Ólukkupunktar

friday13thÍ dag er föstudagurinn 13.  Dagur sem er eftirlæti hryllingsmyndahöfunda og tengdur ýmis konar hjátrú og hindurvitnum. Ekki að ég trúi neitt á það að 13 sé eitthvað sérstök óhappatala, sei, sei, nei. Ég að vísu í gamla daga í frystihúsinu í Grindavík með strák sem hafði misst framan af tveimur fingrum. Hann var bara nokkur góður í að nota þessa fingurstubba svo ég pældi ekkert í því og hætti að taka eftir þessu.  En svo var það í einni puttaleitinni í frystihúsinu - það kom öðru hverju fyrir að bjallan hringi og við hættum allar að leita að ormum í þorskinum og fórum að leita að puttum sem strákarnir á vélunum höfðu misst. Það var víst hægt að græða þá á ef þeir fundust nógu snemma.  En sem sagt í einni puttaleitinni þá spyr ég strákinn að því hvernig hann missti sína putta og hvort ekki hafi verið hægt að græða þá á. Hann sagðist hafa unnið í sápugerð, það var framleiðsla á sérstakri sótthreinsunarsápu og lent í vélinni sem stimplaði vörumerkið á hvert sápustykki, stimplaði það á báða puttana sem hann missti. Sápugerðin hét 13 13.

Annars skrifa ég þetta blogg til að varpa fram hugmynd sem gæti bjargað mannslífum. Það er að merkja sérstaklega með skilti alla staði á þjóðvegum Íslands það sem slys eða árekstrar hafa orðið. Þetta hef ég séð gert í Noregi og þar merkir orðið ulykke sama og slys svo skiltin þar segja að þar sé slysastaður en ég les það alltaf sem ólukkupunktur - einhver staður þar sem ógæfa safnast í. Það er mjög sniðug leið sem hefur verið notuð í ævintýrum í þúsundir ára að búa til sögur sem vara fólk við hættum, sérstaklega börn. Sögurnar um tröllin undir brúnni eru hugsanlega sögur til að vara fólk við að fara yfir brýr, það þarf sérstaka aðgát þar.

Það er sennilega besta leiðin til að minna ökumenn á hve stutt bil er á milli lífs og dauða og á hvaða staðir eru hættulegir að setja upp merki sem sýna hætturnar, hvað hafa margir dáið eða slasast þarna, hvaða staðir eru svartir blettir og ólukkupunktar. Sumir af þessum stöðum eru einmitt þannig fyrir tilverkan mannanna, það eru krappar beygjur, blind horn og sérstaklega einbreiðar brýr.  Einn af hættulegustu vegum landsins er vegurinn um Óshlíðina til Bolungarvíkur, þar hafa mörg slys orðið. Á leiðinni eru krossar þar sem fólk hefur látið lífið og þar eru alltaf blóm til minningar um ástvin sem lést. Ég hugsa að þessi tákn eigi sinn þátt í að fækka sumum slysum á þessari leið, auðvitað ekki slysum af orsökum sem mennirnir ráða ekki við svo sem snjóflóðum. En ég hugsa að þessi minningatákn um þá sem hafa látið lífið á þessari leið fái ökumenn til að hugsa um hve hættuleg þessi leið er og að hafa meiri vara á sér.

Ég held að þessar hryllingsmyndaauglýsingar frá umferðaryfirvöldum séu ekki alveg að skila sér, sjónvarpsauglýsingarnar um ungmennin sem eru öll látin í bílnum. Ég held að hryllingsmyndamentalitet hafi ekki mikil áhrif á ungmenni á Íslandi í dag, þau eru umvafin slíku efni  í ýmis konar formi, efni sem er miklu, miklu óhugnanlegra en auglýsingar umferðarráðs. Ég held að raunalegar sögur af raunverulegum atburðum sem hafi átt sér stað og sögur með yfirnáttúrulegu ívafi um ólukkupunkta í vegakerfinu geti skilað sama árangri. Sennilega verður mikil ferðahelgi á Íslandi núna. Vonandi verða engin alvarleg umferðarslys. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

þessi dagur byrjaði allavega vel, vonandi heldur það áfram. Síðasti föstudagur, sá sjötti, var hinsvegar martraðarkenndur í alla staði útí Danmörku - ég held að ógæfan hafi flýtt sér um eina viku en annars eru þetta áhugaverðar hugmyndir hjá þér að vanda.

halkatla, 13.7.2007 kl. 12:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband