9.3.2020 | 12:49
Lögreglan með marga hatta á lofti
Síðustu viku hefur nánast á hverjum degi verið útvarpað frá fundi almannavarna þar sem nokkrir aðilar, hver fulltrúi ákveðinna viðbragðsaðila hafa talað og mælt fram skilaboð til almennings. Einn af þessum aðilum er lögreglumaður, fulltrúi löggæslunnar í landinu, þeirra sem eiga væntanlega að fylgjast með að farið sé að lögum og reglum varðandi sóttkví og fleira.
Sömu aðilar mæta á hverjum degi og mér hefur reyndar fundist frekar skrýtið að lögreglumaðurinn í búningi fái svo mikið rúm og tali fyrstur, alveg eins og þetta séu fyrst og fremst lögregluaðgerðir. Ég hefði fljótt á litið haldið að þetta sé undir stjórn landlæknis og það sé eðlilegt að hún sé mest áberandi þarna. En það er nú kannski smáatriði hver uppstillingin og röð ræðumanna er.
En ég varð alveg krossbit í gær þegar ég sá að þessi sami lögreglumaður og talar á þessum fundum er með marga hatta á lofti og virðist vera að leita leiða að fá íslenska íþróttamenn til landsins til að þeir geti spilað hérna á leikjum, menn sem eru búsettir á Ítalíu og þar á svæðum sem ítölsk stjórnvöld hafa sett í sóttkví. Hvernig í ósköpunum er hægt að treysta íslensku lögreglunni þegar alls ekki er ljóst fyrir hvaða hagsmunaaðila hún talar?
Í viðtalinu á Rúv er brugðið upp mynd af lögreglumanninum í lögreglubúningi og síðan viðtal við hann frakkaklæddan þar sem hann segir:
"Þetta var greinilega sett á með mjög litlum fyrirvara í gærkvöldi og mjög mörg af staðbundnum stjórnvöldum [á Ítalíu] ekki undirbúin undir þetta. Þannig að þetta er ekki komið til fullrar framkvæmdar alls staðar virðist vera, mun eflaust taka einhvern tíma."
Hér er viðtalið í heild:
Getum ekkert útilokað fyrr en það er orðið 100%
Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af þessu viðtali en að lögreglumaðurinn leggi frekar lítið upp úr sóttkví í öðrum löndum "ekki komið til fullrar framkvæmda alls staðar... mun eflaust taka einhvern tíma" eins og þetta sé tækifæri til að smygla leikmönnum út úr sóttkví. Það hlýtur að vera öllum ljóst að sóttkví á stóru svæði verður að koma strax til framkvæmda enda var það svo í Ítalíu og þar hafa orðið róstur víða m.a. í mörgum fangelsum og fólk reyndi að flýja með næturlestunum þegar spurnir bárust af ítölsku sóttkvínni en var sett í sóttkví á leiðarenda.
Ég sé líka á vef RÚV að þessi sami fulltrúi löggæslunnar er að fara á fund með íþróttahreyfingunni að ræða málið. Það er allt í lagi að ræða málin við ýmsa aðila en fljótt á litið sé ég enga sérstaka snertifleti með íþróttahreyfingunni og þeirri sótt sem nú herjar aðra en að skynsamlegt er að fella niður fjölmenna viðburði og íþróttastarf og skólastarf lítur sömu lögmálum varðandi að það verður sennilega að fella hvoru tveggja niður ef hættuástand er vegna smits. Hér er sú frétt á Rúv:
Ræða um Covid-19 við íþróttahreyfinguna
Er viðkomandi lögreglumaður að sinna hagsmunum almennings á Íslandi eða er hann að sinna hagsmunum íþróttahreyfingarinnar?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.