21.8.2007 | 14:11
Kofaþyrpingar, skúrar og gámar
Ef ég ætti að nefna hvað heillar mig mest í nútíma arkitektúr þá held ég að ég myndi nefna "prefab" eða gámahús. Mér finnst svo flott hvernig hugmyndin um hjólhýsahverfin (trailor park) þar sem allt efni kemur tilsniðið á staðinn og umbúðir utan um vörur (gámar) er notað þannig að sá sem ætlar að búa í húsinu getur hannað sitt hús úr tilbúnum einingum.
Mörgum finnst gámar ljótir og sjá ekki fegurðina í gámastöflum og sjá ekki möguleikana í þeim sem byggingarmódeli í borgum. Sama er með hjólhýsin, þau eru tengd við lífshætti þeirra sem hafa ekkert val og búa í fátækrahverfum úr hjólhýsum út úr neyð. Við marga skóla í Reykjavík eru kofabyggingar með tilbúnum skólastofum til bráðabirgða á meðan hverfið er yfirfullt. En væri ekki hægt að hugsa sér skóla sem væri allur settur saman úr svona færanlegum einingum, hannaður eftir þörf og áherslum hverju sinni?
Það er nú reyndar ein tegund af arkittektúr á Íslandi sem mér finnst alveg steingeld og stöðnuð. Það eru sumarhúsin sem núna spretta upp alls staðar. Þetta eru falleg og vinaleg hús svona þegar maður sér eitt eða tvö en þau eru nú þúsundum saman á litlu svæði, væri ekki hægt að auka meira á fegurð umhverfisins með öðruvísi og meiri fjölbreytni í sumarhúsum - sem hugsanlega taka meira tillit til umhverfisins. Reyndar held ég að ýmsar byggingarreglugerðir um sumarhús m.a. að þau urðu að vera mjög lítil og eina efnið sem leyfilegt er er timbur hafi orðið til þess að svo lítil fjölbreytni er í sumarhúsum og fólk reisi alltaf eins hús. Mér finnst þessi hús sem eru timburklædd að innan og utan með timburpöllum ekki falla neitt vel að íslenskri náttúru nema helst í miklu skóglendi. Allt efni í þessi hús er að ég best veit innflutt.
Sennilega myndu gámahús úr gömlum gámum geta verið ágæt í íslensku landslagi og hugsanlega mætti nýta þakið sem einhvers konar útsýnispall eða svalir eða til að rækta gras á.
Hér eru nokkrar slóðir með hugmyndum um svona hús:
Myndin er af gámahúsi í Second Life. Þeir sem hafa áhuga á arkitektúr ættu að kynna sér möguleika til að hanna hluti í þeim þrívíddarheimi eða búa í húsum þar. Sjá t.d. þessa myndaseríu af húsum í sýndarheimi.
Hafa allir vit á arkitektúr? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.