að hafa einhverja vinnureglur ef tilnefningar í nefndir eru frá félagasamtökum. Mér sýnist nú ekki hafa verið farið eftir því sem stendur í þessari lagagrein, gott væri að fá skýringu á því, er skýringin hugsanlega sú að tilnefningaraðilar tilnefndu tilnefndu ekki bæði konu og karl?
En mér finnst allt benda til að jafnréttismálum sé vel skipað á næstunni með Jóhönnu Sigurðardóttur sem ráðherra jafnréttismála, Kristínu Ástgeirsdóttur að stýra Jafnréttisstofu og svo þetta ágæta jafnréttisráð sem ég vil óska brautargengis og vona að þessi góði hópur þoki málum áleiðis.
Nýtt jafnréttisráð skipað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:28 | Facebook
Athugasemdir
HVE GOTT OG FAGURT OG INNDÆLT ER
"Það er nú nánast sjálfgefið að Kvenréttindasamband Íslands og Kvenfélagasamband Íslands tilnefni konur í ráðið amk þegar eingöngu konur bera upp starfið í þessum félagasamtökum."
Er það eitthvað sjálfgefið að brotið sé á móti lögunum þar sem stendur skýrt og greinilega "Tilnefningaraðilar skulu tilnefna einn karl og eina konu..."
"..er skýringin hugsanlega sú að tilnefningaraðilar tilnefndu ekki bæði konu og karl?"
Væri það þá ekki skylda Jóhönnu að benda tilnefningaraðilum að þeim beri að fara að lögum við tilnefninguna?
Er það ekki líka nánast sjálfgefið að LÍÚ tilnefni karla á aðalfundinn amk þegar eingöngu karlar bera upp starfið í þessum samtökum?, svo að notað sé nákvæmlega þitt orðalag þegar þú afsakar meint lagabrot Kvenréttindasamband Íslands og Kvenfélagasamband Íslands?
Jón Bragi (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 08:15
Ég er trúlega "einn þessara karlmanna" sem hefur vogað sér að gagnrýna þetta augljósa kynjamisrétti við skipan jafnréttisráðsins. Það er nú ekki nema eðlilegt að það sé horft vandlega á aðgerðir ráðherra jafnréttismála og þá ekki hvað síst þegar verið er að skipa í batterý sem á að vera ráðandi í jafnréttismálum.
Þú bendir reyndar réttilega á að þessi skipan gengur í raun gegn jafnréttislögunum, sem ég hélt einmitt að þessi nefnd (og reyndar ráðherrann líka) ætti fyrst og fremst að hafa í heiðri.
En það er eins og áður, jafnrétti er ekki jafnrétti nema konur séu í meirihluta.
Og svo finnst sumum skrítið að lítið mark sé tekið á tilskipunum stjórnvalda til atvinnulífsins um að "rétta hlut" kvenna ?
LM, 22.8.2007 kl. 22:59
Trúverðugt jafnréttisráð mundi að sjálfsögðu vera skipað jafnmörgum af hvoru kyni, en að hafa 6 konur og 3 karla eins og er í dag, þa minnir þetta frekar á kvenréttindaráð eða nefnd, jafnrétti í orði en ekki á borði.
Skarfurinn, 22.8.2007 kl. 23:05
Jón Bragi, þú hefur nokkuð til þín máls. Það er skýrt kveðið á í lögum um að aðilar eru beðnir að tilnefna bæði karl og konu og félagsmálaráðherra ætti því alveg að geta skipað jafnréttisráð þar sem meira samræmi er í kynjaskiptingu og biðja aftur aðila að tilnefna bæði konu og karl ef þeir hafi ekki gert það. Það er skrýtið að það hafi ekki verið gert.
Það er á ábyrgð félagsmálaráðherra að farið sé að lögum um skipan jafnréttisráðs. Það er sjálfsagt fyrir þá sem hafa athugasemdir við þessa skipun ráðsins miðað við kynjahlutfall að skrifa til félagsmálaráðuneytis og óska skýringa.
Póstur er postur@fel.stjr.is
Það er mjög gott að borgarar séu á verði fyrir því að stjórnvöld fari að lögum - ekki síst þar sem eru lagafyrirmæli sem tryggja eiga aðkomu málsvara hópa sem eiga undir högg að sækja.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 23.8.2007 kl. 10:44
Ég er ekki með, var jú að undrast þetta 6 konur og 3 karlar og allt það, en eruði að segja að ráðið eigi að vera 18 manns, ef að hver á að skipa einn karl og eina konu?
Högni Jóhann Sigurjónsson, 23.8.2007 kl. 22:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.