4.7.2007 | 19:37
Krakkamalt, krakk, dóp og drykkjustemming á Netinu
Við föla fólkið leitum í skuggann og höngum á Netinu þó að sólin skíni úti. Ég er núna að prófa ýmislegt sem ég hef ekki haft tíma til í vetur m.a. ýmsa möguleika í miðlun á hljóði og vídeó á Netinu og fylgjast með hvernig netsamfélög þróast. Ég prófa ýmsar ókeypis netþjónustur eins og útsendingar á Operator11 og myndblöndun og klippingu á vídeói á photobucket - hvort tveggja spennandi vísbendingar um í hvaða átt netheimur mun þróast. En þó ég reyni að forðast alla vefi með vafasamt inntak og sé eingöngu að prófa mig áfram með nýja tækni þá svamla ég í efni sem er stútfullt af áfengisauglýsingum og áróðri fyrir ýmis konar fíkniefnum og vímuefnum. Í gærkvöldi var ég að fylgjast með útsendingu á netinu og þau sem sendu þá útsendingu út virtust vera í vímu og tal þeirra gekk m.a. út á að upphefja kókaínneyslu. Núna áðan var ég að hlaða inn myndum á photobucket, það er mynda- og myndskeiðabanki á Netinu sem margir unglingar nota, ekki síst til að geyma myndefni sem birtist á facebook og myspace. Það er Adobe fyrirtækið sem á photobucket.
Þetta er ókeypis vefþjónusta og löðrandi í auglýsingum eins og Myspace. Mér brá hins vegar að sjá að það eru engar takmarkanir á hvað er auglýst og það er greinilegt að markmiðið er að leiða ungmenni út í drykkju með því að auglýsa drykki eins og Smirnoff Ice.
Hér er skjámynd af auglýsingunum sem birtust hjá mér rétt áðan:
Nú segir einhver að það sé allt í lagi að þekkt vörumerki eimaðra drykkja eins og Smirnoff séu að auglýsa svona, Smirnoff Ice sé svona alcopop drykkur svona eins konar maltöl fyrir unglinga. En það er bara ekki þannig, hér er brot úr grein sem lýsir hættunni við alcopops:
Alcopops are a commonly overlooked threat to keeping teens, especially girls, sober. Drinks like Smirnoff Ice, Mikes Hard Lemonade, and Sparks are made and marketed to get young teens started drinking. Because they taste similar to soda, deliberately masking the taste of alcohol from the taste buds, they go down easily. Young teens unaccustomed to the taste of beer and alcohol can get started without even thinking about it. Just as threatening, because they do not taste the alcohol many inexperienced drinkers often do not realize the alcohols effects until they are too tipsy to make clear decisions. Alcopops that include large amounts of caffeine, like Sparks, are especially riskynot only because the caffeine gets the alcohol into their blood stream even quicker, but also because the combination of the two makes for a hyperactive drunk who is even more likely to keep up the energy for reckless acts.
Parents should not need the plethora of pointed studies to see what the alcohol companies are up to. The advertisements feature attractive young women getting what they want socially, and are aired during TV programs counting on a teen audience. These companies know that if they can get girls to drink at an earlier age the guys will not hesitate to get alcohol for them. Even more appalling, if young teens can get alcopops, they can get cheap strong liquor. It doesnt take long to move from the gateway drinks to the hard stuff. Just mix it with soda and it is like an Alcopop, but three times as strong.
hér er líka brot úr fréttabréfi hjá renzcenter.com sem berst fyrir að litið verði á alcopops eins og eimaða drykki og barist verði gegn þessari markaðssetningu hættulegra vímuefna til unglinga.
Hér á Íslandi virðist vera algjört andvaraleysi við þessari þróun og þessari óhemjuöflugu markaðssetningu á áfengi til unglinga bæði á sjónvarpsstöðvum og á ýmsum vinsælustu vefsvæðum landsins, þar af mörgum vefsvæðum sem börn sækja. Hér er dæmi um hvernig forsíðan á vefnum pose.is er í dag 3. júlí, allt löðrandi í áfengisauglýsingum fyrir krakka. Þess má geta að sömu aðilar virðast standa að krakkavefnum leikjaland.is og pose.is og virðast auglýsingar svipaðar þó ekki séu svæsnar áfengisauglýsingar á leikjalandi heldur frekar vísað í pose.is og 69.is
Kannski ætti að kalla alcopops drykki krakkamalt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:58 | Facebook
Athugasemdir
Frábært að það sé meira tjáningarfrelsi á netinu heldur en í öðrum fjölmiðlum. Áróður er eitthvað sem verður alltaf til, við eigum ekki að reyna að útrýma honum, frekar að átta okkur á honum. Gallinn er í raun frekar fólkið heldur en áróðurinn, því miður eru sumir þarna úti sem verða of auðveldlega fyrir áhrifum og trúa nánast öllu bara ef það kemur frá fjölmiðli í flottum búningi. Sumir segja að bjór sé æðislegur, aðrir segja að hann sé djöfullinn. Er ekki sanngjarnt að leyfa tjáningu eða auglýsingu óháð því hvor hliðin það er?
Trúðu mér bjórinn verður hvort sem er bara meira spennandi hjá þeim yngri þegar þau sjá eingöngu einhliða áróður frá yfirvöldum, þá verður það meiri uppreisn að fá sér sopa. Annars á ég mjög erfitt með að trúa því að ungmenni byrji í neyslu á einhverju eingöngu vegna auglýsinga, þessar auglýsingar trufla mig ekki þó þær séu markaðssettar fyrir ungt fólk. Við getum ekki ætlast til þess að allar auglýsingar eða allir fjölmiðlar fari eftir því sem við teljum sjálf vera barnvænt eða í lagi. Ef okkur mislíkar eitthvað þá er okkur frjálst að sniðganga viðkomandi fjölmiðil.
Ég er allavega ekki tilbúinn til þess að fórna frelsi til þess að auðvelda uppeldið hjá sumum.
Geir Jónsson (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 23:38
Af hverju ætti fólk að kaupa klósettpappír , kaffitegundir eða bílategundir bara vegna þess að þær eru auglýstar en svo ættu auglýsingar sem beint er til unglinga ekki að hafa áhrif. Það er víðáttuvitlaust að halda því fram að auglýsingar og markaðssetning áfengissala hafi ekki áhrif. Því miður hefur þessi markaðssetning nákvæmlega þau áhrif sem stefnt er að - þetta býr til stórneytendur framtíðarinnar.
Það tókst með samstilltu átaki margra að sporna við og banna mjög lágkúrulegar og siðspilltar tóbaksauglýsingar. En áður en það var hægt þá dóu margir. Það munu margir deyja og örkumlast og eyðileggja líf sitt af völdum áfengisneyslu áður en það tekst að stemma stigu við því að óprúttnir sprúttsalar eitri fyrir fólki.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 5.7.2007 kl. 00:14
Finnst það ekki breyta neinu þó þú finnir rannsóknir og tölur, þó að auglýsingar hafi áhrif þá tekur það ekki ábyrgðina frá einstaklingnum. Í dag eru upplýsingar um skaðsemi þessara efna öllum aðgengilegar, öllum sem nenna að fræða sig og bera ábyrgð á eigin líkama. Ef einhver tekur áhættuna þá bara aumingja hann. Að stýra fjölmiðlum þannig að það sé eingöngu leyfilegt að tala illa um vímuefni er öfgafullur fasismi, börnin okkar eiga betra skilið en slíkan heilaþvott.
Forsjárhyggjan er svo að tröllríða þessari þjóð að það er ekki fyndið.
Geir Jónsson (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 01:05
Geir:Sem betur fer er forsjá foreldra enn löglegt. Það er ekki hægt að tala um forsjárHYGGJU þegar þetta snýst um ungt fólk sem enn eru á ábyrgð forsjáraðila.
Salvör takk fyrir þessa færslu og viltu gera svo vel að birta greinina í blöðunum.
Edda Agnarsdóttir, 5.7.2007 kl. 01:39
Foreldrum er líka frjálst að takmarka aðgang barna sinna að sjónvarpi og interneti, í stað þess að heimta þess að þeim sé stýrt eftir eigin hentisemi.
Geir Jónsson (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 14:08
Ég hef atvinnu mína af því að fræða og upplýsa fólk. Ég ætti því manna mest að halda því fram að það sé árangursríkt. Og víst er gott að fræða fólk. En það er bara alls, alls ekki nóg. Flestir unglingar eru fræddir heilmikið um skaðsemi tóbaksreykinga og dóps. Samt byrja sumir þeirra í svoleiðis rugli, ekki út af skorti á fræðslu heldur vegna þess að umhverfi þeirra styður undir og gyllir slíka hegðun og þeir eru ginntir inn í gildrur eiturlyfjasala. Við þurfum að sporna við því að ungmenni séu í umhverfi þar sem ýtt er undir lífsstíl sem allar rannsóknir sýna að er heilsuspillandi og skaðlegur.
Sumir eru viðkvæmari en aðrir fyrir áróðri og lymskulegri markaðssetningu og eru sérstaklega trúgjarnir, hrekklausir og auðginntir. Þannig er um börn, þannig er um brotna einstaklinga og þannig er um einstaklinga með ýmis konar geðraskanir og greindarskerðingu. Þeir allra verst settu eru þeir sem þegar hafa ánetjast fíkn, þeir hafa stundum ekkert val. Það er ábyrgð okkar sem vitum betur og höfum séð eða lesið okkur til um skaðsemi efna að berjast fyrir því að öðrum sé ekki steypt út í hyldýpi.
Það er skammarlegt að sitja aðgerðarlaus og hlakka yfir því að öðrum sé hrint út í svaðið og í aðstæður þar sem þeir geta ekki reist sig upp aftur. Það er hallærislegt að tengja það eitthvað við frelsi að frelsi sé fólgið í að láta hrinda sér og knésetja sig.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 5.7.2007 kl. 14:16
Þakka þér Salvör fyrir vel unna grein. Það hefur verið stefna hjá mér í mörg ár að þegar ég kaupi áfengi þá vel ég það sem er ekki auglýst hérlendis, og sneiði hjá öðrum vörum fyrirtækisins sem framleiðir eða flytur inn vínið, við neitendur erum sterkt afl ef við föttum að nota okkar vald í verslunum. En þótt áfengisauglýsingar séu bannaðar lauma þær sér víða inn. þessar vínumfjallanir sem eru orðnar svo vinsælar eru líka óþolandi. En góð umfjöllun hjá þér um "krakkamaltið"
Guðrún Sæmundsdóttir, 5.7.2007 kl. 16:56
Flottur pistill hjá þér og vel þess virði að skoða hann nánar. Þú segir, réttilega....
Það er skammarlegt að sitja aðgerðarlaus og hlakka yfir því að öðrum sé hrint út í svaðið og í aðstæður þar sem þeir geta ekki reist sig upp aftur. Það er hallærislegt að tengja það eitthvað við frelsi að frelsi sé fólgið í að láta hrinda sér og knésetja sig.
Salvör , 5.7.2007 kl. 14:16 Þetta mætti Geir Jónsson leggja á minnið og læra utanbókar. Annars langar mig að beina þeirri spurningu til Geirs Jónssonar sem veit allt um frelsið.....Hvað selur þú?
Það fólk sem tekur svona stíft hanskann upp fyrir frelsið, sem að ætti vera opið í báða enda að þess mati, hlýtur að hafa hagsmuna að gæta.
Frelsi fylgir mikil ábyrgð og við verðum að þekkja hætturnar til að getað forðast þær.
Má ég þá heldur biðja um einhvern aga og reglur fyrir mig og mína. Það er gott að eiga svona frábæran málssvara, fyrir fólkið okkar sem er að vaxa úr grasi og þekkir ekki hætturnar sem eru sjáanlega á hverju strái.
Enn og aftur, góður pistill hjá þér Salvör.
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 5.7.2007 kl. 16:56
það átti að sjálfsögðu að standa að ég sneiði hjá öðrum vörum framleiðanda eða innflytjenda auglýsts áfengis.
Guðrún Sæmundsdóttir, 5.7.2007 kl. 16:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.