Ferðamálayfirvöld á glapstigum

Það er reginhneyksli að peningar íslenskra skattborgara sé notaðir til að auglýsa upp vodka frá fyrirtækinu William Grant & Sons International og að íslensk ferðamálayfirvöld skuli taka þátt í að auglýsa áfengi og ennþá verra að þær auglýsingar  beinast sérstaklega að ungmennum. Það er líka reginhneyksli að íslensk ferðamálayfirvöld hafi velþóknun á og ýti undir að ímynd Íslands sé tengd við vodkaframleiðslu og hvatt sé til neyslu sterkra drykkja með því að draga ímynd Íslands niður í drykkjufen.  Það er eitthvað verulega mikið að dómgreind allra þeirra sem koma að þessum málum og sem ekki sjá hversu viðurstyggileg þessi samsetning er.

Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég kynnti mér hvernig markaðsetning á Reyka vodka er styrkt af íslenskum ferðamálayfirvöldum og íslenskum flugfélögum, ég skoðaði greinar og vefi sem Jón Axel benti á í blogginu  Athyglisverð markaðssetning

 Það virðist vera að enginn sem starfar að markaðsetningu Íslands sem ferðamálalands sjái neitt athugavert við að alþjóðlegt fyrirtæki sem selur  sterka áfenga drykki sem bannað er með lögum að auglýsa hér á landi setji upp átöppun hérlendis og fái þannig aðgang að því að auglýsa sínar vörur í gegnum ýmsa ferðamálavefi sem styrktir eru með opinberu fé.

Það er veruleg þörf á því að það sé farið ofan í hvernig opinberu framlagi Íslands til ferðamála er varið og hvers konar viðmið eiga að gilda fyrir þær vörur og þjónustu sem ferðamálayfirvöld hampa og reyna að beina neyslu að.

Hvernig styrkir það ímynd Íslands að landið sé notað til að auglýsa upp vodka og hvatt sé til neyslu hættulegra eiturefna? Munum við á næstunni eiga von á því að íslensk ferðamálayfirvöld auglýsi upp fylgdarþjónustu og kjöltudans og munum við á næstu árum eiga von á því að sett verði upp veðmálahverfi upp í miðbænum í Reykjavík og reykvísk spilavíti verði auglýst upp með tilstuðlan ferðamálayfirvalda? 

Hver er alþjóðleg ábyrgð ferðamálayfirvalda? Er allt í lagi að stuðla að ungmennadrykkju og vímuefnaneyslu erlendis ef það er  getur selt einhverjar vörur sem eru í þykjustunni framleiddar hérlendis - þar sem Ísland er annað hvort  átöppunarverksmiðja eða umskipunarhöfn.

Ég bendi sérstaklaga á að átakið Iceland Naturally er algjörlega á villigötum, mér virðist það átak vera afar nátengt þessum vodkasala.  Ég fæ ekki betur séð en að þetta átak sé styrkt af opinberu fé frá Íslandi, fé sem ætlað er að auka hróður Íslands erlendis. Hvernig í ósköpunum er hægt að auka hróður Íslands erlendis með lágkúrulegum auglýsingum um vörur sem eru svo hættuleg eiturefni og mikill partur af eymd fjölskyldna og einstaklinga að það er bannað að auglýsa þær á Íslandi?

Í fréttatilkynningu segir að Iceland Naturally (IN) vinni að framgangi Íslands, íslenskra fyrirtækja og vörumerkja  í N-Ameríku og stefnan að byggja upp jákvæða ímynd Íslands. Nánari upplýsingar fást hjá Einari Gústavssyni, framkvæmdastj. Ferðamálaráðs Íslands í N-Ameríku (iceinar@goiceland.org) eða Hlyni Guðjónssyni, viðskiptafulltrúa Íslands í N-Ameríku (hlynur@mfa.is). Mbl. Mánudaginn 5. febrúar, 2007

Fimmtudaginn 1. mars, 2007 var grein í mbl um þessa vodkaframleiðslu. Þar segir að  vodkað og Ísland verði ekki aðskilið í markaðssetningu því markaðsstarfið byggi á ímynd Íslands erlendis. Þar er líka eftirfarandi haft eftir fulltrúa vodkasölufyrirtækisins:

Bandaríkjamarkaður er stór og þeir velja sína staði vandlega og til að byrja með þá staði sem Icelandair flýgur til, enda auðveldara að vinna kynningarstarfið þar sem góð tenging við landið er fyrir hendi. Það starf hefur nú staðið yfir í tvö ár og árangurinn verið góður. Reyka er orðið hluti af Iceland Naturally og nú stendur fyrir dyrum auglýsingaherferð í Bandaríkjunum í sjónvarpi og á Netinu. Þar verður Hafdís Huld í aðalhlutverki og Ísland auðvitað. Þar koma einnig við sögu lundinn, fyrsti íslenski kvenforsetinn, hugsanlegur bandarískur kvenforseti, útkjálkabar og ísjakar, svo fátt eitt spennandi sé nefnt í þessari sérstöku blöndu af Reyka-vodka."

 

 Skjámyndirnar tók ég frá íslenskum ferðamálavefjum. Ég skora á ferðamálayfirvöld, ferðamálastofu og samgönguráðherra og ferðamálaráð að íhuga hvort þessi tegund af markaðssetningu á Íslandi sem ferðamálalandi og þessi samanspyrðing á Íslandi  við hættuleg eiturlyf (vodka) er í samræmi við það sem við Íslendingar viljum tengja við ímynd landsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvar er þetta drykkjufen sem þú vitnar í  ?

Markhópurinn er 25-35 ára skv markaðsstjóranum þeirra.

"Ungmennadrykkja" og "vímuefnaneysla" ?  Hvaðan hefurðu þetta eiginlega ? 

Fransman (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 21:02

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Markhópurinn er ungt fólk, sérstaklega ungir karlmenn. Markhópurinn er yngri en markaðsstjórinn segir, það er auðsýnilegt á inntaki auglýsinganna sem virðast höfða til unglinga á djamminu. Hins vegar hefur markaðsstjórinn hag af því að þykjast höfða til eldri hópa. Í mörgum löndum er reynt að sporna við drykkju og sérstaklega því að ungt fólk ánetjist.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.6.2007 kl. 09:53

3 identicon

Ég sá þessa grein eftir að ég svaraði þinni seinni grein. Meginathugasemdir mínar eru við næsta blogg þitt en mér blöskrar eiginlega fyrst núna þegar ég les þessa hneykslunargrein þína.

Þú ert greinilega á móti áfengi. Það virðist augljóst. Það er þín ákvörðun og þér er frjálst að hafa þá skoðun og auglýsa þá skoðun hvar sem þú vilt og hvenær sem þú vilt.

En gerðu það fyrir mig Salvör, ekki skálda upp markaðsáætlanir fyrir Reyka sem eru aðeins þín ímyndun. William Grant & Sons hafa framleitt skoskt viský í 130 ár. Það síðasta sem þeir vilja gera er að beina markaðsspjótum sínum að unglingum eða ýta undir unglingadrykkju eða slæma drykkjusiði. Burtséð frá siðferðilegu hliðinni, sem mig grunar að þú mundir hvort eð er ekki trúa þótt ég bæri hana fyrir okkur, þá er engin viðskiptaglóra í því að brjóta lög eða beita slíkum aðferðum. Það væri einfaldlega heimska frá markaðssjónarmiði - nema ef um blinda skammtímagróðavon væri að ræða. 130 ára fyrirtæki í þessum bransa gerir ekki svoleiðis.

Öðrum hliðum svara ég í athugasemd við þitt næsta blogg á eftir þessu.

Fjalar Sigurðarson

fjalar@mbk.is

Fjalar Sigurðarson (IP-tala skráð) 28.6.2007 kl. 15:54

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég hef kynnt mér allt sem hef getað flett upp á Netinu um markaðssetningu á Reyka vodka og m.a. hvernig íslensk ferðamálayfirvöld virðast taka þátt í því. Eftir því sem ég best veit er átakið Iceland Naturally kostað af opinberu fé skattborgara á Íslandi. Það er skrýtið ef rétt er að það sé verið að auglýsa og styðja við markaðssetningu á áfengi erlendis - á vöru sem bannað er að auglýsa á Íslandi. 

Ég hef kynnt mér heilmikið markaðsetningu á áfengi til ungs fólks, sérstaklega á drykkjum eins og cult shaker og skrifað töluvert um það.

Ég leyfi mér að geta mér þess til hvað vakir fyrir fyrirtækjum við markaðsetningu. Það er það sem öflug neytendasamtök og opinberir aðilar ættu að gera. Hér á Íslandi eru hins vegar neytendasamtökin veikburða og ég hef ekki séð neina tilburði hjá þeim við að stemma stigu við þeirri  markaðssetningu á vímuefnum sem fer fram í gegnum Netið og sjónvarpsrásir. Í þessu tilviki er ég fyrst og fremst að ráðast á ferðamálayfirvöld, mér finnst í hæsta máta siðlaust að fé og aðstaða sem ætluð er til að auka ímynd íslands á erlendri grund sé nýtt á einhvern hátt til að auglýsa sterkt áfengi.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.6.2007 kl. 18:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband