Maður sem við skulum nefna "Sigurður"

Ég horfði á íslensk sakamál í sjónvarpinu gærkvöldi. Þátturinn fjallaði um morðið á Gunnari Tryggvasyni leigubílstjóra sem fannst  í bíl sínum við Rauðalæk árið 1968. Málið er ennþá óupplýst en þátturinn sagði frá öðrum leigubílstjóra sem lá undir grun m.a. vegna þess að hann hafði undir höndum byssu sem hann komst yfir á vafasaman hátt. Það var einkennilegt að horfa á viðtal við öldruð hjón næstum fjörutíu árum seinna og skynja hve mikil áhrif þetta hafði á líf fjölskyldunnar - bæði á meðal maðurinn sat í gæsluvarðhaldi og útskúfun samfélagsins eftir þann tíma, konan sagði frá því hvernig þau hefðu misst húsnæði sitt og verið sagt upp leigu eftir að maðurinn var laus úr varðhaldi. Hann var sýknaður bæði í undirrétti og hæstarétti.

Maðurinn sem í þættinum var nefndur Sigurður virðist ekki hafa haft neina ástæðu til morðsins en á hann féll grunur því hann hafði undir höndum byssu sem talið er eins og morðvopnið og var líka leigubílstjóri. 

það eru sem betur fer ekki mörg morð framin á Íslandi og sárafá þar sem morðinginn hylur slóð sína þannig að sennilega hefur ekki byggst upp mikil færni á rannsókn slíkra sakamála hérna. Alla vega fannst mér nokkuð heimóttarlegt að binda sig við að leita að einhverri byssu sem hefði horfið frá einhverjum Jóhannesi sem hafði beðið einhvern Lárus í lögreglunni að grennslast fyrir um hana án þess þó að leggja fram tilkynningu um að henni hefði verið stolið. Mér finnst þetta líka segja dáldið um vinnubrögð lögreglu á þessum tíma, voru lögreglumenn á útkikki eftir eignum mektarmanna ef einhverju var hnuplað úr prívat vopnabúri þeirra? Og var það ekki skráð í neinar skýrslur heldur bara munnleg frásögn þessa Lárusar eftir að morð hefur verið framið að Jóhannes hafi svona þeirra á milli beðið hann að svipast um eftir byssunni horfnu.

En alla vega þá lá "Sigurður" undir grun lengi. Hann segist sjálfur hafa stolið byssunni frá þessum Jóhannesi.... ég veit ekki hversu veikgeðja "Sigurður" er en mér finnst mjög líklegt að umræddur Lárus hafi verið strax fixeraður á að það hlyti að hafa verið þessi byssa sem hann var beðinn að svipast eftir sem væri morðvopnið. Það getur auðvitað verið að svo sé. 

En ef til vill hefur rannsókn lögreglu á sínum tíma verið í blindgötu ef allt kapp hefur verið lagt á að tengja morðið við þessa tilteknu byssu og ganga út frá því að þetta sé eina byssan af þessari gerð á Íslandi. Annars líkist þetta morð aftöku og jafnvel eins og það hafi verið framið af vitskertum manni með byssudellu sem væri að prófa að drepa því það vantar alveg mótív - alla vega miðað við þær upplýsingar sem almenningur hefur um þetta mál. En eflaust hefur rannsókn lögreglu á sínum tíma náð til allra byssukalla í nágrenninu, það eru sennilega ekki svo margir.

En þetta mál rifjaði upp í hug mínum annað sakamál sem einnig gerðist fyrir mörgum áratugum og sem ég þekki reyndar afar lítið til. Ég veit ekki einu sinni til að það hafi nokkuð verið dæmt í því máli, eftir því sem ég best veit þá var maður sakaður um að bana konu sinni og hann var settur - ekki í fangelsi heldur var hann eftir því sem ég best veit sviptur sjálfsforræði og settur  í ótímabundina  vistun á stofnun fyrir þroskahefta. Það var mikil mannréttindabrot. Ég vona að einhvern tíma verði það mál tekið upp af einhverjum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband