Hjúkrunarheimili og spjaldtölvur - messenger og hljóðbækur

Ég sá áðan frétt um Lionsklúbburinn Ásbjörn hefði gefið Hrafnistu 12 spjaldtölvur. En hvað það er gleðileg frétt að félagið skuli hugsa til þeirra sem núna eru lokaðir inn á stofnunum og fjarri ættingjum sínum og gefa spjaldtölvur til heimilisfólks á Hrafnistu. Ég vona að núna vakni fólk til vitundar um hve mikilvægt er að stuðla að aðgengi eldri borgara að tækninni, ekki eingöngu spjaldtölvum heldur líka að þeir læri þá færni sem þarf til að nýta ýmis konar öpp og hugbúnað og vélbúnað sem eykur lífsgæði þeirra og lífsgleði.

Nú er staðan þannig að margir á hjúkrunarheimilum eru nánast í stofufangelsi og mega ekki fá heimsóknir.Þetta er ástand sem gengur ekki til lengdar og mun eflaust verða mjög þungbært fyrir margt aldrað og veikt fólk. 

Það er því miður flest sem bendir til þess að það verði áframhaldandi smithætta í marga mánuði og vonandi munu stjórnendur hjúkrunarheimila finna leiðir til að vistmenn gefi verið í samskiptum við ættingja sína, ekki bara í gegnum síma og internetið. En á meðan þetta ástand varir þá held ég að spjaldtölvur gagnist mjög vel ef það er fyrir hendi starfsfólk sem getur leiðbeint og aðstoðað þá sem vilja nota tækin.

Ég hugsa að margt fullorðið fólk hafi skráð sig á facebook á sínum tíma til að fylgjast með barnabörnum sínum og fjölskyldu. Forritið Messenger er ákaflega gott forrit til að halda utan um samskipti og fjölskyldur geta stofnað hópa þar og deilt myndum  og stuttum myndskeiðum auk texta. Það eru einfaldari forrit til en ég hugsa að þetta sé það forrit sem flestir úr fjölskyldum nota. Messenger er líka auðvelt að nota í símum en það þarf einhver að setja forrit upp í byrjun og vera tilbúin til að aðstoða ef fólk man ekki hvernig það ræsir einstök forrit og stillir hljóð  eða er í vandræðum með eyrnatól og þess háttar.

Það er líka hægt að halda litla fjölskyldufundi í Messenger, stundum höfum við fjölskyldan verið í sitt hvoru landinu og þá hist þannig. Það þarf ekki að vera vídeó á nema bara rétt í byrjun, bara svo maður sjái að það er allt í lagi hjá viðkomandi. Núna í kórónaveirueinangrun þá get ég á auðveldan hátt verið í samskiptum við fólk í minni fjölskyldu sem er veikt, sem er í sóttkví og sem er fast í útlöndum og kemst ekki heim.

En það er hægt að gera meira í spjaldtölvum en vera í samskiptum. Eitt af því er að horfa á stutt myndbönd og hlusta á hljóðbækur og hlaðvörp (e. podcasts). 

Hljóðbækur og útvarp

Það hentar sennilega vel fyrir alla aldraða sem hafa heyrna að hlusta á efni. Þetta er kynslóð sem er alin upp við ríkisútvarpið og ennþá er rás 1 fastur punktur í lífi margra. Það er hægt að hlusta á útvarp gegnum netið og á síma eða spjaldtölvu og það er auðveldara en hafa útvarpstæki. 

Aldrað fólk er vant að hlusta á útvarp, það var aðalfjölmiðill í bernsku þeirra, reyndar eini fjölmiðillinn fyrir utan dagblöð og tímarit. En það er líka ótrúlega auðvelt að nota síma og snjalltölvur til að hlusta á hljóðbækur

Ég vona að það sé núna allt aldrað fólk á hjúkrunarheimilum með aðgang að Hljóðbókasafni Íslands, vefslóðin er https://hbs.is/ og að aðstandendur og starfsfólk hjúkrunarheimila sjái um að sótt sé um aðgang fyrir alla sem þurfa og ég geri ráð fyrir að það séu flestir ef ekki allir sem eru dvelja á hjúkrunarheimilum sem eiga erfitt með að lesa venjulegar bækur með sínu örsmáa letri, já og líka vegna þess að bækur eru þungar og ómeðfærilegar fyrir þá sem ekki hafa mikla krafta. Hljóðbókasafnið er með gott úrval af bókum og gott app sem hlaða má í síma og er þetta gildir um aðganginn:
"Hljóðbókasafn Íslands þjónar skv. lögum eingöngu þeim sem ekki geta nýtt sér prentað letur. Allir umsækjendur þurfa því að skila inn umsóknareyðublaði ásamt undirrituðu vottorði, um að greining liggi fyrir, frá fagaðila þar sem kemur skýrt fram ástæða þess að umsækjandi geti ekki nýtt sér prentað letur."

Þó að app Hljóðbókasafnsins sé gott og mikið úrval af íslenskum bókum þar vegna sérstakra samninga við útgefendur þá er hljóðbókaveitan Storytel ennþá betri, appið þar er alveg einstaklega gott og einfalt og hraðvirkt, eina sem er að er að þar er ekki mikið úrval af íslensku efni. Storytel er þróað af sænsku fyrirtæki og hefur farið sigurför um heiminn og þykir ein aðgengilegasta hljóðbókaveitan. Slóðin á Storytel er https://www.storytel.is/ og allir geta fengið 14 daga ókeypis tilraunaaðgang.

Hlaðvörp fyrir fjölskylduna

Ég held að hlaðvörp séu alveg ágæt fyrir þá sem vilja hlusta á hljóðefni í tölvum og það er núna mikil gróska í hlaðvörpum. Það er reyndar ekki mikið úrval eins og er af efni á íslensku sem eldra fólk hefur áhuga á. En það væri góð hugmynd fyrir fjölskyldur núna að virkja alla í að búa til hlaðvörp fyrir ömmu eða afa eða aðra ættingja sem núna dvelja á hjúkrunarheimilum. Það er auðveldara en margur heldur að taka upp og klippa saman hljóð og auðvelt að nota til þess forritið Garageband ef fólk á tölvur sem það er á eða hlaða niður klipppiforritinu Audacity.  Þegar hljóðskráin er tilbúin er auðvelt að setja hana á netið t.d. á Soundcloud.com Ég hugsa að það sé virkilega gaman fyrir fjölskyldur að vinna saman að podkasti sem ætlað væri öldruðum ættingjum. Allir geta verið saman í slíku verkefni því auðvelt er að senda hljóðskrár á milli. 

Ef einhver hefur áhuga á að prófa að gera podcast þá eru hérna leiðbeiningar frá mér um Audacity sem er eitt hljóðklippiforrit, það er ókeypis hugbúnaður.

http://www.leikey.net/?page_id=873  (Audacity)

http://www.leikey.net/?page_id=873  (Hljóðbækur)

http://www.leikey.net/?page_id=956 (Hlaðvarpsveitur)

Þessar leiðbeiningar eru gerðar fyrir nemendur mína (kennaranema) og eru sennilega of flóknar fyrir marga  en ég vona að ég geti gert á næstunni einfaldari leiðbeiningar.

Fleiri tenglar

How to video call your family

How can we stay in touch with older relatives


mbl.is Gáfu heimilisfólki á Hrafnistu 12 spjaldtölvur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband