15.7.2007 | 15:21
Er búið að leigja Austurvöll?
Það eru nokkrir helgistaðir á Íslandi. Meðal þeirra eru Þingvellir, Esjan og Austurvöllur. Það gerist allt á Austurvelli, það er miðdepill Íslands á þessari torfu þarna í miðbænum milli hafnarinnar og tjarnarinnar og þar mætir fólk til að baula og púa á ríkisstjórnina eða mótmæla því sem þarf að mótmæla hverju sinni, þar spóka Íslendingar sig á sólardögum og sjálfur Jón forseti er heiðraður þar árlega á sautjándanum(hér hrópum við ferfalt herra á þessu bloggi húrra,húrra, húrra, húrra) og svo er kveikt þar á Oslójólatrénu fyrir öll litlu börnin í desember.
Af því að Austurvöllur er svona heilagur og máttugur staður þá finnst mér dáldið slæmt ef það er búið að leigja plássið þarna undir einhverjar afar hávaðasamar bjórauglýsingar.
Ég fór á Austurvöll í gær síðdegis með dóttur minni og litlu systurdætrum mínum og ætluðum við að setjast þar á kaffihús og njóta veðurblíðunnar. En þá var þar hvergi líft fyrir ferlegum hávaða en einhverjir menn sem ég gat ekki betur séð að væru á vegum bjórframleiðanda voru að spila þar músík úr gjallarhorni sem þrumaði yfir allt nágrennið og höfðu stillt upp einhverjum risastórum bjórauglýsingum. Reitingur af fólki sat á grasinu í kringum þá og reykti og drakk bjór eða annað áfengi úr dollum og flöskum.
Er þetta viðeigandi "skemmtan" um miðjan dag á Austurvelli? Ég hörfaði undan með börnin og ég veit um nokkuð marga fullorðna og börn sem hættu við að fá sér að borða eða drekka kaffi á veitingahúsunum kringum Austurvöll. Hvað borgar þessi bjórframleiðandi/bjórseljandi mikið fyrir auglýsingarnar og aðstöðuna þarna á Austurvelli og fyrir að taka yfir grasflötina í miðbænum og hrekja fjölskyldufólk og fólk sem vill njóta miðbæjarins í næði í burtu? Er skynsamlegt að að breyta Austurvelli svona í leikvang fyrir bjórframleiðendur og bjórsala til að kynna vörur sínar? Eða er þetta bara tímanna tákn, er miðdepill Íslands svona í dag og sýnir þetta hverjir ráða og hverjum bjallan glymur í íslensku samfélagi?
hér fyrir ofan eru myndir sem ég tók á Austurvelli í gær og hér er 30 sekúndu vídeó af því sem fram fór. Ég tek fram að tónlistin var miklu háværari en virkar á vídeóinu, það heyrðist ekki mannsins mál fyrir hávaða í tónlistinni.
Það er áhugavert að skoða lögreglusamþykkt Reykjavíkur og spá í hvað almennir borgarar geta gert ef það sem gerist á almannafæri stuðar þá. Hér eru nokkur ákvæði:
Samkvæmt lögreglusamþykktinni mega menn ekki þyrpast saman, ef það truflar umferð eða veldur vegfarendum öðrum óþægindum. Lögreglustjóri getur bannað notkun hátalara, hljómflutningstækja, hljóðfæra eða annars þess háttar á eða við almannafæri, ef ástæða er til að ætla að hún valdi ónæði eða truflun. Lögreglan getur vísað þeim mönnum í burtu af almannafæri, sem vegna ölvunar eða annarar háttsemi sinnar valda vegfarendum eða íbúum í nágrenninu ónæði eða hættu.Þá er óheimilt að koma fyrir auglýsingaskilti á almannafæri nema með leyfi borgaryfirvalda.Borgarstjórn er heimilt að banna neyslu áfengis á tilteknum tímum á tilteknum svæðum borgarinnar. Slíka samþykkt skal tilkynna lögreglustjóra og birta almenningi.
Borgarstjórn getur sett sérstakar reglur um umgengni í skemmtigörðum, kirkjugörðum, leikvöllum og öðrum slíkum svæðum, enda séu reglurnar festar upp við innganginn eða á öðrum áberandi stað.
Ég velti fyrir mér hvort borgarstjórn hafi sett einhverjar reglur og hvort þessi uppákoma í gær hafi verið með velþóknan og blessun borgarstjórnar. Ég hef verið mjög ánægð með hve harður Vilhjálmur borgarstjóri er í afstöðu á móti spilavítum og vona að hann og aðrir í borgarstjórn vilji beita sér fyrir betri áfengismenningu og minni drykkju í Reykjavík.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:26 | Facebook
Athugasemdir
Ég auglýsi líka mína þjónustu á Austurvelli eftir að Alþingi löggilti mig og ég vinn á Sóðali á kveldin.
Löggilt mella (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 20:55
Ég er alveg sammála með að þessar bjórauglýsingar eru svolítið vafasamar, er þetta ekki bannað?
En á hinn bóginn þá finnst mér sjálfsagt að allir geti fundið einhvers konar skemmtun eða afþreyingu við sitt hæfi á svona blíðviðrisdögum. Þó þetta volume á tónlistinni hefur vissulega verið fráhrindandi, þá held ég að ef hún yrði spiluð innan skynsamlegra marka sé bara notalegt fyrir marga að setjast í grasið með góðu fólki og njóta dagsins.
Maja Solla (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 23:53
Ég var alveg tilbúinn að hakka þessa færslu í mig á forsendum tengdum persónufrelsis og þess að almenn skemmtun virtist ríkja á svæðinu og nóg er af plássi í borginni... hins vegar...
Hverskonar lagaval er þetta eiginlega hjá mönnunum? Þeir kalla sig plötusnúða og taka sér fyrir hendur að spila eitt það allra úrkynjaðasta lag sem þessi annars ágæti tónlistarmaður (en vondi maður) hefur gefið frá sér. Tveir þumlar niður fyrir lagavali og ég hefði hreinlega gefið mig að tali við þessa herramenn hefði ég verið viðstaddur - svona á alls ekki að viðgangast.
Samt finnst mér rosalega flott að spila háværa tónlist og drekka bjór í góðu veðri, ekki misskilja mig, það gerist vart betra! Bara ekki akkúrat þetta lag...
G. H. (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 01:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.