24.7.2007 | 04:58
Lundaveiðar
Í gær hlóð ég niður Scratch en það er forrit fyrir krakka frá 8. ára aldri ætlað til að kenna þeim forritun. Það er ókeypis og auðvelt að setja það upp. Þetta forrit minnir töluvert á forritunarmálið Lógó. Ég varði nokkrum tímum í að kynna mér þetta forrit og möguleika þess í námi og skólastarfi. Fyrsta sem ég gerði var að ég bjó til leik um lundaveiðar sem ég skírði Puffin Hunt (smellið á slóðina til að komast í leikinn og smella á SPACE til að byrja). Hér er skjámynd af leiknum mínum.
Ég forritaði nú ekki mikið sjálf í þessum leik því ég byggði hann á gömlum Ninento leik Duck Hunt
Ég breytti bara öndunum í lunda og breytti um bakgrunn og svo í staðinn fyrir veiðihund þá setti ég kerlingu í upphlut sem safnar upp lundunum, enda engir lundahundar á Íslandi.
Þetta er nú ekki mjög líkt veruleikanum í lundaveiðum, mér skilst að lundi sé fyrst og fremst veiddur með háf, ekki skotinn á lofti. En kosturinn er að það þarf engin veiðikort fyrir þennan lundaveiðileik og þannig hentar hann t.d. vel fyrir sjávarútvegsráðherra. En það er ágætt að rifja upp ýmis konar fróðleik um lundaveiðar og lunda. hér eru þrír vefir með upplýsingum:
Hér er lýsinga á lundaveiðum hjá Bergþóru:
Færeyingar fundu upp veiðar í háf, sem miðuðu að því að ná geldfuglinum, þegar hann var að sveima yfir hring eftir hring í svokölluðu uppflogi. Háfurinn er um 4 metra skaft með netpoka framan á. Vestmannaeyingar tóku upp veiðieðferðir Færeyinga um 1875 og er henni nú beitt hvarvetna til lundaveiða. Ungfuglinn er furðu heimskur og heldur áfram að hringsóla og láta háfa sig, þó hann sjái hrannirnar af dauðum fuglum á börðunum.
Í þessu skjali um Vestmannaeyjar fann ég þetta um lundaveiðar:
Lundaveiðar hafa verið stundaðar frá upphafi byggðar í Vestmannaeyjum. Veiðiaðferðirnar hafa verið með þrennum hætti í gegnum aldirnar; greflaveiðar, netjaveiðar og veiðar í háf. Um miðjan ágúst tóku veiðimenn pysjur úr holum og notuðu til þess grefil. Grefli má lýsa sem priki með krók á endanum og var pysjan húkkuð út úr holunni með greflinum. Á Breiðafjarðareyjunum notuðu menn veiðiaðferð sem gaf um 30 þúsund fugla á ári. Aðferðin var sú að leggja net yfir holurnar og ná þannig varpfugli er hann hljóp úr holunni. Þessi veiðiaðferð hafði það í för með sér að pysjurnar drápust úr hungri því foreldrarnir voru dauðir. Báðar þessar veiðiaðferðir eru bannaðar í dag. Það var um árið 1875 sem fyrsti háfurinn kom til Vestmannaeyja frá Færeyjum og eru veiðar í háf stundaðar enn þann dag í dag. Háfurinn, sem er langt prik með neti á endanum, er lagður á jörðina og lundinn háfaður er hann hringsólar á flugi yfir eyjunni. Þessi veiðiaðferð gerir mönnum kleift að sniðganga fugl með síli þannig að meirihluti veiðinnar er geldfugl. Í dag er lundaveiði stunduð meira sem tómstundagaman en af lífsnauðsyn og er sterk hefð í Eyjum. Menn hafa stofnað sérstök úteyjafélög í helstu veiðieyjunum. Mestu veiðieyjarnar eru Suðurey, Álsey, Bjarnarey og Elliðaey. Eins veiðist vel í Ystakletti sem og minni eyjum s.s. Brandinum og Hellisey. Á síðustu árum hefur lundaveiði minnkað stórlega á Íslandi eða úr um 500 þús. fuglum í um 200 þús. fugla árlega. Áætlað er að um 80.000 til 110.000 lundar séu veiddir ár hvert í Vestmannaeyjum einum saman. Veiðistjóraembættið ber ábyrgð á að fylgjast með veiðunum og innheimta veiðiskýrslur
Lundaveiði hefur lengi tíðkast í Vestmannaeyjum og virðist stofninn þola þá veiði nokkuð vel. Ljóst er þó að ekki er hægt að fylgjast nægilega vel með veiðinni ef ekki er unnið betur að innheimtu veiðiskýrslna og úrvinnslu þeirra.
Lundi og kanínur eru í samkeppni um búsvæði í Vestmannaeyjum. Magnús Þór Hafsteinsson sagði þetta á þingi í fyrra:
Lundaveiðar eru heimilaðar á tímabilinu frá 1. september til 10. maí á hverju ári. Lundaveiði hefur verið stunduð í Vestmannaeyjum frá örófi alda af manninum og er á vissan hátt auðlind fyrir eyjabúa sem skapar bæði ánægju og tekjur og á sér djúpar rætur í menningu eyjanna og mannlífi.
Síðustu árin hefur ný ógn steðjað að lundanum í Vestmannaeyjum því kanínurnar sem hafa sloppið þar út hafa náð að mynda stofn og hafa aðlagast umhverfinu á Heimaey. Það er sýnt með vísindarannsóknum að kanínurnar hafa náð að nýta lundaholurnar til híbýlis. Þær hafa sest þar að. Þær breyta holunum, grafa þær út og stækka þær og sameina. Þær fara út í miklar framkvæmdir ef svo má segja. Rannsóknir hafa sýnt að þetta fælir lundann í burtu. Hann hrekst burtu úr holunum ef kanínur setjast þar að. Holurnar eru nauðsynlegar fyrir lundann, bæði til varps en líka til að ala þar upp unga þannig að þetta er mjög alvarlegt vandamál. Þessi gröftur kanínanna, sú mikla elja og vinnusemi sem þær sýna við að koma sér upp búsvæði, hefur aftur neikvæð áhrif á gróðurþekju og jarðveg. Kanínurnar naga rætur grassins sem eru inni í lundaholunum og það dregur úr jarðvegsbindingu og getur ásamt venjulegri beit á yfirborði jarðar haft þær afleiðingar að festan í jarðveginum hverfur eða minnkar og þar með eykst hættan á jarðskriði. Þeir sem hafa komið út í Heimaey vita að mörg búsvæði lundanna eru einmitt í mjög bröttum brekkum, grasigrónum brekkum, og ekki þarf mikið að eiga sér stað þar til að jarðvegurinn hreinlega fari á skrið, til dæmis í leysingum á vorin, og steypist þar með í sjó fram og þá eru þessi búsvæði fuglanna glötuð og tekur jafnvel aldir að vinna það aftur upp.
Talið er að heildarstofnstærð lunda sé um 15 millj. fugla en íslenski stofninn er um 60% eða um 9 millj. fugla. Þar af eru um 23 millj. varpfugla og 1,5 millj. fugla í Vestmanneyjum. Lundinn er mikil auðlind því hann er einn stærsti fuglastofn Íslands, sjófugl sem lifir aðallega á sandsíli og loðnu. Þetta er farfugl sem kemur á vorin eftir vetrarlanga dvöl úti á hafi og á sér mjög merkilegt líf. Hann verpir einu eggi um miðjan maí sem klekst út eftir 40 daga og unginn er fleygur og fer úr holunni um miðjan ágúst.
Mér líst afar vel á scratch.mit.edu verkefnið, það er hægt að hlaða þar niður forriti sem kennir krökkum að forrita og reyndar líka að hugsa og spá í ýmsa hluti. Á Scratch vefnum er ekki bara hægt að nálgast forritið heldur er þar líka hægt að sækja alls konar tilbúin verkefni í Scratch (project) eins og ég gerði til að búa til lundaveiðileikinn. Svo getur maður sjálfur mjög auðveldlega hlaðið inn sínum verkefnum. Ég bjó mér til verkefnasíðu: http://scratch.mit.edu/users/salvor
Verkefnin getur hver sem er hlaðið niður og notað áfram til að búa til sín eigin verkefni.
Fyrir kennara og foreldra sem vilja kynna sér Scratch:
- BBC NEWS | Technology | Free tool offers 'easy' coding
- Creating from Scratch - MIT News Office
- Scratch Information/learning material.
- Holy grail for teaching programming
- Scratch Sneak Preview
- The Hook-ups Initiative: How Youth Can Learn by Creating Their Own Computer Interfaces and Programs
- scratch Bill Kerr
- The power of student game design
- Scratch proposal
- Scratch (programming language) - Wikipedia, the free encyclopedia
- Learning Squeak from Scratch
Nokkur vídeó eru sem kenna Scratch á Youtube, þar á meðal þetta:
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:05 | Facebook
Athugasemdir
Burt séð frá mörgu og að lundaleikurinn sé flottur þá er Lundi góður, ohhhh ...... að vera í útlandinu þegar eyjahátíðin er haldin er hluti af söknuði lundans! Lundaklóin ætti að hanga á gítar Árna Johnsen og brekkan ljómar!
www.zordis.com, 24.7.2007 kl. 22:16
Þetta er þó nokkuð skemmtilegur pakki hjá þér Salvör.
Jón Pétur Kristjánsson, 25.7.2007 kl. 02:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.